Mál nr. 36/2011
Föstudagurinn 11. janúar 2013
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.
Þann 30. júní 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 15. júní 2011, þar sem umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi, dags. 11. júlí 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 25. júlí 2011.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 2. ágúst 2011 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi, dags. 10. ágúst 2011.
I. Málsatvik
Kærendur eru gift og búa ásamt 19 ára gömlum syni sínum í leiguhúsnæði í sveitarfélaginu C. B starfaði áður sem verktaki við pípulagnir, en í dag starfar hann sem sölumaður og eru núverandi mánaðartekjur hans eftir frádrátt skatts ásamt bifreiðastyrk 248.448 krónur. A starfar á hjúkrunarheimili og eru núverandi mánaðartekjur hennar eftir frádrátt skatts 153.348 krónur. Koma tekjur hennar til með að lækka vegna afnáms allrar auka- og yfirvinnu. Heildarráðstöfunartekjur þeirra á mánuði ásamt bifreiðastyrk eru 451.796 krónur.
Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til tekjulækkunar og atvinnuleysis sem eigi rætur sínar að rekja allt til ársins 1992. Ástæðan var verkefnaskortur hjá B sem þá starfaði sem verktaki við pípulagnir. Þau hafi misst eign sína í sveitarfélagnu C og í kjölfarið farið að leigja. Þá eign keyptu þau árið 2000 en misstu hana árið 2005 ásamt pípulagningafyrirtæki B. B vann þá sem verktaki þar til hann hóf störf hjá Xárið 2009. Vinnuna missti hann frá og með september 2010 og var atvinnulaus þangað til hann fékk vinnu sem sölumaður hjá Y í nóvember 2010, þar sem hann starfar í dag.
Heildarskuldir kærenda eru 46.175.566 krónur og þar af falla 24.443.556 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, (lge). Skuldir sem falla utan samnings eru vangoldinn virðisaukaskattur og vangoldin staðgreiðsla vegna launa, samtals að fjárhæð 21.732.000 krónur.
Skuldir kærenda sem falla innan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara skiptast þannig: Skuldir vegna opinberra gjalda eru þing- og sveitarsjóðsgjöld að fjárhæð 14.830.384 krónur og tryggingagjald 2.045.509 krónur. Skuldir við Landsbankann (NBI hf.) samanstanda af láni útgefnu árið 2005 upphaflega að fjárhæð 1.200.000 krónur en einnig af yfirdráttarlánum og kreditkortaskuld. Er staða þessara skulda samtals 2.365.559 krónur. Skuldir við Arion banka samanstanda af þremur skuldabréfum og einu yfirdráttarláni og er staða þessara skulda samtals 4.226.525 krónur. Aðrar skuldir sem falla innan samnings eru skuld við Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda að fjárhæð 752.370 krónur, Byr sparisjóð hf. 19.996 krónur, Búseta svf. 165.713 krónur, Símann hf. 27.486 krónur og Orkuveitu Reykjavíkur 10.024 krónur. Skuldir sem falla utan samnings eru opinber gjöld vegna vangoldins virðisaukaskatts frá árinu 2007 til 2011, samtals 20.870.277 krónur og vegna vangoldinnar staðgreiðslu vegna launa frá árabilinu 2010-2011, samtals 861.723 krónur. Hluti virðisaukaskatts, nánar tiltekið fyrir árin 2005 og 2006, er byggður á áætlun skattstjóra.
Tekjur kærenda undanfarin ár hafa verið eftirfarandi: Árið 2007 voru mánaðarlegar tekjur A að meðaltali 126.904 krónur eftir frádrátt skatts, 147.366 krónur árið 2008, 156.942 krónur árið 2009 og 169.631 krónur árið 2010. Árið 2007 voru mánaðarlegar tekjur B að meðaltali 555.619 krónur eftir frádrátt skatts, 653.220 krónur árið 2008, 753.509 krónur árið 2009 og 191.163 krónur árið 2010.
Þann 5. júní 2011 lá umsókn kærenda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Var umsókn þeirra synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 15. júní 2011, með vísan til a- og b-liða 1. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur fara fram á það að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun verði samþykkt. Kærendur hafna því að gögn málsins séu ekki fullnægjandi. Telja þau því engar lagalegar forsendur vera til staðar til þess að hafna umsókn þeirra um greiðsluaðlögun.
Kærendur segja ástæðuna fyrir skuldum sínum vera basl við að halda uppi eigin húsnæði, lán hafi verið tekin vegna fasteignakaupa og heimilisreksturs. Skuld hjá tollstjóra sé vegna pípulagningaþjónustu B og verktakagreiðslna hans. Kærendur telja að skuld vegna virðisaukaskatts sé engin. Þau telja sig samt skulda einhvern tekjuskatt.
Kærendur telja sig hafa sent til umboðsmanns skuldara gögn og aðrar upplýsingar sem umboðsmaður hafi beðið um. Einnig hafi verið sendar leiðréttingar vegna skulda kærenda á opinberum gjöldum. Mótmæla því kærendur að ekki hafi verið unnið að því að upplýsa starfsmenn umboðsmanns skuldara um stöðu kærenda og telja þau að fullnægjandi upplýsingar hafi verið komnar fram.
Kærendur gera einnig athugasemdir við framgang starfsmanns umboðsmanns skuldara. Telja þau afstöðu starfsmannsins hafa verið með þeim hætti hann virtist vera búinn að móta sér skoðun um málalyktir áður en formleg ákvörðun hafi verið tekin. Vísa þau í tölvupósta því til stuðnings. Telja þau þetta alvarlegt vegna hagsmuna kærenda í þessu máli. Telja þau að hafi starfsmaður umboðsmanns skuldara þegar gert upp hug sinn um niðurstöðu málsins áður en það hafi verið upplýst hafi hann verið vanhæfur til þess að fara með málið og það sé ógildingarsök samkvæmt málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður vísar til umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem synjað var með ákvörðun umboðsmanns, dags. 15. júní 2011, með vísan til a- og b-liða 1. mgr. 6. gr. lge.
Heildarskuldir kærenda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum séu samtals 46.175.566 krónur Skuldir sem falli innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. lge., séu samtals 24.443.566 krónur.
Umboðsmaður vísar til greinargerðar kærenda með umsókn um greiðsluaðlögun þess efnis að fjárhagserfiðleika þeirra megi rekja allt aftur til ársins 1992 og leiði af tekjulækkun og atvinnuleysi.
Umboðsmaður vísar til þess að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun ber að líta til þeirra aðstæðna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt a-lið 1. mgr. ákvæðisins skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Samkvæmt b-lið 1. mgr. ákvæðisins skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Umboðsmaður tekur fram að kærendur telji að stór hluti skulda vegna opinberra gjalda eigi ekki við rök að styðjast og að skuld vegna virðisaukaskatts sé engin. Umboðsmaður bendir á að meðal gagna málsins séu skattframtöl síðustu fjögurra ára. Á álagningarseðlum fyrir árin 2006, 2007, 2008 og 2009 komi fram að skattframtölin hafi ekki borist skattstjóra í framtalsfresti. Álagning hafi því verið byggð á áætlun skattstjóra á gjaldstofnum að viðbættu álagi samkvæmt lögum. Umboðsmaður vísar einnig í upplýsingar frá tollstjóra um að skuld vegna virðisaukaskatts fyrir árin 2005 og 2006 sé byggð á áætlunum. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra komi fram að tilteknum skattframtölum hafi verið skilað inn sem erindum og fyrirliggjandi álagning ætti því að vera rétt. Tekur umboðsmaður fram að engar leiðréttingar hafi borist skattyfirvöldum varðandi þessar upplýsingar og engar forsendur séu til staðar til þess að rengja álagningu ríkisskattstjóra.
Það er því mat umboðsmanns að ekki hefðu borist fullnægjandi skýringar frá kærendum um skuldastöðu þeirra. Á grundvelli þess hafi umboðsmaður því tekið hina kærðu ákvörðun um að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til a- og b-liða 1. mgr. 6. gr. lge.
Varðandi athugasemdir kærenda við störf starfsmanns umboðsmanns skuldara tekur umboðsmaður fyrir það að starfsmaður hafi ákvarðað um synjun áður en formleg ákvörðun var tekin. Telur umboðsmaður að orðalag tölvupósts sem kærendur styðjast við feli ekki í sér synjun, heldur sé um að ræða viðleitni starfsmanns umboðsmanns til að upplýsa kærendur um stöðu málsins þannig að þeim sé ljóst hvert málið stefndi miðað við fyrirliggjandi gögn.
Með vísan til þessara atriða og til þess að ný gögn hafi ekki verið lögð fram í málinu sem áhrif geti haft á niðurstöðu umboðsmanns skuldara krefst umboðsmaður skuldara þess að ákvörðunin frá 15. júní 2011 verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 1. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til a- og b-liðar. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að synja skal um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi til lge. kemur fram að hafna skal um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna fram á að skuldari uppfyllir ekki skilyrði laganna, sbr. ákvæði I. kafla.
Í I. kafla laganna eru þrjú ákvæði, 1. gr. sem tilgreinir markmið laganna, 2. gr. sem tiltekur hverjir leitað geti greiðsluaðlögunar og 3. gr. sem tiltekur hvaða kröfur falla undir greiðsluaðlögun. Óljóst er á grundvelli hvaða ákvæðis í I. kafla laganna umboðsmaður skuldara byggir synjun. Það eru aðeins þau atriði sem tilgreind eru í 2. gr. laganna, þ.e. upptalning á hverjir geta leitað greiðsluaðlögunar sem að dómi kærunefndarinnar gefa tilefni til að beita a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Kærunefndin telur að kærendur uppfylli þau skilyrði sem tilgreind eru í 2. gr. laganna.
Í b-lið 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara er rétt að líta til 4. og 5. gr. lge. Í 4. gr. er talið upp í ellefu liðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun, auk þess sem henni skuli fylgja gögn til staðfestingar á þeim upplýsingum. Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlegrar þróunar hennar til framtíðar.
Synjun umboðsmanns skuldara byggist á að fullyrðingar í greinargerð kærenda vegna opinberra skulda sé ekki í samræmi við skuldayfirlit Tollstjóra. Umboðsmaður skuldara bendir á að samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi ekki verið óskað eftir leiðréttingum á álagningu þeirri sem þeir vefengja.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. þarf umboðsmaður skuldara að leggja mat á það hvort fyrirliggjandi gögn gefa nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Í frumvarpi til lge. er í skýringum fjallað um inntak ákvæðisins. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn undir þeim kringumstæðum þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.
Í málinu liggur fyrir að kærendur hafa lagt fram þau gögn sem umboðsmaður skuldara fór fram á og tilgreind eru í 4. gr. laganna og sem eru nauðsynleg embættinu til að taka efnislega ákvörðun í máli kærenda. Þegar svo er getur umboðsmaður skuldara ekki hafnað umsókn á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. enda hafi skuldari orðið við áskorunum um öflun gagna eða annarra upplýsinga sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Gildir þá einu hvort ósannaðar fullyrðingar skuldara stangast á við þau skriflegu gögn sem fyrir liggja í málinu.
Kærunefndin telur því að umboðsmanni skuldara hefði verið rétt að taka efnislega ákvörðun um heimild kærenda til greiðsluaðlögunar á grundvelli fyrirliggjandi gagna, en ekki að synja um slíka heimild á grundvelli gagnaskorts. Þegar af þeirri ástæðu er ákvörðun umboðsmanns felld úr gildi.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.
Einar Páll Tamimi
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Kristrún Heimisdóttir