Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 28/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 28/2015

Miðvikudaginn 29. júní 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 29. október 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 1. október 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður

Með bréfi 4. nóvember 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 5. nóvember 2015.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 12. nóvember 2015 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fæddur 1985 og býr einn í 70 fermetra leiguhúsnæði að B. Hann á eitt barn og fer sameiginlega með forsjá barns síns ásamt barnsmóður sinni. Kærandi er [...] að mennt og starfar hjá C Í tekjur hefur kærandi laun og húsaleigubætur.

Heildarskuldir kæranda eru 12.338.151 króna samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara. Þar af eru 6.876.970 krónur vegna námslána og falla kröfur vegna þeirra utan greiðsluaðlögunar samkvæmt 3. gr. lge. Kærandi stofnaði til helstu skulda á árunum 2006 til 2009.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans mörg ár aftur í tímann en í gegnum tíðina hafi hann reitt sig á lánsfé til að ná endum saman.

Kærandi lagði fram umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar 12. september 2014. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. janúar 2015 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 16. júní 2015 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Umsjónarmaður vísaði í bréfinu til þess að hann hefði sent frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun til kröfuhafa 20. mars 2015. Íslandsbanki hafi mótmælt frumvarpinu meðal annars á þeirri forsendu að kærandi hefði farið til útlanda á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Við nánari skoðun hafi komið í ljós að kærandi hefði keypt ferð til D 14. janúar 2015 eða nokkrum dögum áður en hann fékk greiðsluskjól. Hann hafi greitt 84.925 krónur fyrir flugmiða en kvað engan annan kostnað hafa verið við ferðina. Íslandsbanki hafi ekki breytt afstöðu sinni til frumvarpsins þrátt fyrir fram komnar skýringar kæranda.

Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana en við mat á því beri að taka tillit til þess hvort skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum hafi framast verið unnt. Umsjónarmaður telji að kaup kæranda á utanlandsferð falli undir lagaákvæðið þar sem allar skuldbindingar hans hafi verið í vanskilum á þeim tíma er hann keypti flugmiðann.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 23. september 2015 þar sem honum var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi leitaði upplýsinga hjá embættinu símleiðis sama dag en hvorki bárust gögn né mótmæli frá honum.

Með bréfi til kæranda 1. október 2015 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir hans niður með vísan til 15. gr., sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi telur ekki rétt að fella niður málið á grundvelli kaupa á flugmiða að fjárhæð 84.825 krónur. Kærandi hafi þarna farið óskynsamlega með námslán en það geti ekki talist forsendubrestur þar sem umsókn hans hafi ekki verið samþykkt á þeim tíma er flugmiðinn var keyptur. Þessir peningar hefðu átt að fara til að greiða skólagjöld en þau séu enn ógreidd.

Kærandi telur það mikla ósanngirni og einföldun að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans vegna nokkurra tuga þúsunda króna.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að ákvæði 6. gr. lge. heimili umboðsmanni skuldara að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Eftir að kærandi hafi sótt um greiðsluaðlögun og frumvarp sent kröfuhöfum hafi komið í ljós að kærandi hefði keypt flugmiða fyrir 84.825 krónur á þeim tíma sem skuldir hans við Íslandsbanka, Vodafone, Tryggingamiðstöðina og Orkuveitu Reykjavíkur hafi allar verið í vanskilum. Vanskil hafi numið 5.969.851 krónu. Miðað við tekjur kæranda samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og áætlaðan framfærslukostnað hafi greiðslugeta kæranda verið neikvæð allt árið 2014. Kærandi hafi fengið háa launagreiðslu í janúar 2015 en í þeim mánuði hafi greiðslugeta hans verið 168.666 krónur eftir að framfærslukostnaður hefði verið greiddur.

Samkvæmt þessu telur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að standa í skilum eftir því sem honum hafi frekast verið unnt svo sem f-liður 2. mgr. 6. gr. lge. mæli fyrir um með því að kaupa flugmiða í janúar 2015 á sama tíma og skuldir hans hafi verið í vanskilum.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í 15. gr. lge. segir að ef fram koma upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Í athugasemdum með frumvarpi til lge. segir að samkvæmt 15. gr. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það ef á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana komi upp tilvik eða aðstæður sem hann telji að muni hindra að greiðsluaðlögun verði samþykkt. Þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þegar nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt I. og II. kafla lge.

Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Eins og fram er komið var kæranda skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum sínum í kjölfar þess að umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt. Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 16. júní 2015 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er byggð á því að kærandi hafi keypt flugmiða 14. janúar 2015 fyrir 84.925 krónur. Kærandi sótti um heimild til greiðsluaðlögunar 12. september 2014 en umsókn hans var samþykkt 20. janúar 2015. Elstu vanskil eru tilgreind frá 1. ágúst 2013 og allar skuldbindingar hans voru komnar í vanskil 1. janúar 2015.

Gera verður þá kröfu til einstaklinga, sem glíma við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta. Í málinu liggur fyrir að á þeim tíma er kærandi sótti um heimild til greiðsluaðlögunar hafi hann verið kominn í umtalsverð fjárhagsvandræði og flestar skuldbindingar hans voru í vanskilum. Engu að síður ráðstafaði hann fjármunum til kaupa á flugmiða þegar hann hefði getað notað féð til að greiða inn á skuldir eða leggja fyrir.

Að þessu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að þær aðstæður sem lýst er í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við og að þær komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð samkvæmt lge. þar sem kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem hann framast gat. Með vísan til þess og 1. mgr. 15. gr. lge. bar að fella niður heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar.

Í ljósi þess er að framan greinir verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta