Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 33/2011

Föstudagurinn 11. janúar 2013

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 23. júní 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 9. júní 2011, þar sem umsókn þeirra um heimild til greiðsluaðlögunar einstaklinga er hafnað.

Með bréfi, dags. 29. júní 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 14. júlí 2011. Sama dag, þann 14. júlí, barst kærunefndinni frekari rökstuðningur kærenda vegna kærunnar. Greinargerð kærenda var send umboðsmanni skuldara með bréfi, dags. 4. ágúst 2011, og óskað eftir afstöðu umboðsmanns skuldara.

Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi, dags. 16. ágúst 2011. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 16. ágúst 2011, og bárust kærunefndinni athugasemdir kærenda með bréfi, dags. 30. ágúst 2011.

Með bréfi, dags. 26. september 2011, var framhaldsgreinargerð kærenda send umboðsmanni skuldara til kynningar. Síðari framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst kærunefndinni með bréfi, dags. 30. nóvember 2011. 

Með bréfi kærunefndarinnar, dags. 1. desember 2011, var greinargerð umboðsmanns skuldara send kærendum til kynningar.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru 43 og 44 ára. Þau búa ásamt tveimur börnum sínum, 10 og 16 ára, í eigin húsnæði í sveitarfélaginu C. A er atvinnulaus en B er sjálfstætt starfandi húsasmiður.

Heildarskuldir kærenda nema 76.856.113 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara. Þar af eru kröfur sem falla utan samnings vegna launatengdra gjalda, staðgreiðslu launa, virðisaukaskatts og skattasektar samtals að fjárhæð 10.860.493 krónur.

Heildarskuldir kærenda skiptast þannig: Í fyrsta lagi tvö lán hjá Landsbankanum samtals að fjárhæð 49.269.390 krónur. Í öðru lagi veðkrafa vegna yfirdráttar hjá Landsbankanum að fjárhæð 2.387.973 krónur. Í þriðja lagi yfirdráttur hjá Sparisjóði Hornafjarðar samtals að fjárhæð 9.652.729 krónur. Í fjórða lagi skulda kærendur Tollstjóranum í Reykjavík skipulagsgjald, þing- og sveitarstjórnargjöld, launatengd gjöld, staðgreiðslu af reiknuðum launum, virðisaukaskatt og skattasekt samtals að fjárhæð 12.929.818 krónur. Í fimmta lagi eru aðrar skuldir kærenda samtals að fjárhæð 2.616.203 krónur.

Mánaðarlegar tekjur A frá Atvinnuleysistryggingarsjóði eru að meðaltali 115.620 krónur eftir frádrátt skatts. Tekjur B eru 164.570 krónur eftir skatta á mánuði. Aðrar tekjur eru barnabætur sem nema 18.820 krónum á mánuði og vaxtabætur að fjárhæð 50.000 krónur á mánuði og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 21.188 krónur.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun þann 12. nóvember 2010. Í greinargerð með umsókn þeirra um greiðsluaðlögun einstaklinga kemur fram að fjárhagserfiðleika þeirra megi rekja til ársins 2006 þegar fjölskyldan flutti búferlum til sveitarfélagsins C frá sveitarfélaginu D vegna þess að A hafði fengið vinnu hjá X. Enn fremur hafði B á þessum tíma meira og minna verið að vinna í sveitarfélaginu C, þannig þau töldu að um hagræðingu væri að ræða að flytja til sveitarfélagsins C. Það fór svo að A missti fljótlega vinnuna hjá X auk þess sem vinnan hjá B dróst saman. Fasteignin í sveitarfélaginu D var seld og keypt einbýlishús í sveitarfélagnu C. Kaupin voru fjármögnuð með lántöku hjá Landsbankanum. Skuldavandi kærenda sé fyrst og fremst vegna gríðarlegrar hækkunar á skuldbindingum þeirra samhliða því að tekjur þeirra hafa dregist verulega saman. A hafi starfað lengi á dvalarheimili í sveitarfélaginu D. Hún hafi hins vegar brotnað á úlnlið rúmu ári áður en umboðsmaður tók ákvörðun sína um að hafna umsókn þeirra, og var á þeim tímapunkti búin að vera í stífri sjúkraþjálfun vegna brotsins. Brotið leiddi til þess að hún gat ekki unnið hvaða starf sem er og hafi það takmarkað möguleika hennar til tekjuöflunar.

Með bréfi umboðsmanns skuldara, dags. 9. júní 2011, var umsókn kærenda synjað einkum með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, (lge.).

 

II. Sjónarmið kærenda

Í greinargerð kærenda, dags. 14. júlí 2011, er ákvörðun umboðsmanns skuldara mótmælt og þess krafist að fallist verði á umsókn þeirra um greiðsluaðlögun. Til vara er þess krafist að fallist verði á umsókn A. Þá er vakin athygli á því að ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist fyrst og fremst á huglægri afstöðu embættisins.

Af hálfu kærenda er í fyrsta lagi gerð athugasemd við afstöðu umboðsmanns skuldara sem virðist alfarið byggja á því að B hafi verið gerð fésekt vegna skattamála. Í f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. segi beri orðum að fésektir sem ákveðnar hafa verið með dómi eða af stjórnvaldi falli ekki undir lögin um greiðsluaðlögun, þ.e., ekki sé hægt að sækja um greiðsluaðlögun vegna slíkra krafna. Umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafi ekki verið vegna fésekta, heldur vegna annarra skulda sem kærendur ráði ekki við. Að auki benda kærendur á að umboðsmaður skuldara vísi til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., en í þeirri grein sé kveðið á um heimild til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Ekki sé um að ræða fortakslaust skilyrði að hafna beri beiðni um greiðsluaðlögun ef d-liður eigi við.

Þá gera kærendur einnig athugasemdir við að umboðsmaður minnist ekki einu orði á né virðist hafa kannað hvernig sektin sé tilkomin þó þekkt sé að skattsektir eru yfirleitt umtalsvert hærri en meint hagræði þess sem sektaður er.

Þá benda kærendur jafnframt á að umboðsmaður skuldara taki ekki tillit til þess að tekjur þeirra hafi snarminnkað og aðstæður þeirra gjörbreyst. Kærendur benda einnig á að ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun umsóknar kærenda taki einnig til A sem ekki eigi hlutdeild í skattalagabrotinu. Umboðsmanni skuldara hefði verið í lófa lagið að ráðleggja kærendum að breyta sameiginlegri umsókn sinni í hvora umsóknina þar sem umboðsmanni þótti skattsekt B þess eðlis að hafna ætti umsókninni, sbr. hlutverk umboðsmanns skuldara í 1. gr. laganna að gæta hagsmuna og réttinda skuldara.

Af hálfu kærenda er einnig bent á að umboðsmaður skuldara hafi vísað í dóm Hæstaréttar nr. 721/2009 frá 20. janúar 2010 í ákvörðun sinni vegna d-liðar 63. gr. þágildandi laga um greiðsluaðlögun. Greinin var að mörgu leyti mjög sambærileg núverandi d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Þó sé grundvallarmunur á þessum greinum. Í gamla kerfinu, sem tilvitnaður dómur Hæstaréttar tekur á, tók greiðsluaðlögun til skattskulda en í nýju lögunum sé ekki svo. Af þessari einföldu ástæðu skipti túlkun Hæstaréttar á ákvæðum eldri laga um greiðsluaðlögun engu máli, enda sé greiðsluaðlögunar vegna fésektarinnar ekki óskað.

Einnig gera kærendur athugasemd við það að þeim hafi báðum verið synjað og að horft sé á þau sem einn einstakling í reynd. Aðgerðum B sem umboðsmaður telji ámælisverðar séu þar með yfirfærðar á A. Með þessu móti sé A svipt vernd jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulaga.

Kærendur gagnrýna harðlega að opinber stofnun líkt og umboðsmaður skuldara leyfi sér að synja skjólstæðingum um aðstoð vegna annarra mála sem sé lokið nú þegar hjá öðru stjórnvaldi, í þessu tilfelli með sekt. Kærendur spyrja hvort umboðsmaður skuldara muni hér eftir hafna öllum sem gerst hafa brotlegir við skattalög og hugsanlega önnur lög. Kærendum þykir slík afgreiðsla mála einfaldlega ekki málefnaleg.

Í framhaldsgreinargerð kærenda, dags. 30. ágúst 2011, kemur fram að ákvörðun umboðsmanns skuldara byggi í raun á því að B hafi í öðru máli sýnt af sér refsiverða háttsemi. Hann hafi verið sektaður vegna þeirrar háttsemi en að mati umboðsmanns skuldara sé það samfélagslega óásættanlegt að greiðsluaðlögun nái til einstaklinga sem stofnað hafi til skuldbindinga með refsiverðri háttsemi, svo sem vanskilum á vörslusköttum og opinberum gjöldum. Umboðsmaður skuldara hafi réttilega bent á að úrskurður yfirskattanefndar nr. 114/2010 hafi verið fullnaðarúrskurður um skattafjárhæð, þ.e. lokadómur samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari. Kærandi sé hins vegar ósáttur við úrskurðinn og telur hann byggja á röngum forsendum. Blátt bann sé lagt við því með 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagagildi á Íslandi, að refsa einstaklingi tvisvar fyrir sama brotið. Þar sem hin kærða ákvörðun byggi alfarið á því að B hafi áður hlotið refsingu og geti því ekki fengið greiðsluaðlögun sé efnislega verið að refsa kæranda tvisvar fyrir sama brotið.

Loks mótmæla kærendur þeirri skoðun umboðsmanns skuldara að sökum þess að kærendur nutu aðstoðar löglærðs aðila við að útbúa umsókn þeirra um greiðsluaðlögun njóti þau síður eða jafnvel ekki réttar til leiðbeiningar og aðstoðar umboðsmanns skuldara. Leiðbeiningarskylda embættisins er ríkari en ella sökum tíðra breytinga á starfsreglum embættisins.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að óhæfilegt hafi verið að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem kærendur hafi tekið á sig skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag þeirra með háttsemi sem varðar refsingu, sbr. d-lið ákvæðisins. Við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar á þessum grundvelli sé að mati umboðsmanns skuldara gagnlegt að hafa lögskýringargögn og eldri úrlausnir dómstóla í sambærilegum málum til hliðsjónar enda skal miða eftir atvikum við þá framkvæmd sem þegar er komin á og dómvenju, líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Af gögnum málsins verði ráðið að skattsekt B nemi 7.619.100 krónum. Skuldin sé tilkomin vegna gjaldársins 2007. Enn fremur sé vangoldinn virðisaukaskattur samtals að fjárhæð 2.451.278 krónur með dráttarvöxtum. Skuldin sé tilkomin vegna gjaldáranna 2008-2010. Fjárhæðirnar teljist allháar, samtals 10.070.378 krónur, og sem hlutfall af heildarskuldum kærenda sé hún rúmlega 13%. Samkvæmt gögnum málsins sé fasteign kærenda nú fullveðsett og ekki verði séð að eignir þeirra hafi í lok framangreindra ára verið slíkar að vangreidd skattsekt hafi verið smávægileg með hliðsjón af gögnum málsins.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 14. júlí 2011, kemur fram að við mat á umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara að kanna hvort fyrir hendi séu þær ástæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður bendir á að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 frá 20. janúar 2010 var tekinn til umfjöllunar 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. þágildandi laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009 um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti, sem sé samhljóða núgildandi ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Niðurstaða dómsins var sú að synja hefði átt skuldara um greiðsluaðlögun í öndverðu þar sem hann hefði skapað sér skuldbindingu með háttsemi sem varðaði refsingu eða skaðabótaskyldu. Í því samhengi var litið til þess að fjárhæð vegna vangreidds virðisaukaskatts þótti allhá miðað við fjárhag skuldara eða um 8,3% af heildarskuldum hans. Þá var litið til tekna hans og eigna á þeim tíma er til skuldbindingarinnar var stofnað og þótti hinn vangreiddi virðisaukaskattur ekki smávægilegur að teknu tilliti til þess að skuldari var eignalaus á tilgreindum tíma. Bæri því að synja skuldara um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Þá telur umboðsmaður skuldara ekki fram hjá því litið að annar umsækjanda bar ábyrgð á því að standa skil á opinberum gjöldum vegna fyrirtækjareksturs Y ehf. en hann var framkvæmdastjóri félagsins og bar sem slíkur ábyrgð á daglegum rekstri þess, þar á meðal fjárreiðum, og var til þess bær að taka ákvörðun um hverjar kröfur á hendur félaginu skyldu greiddar og hverjar ekki samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar nr. 114/2010. Telst umsækjandi þannig hafa borið ábyrgð á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts Y ehf. á því tímabili sem fjárkrafan nær til, eða áranna 2006 og 2007. Háttsemin varðar sekt skv. 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, með síðari breytingum, og sekt skv. 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Í framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 16. ágúst 2011, tekur embættið undir með kærendum að skv. f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. falli kröfur vegna fjársekta fyrir refsiverða háttsemi utan samnings um greiðsluaðlögun. Hins vegar sé ljóst að skuld vegna slíkrar fjársektar fyrir refsiverða háttsemi geti haft veruleg áhrif á fjárhag umsækjenda til framtíðar svo og til samnings um greiðsluaðlögun. Umboðsmanni skuldara beri, lögum samkvæmt, að taka sérstakt tillit til þess hvort umsækjendur hafi stofnað til skuldbindinga með refsiverðri háttsemi við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar og er á því sjónarmiði byggt í máli þessu. Til þess beri að líta að ef umsækjendum sem skulda umtalsverðar fjárhæðir vegna refsiverðrar háttsemi yrði veitt heimild til greiðsluaðlögunar bæri að taka tillit til þeirrar skuldar við greiðsluaðlögunarumleitanir, jafnvel þó þær falli ekki undir samninginn sem slíkan. Þar sem slík skuld fellur ekki undir greiðsluaðlögunarsamning mun hún verða gjaldkræf að fullu eftir að samningur kemst á og skuldurum því skylt að standa skil á henni að fullu. Í tilviki kærenda myndi greiðslubyrði af þeirri fjárhæð sem til umfjöllunar er vegna skattsektar ná yfir alla greiðslugetu þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar og því lítið sem kærendur gætu boðið fram til greiðslu inn á þær kröfur sem myndu falla innan samnings um greiðsluaðlögun. Hér er miðað við þær upplýsingar um greiðslugetu sem koma fram í fylgiskjölum ákvörðunar í málinu og að hún yrði notuð að öllu leyti til greiðslna krafna á tímabili greiðsluaðlögunar, sem að jafnaði er ekki lengur en þrjú ár.

Umboðsmaður skuldara bendir jafnframt á að við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge., skal tekið sérstakt tillit til skuldbindinga sem þessara og þess hvort vandi skuldara verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Telur umboðsmaður skuldara það samfélagslega óásættanlegt að greiðsluaðlögun nái til einstaklinga sem stofnað hafi til skuldbindinga með refsiverðri háttsemi, svo sem vanskilum á vörslusköttum og opinberum gjöldum.

Umboðsmaður skuldara gerir athugasemd við þá athugasemd kærenda að umboðsmaður skuldara gefi sér að háttsemi B hafi verið þess eðlis að skattsekt sé fyllilega réttmæt og miðar við fjárhæð sektarinnar. Hann hafi ekki borið ágreining um skattskyldu eða skattstofn undir dómstóla svo sem honum er heimilt skv. 15. gr. laga um yfirskattanefnd, nr. 30/1992. Í úrskurði yfirskattanefndar kemur ekkert fram sem breytt getur niðurstöðu í málinu enda lá fyrir að skuld vegna skattsektarinnar hvíldi á honum þegar ákvörðun var tekin í málinu. Eins og áður segir getur umboðsmaður skuldara ekki lagt aðra fjárhæð til grundvallar í málinu en þá sem kemur fram í úrskurðinum, og því skipta atvikslýsingar úrskurðarins og forsendur þær sem lágu fyrir fjárhæð skattsektarinnar ekki máli nema að því leyti að í úrskurðinum er staðfest að skuldin sé tilkomin vegna refsiverðrar háttsemi.

Umboðsmaður skuldara bendir einnig á að kærendur sóttu um greiðsluaðlögun í sameiningu, líkt og þeim er heimilt skv. 3. mgr. 2. gr. lge. Þar af leiðandi var fjárhagur kærenda metinn heildstætt. Þegar heildarskuldir kærenda, greiðslugeta og atvik að öðru leyti voru skoðuð var það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hefðu bakað sér skuldbindingu sem einhverju næmi miðað við fjárhag þeirra með refsiverðri háttsemi. Í þessari ályktun felst hvorki gildisdómur í garð kærandans B né kærandans A. Aftur á móti skipti skuldin vegna skattsektarinnar máli við mat á því hvort óhæfilegt þætti að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna, svo og þeirra sjónarmiða sem að ofan eru rakin.

Umboðsmaður skuldara telur að við meðferð mála þar sem umsækjendur eru tveir, sbr. 3. mgr. 2. gr. lge., verði að líta á fjárhag þeirra heildstætt. Í slíkum tilvikum sé óhjákvæmilegt að ákveðin samsömun eigi sér stað á milli þeirra sem sækja um á þann hátt. Í þessu máli eru fyrir hendi aðstæður sem lýst er í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og vegna þeirra sjónarmiða sem fram koma að ofan er það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt þyki að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar. Ekki verður séð að með þessu móti hafi sök færst frá öðrum kærandanum yfir á hinn, þótt heildstæð skoðun á sameiginlegum fjárhag kærenda hafi leitt til þessarar niðurstöðu. Kærendum var frá upphafi heimilt að sækja um greiðsluaðlögun hvort í sínu lagi. Þar sem umsókn þeirra stafaði frá löglærðum aðila, umboðsmanni þeirra, sem hefur þann starfa að aðstoða einstaklinga í greiðsluerfiðleikum, verður að telja rétt að gera þá kröfu til umboðsmanns, sem fagmanns og þess aðila sem kom fram fyrir hönd kærenda, að hann upplýsti kærendur um réttaráhrif þess að sækja sameiginlega um greiðsluaðlögun áður en hann lagði inn umsókn fyrir þeirra hönd, enda lá krafa Tollstjóra þá þegar fyrir.

Þá nefnir umboðsmaður skuldara að hlutverk embættisins skv. f-lið málsgreinarinnar, þ.e. að umboðsmaður skuldara skuli gæta hagsmuna skuldara og veita þeim aðstoð þegar við á, getur ekki orðið til þess að umboðsmaður skuldara eigi að líta fram hjá þeim ákvæðum lge. þar sem hallað getur á umsækjendur við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun.

Þá áréttar umboðsmaður skuldara að umrædd skuld er skattsekt, sem lögð er á af stjórnvaldi vegna refsiverðrar háttsemi, en ekki skattskuld sem til dæmis er lögð á í tengslum við almenna álagningu skatta. Af þessum sökum getur umboðsmaður skuldara ekki fallist á skilning kærenda um að túlkun Hæstaréttar á áðurgildandi ákvæðum um greiðsluaðlögun geti ekki átt við.

Í þriðju og síðustu greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 30. nóvember 2011, bendir umboðsmaður skuldara á, vegna athugasemda kærenda um brot gegn 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, að umboðsmanni beri lögum samkvæmt að taka sérstakt tillit til þess hvort umsækjendur hafi stofnað til skuldbindinga með refsiverðri háttsemi við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Umboðsmaður skuldara getur ekki fallist á með kærendum að með stjórnvaldsákvörðun umboðsmanns skuldara þann 9. júlí 2011 sé verið að refsa öðrum umsækjanda aftur fyrir sömu háttsemi. Kærendum sé ekki gert að sæta stjórnvaldssekt af hálfu embættisins né öðrum refsikenndum viðurlögum. Ekki verður ráðið að þegar umboðsmaður skuldara tekur stjórnvaldsákvörðun í máli og lítur til þeirra lögmæltu sjónarmiða sem embættinu ber að gera, felist refsing sem falli undir gildissvið 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu.

Vegna athugasemda kærenda um leiðbeiningarskyldu umboðsmanns skuldara þá bendir embættið á að þegar hjón eða einstaklingar í óvígðri sambúð leggja sameiginlega inn umsókn um greiðsluaðlögun hvíla oftar en ekki frekari skuldbindingar á öðrum umsóknaraðilanum. Ekki er hægt að fallast á það að með leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, felist sú skylda að umboðsmaður skuldara skuli ávallt hvetja annan umsækjanda um greiðsluaðlögun til þess að afturkalla umsókn sína komi í ljós aðstæður sem varða þann umsækjanda og valdið geta synjun á sameiginlegri umsókn beggja umsóknaraðila. Í 9. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er. Það varðar bæði hagsmuni þeirra einstaklinga sem eru með umsókn inni hjá umboðsmanni skuldara sem og kröfuhafa að mál verði afgreidd eins fljótt og mögulegt er. Því sé ekki hægt að fallast á það með kærendum að það falli innan leiðbeiningarskyldu umboðsmanns skuldara að skora á annan umsækjanda að afturkalla umsókn sína þegar mál er til rannsóknar, komi í ljós aðstæður hjá þeim sem leitt geta til synjunar á umsókn. Gæti það valdið enn frekari töfum á vinnslu máls, einkum ef annar kærandi verður ekki við beiðni um afturköllun. Jafnframt ber að líta til þess að sé umsókn um greiðsluaðlögun synjað sé ekkert sem komi í veg fyrir að annar kærenda leggi aftur inn umsókn um greiðsluaðlögun eða kærendur leggi inn hvort sína umsóknina að nýju.

Þá bendir umboðsmaður á að fullyrðing kærenda um að tíðar breytingar á verklagi leiði ekki til ríkari leiðbeiningarskyldu því breytingarnar lúta ekki að efnisástæðum þeim er koma í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Með vísan til framangreinds telur umboðsmaður að ekki verði hjá því komist að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.  

 

IV. Niðurstaða

 

Umboðsmaður skuldara byggir ákvörðun sína á því að talsverður hluti skulda kærenda sé tilkominn með háttsemi sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu en í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segir að heimilt sé að hafna umsókn um greiðsluaðlögun ef þannig stendur á. Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldinn virðisaukaskattur að fjárhæð 2.451.278 krónur með dráttarvöxtum og skattsekt að fjárhæð 7.619.000 krónur, samtals nemi þessar skuldir 10.070.378 krónum eða rúmlega 13% af heildarskuldum kærenda.

Í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga eru sérákvæði sem gilda um meðferð og áhrif skulda vegna vangoldins virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda. Hvorki frjáls samningur um greiðsluaðlögun né nauðasamningur til greiðsluaðlögunar tekur til þessara krafna, sbr. f-lið 3. gr. lge. og a-lið 1. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti. Af þessum sökum hefur samningur, eða eftir atvikum nauðasamningur til greiðsluaðlögunar, ekki áhrif á greiðsluskyldu skuldara hvað þessar skuldir varðar.

Áður en úrræðið um samningsbundna greiðsluaðlögun einstaklinga tók gildi 1. ágúst 2010 var ákvæði í gjaldþrotaskiptalögunum um nauðasamninga til greiðsluaðlögunar. Ákvæði þessi voru lögfest með lögum nr. 24/2010 og tóku gildi 1. apríl það ár. Ákvæðin eru í X. kafla a, sem nú nefnist nauðasamningur til greiðsluaðlögunar. Úrræði um nauðasamning til greiðsluaðlögunar tók til allra svokallaðra samningskrafna eins og þær eru skilgreindar í 29., sbr. 28. gr. gjaldþrotaskiptalaganna, þ.m.t. allra skattskulda. Því höfðu nauðsamningar til greiðsluaðlögunar sömu áhrif á lækkun og/eða brottfall þessara krafna og annarra skulda þeirra sem fengu samþykkta nauðasamninga. Með lögum nr. 135/2010, sem tóku gildi 1. desember 2010, var hins vegar ákvæðum gjaldþrotaskiptalaganna breytt á þann veg að sömu kröfur og undanþegnar eru áhrifum samningsbundinna greiðsluaðlögunar eru einnig undanþegnar áhrifum nauðasamninga til greiðsluaðlögunar.

Við mat á því hvort rétt sé að synja um heimild um greiðsluaðlögun vegna skulda sem geta bakað skuldara refsingu, svo sem gildir um vörsluskatta, skiptir það máli hver afdrif þessara skulda verða nái greiðsluaðlögun fram að ganga. Með öðrum orðum þá er mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar meðal annars háð því hvort hann losnar þar með undan greiðsluskyldu slíkra skuldbindinga eða ekki. Eins og áður segir er skuldum vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu skatta nú haldið utan við réttaráhrif greiðsluaðlögunar öfugt við það sem gilti áður en lögin um greiðsluaðlögun einstaklinga voru sett og framangreindar breytingar voru gerðar á ákvæðum gjaldþrotaskiptalaganna. Af þessum sökum geta dómar, sem kveðnir eru upp í tíð eldri laga, ekki haft ótvírætt fordæmisgildi við þetta mat jafnvel þótt til þeirra sé vísað í athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 17/2011 var það niðurstaða nefndarinnar með tilliti til eignastöðu og aðstæðna kærenda að öðru leyti að skuld sem nam 9,2% af heildarskuldum kærenda og féll undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. hafi ekki átt að girða fyrir heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærunefndin telur ekki að það hlutfall skulda sem til eru komnar vegna skatta og opinberra gjalda sé slíkt að það eitt og sér geti leitt til þess að kærendum verði synjað um heimild til greiðsluaðlögunar. Líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Eins og á stendur í máli þessu liggur fyrir að skuldir sem ekki gætu fallið undir samning um greiðsluaðlögun eru það verulegar, sé litið til tekna kærenda og nettóeignastöðu þeirra, að ómögulegt sé að þeir muni geta staðið í skilum með þær greiðslur, jafnvel þó svo allar aðrar skuldir þeirra yrðu felldar niður í samningi um greiðsluaðlögun. Í ljósi þess verður að telja að skuldir kærenda sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo háar að ekki sé hæfilegt að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar.

 

Í ljósi ofangreinds er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta