Mál nr. 89/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 89/2016
Miðvikudaginn 5. október 2016
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Þann 25. febrúar 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 2. febrúar 2016 þar sem umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var synjað.
Með bréfi 10. júní 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 23. júní 2016.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 13. júlí 2016 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi er fæddur 1958. Hann býr einn í eigin íbúð að B, sem er 101,4 fermetrar að stærð.
Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 29.172.604 krónur. Til helstu skulda var stofnað á árunum 1998 til 2000.
Kærandi rekur greiðsluerfiðleika sína til slyss árið 2000 og atvinnuleysis í kjölfarið.
Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 13. október 2015 en umsókninni var synjað 2. febrúar 2016 á grundvelli e-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir hendi séu ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge.
Í e-lið 1. mgr. 6. gr. lge. komi fram að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi skuldari áður fengið samþykkta greiðsluaðlögun á síðustu þremur árum. Þó sé umboðsmanni skuldara heimilt að samþykkja umsókn í slíkum tilvikum ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Í athugasemdum við lagaákvæðið komi fram að sérstakar aðstæður geti einkum verið fyrir hendi ef eitt af eftirfarandi á við: Skuldari hafi ratað í greiðsluerfiðleika á nýjan leik sökum veikinda eða aldurs, samningur hafi frá upphafi verið óraunhæfur, skuldari ljúki greiðsluaðlögunartímabili og standi við nauðasamning sinn en vegna þess að samningurinn hafi verið ófullnægjandi sé hann enn í slíkum vanda að ljóst sé að hann muni um fyrirsjáanlega framtíð enn vera ófær um að standa við skuldbindingar sínar.
Kærandi hafi áður fengið samþykkta greiðsluaðlögun en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 4. júlí 2012 var fyrri umsókn kæranda um greiðsluaðlögun samþykkt og 6. desember 2013 tók gildi samningur hans við þáverandi kröfuhafa. Samkvæmt samningnum hafi kærandi ekki átt að greiða neitt en fasteign í hans eigu skyldi seld og áhvílandi kröfur greiddar með söluandvirði eignarinnar. Kærandi hafi haft tímabilið 6. desember 2013 til 6. maí 2014 til að selja og hafi veðhafar skuldbundið sig til að veita honum greiðslufrest á meðan. Um kröfur Íbúðalánasjóðs, sem ekki myndu fást greiddar við söluna, hafi átt að fara í samræmi við reglugerð nr. 359/2010 um meðferð krafna sem glatað hafa veðtryggingu. Í því hafi meðal annars falist að sjóðurinn hafi skuldbundið sig til að innheimta ekki kröfurnar. Aðrir veðkröfuhafar hafi átt að veita kæranda fulla eftirgjöf þeirra krafna sem ekki fengjust greiddar við söluna. Kauptilboð hafi borist í eignina 4. febrúar 2014 en kærandi hafi neitað að samþykkja það. Kærandi hafi þannig vanefnt greiðsluaðlögunarsamninginn.
Eins og fram er komið hafi kærandi á ný sótt um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 13. október 2015. Með bréfi 13. nóvember 2015 hafi hann verið upplýstur um að ástæða virtist vera til að synja umsókn hans um greiðsluaðlögun á grundvelli e-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem minna en þrjú ár væru frá því að hann hefði áður fengið greiðsluaðlögun samþykkta og ekki virtust sérstakar aðstæður fyrir hendi í skilningi ákvæðisins. Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kæranda verið gefið færi á því að andmæla. Í svari kæranda hafi komið fram að hann áliti greiðsluaðlögunarsamninginn frá 2013 hafa verið óraunhæfan. Hefði sala eignarinnar farið fram hefði allt söluverðið runnið til greiðslu áhvílandi veðkrafna og hann hefði þurft að fara á leigumarkað. Kærandi telji húsaleigu á almennum markaði hærri en mánaðarlegar afborganir þeirra veðkrafna sem hvíli á eigninni þó að tekið sé tillit til húsaleigubóta. Sem dæmi hafi meðal leiguverð á þriggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu árið 2014 verið 200.000 til 290.000 krónur samkvæmt könnun Neytendasamtakanna. Heildartekjur hans á tímabilinu hafi verið í kring um 200.000 krónur. Sala fasteignarinnar hefði þannig haft í för með sér enn frekari fjárhagserfiðleika og í framhaldinu gjaldþrot en það sé ekki í samræmi við markmið greiðsluaðlögunar, sbr. 1. gr. lge. Kærandi telur að hagsmuna hans hafi ekki verið gætt í fyrri samningi heldur aðeins hagsmuna kröfuhafa.
Greiðsluaðlögunarsamningur kæranda frá 2013 hafi falið í sér að hann hefði ekki þurft að greiða af þeim kröfum sem greiðsluaðlögun tók til, hefði hann selt fasteign sína. Hann hefði þó þurft að greiða að fullu þær skuldir sem staðið hafi utan greiðsluaðlögunarsamnings samkvæmt 1. mgr. 3. gr. lge.
Til að skuldari haldi eftir veðsettri eign í greiðsluaðlögun þurfi hann að greiða fastar mánaðargreiðslur af þeim veðkröfum sem séu innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Þar komi einnig fram að fastar mánaðarlegar greiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla megi samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir viðkomandi eign. Geta kæranda til að greiða af veðkröfum hafi numið 2.063 krónum samkvæmt greiðsluaðlögunarsamningnum frá 2013. Samkvæmt því hafi sá möguleiki ekki verið fyrir hendi að leggja til að kærandi héldi eftir fasteign sinni.
Samkvæmt ofangreindu verði að telja að með greiðsluaðlögunarsamningi frá 2013 hafi verið gengið eins langt og unnt hafi verið við að leysa greiðsluerfiðleika kæranda að teknu tilliti til þeirra takmarkana sem felist í 1. mgr. 3. gr. og a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Með hliðsjón af því sé hvorki hægt að líta svo á að samningurinn hafi verið óraunhæfur né ófullnægjandi í skilningi orðalagsins „sérstakar aðstæður“, sbr. e-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Að mati umboðsmanns skuldara beri enn fremur að skýra orðalagið þröngt, enda sé það undanteking frá meginreglunni um að ekki megi samþykkja greiðsluaðlögun á ný hafi skuldari fengið samþykkta greiðsluaðögun á síðustu þremur árum. Með vísan til þessa verði ekki taldar fyrir hendi sérstakar aðstæður sem réttlæti frávik frá meginreglu e-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Umsókn kæranda um greiðsluaðlögun hafi því verið synjað.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á e-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Í e-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari áður fengið samþykkta greiðsluaðlögun á síðustu þremur árum. Þó er umboðsmanni skuldara heimilt að samþykkja umsókn í slíkum tilvikum ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.
Í athugasemdum með 6. gr. lge. kemur fram að hér sé einkum miðað við þau tilvik þar sem skuldari hefur ratað í greiðsluerfiðleika á nýjan leik sökum veikinda eða aldurs. Ljóst sé að nauðasamningar um greiðsluaðlögun hafi fengið misjafna meðferð hjá umsjónarmönnum og í einhverjum tilvikum hafi skuldari ekki náð að standa við nauðasamning vegna þess að hann var óraunhæfur frá upphafi. Einnig hafi verið mismunandi hvernig farið skyldi með kröfur að loknu greiðsluaðlögunartímabili samkvæmt þágildandi lögum. Því geti farið að í einhverjum tilvikum þurfi að endurmeta þá samninga sem gerðir hafa verið á grundvelli eldri laga. Sé ljóst að samningur hafi frá upphafi verið óraunhæfur verði að telja að um sérstakar aðstæður hafi verið að ræða. Þá séu einnig sérstakar aðstæður fyrir hendi hjá skuldara sem ljúki greiðsluaðlögunartímabili og standi við nauðasamning sinn, en sé þá vegna ófullnægjandi nauðasamnings enn í slíkum vanda að ljóst sé að hann verði um fyrirsjáanlega framtíð enn ófær um að standa við skuldbindingar sínar.
Kærandi fékk samþykkta svokallaða 110% leið og fékk nokkra niðurfærslu veðskulda. Eftir það gerði hann greiðsluaðlögunarsamning við kröfuhafa, en í málinu liggur fyrir samningur til greiðsluaðlögunar frá 6. desember 2013. Samkvæmt samningnum var fjárhagur kæranda eftirfarandi í krónum:
Tekjur | 176.099 |
Framfærslukostnaður | 174.036 |
Mánaðarleg greiðslugeta | 2.063 |
Í samningnum var gert ráð fyrir að kærandi seldi íbúð sína að B. Lengd greiðsluaðlögunartímabils væri sex mánuðir eða allt þar til íbúð kæranda seldist. Kærandi skyldi ekki inna af hendi neinar greiðslur á samningstíma. Kröfuhafar samþykktu að gefa eftir kröfur utan söluverðs fasteignarinnar, nema Íbúðalánasjóður vegna kröfu að fjárhæð um 3.500.000 króna en farið skyldi með þá kröfu samkvæmt reglugerð nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem hafa glatað veðtryggingu. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar aðhefst sjóðurinn ekki frekar við innheimtu slíkra krafna. Skuldari getur hvenær sem er greitt inn á kröfuna og er Íbúðalánasjóði heimilt að fella niður af kröfunni sömu fjárhæð og greidd er við hverja greiðslu. Með því teljist krafa að fullu greidd þegar skuldari hefur greitt helming hennar. Samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar er stjórn sjóðsins heimilt að afskrifa kröfurnar. Að því er varðar kröfur sem glatað hafa veðtryggingu á grundvelli samnings um sértæka skuldaaðlögun skuli þær afskrifaðar að loknum samningstíma, enda hefði skuldari staðið við greiðslur samkvæmt samningi.
Kröfur á hendur kæranda utan greiðsluaðlögunar voru alls að fjárhæð 2.357.560 krónur og skyldi kærandi greiða þær í samræmi við ákvæði lge. Allar samningskröfur, samtals að fjárhæð 5.566.325 krónur, skyldu felldar niður að greiðsluaðlögunartímabili loknu.
Nú telur kærandi samninginn sem hann gerði 6. desember 2013 hafa verið óraunhæfan og hagsmuni kröfuhafa verið tekna framar hans eigin hagsmunum.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið um síðari málslið e-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. eru lögskýringargögn um lagaákvæðið byggð á því að ákvæðið feli í sér undanþágu frá þeirri meginreglu að synja beri umsókn skuldara um greiðsluaðlögun hafi hann fengið samþykkta greiðsluaðlögun eða nauðasamning til greiðsluaðlögunar á síðustu þremur árum fyrir umsóknardag. Í athugasemdum eru aðallega tiltekin þrjú tilvik þar sem undanþáguákvæðið á við. Í fyrsta lagi ef skuldari hefur ratað í greiðsluerfiðleika á ný sökum veikinda eða aldurs eftir að hafa áður gert samning til greiðsluaðlögunar. Í öðru lagi ef skuldari er enn í greiðsluvanda þótt hann hafi staðið við fyrri samning og í þriðja lagi ef samningur hefur verið óraunhæfur. Í málinu liggur fyrir að aðstæður kæranda eru ekki nýlega tilkomnar og kærandi stóð ekki við fyrri greiðsluaðlögunarsamning. Eftir stendur þá mat á því hvort fyrri greiðsluaðlögunarsamningur var óraunhæfur.
Af athugasemdum með e-lið 1. mgr. 6. gr. lge. með greinargerð í frumvarpi til lge. má ráða að tilgangur ákvæðisins sé meðal annars sá að stuðla að samræmi í afgreiðslu greiðsluaðlögunarsamninga. Einnig verður að hafa í huga að markmið lge. er að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Í tilviki kæranda liggur fyrir að samkvæmt fyrrnefndum greiðsluaðlögunarsamningi hans frá 6. desember 2013 skyldi hann fá umtalsverðar niðurfellingar krafna auk þess sem sú krafa Íbúðalánasjóðs, sem glatað hafði veðtryggingu, yrði ekki innheimt hjá kæranda samkvæmt reglugerð nr. 359/2010 og gerð hefur verið grein fyrir.
Hér verður að hafa í huga að á sínum tíma óskaði kærandi sjálfur eftir því að gera greiðsluaðlögunarsamning við kröfuhafa. Í ljósi fjárhags kæranda tók umsjónarmaður ákvörðun um að selja skyldi fasteign þess fyrrnefnda, sbr. 13. gr. lge. Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í slíkum tilvikum að selja þá eign sem veðsett er til að létta á greiðslubyrði skuldara vegna fasteignaveðkrafna. Greiðsluaðlögun miðar eðli málsins samkvæmt að því að laga skuldir að greiðslugetu og er þar ekki gert ráð fyrir að kostnaður af húsaleigu til framtíðar hafi áhrif á gerð greiðsluaðlögunarsamninga, enda standa lagaskilyrði ekki til þess. Í tilviki kæranda skyldu skuldir að fjárhæð rúmlega 9.000.000 króna ýmist afskrifaðar eða látið hjá líða að innheimta þær. Að auki hafði kærandi áður fengið felldar niður fasteignaveðkröfur samkvæmt svokallaðri 110% leið áður en hann gerði greiðsluaðlögunarsamninginn í desember 2013.
Í ljósi alls þessa er fallist á það með umboðsmanni skuldara að með fyrrnefndum greiðsluaðlögunarsamningi hafi verið gengið eins langt og unnt var í að leysa greiðsluvanda kæranda á grundvelli ákvæða lge.
Samkvæmt þessu verður því að líta svo á að undanþáguákvæði síðari málsliðar e-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. eigi ekki við í máli kæranda og að umboðsmanni skuldara hafi því borið að synja honum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara, um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal