Mál nr. 75/2013
Þriðjudaginn 28. apríl 2015
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 6. júní 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 16. maí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 24. júní 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. júlí 2013.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 22. júlí 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Athugasemdir bárust ekki.
I. Málsatvik
Kærandi er fædd 1975. Hún er C-fræðingur í doktorsnámi og býr í leiguíbúð í Danmörku ásamt tveimur börnum sínum. Gögn liggja ekki fyrir um ráðstöfunartekjur hennar.
Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til veikinda, skilnaðar og náms.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt fyrirliggjandi skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 24.564.622 krónur. Kærandi stofnaði til helstu skuldbindinga á árunum 2008 til 2011.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 23. maí 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 27. desember 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 4. mgr. 2. gr. og c-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 15. gr. lge.
Í bréfi umsjónarmanns kom meðal annars fram að kærandi væri búsett og með lögheimili í Danmörku. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. lge. geti þeir einir leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og séu búsettir á Íslandi. Frá þessu megi þó víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt. Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi skilið ákvæðið svo að það nái ekki til allra sem flytja til annarra landa um ótiltekinn tíma. Þegar flutt sé til útlanda til dæmis vegna starfs verði að miða við að um tímabundið starf sé að ræða eða verkefni sem fyrirfram sé markaður ákveðinn tími en ella að önnur atriði geri líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá þjóðskrá Íslands hafi kærandi flutt lögheimili sitt til Danmerkur 15. júní 2012. Í tölvupósti sem kærandi hafi sent embætti umboðsmanns skuldara 2. júlí 2012 kveðist kærandi „stödd í Danmörku í atvinnuleit“. Tveimur dögum síðar hafi hún upplýst embættið um heimilisfang sitt í B borg í Danmörku. Með tölvupósti 11. október 2012 hafi umsjónarmaður óskað frekari upplýsinga um hvenær kærandi hafi flust til Danmerkur, hver væri tilgangur dvalarinnar og áætluð lengd, hvort kærandi hefði tímabundna atvinnu eða væri í virkri atvinnuleit og hvort hún fengi enn greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun eða mæðralaun frá Tryggingastofnun ríkisins. Í svari kæranda hafi komið fram að hún væri að leita að atvinnu í Danmörku þar sem hún hefði gefist upp á að finna starf á Íslandi. Sem stæði fengi hún félagslega aðstoð og húsaleigubætur í Danmörku alls að fjárhæð 9.400 danskar krónur auk barnabóta en hvorki greiðslur frá Vinnumálastofnun né Tryggingastofnun á Íslandi. Engin gögn hafi þó verið lögð fram til staðfestingar á greiðslum til kæranda í Danmörku. Í framhaldi af þessu hafi umsjónarmaður óskað eftir gögnum sem sýndu að um tímabundna búsetu í Danmörku væri að ræða. Kærandi hafi greint frá því að hún ætlaði að sækja námskeið sem stæði frá janúar fram í maí 2013 og vonaðist eftir tímabundnum verkefnum samhliða námskeiðinu. Kærandi búi í leiguíbúð og hafi lagt fyrir umsjónarmann leigusamning. Um sé að ræða ótímabundinn leigusamning með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Samkvæmt framansögðu taldi umsjónarmaður að kærandi hefði ekki sýnt fram á að um tímabundna búsetu væri að ræða og uppfyllti kærandi því hvorki skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. um búsetu né skilyrði undanþáguákvæðis a-liðar 4. mgr. 2. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 26. mars 2013 þar sem henni var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kæranda kom fram að á árinu 2007 hafi hún haldið til náms í Danmörku sem hún hafi lokið árið 2010. Að námi loknu hafi hún ekki fengið atvinnu á Íslandi. Hún hafi því bætt við sig námi sem fararstjóri til að auka tekjumöguleika sína. Kærandi hafi ekki getað greitt fyrir námið þar sem hún hafi ekki mátt gera upp á milli kröfuhafa og tekjur sem hún hafi búist við og ætlað að nota til að greiða fyrir námið hafi hún ekki fengið. Ráðgjafi hjá Vinnumálastofnun hafi ráðlagt kæranda að leita fyrir sér með atvinnu erlendis. Hafi kærandi ekki gert sér grein fyrir því að greiðsluskjólið félli niður við flutning úr landi og talið sig vera að gera það eina sem hægt var að gera í stöðunni. Kærandi hafi haldið áfram að sækja um störf á Íslandi og sé tilbúin til að flytja til baka um leið og hún sé komin með öruggar tekjur.
Með bréfi til kæranda 16. maí 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 6. gr. og d–lið 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi óskar þess að mál hennar verði tekið upp á ný. Skilja verður það svo að hún krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærandi kveðst vera í biðstöðu með hvort hún eigi að koma til Íslands eða vera áfram í Danmörku. Dóttir kæranda sé að byrja á þriggja ára námi í Kaupmannahöfn og vilji kærandi styðja hana. Einnig sé kærandi búin að skrá sig í doktorsnám við Kaupmannahafnarháskóla og taki það tvö til þrjú ár. Muni hún því vera áfram í Kaupmannahöfn næstu árin. Staðan á Íslandi sé erfið og fastar stöður á sérsviði hennar séu ekki í boði.
Kærandi bendir á að hún sé í tímabundnu húsnæði og námi erlendis, hún sé ekki að sækja um annað ríkisfang og verði áfram íslenskur ríkisborgari. Hún telji sig eiga rétt á að vera álitin námsmaður erlendis í tímabundinni fjarveru til að bæta möguleika sína á Íslandi. Doktorsnámið gefi henni möguleika til að kenna fagið í háskólaumhverfi og taka að sér sérhæfðari verkefni og störf. Til framtíðar sé þetta hennar besti kostur. Kærandi hafi ekki sýnt ábyrgðarleysi í fjármálum, hún hafi aðeins fjárfest í námi og atvinnumöguleikum. Tilgangur hennar sé að reyna að bæta sína eign framtíð og barna sinna.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. sé sett það skilyrði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar að umsækjandi sé búsettur og eigi lögheimili hér á landi. Frá þessu skilyrði megi þó víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hefur átt lögheimili eða verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfleytt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.
Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi úrskurðað í máli þar sem uppi hafi verið ágreiningur um hvort líta ætti á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að undantekningarheimild 4. mgr. 2. gr. lge. ætti við. Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 14/2011 segi: „Til að afmarka þau tilvik þar sem um tímabundna búsetu erlendis er að ræða verður að líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu, sem ekki er ætlað að ná til allra sem flytja erlendis um ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Það ræður ekki úrslitum í málum af þessu tagi hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt erlendis. Hins vegar verður við það að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd neinum gögnum og er ekki fullnægjandi í þessu sambandi að viðkomandi lýsi því yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands einhvern tímann í framtíðinni, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.“
Af gögnum málsins þyki ljóst að kærandi hafi dvalið í Danmörku frá því í ágúst 2012 en þar sé hún með skráð lögheimili. Ekki verði ráðið af bréfi umsjónarmanns að búsetu kæranda hafi verið fyrirfram afmarkaður tími þar sem hún hafi ekki haft atvinnu þegar hún flutti lögheimili sitt til Danmerkur. Skilja megi af svörum kæranda að hún hafi flutt til að leita að atvinnu og í kjölfarið hafi hún sótt um nám. Umboðsmaður skuldara líti svo á að með þessari ráðstöfun sé ekki um að ræða búsetu sem fyrirfram sé afmarkaður tími og geti þar af leiðandi ekki talist tímabundin í skilningi a-liðar 4. mgr. 2. gr. lge.
Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sé kveðið á um að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Fyrir liggi að á þessum tíma hafi kærandi stofnað til skuldar hjá Menntamiðstöðinni ehf. samtals að fjárhæð 180.000 krónur. Verði ekki hjá því komist að telja að með þessu hafi kærandi brotið gegn greindu lagaákvæði.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af heildstæðu mati á gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 6. gr. og d–lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.
Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist aðallega á því að kærandi sé búsett í Danmörku og ekki sé unnt að líta svo á að búseta hennar sé tímabundin vegna náms, starfa eða veikinda í skilningi undantekningarákvæðis 4. mgr. 2. gr. lge. Auk þess er byggt á því að kærandi hafi stofnað til skuldar í greiðsluskjóli með því að sækja námskeið sem hún greiddi ekki fyrir. Því var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður með vísan til 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 6. gr. og d–lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Í tilviki kæranda liggur fyrir að hún er búsett í Danmörku og hefur samkvæmt gögnum málsins verið með skráð lögheimili þar frá 15. júní 2012 og er enn. Til skýringar á hugtakinu „tímabundin búseta erlendis“ í skilningi lge. verður að líta til þess að heimildin í 4. mgr. 2. gr. lge. er undantekning frá meginreglu og ber að skýra hana þröngt. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Að mati kærunefndarinnar verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd gögnum. Nefndin telur ekki fullnægjandi í þessu sambandi að kærandi lýsi því yfir að hún hyggist flytja aftur til Íslands þegar fram líða stundir, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði. Samkvæmt því telur kærunefndin ekki nægilegt í þessu sambandi að kærandi lýsi því yfir að hún hyggist flytja aftur til Íslands þegar úr rætist með atvinnu.
Með hliðsjón af ofangreindu telur kærunefndin að kærandi uppfylli ekki skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. um lögheimili og búsetu á Íslandi. Þá er það mat kærunefndarinnar að kærandi hafi ekki sýnt fram á með viðhlítandi gögnum að búseta hennar í Danmörku geti talist tímabundin í skilningi a-liðar 4. mgr. 2. gr. lge. Það er því álit kærunefndarinnar að kærandi geti ekki talist uppfylla skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar. Verður því að telja að rétt hafi verið af hálfu umboðsmanns skuldara að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Sem áður segir byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara annars vegar á því að kærandi hafi stofnað til nýrra skulda í greiðsluskjóli en það sé í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Fyrir liggur í málinu að kærandi sótti námskeið hjá Menntamiðstöðinni ehf. en greiddi ekki námskeiðsgjöld alls að fjárhæð 180.000 krónur sem greiða átti í júní, júlí og ágúst 2012. Kærandi kveðst hafa boðið fram greiðslu með vinnuframlagi.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar sem í tilviki kæranda var 23. maí 2012. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna frá þeim tíma. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýst um að henni sé ekki heimilt að stofna til nýrra skulda á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Með því að stofna til skuldbindinga vegna fyrrgreinds námskeiðs hefur kærandi stofnað til skuldbindingar í greiðsluskjóli. Samkvæmt því hefur kærandi að mati kærunefndarinnar stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Fellst kærunefndin því einnig á sjónarmið umboðsmanns skuldara þess efnis að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt því lagaákvæði.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið hefur kærandi brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Enn fremur verður hún ekki talin uppfylla skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar í skilningi a–liðar 1. mgr. 6. gr. Í ljósi alls þessa verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir