Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 81/2013

Fimmtudaginn 28. maí 2015

 

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 11. júní 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 29. maí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 13. júní 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. júní 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 19. júlí 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 22. ágúst 2013. Athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1979. Hún er einstæð þriggja barna móðir og býr í eigin íbúð að B götu nr. 7 í sveitarfélaginu C en er í óskráðri sambúð.

Kærandi er óvinnufær vegna örorku og hefur 440.486 krónur til ráðstöfunar á mánuði vegna meðlags, örorku-, vaxta- og barnabóta.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 27.760.396 krónur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína einkum til bílaláns í erlendri mynt, útgjalda vegna tveggja langveikra barna sinna og hækkunar á framfærslukostnaði.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun í maí 2011 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. janúar 2012 var henni veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 17. ágúst 2012 kom fram að frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings hefði verið sent kröfuhöfum 29. mars 2012 í samræmi við 1. mgr. 17. gr. lge. Landsbankinn hefði mótmælt frumvarpinu. Í mótmælunum komi fram að bankinn teldi að vísa ætti kæranda úr greiðsluaðlögun á grundvelli 12. gr., sbr. 15. gr. lge., þar sem hún hefði ekki lagt fyrir af launum sínum eða öðrum tekjum það fé sem væri umfram það sem hún þyrfti til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi væri greiðslugeta kæranda 98.761 króna á mánuði og hún hefði verið í greiðsluskjóli í 11 mánuði. Hefði hún því átt að geta lagt fyrir 1.086.371 krónu á tímabilinu. Engar skýringar liggi fyrir á því hvers vegna kærandi hafi ekki lagt fyrir. Umsjónarmaður hafi kynnt kæranda framkomin mótmæli. Skýringar kæranda hefðu verið þær að hún hefði greitt 150.000 krónur vegna tannréttinga dóttur sinnar á síðari hluta ársins 2011. Einnig hefði sambýlismaður hennar misst starf sitt í Noregi en hann hefði hvorki fengið laun né annað starf og því hefði för hans til Noregs einungis haft kostnað í för með sér. Hann væri nú atvinnulaus. Umsjónarmaður hefði kynnt Landsbankanum ofangreint, sent yfirlit yfir kostnað vegna tannréttinga og bent á erfiða stöðu kæranda en bankinn hefði ítrekað mótmæli sín. Kvaðst bankinn ekki tilbúinn til að semja við kæranda nema hún legði fram gögn sem sýndu fram á ástæðu þess að hún hefði ekki lagt til hliðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Væri því ljóst að greiðsluaðlögunarsamningur myndi ekki nást. Af þessum ástæðum sæi umsjónarmaður sig neyddan til að senda málið til umboðsmanns skuldara með vísan til 15. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 23. ágúst 2013 var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kæranda komi fram að tvö barna hennar væru langveik. Hún væri einnig með tvö börn í tannréttingum. Mikil útgjöld hefðu einnig verið samhliða því að tvö börn hennar byrjuðu í grunnskóla, svo sem kostnaður við frístundaheimili og fæði. Tómstundir barnanna, tónlistarskóli og körfubolti, kostuðu einnig mikið. Sjálf hefði kærandi verið mjög veik síðustu tvö ár. Hún hefði farið í tvær aðgerðir á baki og taki mikið af dýrum lyfjum, til dæmis taugalyfjum, flogaveikilyfjum og morfíni. Þegar allt hafi verið greitt eigi kærandi um 140.000 krónur til framfærslu á mánuði sem sé ekki mikið.

Fram kemur í málinu að umboðsmaður skuldara hefði óskað eftir gögnum um þann kostnað sem kærandi hafi vísað til og hefði kærandi lagt fram gögn.

Með bréfi til kæranda 29. maí 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar þannig að hún krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi greinir frá því að barnabætur hennar, sem greiddar séu á þriggja mánaða festi, hafi lækkað úr 190.000 krónum í 70.000 krónur. Þá hafi maður hennar verið án launa og þau hafi því þurft að fá lánaða peninga sem þau séu að reyna að endurgreiða. Einnig sé dóttir hennar að taka bílpróf en það kosti mjög mikið.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 19 mánuði miðað við tímabilið frá 1. júní 2011 til 31. desember 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. júní 2011 til 31. desember 2012 að frádregnum skatti 3.070.539
Bætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 6.738.824
Samtals  9.809.363
Mánaðarlegar meðaltekjur 516.282
Framfærslukostnaður á mánuði 336.864
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 179.418
Samtals greiðslugeta í 19 mánuði 3.408.947

 

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kæranda með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 516.282 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 19 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 336.864 krónur á mánuði á meðan hún naut greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað maímánaðar 2013 fyrir einstakling með þrjú börn. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir um 3.408.947 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 179.418 krónur á mánuði í 19 mánuði.

Kærandi hafi greint umsjónarmanni frá því að hún hefði lagt fyrir um 80.000 krónur. Einnig hafi hún lagt fram gögn um óvæntan kostnað að fjárhæð 150.000 krónur vegna tannréttinga. Þá hafi kærandi lagt fram gögn frá tímabilinu 1. júní 2011 til 5. desember 2012 sem hún telji að skýri hvers vegna hún hafi ekki lagt meira til hliðar. Annars vegar sé um að ræða kostnað vegna læknisþjónustu og lyfjakaupa að fjárhæð 74.784 krónur og hins vegar kostnað vegna tónlistarnáms barna að fjárhæð 70.000 krónur. Í framfærsluviðmiðum fyrir sama tímabil sé gert ráð fyrir 278.654 krónum vegna læknisþjónustu og lyfja og 710.201 krónu vegna tómstunda. Því verði ekki séð að þessi gögn sýni fram á aukinn framfærslukostnað. Framlögð gögn kæranda sýni aðeins fram á óvænt útgjöld að fjárhæð 230.000 krónur.

Samkvæmt framansögðu þyki ljóst að kærandi hafi ekki lagt fyrir nægilegt fé af tekjum sínum og öðrum launum samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. í greiðsluskjóli.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi 17. ágúst 2012 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 29. maí 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefur kærandi átt að leggja til hliðar 3.408.947 krónur frá því að umsókn hennar um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 1. júní 2011 til 29. maí 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 179.418 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærandi hafi lagt fram skýringar og kvittanir vegna kostnaðar í greiðsluskjóli, samtals að fjárhæð 150.000 krónur, auk þess sem hún kveðst hafa lagt 80.000 krónur inn á bankareikning. Alls nemi þetta 230.000 krónum sem komi til frádráttar fyrrnefndum 3.408.947 krónum.

Kærandi kveðst ekki hafa haft tök á að leggja fyrir þar sem mikill kostnaður fylgi veikindum hennar og barna hennar. Að auki sé kostnaður við tannréttingar og tómstundir barna mikill.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum, launaupplýsingum ríkisskattstjóra og upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. júní 2011 til 31. desember 2011: Sjö mánuðir
Nettótekjur alls 1.186.788
Nettómánaðartekjur að meðaltali 169.541
   
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur alls 1.883.751
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali 156.979


Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. apríl 2013: Fjórir mánuðir
Nettótekjur alls 649.497
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali 162.374


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 3.720.036
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 161.741

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júní 2011 til 30. apríl 2013: 23 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 3.720.036
Barna- og vaxtabætur 1.020.011
Meðlagsgreiðslur 1.110.674
Umönnunargreiðslur 168.987
Barnalífeyrir 2.221.348
Sérstakt framlag 2012 67.425
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 8.308.481
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 361.238
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 336.864
Greiðslugeta kæranda á mánuði 24.374
Alls sparnaður í 23 mánuði í greiðsluskjóli x 24.374 560.609

 

Kærandi kveðst hafa lagt 80.000 krónur til hliðar í greiðsluskjóli. Hún hefur þó ekki lagt fram gögn því til stuðnings og er því ekki unnt að taka tillit til þess. Að mati umboðsmanns skuldara hefur kærandi gefið viðhlítandi skýringar og lagt fram gögn vegna óvæntra útgjalda að fjárhæð 150.000 krónur og verður það lagt til grundvallar við úrlausn málsins.

Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem hún fékk í hendur, að henni hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu og að ráðstafa ekki fjármunum sem söfnuðust fyrir í greiðsluskjóli sem gagnast gætu kröfuhöfum við gerð samnings um greiðsluaðlögun.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldari á að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stóð sé gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Jafnvel þótt tekið sé tillit til fyrrgreindra útgjalda að fjárhæð um 150.000 krónur hefði kærandi átt að geta lagt til hliðar 410.609 krónur á tímabili greiðsluskjóls en eins og fram er komið hefur kærandi ekki sýnt fram á sparnað.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta