Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 132/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 132/2017

Miðvikudaginn 21. júní 2017

A og Bgegnumboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 27. mars 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. mars 2017 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 30. mars 2017 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. apríl 2017.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 10. apríl 2017 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust 24. apríl 2017. Þær voru sendar Embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 25. apríl 2017 og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns barst með bréfi 2. maí 2017 og var send kærendum til kynningar með bréfi 3. maí 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1976 og 1968. Þegar umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var samþykkt dvöldu þau við nám í C. Þar bjuggu þau ásamt X sonum sínum í leiguíbúð þar til X 2012 X, sbr. framlagða flutningstilkynningu.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara frá 6. febrúar 2017 eru 109.409.352 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til ársins 2008 þegar afborganir af fasteignalánum þeirra hækkuðu verulega.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. febrúar 2012 var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. júlí 2014. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála). Með úrskurði kærunefndarinnar 24. nóvember 2016 var ákvörðun umboðsmanns skuldara felld úr gildi og málinu vísað til meðferðar umboðsmanns að nýju.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 16. febrúar 2017 þar sem á ný var gerð tillaga um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, meðal annars með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Þar var þeim jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Bréfið var einnig sent með tölvupósti. Kærendur svöruðu með tölvupósti 1. mars 2017.

Með bréfi til kærenda 10. mars 2017 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru þeirra svo að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra verði hrundið.

Kærendur vísa til þess að í niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar komi fram að skyldur skuldara hafi verið útskýrðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og kærenda. Þrátt fyrir að hafa verið í greiðsluskjóli í 66 mánuði hafi þeim aldrei verið boðið á fund hjá umboðsmanni skuldara til þess að fara yfir málið og fá útskýringar á því hvað megi og hvað ekki.

Í ákvörðuninni sé bent á að kærendur hafi fengið bréf 22. febrúar 2012 er þau bjuggu í C. Þau kannist ekki við að hafa fengið sendar leiðbeiningar þá. Einnig sé bent á bréf sem sent hafi verið 27. nóvember 2012. Þau hafi enn búið í C á þeim tíma og kannist ekki við að hafa séð þetta bréf.

Sárast þyki kærendum að ekki hafi verið reynt að semja við bankann þar sem skuldir þeirra við hann rúmist allar innan verðmats íbúðar þeirra.

Kærendur telja að umboðsmaður skuldara hafi brotið gegn 5. gr. lge. um rannsóknarskyldu með því að óska ekki eftir upplýsingum um framfærsluskyldu þeirra í C.

Kærendur gera einnig athugasemd við að umboðsmaður hafi ekki farið að 7. gr. lge. þar sem segi að embættið skuli taka ákvörðun um afgreiðslu á umsókn skuldara innan tveggja vikna frá því að hún liggi fyrir fullbúin. Umsókn þeirra sé dagsett 30. júní 2011 en heimild hafi verið veitt tæpum átta mánuðum síðar eða 28. febrúar 2012. Þá vísa kærendur einnig til þess að 8. gr. lge. hafi verið brotin þar sem tímabil greiðsluaðlögunarumleitana þeirra hafi varað í sex ár í stað þriggja mánaða eins og greinir í lagaákvæðinu.

Enn fremur gera kærendur athugasemdir við að ekki hafi verið farið að 8. gr. lge. um tímabil greiðsluaðlögunarumleitana en í ákvæðinu segi að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana og geti það orðið allt að þrír mánuðir. Í þeirra tilviki hafi þetta tekið sex ár.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum standi. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun 22. febrúar 2012. Ákvörðunin hafi verið send kærendum með ábyrgðarbréfi á þáverandi heimilisfang þeirra í C. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti hafi ábyrgðarbréfið verið afhent kærendum 1. mars 2012. Umboðsmaður hafi sent þeim tölvupóst 17. október 2011 á netfangið [...] þar sem skyldur þeirra við greiðsluaðlögun voru meðal annars tilteknar. Þetta sé netfangið sem notað hafi verið í samskiptum við kærendur. Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Þetta bréf hafi verið sent á sama heimilisfang og fyrrnefnt ábyrgðarbréf. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þessar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Þá vísar umboðsmaður skuldara til tölvupóstsamskipta á milli kærenda og umsjónarmanns á tíma greiðsluaðlögunarumleitana. Af þeim samskiptum megi ráða að kærendur hafi ítrekað verið beðin um skýringar og gögn varðandi tekjur, útgjöld og sparnað, bæði í aðdraganda og í kjölfar þeirra frumvarpsdraga sem send voru út fyrir hönd kærenda á árinu 2013. Kærendum hafi því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafi staðið yfir í 66 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. júlí 2011 til 31. desember 2016. Upplýsingar um laun byggi á staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra, gögnum frá öðrum opinberum aðilum, skattframtölum frá Íslandi og C, álagningarseðlum og upplýsingum frá LÍN. Í eftirfarandi sundurliðun útreikninga sé miðað við að unnt sé að leggja fyrir mismun meðaltekna á mánuði og framfærslukostnaðar. Sú fjárhæð sé nefnd greiðslugeta og segi til um áætlaðan sparnað.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Tekjur 2016 2015 2014 2013 2012 2011 Tekjur alls
Launatekjur 9.257.674 8.471.756 8.258.987 6.474.401 1.453.585 0 33.916.403
Barna/vaxtabætur o.fl. 143.564 260.436 452.021 900.000 900.000 0 2.656.021
Tekjur í C skv. framt. 2.278.720 0 2.278.720
LÍN námslán 1.892.333 4.835.151 0 6.727.484
Samtals 9.401.238 8.732.192 8.711.008 9.266.734 9.467.456 0 45.578.628
Sparnaður 2016 2015 2014 2013 2012 2011 Sparnaður alls
Heildartekjur á ári 9.401.238 8.732.192 8.711.008 9.266.734 9.467.456 0 45.578.628
Meðaltekjur á mán. 783.437 727.683 725.917 772.228 788.955 0
Framfærsluk. á mán. 442.887 442.887 442.887 442.887 442.887 442.887 29.230.542
Greiðslugeta á mán. 340.550 284.796 283.030 329.341 346.068 -442.887
Áætlaður sparnaður 4.086.594 3.417.548 3.396.364 3.952.090 4.152.812 -2.657.322 16.348.086

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi áætla að heildarútgjöld kærenda hafi verið 442.887 krónur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls. Sú fjárhæð sé samkvæmt framfærsluviðmiðum febrúarmánaðar 2017 fyrir tvo fullorðna með X börn á framfæri. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag í stað þess að nota eldri viðmið.

Samkvæmt ofangreindum útreikningum ætti sparnaður kærenda í greiðsluskjóli að geta numið 16.348.086 krónum. Samkvæmt gögnum málsins hafi leigukostnaður kærenda á mánuði á meðan þau bjuggu í C verið 133.794 krónur á mánuði frá júlí 2011 til febrúar 2012 eða alls 2.675.880 krónur. Þá hafi kærendur lagt fram gögn vegna kostnaðar við flutning til Íslands að fjárhæð 780.075 krónur. Alls nemi þessi útgjöld 3.455.955 krónum. Að teknu tilliti til þessa kostnaðar ætti sparnaður kærenda að geta numið 12.892.130 krónum (16.348.086 – 3.455.955). Væri tekið tillit til þess að framfærslukostnaður kærenda hefði verið vanáætlaður um 504.904 krónur, sbr. andmæli þeirra frá 1. mars 2017, ætti sparnaður þeirra að geta numið 12.387.226 krónum (12.892.130 – 504.904). Kærendur hafi ekki sýnt fram á að eiga sparnað.

Meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara þar sem kærendum var veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir mánaðarlegum framfærslukostnaði þeirra. Meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að greiða gjöld og kostnað vegna framfærslu sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslugetu.

Gera verði þá kröfu til einstaklinga, sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Samkvæmt þessu verði að telja kærendur hafa brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjárhæð sem þau hafi mánaðarlega haft aflögu að teknu tilliti til framfærslukostnaðar.

Meðal annars, að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins, hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Málatilbúnað kærenda verður að skilja þannig að þau telji að umboðsmaður skuldara hafi látið hjá líða að fullnægja leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að upplýsa þau ekki um að þeim væri skylt að leggja til hliðar fé í greiðsluskjóli samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með lögum nr. 128/2010, sem birt voru 18. október 2010, tók gildi tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hjá þeim einstaklingum sem sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar fram til 1. júlí 2011. Í málinu liggur fyrir tölvupóstur 17. október 2011 frá umboðsmanni skuldara á netfangið [...] en samskipti við kærendur hafa farið fram í gegnum þetta netfang. Þar er meðal annars skýrlega gerð grein fyrir skyldum kærenda í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var lögð áhersla á að þeim bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þyrfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá var greint frá því að kærendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimilis og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfylltu kærendur ekki skyldur sínar á meðan á frestun greiðslna stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.

Þá sendi umboðsmaður skuldara þeim sem voru í greiðsluskjóli bréf 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur þeirra til að leggja fyrir fé sem væri umfram framfærslukostnað samkvæmt 12. gr. lge.

Á vefsíðu umboðsmanns skuldara á þeim tíma er kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunar-umleitanir. Eftirfarandi texta var að finna á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:

Þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilsins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrgðum fyrir umsækjenda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“

Úrskurðarnefndin telur að kærendum hafi mátt vera ljóst þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun að þeim bæri að leggja til hliðar þá fjármuni sem voru umfram framfærslukostnað þeirra samkvæmt sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. febrúar 2012 þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Í greiðsluáætlun, sem einnig fylgdi ákvörðun umboðsmanns skuldara, var mánaðarleg greiðslugeta kærenda eftir kostnað við framfærslu tiltekin 210.639 krónur.

Úrskurðarnefndin telur að Embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kærendum þegar þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar með fullnægjandi hætti með því að veita upplýsingar við móttöku umsóknar, í tilkynningu sem send var kærendum á tímabili greiðsluskjóls, með upplýsingum á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun og á heimasíðu Embættis umboðsmanns skuldara. Þar var að finna útskýringar á afdráttarlausu lagaákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þar sem segir að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Eins og fram kemur í leiðbeiningunum er þar enn fremur útskýrt að skylda til að leggja fé til hliðar hefjist þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin, þ.e. um leið og frestun greiðslna hefst. Kærendum bar því að virða skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá þeim tíma er þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar 30. júní 2011.

Að því er varði rannsóknarreglu lge. telja kærendur að umboðsmaður skuldara hafi brotið þá reglu þar sem embættið hafi ekki aflað sér upplýsinga um framfærslukostnað þeirra í C. Í 5. gr. lge. er mælt fyrir um sérstaka skyldu umboðsmanns skuldara til að rannsaka mál. Styðst ákvæðið við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvald þarf að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hvaða upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál. Í rannsóknarreglunni felst þó ekki að stjórnvaldi beri sjálfu að afla allra upplýsinga, en stjórnvald getur beint þeim tilmælum til aðila að hann veiti tilteknar upplýsingar eða leggi fram gögn.

Með samþykki á umsókn kærenda um að leita greiðsluaðlögunar fylgdi, sem áður segir, yfirlit yfir mánaðarlegan framfærslukostnað þeirra og hver greiðslugeta þeirra væri eftir að þau hefðu greitt framfærslukostnaðinn. Kærendur gerðu ekki athugasemd við framfærslukostnaðinn. Umboðsmaður skuldara hafði því ekki forsendur til að vita hvort framfærslukostnaður kærenda væri annar í C. Hefði sú verið raunin var það á ábyrgð kærenda sjálfra að sýna fram á það. Þá liggur fyrir að þegar kærendur upplýstu umboðsmann loks um að framfærslukostnaður þeirra hefði verið hærri í C, leiðrétti umboðsmaður fjárhæð framfærslukostnaðar til samræmis og miðaði útreikninga sína á sparnaði við það. Að þessu gættu verður ekki fallist á það með kærendum að umboðsmaður skuldara hafi brotið gegn rannsóknarreglu 5. gr. lge.

Þá telja kærendur málsmeðferðartíma umboðsmanns skuldara hafa verið of langan. Þau vísa til 7. gr. lge. þar sem segir að umboðsmaður skuli taka ákvörðun um afgreiðslu á umsókn skuldara innan tveggja vikna frá því að hún liggur fyrir fullbúin. Þau hafi dagsett umsókn 30. júní 2011 en heimild hafi verið veitt tæpum átta mánuðum síðar, 28. febrúar 2012. Þau vísa einnig til 8. gr. sömu laga þar sem segir að tímabil greiðsluaðlögunarumleitana geti orðið allt að þrír mánuðir.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Í tilviki kærenda bar að taka ákvörðun um umsókn þeirra innan tveggja vikna frá því að ákvörðun lá fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Frá því að kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar og þar til umboðsmaður skuldara veitti heimildina, liðu um átta mánuðir. Fyrir liggur að á þeim tíma var málafjöldi umboðsmanns skuldara gríðarlegur og var ekki á valdi embættisins að stýra því. Eftir að umsókn kærenda var samþykkt fór málið til umsjónarmanns í febrúar 2012. Af gögnum málsins má ráða að málsmeðferð umsjónarmanns tók tæp tvö ár. Að hluta til má skýra langan málsmeðferðartíma með því að kærendur drógu það að veita umbeðnar upplýsingar, en að öðru leyti liggja ekki fyrir skýringar. Tillaga umsjónarmanns um að fella bæri niður mál kærenda barst umboðsmanni 28. janúar 2014. Dró umboðsmaður skuldara það til 4. júní 2014 að veita kærendum andmælarétt að því er varðaði tillögu umsjónarmanns. Svar kærenda barst 23. júní 2014 og taldist málið þá fullbúið til ákvarðanatöku. Umboðsmaður felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 11. júlí 2014. Þá ákvörðun kærðu kærendur til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Vegna mikils málafjölda hjá nefndinni var málsmeðferðartími ríflega tvö ár og úrskurður var kveðinn upp 24. nóvember 2016. Eftir að málið kom á ný til umboðsmanns skuldara hefur málsmeðferðartími að mati úrskurðarnefndarinnar verið með eðlilegum hætti. Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin að hluta til á það sjónarmið kærenda að málsmeðferðartími hafi verið of langur, en það á aðeins að mjög litlu leyti við um málsmeðferðina hjá umboðsmanni skuldara.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 10. mars 2017.

Að mati umboðsmanns skuldara áttu kærendur að leggja til hliðar að minnsta kosti 12.387.226 krónur eftir að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða frá 1. júlí 2011 til 31. desember 2016. Kærendur kveðast ekki hafa haft tök á því að leggja neitt til hliðar.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum meðal annars skattframtölum, launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, upplýsingum frá LÍN sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011: Sex mánuðir
Nettótekjur A 0
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 0
Nettótekjur B 0
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 0
Nettótekjur alls 0
Mánaðartekjur alls að meðaltali 0
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 1.453.585
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 121.132
Nettótekjur B 0
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 0
Nettótekjur alls 1.453.585
Mánaðartekjur alls að meðaltali 121.132
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.308.049
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 275.671
Nettótekjur B 3.166.352
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 263.863
Nettótekjur alls 6.474.401
Mánaðartekjur alls að meðaltali 539.533
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2014: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.328.731
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 277.394
Nettótekjur B 4.930.256
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 410.855
Nettótekjur alls 8.258.987
Mánaðartekjur alls að meðaltali 688.249
Tímabilið 1. janúar 2015 til 31. desember 2015: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.683.643
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 306.970
Nettótekjur B 4.788.113
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 399.009
Nettótekjur alls 8.471.756
Mánaðartekjur alls að meðaltali 705.980
Tímabilið 1. janúar 2016 til 31. desember 2016: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.908.951
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 325.746
Nettótekjur B 5.348.723
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 445.727
Nettótekjur alls 9.257.674
Mánaðartekjur alls að meðaltali 771.473
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 33.916.403
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 513.885

Nettólaun kærenda í C á tímabilinu liggja ekki fyrir með óyggjandi hætti og því eru þau ekki talin þeim til tekna við útreikning sparnaðar.

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara og tekjur kærenda var greiðslugeta þeirra á rúmlega fimm ára tímabili greiðsluskjóls í krónum talið eftirfarandi:

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2016: 66 mánuðir*
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 33.916.403
Bótagreiðslur 2.860.209
Námslán A 2012 1.653.682
Námslán B 2012 og 2013 5.073.802
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 43.504.096
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 659.153
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 442.887
Greiðslugeta kærenda á mánuði 216.266
Alls sparnaður í 66 mánuði í greiðsluskjóli x 216.266 14.273.554

*Umboðsmaður skuldara miðar við ráðstöfunartekjur fram til 31. desember 2016 en niðurfelling greiðsluaðlögunarumleitana var 10. mars 2017. Í samræmi við þetta byggir úrskurðarnefndin á tekjum 1. júlí 2011 til 31. desember 2016.

Samkvæmt því sem fram kemur í ákvörðun umboðsmanns telja kærendur að mánaðarlegur framfærslukostnaður þeirra á meðan þau dvöldu í C hafi verið 506.000 krónur á mánuði í stað 442.887 króna eins og umboðsmaður gerir ráð fyrir. Mismunurinn er 63.113 krónur á mánuði (506.000 - 442.887). Kærendur dvöldu í C er þau óskuðu greiðsluaðlögunar í lok júní 2011 og þar til í lok júní 2012, sbr. framlagða flutningstilkynningu. Er því um að ræða 12 mánaða tímabil sem þau telja að framfærslukostnaður þeirra hafi verið hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns sem alls gera 757.356 krónur (63.113 * 12). Úrskurðarnefndin telur rétt að taka tillit til þessa kostnaðar kærenda við útreikning á sparnaði samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Fyrir úrskurðarnefndina hafa verið lagðir fram neðangreindir reikningar vegna kostnaðar við flutninga frá C til Íslands:

Dags. Hvað greitt Fjárhæð
12.5.2012 Uppgjör húsaleigu í C* 66.428
4.6.2012 Ferðakostnaður vegna flutninga 39.600
27.6.2012 Flutningur búslóðar 354.449
9.7.2012 Ferðakostnaður vegna flutninga 19.900
27.7.2012 Ferðakostnaður vegna flutninga 22.900
1.8.2012 Uppgjör leiguíbúðar í C** 162.009
1.1.-31.12.2012 Uppgjör rafmagns og hita í C*** 88.249
Alls: 753.535

* X reiknað samkvæmt miðgengi Seðlabanka Íslands.

** X reiknað samkvæmt miðgengi Seðlabanka Íslands.

*** X reiknað samkvæmt miðgengi Seðlabanka Íslands 31.12.2012.

Að mati úrskurðarnefndarinnar fellur þessi kostnaður undir ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og verður því tekið tillit til hans við útreikning sparnaðar kærenda.

Þá hafa kærendur lagt fram reikninga að fjárhæð 73.000 krónur vegna skólagjalda sona þeirra í framhaldsskóla. Í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara frá 6. febrúar 2017 var gert ráð fyrir þessum kostnaði og hefur hann því þegar verið dreginn frá þeirri fjárhæð sem kærendum er gert að spara.

Kærendur hafa einnig lagt fram yfirlit yfir kostnað við tryggingar o.fl., en þegar hefur verið gert ráð fyrir þeim kostnaði í framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara og verður hann því ekki dreginn frá þeirri fjárhæð sem kærendur hefðu átt að leggja til hliðar í greiðsluskjóli.

Samkvæmt því sem greinir hér að framan hefðu kærendur átt að leggja fyrir 12.762.663 krónur í greiðsluskjólinu, sbr. neðangreindan útreikning:

Sparnaður eftir frádráttarliði
Alls sparnaður í greiðsluskjóli 14.273.554
Hærri framfærslukostnaður í C -757.356
Kostnaður vegna flutninga -753.535
Sparnaður alls 12.762.663

Kærendur eiga engan sparnað.

Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Meðal annars þess vegna er skuldara gert að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem er umfram framfærslukostnað á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Féð skal nota til að greiða kröfuhöfum þegar kemur að efndum greiðsluaðlögunarsamnings. Svo sem að framan greinir er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærendum hafi mátt vera ljóst að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar það fé sem stóð eftir af tekjum þeirra á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við skýr fyrirmæli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmanni skuldara bar því samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta