Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 95/2013

Mánudaginn 11. maí 2015


 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 19. júní 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 6. júní 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 3. júlí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. júlí 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 22. júlí 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi 22. ágúst 2013. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 26. ágúst 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 30. ágúst 2013.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1946 og 1951. Þau eru í hjúskap og búa í eigin 202,4 fermetra fasteign að C götu nr. 7 í sveitarfélaginu D.

Kærandi A starfar hjá X. Kærandi B er leigubílstjóri með eigin rekstur. Mánaðarlegar meðtaltekjur kærenda eru 348.571 króna.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til efnahagshrunsins árið 2008. Lán og ábyrgðir sem þau hafi tekist á hendur hafi hækkað verulega. Laun hafi lækkað og atvinna minnkað. Einnig hafi þau setið uppi með tvær fasteignir og sölutilraunir hafi ekki borið árangur.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 72.801.310 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga árin 2004 til 2007.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. desember 2010 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 6. október 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Enn fremur fylgdi greiðsluáætlun fyrir kærendur þar sem fram kom hver væri þáverandi framfærslukostnaður og greiðslugeta þeirra.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 31. janúar 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil þar sem álit hans væri að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Því væri það mat hans að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kom fram að kærendur hefðu verið í greiðsluskjóli frá janúar 2011. Fyrir lægi að kærendur hefðu lagt til hliðar 1.600.000 krónur á greiðsluaðlögunartímabilinu en greiðslugeta þeirra hefði verið 162.000 krónur á mánuði samkvæmt neysluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Samkvæmt því hefðu kærendur átt að vera búin að leggja til hliðar 5.160.000 krónur á tímabilinu. Hafi kærendur meðal annars gefið þær skýringar að mikill kostnaður hefði fallið til vegna viðgerðar á bíl. Hefðu þau verið beðin um kvittanir þar að lútandi en ekki getað lagt þær fram. Þegar umsjónamaður hafi greint kærendum frá því að þau hefðu ekki lagt nógu háa fjárhæð fyrir kváðust þau geta útvegað þá fjárhæð sem á vantaði frá þriðja aðila. Telji umsjónarmaður það ekki samræmast skyldum skuldara samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að leggja fram fé frá þriðja aðila og telja til eigin sparnaðar. Í þessu samhengi líti umsjónarmaður einnig til d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem segi að skuldari megi ekki stofna til nýrra skulda í greiðsluskjóli.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 18. apríl 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skriflegt svar kærenda hafi síðan borist 2. maí 2013 en þar hafi verið óskað eftir frekari fresti þar sem kærendur höfðu ekki skilað skattframtali vegna tekjuársins 2012. Frekari gögn hafi borist frá kærendum 15. maí sama ár.

Með bréfi til kærenda 6. júní 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveða að misræmis gæti í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 31. janúar 2013 annars vegar og bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda frá 18. apríl 2013 hins vegar.

Fyrrgreint bréf umsjónarmannsins hafi verið ritað eftir að kærendur hafi verið í greiðsluskjóli í 24 mánuði. Þar komi fram að samkvæmt neysluviðmiðum umboðsmanns skuldara og öðrum reglulegum útgjöldum kærenda hafi afgangur þeirra verið 162.000 krónur á mánuði. Ættu kærendur því að hafa lagt fyrir 5.160.000 krónur á meðan greiðsluaðlögunarumleitanir hafi staðið yfir eða frá janúar 2011. Séu 162.000 krónur margfaldaðar með 24 mánuðum verði útkoman 3.880.000 krónur. Sé tekið mið af fyrrnefndu bréfi umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 255.516 krónur á mánuði í 26 mánuði eða 6.643.413 krónur. Af gögnum málsins liggi ekki fyrir hvaðan umboðsmaður skuldara fái þessa fjárhæð. Vart sé hægt að ráða málinu til lykta án þess að samræmi fáist í þessar forsendur.

Að mati kærenda hafi upphaflegar tekjuforsendur þeirra verið ofmetnar. Kærendur hafi óskað eftir því að embætti umboðsmanns skuldara endurreiknaði þá fjárhæð sem ætlast hafi verið til að þau legðu til hliðar. Hafi þetta verið gert í ljósi þess að tekjur kærenda hafi reynst miklum mun minni en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi greiðsluaðlögunar. Hafi þetta leitt til þess að kærendum hafi ekki verið unnt að leggja til hliðar jafn háa fjárhæð og reiknað hafi verið með. Samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara nemi meðaltekjur kæranda A 316.787 krónum á mánuði. Raunverulegar mánaðartekjur kæranda A frá janúar 2011 til mars 2013 nemi á hinn bóginn 354.556 krónum að meðaltali. Samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara hafi meðaltekjur kæranda B verið 284.314 krónur á mánuði en raunverulegar meðaltekjur hans á tímabilinu janúar 2011 til mars 2013 hafi verið 186.077 krónur. Samanlagðar meðaltekjur kærenda á tímabilinu janúar 2011 til mars 2013 hafi því verið 540.633 krónur. Mætti því segja að þeim hafi borið að leggja til hliðar 248.376 krónur mánaðarlega eða samtals 6.457.776 krónur. Þá telji kærendur að umboðsmaður skuldara eigi að taka tillit til óvænts kostnaðar kærenda að fjárhæð 627.152 krónur og greiðslu vörugjalda að fjárhæð 743.555 krónur eða samtals 1.370.707 krónur. Mismunurinn sé 5.087.069 krónur.

Kærendur telja að embætti umboðsmanns skuldara hefði átt að skoða tekjuforsendur þeirra að nýju eða óska þess að umsjónarmaður gerði það. Umboðsmaður hefði átt að skoða málið nánar og bíða með að taka ákvörðun þar til niðurstaða slíkrar skoðunar lægi fyrir.

Kærendur treysti ekki lánastofnunum og hafi valið að hafa sparnað sinn í reiðufé. Slíkt geti vart talist óeðlilegt í ljósi þeirra hörmunga sem bankastofnanir hafi leitt yfir þjóðina. Með bréfi til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála 22. ágúst 2013 lögðu kærendur fram yfirlit yfir innborgun á bankareikning kæranda B að fjárhæð 5.500.000 krónur. Kemur fram í bréfi þeirra að þau hafi hvorki verið upplýst um að sparnað þyrfti að leggja inn á bankareikning né heldur komi það fram í lge. Þau hefðu lagt fjármunina inn á bankareikning ef þeim hefði verið sagt að gera það. Þá hafni kærendur því að hafa sagt umsjónarmanni sínum að þau gætu fengið lán hjá þriðja aðila til að leggja fram sem sparnað. Einnig hafni þau því að hafa sagt umsjónarmanni að sparnaður væri einungis 1.500.000 krónur.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem njóti frestunar greiðslna eigi að vera kunngjört um skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið að finna á heimasíðu embættisins. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 6. október 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Loks séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi skuldara og umsjónarmanns. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar.

Kærendur hafi óskað greiðsluaðlögunar 5. janúar 2011 og hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge., svokallað greiðsluskjól, þá hafist. Einnig hafi skyldur skuldara tekið gildi á þeim degi. Greiðsluskjól kærenda hafi samkvæmt því staðið yfir í 26 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. janúar 2011 til 31. mars 2013. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og fyrirliggjandi skattframtölum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. janúar 2011 til 31. mars 2013 að frádregnum skatti 14.277.873
Samtals 14.277.873
Mánaðarlegar meðaltekjur 549.149
Framfærslukostnaður á mánuði 292.257
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 256.892
Samtals greiðslugeta í 26 mánuði 6.679.191

 

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 549.149 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 292.257 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt þessu sé miðað við framfærslukostnað aprílmánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna. Einnig sé gert ráð fyrir öðrum kostnaði samkvæmt upplýsingum kærenda sjálfra. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 6.679.191 krónu á fyrrnefndu tímabili. Við útreikningana hafi verið tekið tillit til raunverulegra tekna kærenda á tímabilinu.

Í svari kæranda frá 2. maí 2013 komi fram að sparnaður þeirra nemi nærri 3.000.000 króna. Í bréfi þeirra 14. maí sama ár kveði þau ekki unnt að leggja mat á þá fjárhæð sem þau hafi átt að leggja til hliðar þar sem misræmi sé á milli bréfs umsjónarmanns 31. janúar 2013 og bréfs umboðsmanns skuldara 18. apríl 2013. Þá segi þau óljóst af gögnum málsins hvaðan sú fjárhæð komi sem umboðsmaður skuldara leggi til grundvallar við útreikning á sparnaði. Hafi kærendur farið fram á að fjárhæðin verði endurreiknuð og málið eftir atvikum lagt fyrir umsjónarmann að nýju.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að við útreikninga á sparnaði í greiðsluskjóli hafi verið miðað við fyrirliggjandi opinber gögn, framfærsluútreikninga umboðsmanns skuldara og annan framfærslukostnað kærenda sjálfra. Byggt sé á tekjum allan þann tíma er kærendur hafi verið í greiðsluskjóli enda beri kærendum að leggja til hliðar mánaðarlega þann hluta tekna sem sé umfram framfærslukostnað allan þann tíma sem greiðsluskjól standi yfir. Þannig sé ekki um að ræða fyrirfram ákveðna fjárhæð í hverjum mánuði heldur þá fjárhæð sem sé umfram framfærslukostnað. Geti það út af fyrir sig verið mishá fjárhæð eftir mánuðum. Þegar umsjónarmaður vísi máli til umboðsmanns skuldara á grundvelli 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., sé það hlutverk umboðsmanns skuldara að leggja sjálfstætt mat á ástæðu umsjónarmanns fyrir niðurfellingu og þar með að endurreikna fjárhæð sparnaðar. Kærendur hafi fengið ítrekaða fresti til að skýra mál sitt og leggja fram fylgigögn. Þeim ætti ekki að reynast torvelt að upplýsa um þá fjárhæð sem þau hafi lagt til hliðar í greiðsluskjóli óháð því hvaða aðferðum hafi verið beitt við útreikninga.

Samkvæmt skattframtali 2013 hafi bankainnstæður kærenda verið 913.559 krónur í lok ársins 2012. Í bréfi umsjónarmanns 31. janúar 2013 komi fram að kærendur hafi lagt til hliðar 1.600.000 krónur. Kærendur telji sparnað sinn hafa numið um 3.000.000 króna 2. maí 2013.

Kærendur hafi lagt fram reikning frá 1. febrúar 2013 að fjárhæð 743.555 krónur vegna greiðslu vörugjalda af bifreið. Umrædd vörugjöld séu frá árinu 2009 og falli því innan samnings um greiðsluaðlögun. Því hafi kærendum verið óheimilt að greiða vörugjöldin í greiðsluskjóli. Þá hafi kærendur lagt fram reikning vegna bifreiðaviðgerða frá 25. janúar 2012 að fjárhæð 627.152 krónur. Kærandi B starfi sem leigubílstjóri. Megi því gera ráð fyrir að kostnaður sem til falli vegna bifreiðar sem notuð sé í atvinnuskyni, svo sem kostnaður vegna viðgerða eða opinberra gjalda, sé færður á rekstrarreikning og að tekið sé tillit til hans í rekstrarskýrslu viðkomandi árs.

Ekki hafi verið lögð fram gögn er sýni fram á sparnað kærenda í greiðsluskjólinu. Jafnvel þótt tekið væri tillit til greiðslu fyrrgreindra vörugjalda og bílaviðgerða og gert ráð fyrir að kærendur hefðu lagt fyrir 3.000.000 króna, vantaði 2.308.484 krónur sem kærendur hafi ekki gert grein fyrir. Í greinargerð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála 1. júlí 2013 hafi kærendur greint frá því að þau hafi lagt til hliðar 4.650.000 krónur en þar sem þau treysti ekki bankastofnunum sé sparnaðurinn í reiðufé. Kveða kærendur mögulegt að færa sönnur á þetta. Það hafi þó ekki verið fyrr en með greinargerð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að kærendur lögðu fram bankayfirlit þessu til staðfestingar. Samkvæmt yfirlitinu hafi kærandi B lagt 5.500.000 krónur inn á bankareikning sinn 22. ágúst 2013. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kærendum ítrekað verið veittur frestur til að sýna fram á sparnað sinn. Hefðu þau haft sparnað tiltækan hafi þeim verið í lófa lagið að leggja fjárhæðina inn á reikning í banka og framvísa staðfestingu þar um áður en ákvörðun var tekin í máli þeirra. Telji umboðsmaður skuldara nýtilkomna staðfestingu á fjárhæð sparnaðar of seint framkomna.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur benda á að umsjónarmanni og umboðsmanni skuldara beri ekki saman um þá fjárhæð sem kærendur hafa átt að leggja til hliðar í greiðsluskjóli. Að mati kærunefndarinnar bera gögn málsins skýrlega með sér að umsjónarmaður annars vegar og umboðsmaður skuldara hins vegar hafa miðað útreikninga sína við mismunandi tímabil, enda eru útreikningarnir ekki gerðir á sama tíma. Í báðum tilvikum er miðað við þann tíma er kærendur höfðu þá verið í greiðsluskjóli og þau laun sem kærendur höfðu haft frá upphafi greiðsluskjóls til þess tíma. Miðað við gögn málsins, þar á meðal staðfestingu kærenda á sparnaði sínum, er ljóst að kærendur hafa gert sér grein fyrir skyldu sinni til að leggja til hliðar fé á greiðsluaðlögunartíma. Í útreikningum umsjónarmanns á sparnaði kærenda var reikningsskekkja sem kærendur bentu á og olli hún að mati kærunefndarinnar þeim ekki réttarspjöllum.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 31. janúar 2013 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Taldi hann því rétt að umboðsmaður skuldara felldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 6. júní 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 6.679.191 krónu frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 30. desember 2010 til 6. júní 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 256.892 krónur á mánuði í greiðsluskjóli.

Kærendur kveðast hafa lagt fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Sparnaður þeirra nemi 5.500.000 krónum en auk þess hafi óvænt útgjöld þeirra numið 627.152 krónum. Einnig hafi þau þurft að greiða vörugjöld að fjárhæð 743.555 krónur. Alls séu þetta 1.370.707 krónur sem dragist frá þeirri fjárhæð sem umboðsmaður segi að þau hafi átt að spara. Mismunurinn sé samkvæmt því 5.087.069 krónur.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur B 1.367.146
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 113.929
Nettótekjur A 4.853.259
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 404.438
Nettótekjur alls 6.220.405
Mánaðartekjur alls að meðaltali 518.367


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur B 3.142.804
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 261.900
Nettótekjur A 3.685.634
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 307.136
Nettótekjur alls 6.828.438
Mánaðartekjur alls að meðaltali 569.037


Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. maí 2013: Fimm mánuðir
Nettótekjur B 846.345
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 169.269
Nettótekjur A 1.660.839
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 332.168
Nettótekjur alls 2.507.184
Mánaðartekjur alls að meðaltali 501.437


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 15.556.027
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 536.415

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara og tekjur kærenda var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. maí 2013: 29 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 15.556.027
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 15.556.027
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 536.415
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 292.257
Greiðslugeta kærenda á mánuði 244.158
Alls sparnaður í 29 mánuði í greiðsluskjóli x 244.158 7.080.574

 

Kærendur hafa lagt fram gögn sem sýna fram á sparnað sem nemur 5.500.000 krónum og útlagðan kostnað sem nemur alls 1.370.707 krónum. Fallist er á skýringar kærenda á því hvernig sparnaðurinn er tilkominn og gögn um hann verða ekki talin of seint framkomin fyrir kærunefndina. Kærendur hafa því sýnt fram á sparnað og fjárútlát sem nema alls 6.870.707 krónum. Samkvæmt framangreindum útreikningi kærunefndarinnar hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar 7.080.574 krónur á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana og munar því rúmlega 200.000 krónum á útreikningi kærunefndar greiðsluaðlögunarmála á sparnaði kærenda og þeim fjármunum sem kærendur sýndu fram á sem sparnað og sérstök útgjöld í greiðsluskjólinu. Þrátt fyrir að upp á sparnað kærenda vanti samkvæmt framansögðu er sá munur innan ásættanlegra marka að mati kærunefndarinnar.

Fyrir kærunefndina hafa kærendur lagt fram kvittun vegna vörugjalda af bifreiðinni Y sem þau greiddu 1. febrúar 2013 að fjárhæð 743.555 krónur. Gjöldin féllu í gjalddaga árið 2009 áður en kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar. Þá hafa kærendur framvísað reikningi vegna bifreiðaviðgerðar að fjárhæð 627.152 krónur frá 25. janúar 2012. Samtals nema þessi fjárútlát kærenda í greiðsluskjóli 1.370.707 krónum.

Í hinni kærðu ákvörðun frá 6. júní 2013 kemur fram að kærendum hafi verið óheimilt að greiða tilgreind vörugjöld og því var enn fremur hafnað að viðgerðarkostnaður vegna bifreiðarinnar gæti talist til óvæntra útgjalda með þeim rökum að umrædd bifreið væri atvinnutæki og því væri litið svo á að gert væri ráð fyrir viðgerðarkostnaði í rekstrarreikningi annars kæranda, eins og með aðra útgjaldaliði.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sala bifreiðarinnar á tímabilinu hafi ekki verið andstæð c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem um atvinnutæki annars kæranda var að ræða og að tilgangurinn með ráðstöfuninni hafi verið að tryggja að hann gæti áfram stundað atvinnu sína. Kærendur halda því fram að vegna sölu hennar hafi þurft að greiða vörugjöldin. Umboðsmaður skuldara hefur ekki mótmælt þessum málflutningi kærenda.

Í almennum athugasemdum með frumvarpi til lge. segir í VI. kafla að mikilvægt sé að einstaklingum sé gert kleift að halda áfram atvinnurekstri sem er til þess fallinn að skapa heimili einstaklings raunhæfan grundvöll til tekjuöflunar til framtíðar. Þar segir einnig að frumvarpinu sé fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisreksturs einstaklinga en mikilvægt sé að mæta aðstæðum þeirra sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Það sé þó ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði.

Fyrir liggur að kærandi B er með rekstur í eigin nafni. Einnig liggur fyrir að greiðsluvandi kærenda er að miklu leyti vegna launalækkunar og hækkunar fasteignalána. Verður því að mati kærunefndarinnar ekki talið að vanda kærenda megi fyrst og fremst rekja til atvinnurekstrar.

Í VIII. kafla í almennum athugasemdum með frumvarpi til lge. segir að þegar ákvarða skuli hversu mikið af tekjum skuldara fari til greiðslu skulda skuli fyrst taka mið af nauðsynlegum kostnaði skuldara við að sjá sér og sínum farborða. Upplýst er í málinu að kærandi B ráðstafaði bifreið sinni í þeim tilgangi að geta áfram stundað atvinnu sína og séð sér farborða. Eins og sérstaklega stendur á í málinu verður að telja greiðslu vörugjalda hafa verið nauðsynlegan þátt í því. Enn fremur verður að telja þessa ráðstöfun hafa stuðlað að því að kærendum hefur verið unnt að leggja til hliðar 5.500.000 krónur til að nota í samningum við kröfuhafa. Þegar fyrrnefnd ummæli í greinargerð með lge. og sérstakar aðstæður í málinu eru virtar er það mat kærunefndarinnar að greiðsla kærenda á nefndum vörugjöldum hafi ekki brotið gegn a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara er einnig byggð á því að líklegt sé að sá kostnaður sem kærendur greiddu vegna viðgerðar á bifreið, 627.152 krónur, hafi verið færður á rekstrarreikning og tillit tekið til hans í rekstrarskýrslu viðkomandi árs. Í málinu liggur ekki fyrir hvort viðgerðarkostnaður vegna bifreiðarinnar hafi í raun verið færður sem rekstrarkostnaður hennar og ekki liggur heldur fyrir að umboðsmaður skuldara hafi kallað eftir gögnum um það áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Eins og sérstaklega stendur á í málinu verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi ekki verið rétt að byggja á þessu atriði við úrlausn málsins án þess að kanna það nánar og/eða kalla eftir viðhlítandi gögnum samkvæmt 5. gr. lge.

Samkvæmt því sem að framan er rakið, og í ljósi þess að kærendur hafa samkvæmt gögnum málsins lagt til hliðar verulega fjármuni sem gagnast geta kröfuhöfum sem greiðsla, eru ekki forsendur til að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta