Mál nr. 88/2013
Þriðjudaginn 28. apríl 2015
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 14. júní 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. maí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 20. júní 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. október 2013.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 30. október 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur 1958, er einhleypur og býr í eigin 186 fermetra íbúð að C götu nr. 17 í sveitarfélaginu D.
Kærandi er menntaður bifvélavirki en vegna veikinda fær hann örorkustyrk frá Sameinaða lífeyrissjóðnum og Tryggingastofnun alls að fjárhæð 147.423 krónur á mánuði.
Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til veikinda, tekjulækkunar og skilnaðar.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 46.230.391 króna.
Kærandi sótti um greiðsluaðlögun og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 10. desember 2011 var honum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.
Með bréfi til umboðsmanns skuldara 22. júní 2012 tilkynnti umsjónarmaður að kærandi hefði verið eigandi Lexus bifreiðar sem metin væri á 1.619.000 krónur. Á símafundi með kæranda 26. apríl 2012 hefði kærandi tekið fram að hann vildi ekki selja bifreiðina. Umsjónarmaður hefði þá upplýst kæranda um að óheimilt væri að færa bifreiðina yfir á nafn annars aðila á meðan frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, stæði yfir. Umsjónarmaður hafi síðan sent frumvarp til greiðsluaðlögunarsamningis til kröfuhafa 3. maí 2012. Íslandsbanki hefði hafnað frumvarpnu nema kærandi seldi bifreiðina. Þegar umsjónarmaður hafi kynnt kæranda þetta hefði kærandi greint frá því að hann væri ekki lengur eigandi bifreiðarinnar þar sem hann hefði fært hana á nafn sonar síns. Kvað kærandi son sinn mundu greiða sér 500.000 krónur fyrir bifreiðina. Könnun umsjónarmanns hefði síðan leitt í ljós að bifreiðin hafði verið færð yfir á nafn sonar kæranda 26. apríl 2012. Samkvæmt þessu hefði kærandi ekki framfylgt reglum c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og því sendi umsjónarmaður málið til umboðsmanns skuldara samkvæmt 15. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 22. nóvember 2012 þar sem fram kom að kæranda væri gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar. Umboðsmanni hafi borist svar frá kæranda með tölvupósti 27. nóvember 2012 þar sem hann staðfesti að hafa ráðstafað bifreiðinni en að hann hefði enn aðgang að henni. Hafi kærandi talið að hann gæti ekki treyst á lakari bifreið til að komast ferða sinna til Reykjavíkur en hann þyrfti að fara nokkuð oft þangað þar sem hann væri öryrki.
Með bréfi til kæranda 30. maí 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. c-liður 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar verði tekin til endurskoðunar og heimild veitt að nýju. Skilja verður þetta svo að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærandi kveður umboðsmann skuldara hafa fellt niður heimild sína til greiðsluaðlögunar þar sem hann hafi ekki staðið við skyldur sínar sem skuldari þegar hann ráðstafaði bifreið í sinni eigu. Kærandi hafi útskýrt fyrir umsjónarmanni að vegna veikinda gæti hann ekki verið án bifreiðar. Ef kærandi hefði selt bifreið sína hefði hann enga möguleika á að fjármagna kaup á annarri bifreið sem þó væri honum nauðsynlegt.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er tekið fram að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilteknar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna standi yfir. Í c-lið 1. mgr. 12. gr. segi að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.
Fyrir liggi að þegar kærandi hafi sótt um greiðsluaðlögun hafi hann verið skráður eigandi bifreiðarinnar X sem sé af gerðinni Lexus RX300. Samkvæmt upplýsingum úr ökutækjaskrá hafi kærandi ráðstafað bifreiðinni til B og hafi eigendaskipti verið skráð 26. apríl 2012, eða sama dag og umsjónarmaður hafi kynnt fyrir kæranda að honum væri óheimilt að ráðstafa bifreiðinni. Kærandi hafi síðan staðfest að bifreiðin hefði verið seld en að hann hefði enn afnot af henni.
Það leiði af skyldum þeim sem kveðið sé á um í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að skuldara sé óheimilt að ráðstafa eignum. Verði að telja að með sölu bifreiðarinnar hafi kærandi látið af hendi eign sem gagnast hefði getað lánardrottnum sem greiðsla í skilningi ákvæðisins.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er kveðið á um að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var samþykkt hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um skyldur sínar samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Í málinu liggur fyrir að kærandi var eigandi bifreiðarinnar X frá 25. mars 2011 til 17. apríl 2012. Kærandi keypti bifreiðina á 2.370.000 krónur samkvæmt upplýsingum á skattframtali ársins 2012 vegna ársins 2011. Hann kveðst hafa selt bifreiðina á 500.000 krónur. Samkvæmt veðbandayfirliti 14. júní 2012 hvíldu engin veðbönd á bílnum og verður því að telja að hann hafi verið veðbandalaus er kærandi ráðstafaði honum. Samræmist það frásögn kæranda sjálfs.
Samkvæmt þessu verður að telja að umrædd bifreið hafi verið eign sem hefði getað gagnast lánardrottnum sem greiðsla er kærandi lét hana af hendi. Verður því ekki komist hjá því að telja að með ráðstöfun bifreiðarinnar hafi kærandi brotið gegn ákvæðum c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.
Í ljósi þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir