Mál nr. 37/2015
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 37/2015
Miðvikudaginn 14. september 2016
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.
Þann 18. nóvember 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. nóvember 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 15. desember 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. janúar 2016.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 29. janúar 2016 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.
Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi er fæddur 1973. Hann býr einn í eigin íbúð að B. Kærandi er [...]. Í tekjur hefur hann laun og örorkulífeyri.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 19.822.445 krónur.
Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína einkum til veikinda eftir vinnuslys.
Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 13. nóvember 2014 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. janúar 2015 var honum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge. Tveir umsjónarmenn hafa komið að máli kæranda.
Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 18. ágúst 2015 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. þar sem kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og lagt of lítið fyrir á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Kærandi hefði upplýst um að hann hefði lagt fyrir 200.000 til 300.000 krónur á tímabilinu en samkvæmt gögnum málsins hefði hann átt að geta lagt fyrir að minnsta kosti 1.048.964 krónur. Kærandi hafi kveðið ástæðu þess að hann hefði ekki lagt meira til hliðar þá að hann hefði greitt skuldir við vini og vandamenn. Með þessum greiðslum taldi umsjónarmaður að kærandi hefði gert upp á milli kröfuhafa. Þá væri kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum á meðan skuldari væri í greiðsluskjóli samkvæmt 1. mgr. 11. gr. lge. Samkvæmt þessu teldi umsjónarmaður að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli lge.
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 7. október 2015 var kæranda gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi hafi komið á fund starfsmanns embættisins og greint frá því að hann hefði ekkert lagt til hliðar. Hann hefði keypt bifreið og greitt viðgerðarkostnað með leyfi umsjónarmanns. Kærandi hafi verið beðinn um að leggja fram gögn þessu til staðfestingar en engin gögn hafi borist.
Með bréfi til kæranda 3. nóvember 2015 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærandi kveðst ekki hafa gert sér grein fyrir því að hann ætti að leggja fyrir 180.000 krónur á mánuði frá fyrsta degi. Umboðsmaður skuldara hafi rætt um að hann legði til hliðar 96.000 krónur á mánuði og hann hafi treyst sér til þess. Hann treysti sér á hinn bóginn ekki til að leggja fyrir 180.000 krónur á mánuði.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 12. janúar 2015 sem borist hafi kæranda með ábyrgðarbréfi. Þá sé í ákvörðuninni tiltekið að breytist tekjur skuldara skuli aðlaga greiðslugetu að því. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þessar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Kæranda hafi því vel mátt vera ljóst að hann skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hann hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.
Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í rúmlega 7 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. febrúar 2015 til 31. ágúst 2015. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, þar á meðal staðgreiðsluskrám og gögnum frá Tryggingastofnun ríkisins, hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:
Tekjur | feb. - ágúst |
2015 | |
Laun skv. staðgreiðsluskrá | 2.463.583 |
Meðaltekjur á mán. | 351.940 |
Framfærslukostn. á mán. | 168.661 |
Greiðslugeta á mán. | 183.279 |
Áætlaður sparnaður | 1.282.956 |
Í framangreindum útreikningum sé miðað við að unnt sé að leggja fyrir mismun meðaltekna og framfærslukostnaðar á mánuði. Sú fjárhæð sé nefnd greiðslugeta.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi verið 168.661 króna á meðan hann hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag, þ.e. framfærslukostnað októbermánaðar 2015 fyrir einstakling, auk upplýsinga frá kæranda sjálfum. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi átt að geta lagt fyrir 1.282.956 krónur á fyrrnefndu tímabili.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kæranda með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að honum sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir venjulegan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., séu lögð fram gögn þar um.
Kærandi kveðist hafa þurft að leggja út fyrir kostnaði vegna kaupa á bifreið að fjárhæð 50.000 krónur, kostnaði vegna bifreiðaviðgerða að fjárhæð 200.000- 300.000 krónur og kostnaði vegna tannviðgerða að fjárhæð um 200.000 krónur. Þá hafi hann þurft að endurgreiða persónulegt lán en fjárhæð þeirra liggi ekki fyrir. Kærandi hafi ekki lagt fram kvittanir vegna þessara útgjalda en jafnvel þótt tekið yrði tillit til þeirra skorti enn 732.956 krónur upp á sparnað kæranda.
Gera verði þá kröfu til einstaklinga, sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem er umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Auk þess sem óheimilt sé að stofna til nýrra skulda á tímabilinu.
Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kæranda til greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir þessum kostnaði í mánaðarlegum framfærslukostnaði kæranda.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi kærandi brotið gegn skyldum sínum í greiðsluskjóli og því hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Með bréfi 18. ágúst 2015 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður, meðal annars á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 3. nóvember 2015.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem hann hafi átt að geta lagt til hliðar á því tímabili sem hann naut greiðsluskjóls.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Kæranda bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var samþykkt hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærandi átt að leggja til hliðar 1.282.956 krónur frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt, eða allt frá 12. janúar til 3. nóvember 2015.
Samkvæmt fyrirliggjandi launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:
Tímabilið 1. febrúar 2015 til 31. október 2015: Níu mánuðir | |
Nettótekjur | 2.431.705 |
Nettó mánaðartekjur að meðaltali | 270.189 |
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og lífeyri var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. febrúar 2015 til 31. október 2015: Níu mánuðir | |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 2.431.705 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 270.189 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns | 168.661 |
Greiðslugeta kærenda á mánuði | 101.528 |
Alls sparnaður í níu mánuði í greiðsluskjóli x 101.528 | 913.752 |
Samkvæmt framangreindu ætti sparnaður kæranda að vera 913.752 krónur en hann hefur ekki sýnt fram á neinn sparnað.
Við mat á því hvaða fjárhæð skuldari eigi að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.
Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem hann fékk í hendur, að honum hafi borið skylda til þess samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að leggja fé til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.
Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan hann naut greiðsluskjóls.
Í ljósi þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Hin kærða ákvörðun er með vísan til þess staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal