Mál nr. 91/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 91/2016
Miðvikudaginn 12. október 2016
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Þann 25. febrúar 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. febrúar 2016 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 29. febrúar 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. mars 2016.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. mars 2016 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 25. mars 2016. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 30. mars 2016 og óskað eftir sjónarmiðum embættisins. Embættið taldi ekki ástæður til að gera frekari athugasemdir.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi er fæddur 1952. Hann er einhleypur og býr ásamt tveimur uppkomnum sonum sínum í eigin íbúð að B, sem er 78,9 fermetrar að stærð.
Kærandi er með rekstur í eigin nafni og reiknar sér endurgjald.
Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 39.910.078 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2006.
Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans allt aftur til ársins 1996 en á þeim tíma hafi hann staðið í skilnaði. Hann hafi einnig átt við veikindi að stríða og af þeim sökum verið óvinnufær. Kærandi hafi orðið gjaldþrota árið 2000. Eftir að hafa misst atvinnuna árið 2008 hafi hann ekki getað staðið í skilum.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 17. febrúar 2015 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hans.
Með bréfi til umboðsmanns skuldara 30. júní 2015 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður.
Í bréfinu er því lýst að kærandi hafi samkvæmt gögnum málsins haft til ráðstöfunar 169.422 krónur á mánuði. Framfærslukostnaður hans sé 146.019 krónur og því eigi hann 23.403 krónur á mánuði aflögu til að greiða af skuldbindingum sínum. Hjá kæranda búi X og X ára synir hans og greiði þeir mánaðarlega 100.000 krónur til heimilisins. Að þeim greiðslum meðtöldum hafi kærandi 123.403 krónur til ráðstöfunar í mánuði hverjum að teknu tilliti til framfærslukostnaðar.
Kærandi eigi íbúð að B. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignaskrá sé fasteignamat eignarinnar 25.300.000 króna fyrir árið 2015. Samkvæmt verðmati sem kærandi hafi lagt fram sé verðmæti eignarinnar 25.000.000 króna. Á eigninni hvíli tvö lán. Þau séu samtals að fjárhæð 29.368.098 krónur og mánaðarleg afborgun af þeim nemi 160.222 krónum. Sé gert ráð fyrir að eignin sé metin á 25.000.000 króna sé afborgun innan matsverðs eignarinnar 123.855 krónur á mánuði.
Fram komi í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. að ef skuldari heldur eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíli á skuli hann greiða fastar mánaðargreiðslur af þeim veðkröfum sem séu innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Í 3. mgr. 16. gr. lge. komi fram að frumvarp umsjónarmanns skuli vera á þann veg að framfærsla skuldara og fjölskyldu hans sé tryggð og að raunhæft megi telja að öðru leyti að hann geti staðið við skuldbindingar sínar, endurskipulagt fjármál sín og komið á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu. Þá sé kveðið á um það í 13. gr. lge. að umsjónarmaður geti ákveðið að selja skuli þær eignir sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í athugasemdum við 13. gr. lge. komi meðal annars fram að við mat á því hvort selja skuli eignir beri að líta til þess hvort skuldari geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun ljúki. Með tölvupósti 21. maí 2015 hafi verið óskað eftir afstöðu kæranda til sölu eignarinnar þar sem það hafi verið mat umsjónarmanns að kærandi gæti ekki greitt af eigninni til framtíðar, sbr. 13. gr. lge. Á fundi umsjónarmanns og kæranda í kjölfarið hafi umsjónarmaður ítrekað afstöðu sína.
Umsjónarmaður telur ekki raunhæft að gera ráð fyrir að synir kæranda greiði til heimilisins til framtíðar. Að framlagi þeirra frádregnu muni greiðslugeta kæranda ekki duga til greiðslu á veðkröfum innan matsverðs og markmiðum greiðsluaðlögunar verði því ekki náð. Þessi niðurstaða sé í samræmi við úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 156/2012. Það sé því afstaða umsjónarmanns að leggja verði til sölu á fasteign kæranda, sbr. 13. gr. lge. Með tölvupósti 29. júní [2015] hafi kærandi greint frá því að hann legðist gegn sölu á eigninni þar sem hann teldi það ekki lausn á vanda sínum.
Með vísan til þessa var umboðsmanni skuldara tilkynnt að umsjónarmaður teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun samkvæmt lge. væri heimil. Því legði hann til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr., sbr. 1. og 5. mgr. 13. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 7. janúar 2016 þar sem honum var kynnt tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans. Kæranda var jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar. Kærandi svaraði með bréfi 14. janúar 2015.
Með bréfi til kæranda 10. febrúar 2016 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi fer þess á leit að gengið verði frá greiðsluaðlögun hjá Embætti umboðsmanns skuldara. Skilja verður þetta svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærandi kveðst hafa lagt til hliðar 115.000 krónur á mánuði á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Einnig hafi hann greitt fasteignagjöld og tryggingar vegna fasteignar sinnar eða alls 138.400 krónur á mánuði. Kærandi telur þetta raunverulega greiðslugetu sína og rétt sé að miða við hana þegar metið sé hvort hann hafi bolmagn til að greiða af fasteign sinni.
Synir kæranda standi með honum. Flytti annar þeirra eða báðir að heiman gæti hann selt eignina og tekið á leigu litla íbúð eða herbergi. Sala eignarinnar myndi á hinn bóginn ekki leysa vanda hans miðað við núverandi aðstæður þar sem húsaleiga væri hærri en mánaðarlegar greiðslur af veðkröfum.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Kærandi hafi ekki samþykkt sölu á íbúð sinni þrátt fyrir að umsjónarmaður telji nauðsynlegt að selja íbúðina í greiðsluaðlögunarferli. Fasteignamat ársins 2013 fyrir íbúðina sé 25.150.000 krónur en fasteignamat ársins 2016 sé 28.300.000 krónur. Samkvæmt bréfi umsjónarmanns séu afborganir innan matsverðs eignarinnar 160.222 krónur á mánuði en greiðslugeta kæranda 11.028 krónur. Kærandi kveðist hafa lagt til hliðar 115.000 krónur mánaðarlega á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana eða alls 1.400.000 króna. Að hans sögn munu synir hans aðstoða hann fjárhagslega til að greiða af veðkröfum.
Að mati Embættis umboðsmanns skuldara geti kærandi ekki staðið skil á afborgunum veðkrafna innan matsverðs fasteignar, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Fallist sé á mat umsjónarmanns um að nauðsynlegt sé að selja eignina og ekki verði talið raunhæft til framtíðar litið að synir kæranda greiði meirihluta afborgana af veðkröfum. Þá séu ekki taldar líkur á því að kærandi geti staðið straum af föstum mánaðargreiðslum veðkrafna innan matsverðs eignarinnar til frambúðar.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 13. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.
Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má að mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar, nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi.
Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði er almennt miðað við að hann verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði til frambúðar.
Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.
Í málinu liggur fyrir yfirlit yfir hreyfingar bankareiknins kæranda fyrir tímabilið 1. mars til 28. desember 2015, auk innleggskvittunar. Samkvæmt þessum gögnum hefur kærandi lagt inn á reikninginn 115.000 krónur mánaðarlega frá 2. mars 2015 til 4. janúar 2016. Innstæða á reikningnum nemur 1.271.544 krónum. Kærandi hefur einnig lagt fram launaseðla fyrir sjálfan sig og syni sína tvo vegna launa til greiðslu í desember 2015. Samkvæmt launaseðli kæranda frá 31. desember 2015 reiknar hann sér endurgjald vegna eigin reksturs. Endurgjald desembermánaðar 2015, að frádregnu iðgjaldi í lífeyrissjóð, er 168.000 krónur, en meðalendurgjald á mánuði fyrir árið 2015 er 126.000 krónur að frádregnu iðgjaldi í lífeyrissjóð. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi ekki aðrar tekjur. Mánaðarleg útgjöld kæranda miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara í janúar 2016 eru 144.974 krónur. Greiðslugeta kæranda samkvæmt þessu er 23.026 krónur á mánuði sé miðað við reiknað endurgjald desembermánaðar 2015 en neikvæð um 18.974 krónur á mánuði sé miðað við meðalendurgjald sama árs. Á þá eftir að greiða af fasteignaveðlánum innan matsverðs fasteignar.
Kærandi er eigandi íbúðar að B og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hvíla á eigninni veðlán að andvirði u.þ.b. 29.000.000 króna. Mánaðarleg greiðslubyrði af lánunum er rúmar 160.000 krónur. Matsverð eignarinnar er talið að minnsta kosti 25.000.000 króna. Greiðslur veðlána innan matsverðs eru því um 138.000 krónur (25.000.000/29.000.000 * 160.000). Samkvæmt því, sem þegar hefur verið rakið, hefur kærandi ekki ráð á því að greiða af veðlánum innan matsverðs, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge.
Tveir uppkomnir synir kæranda búa hjá honum og kærandi kveður þá greiða samtals 100.000 krónur á mánuði heim. Með þessum stuðningi sona sinna telur kærandi sig hafa greiðslugetu til að greiða af veðlánum innan matsverðs, um 138.000 krónur á mánuði.
Í málinu liggur fyrir svohljóðandi yfirlýsing frá 27. júní 2015 sem undirrituð er af sonum kæranda: „Við undirritaðir [...] og [...] höfum farið yfir samskipti föður okkar, [...] við umboðsmann skuldara. Það skal öllum vera ljóst að við bræður munum styðja föður okkar eins og við höfum gert, svo lengi sem hann þarf. Annað er óeðlilegt að okkar mati. Við höfum ríka hagsmuni af því, enda hans heimili einnig okkar heimili.“
Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki unnt að líta á fyrrnefnda yfirlýsingu sona kæranda sem viðhlítandi staðfestingu á því að þeir muni leggja honum til 100.000 krónur á mánuði til að greiða af veðlánum, enda kemur það ekki fram í yfirlýsingunni og engin gögn liggja fyrir í málinu um að synir kæranda hafi greitt honum nefnda fjárhæð mánaðarlega. Að því er varðar mánaðarlegan sparnað kæranda að fjárhæð 115.000 krónur, sem hann leggur inn á bankareikning sinn, verður ráðið af gögnum málsins að kærandi hafi sjálfur lagt þessa fjármuni til en ekki synir hans. Það er þó ekki í samræmi við fyrirliggjandi gögn um tekjur kæranda eða fjárhag hans að öðru leyti jafnvel þótt hann kveði þetta „raunverulega greiðslugetu“ sína. Að þessu leyti verður fjárhagur kæranda að teljast óljós.
Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum að selja þá eign sem veðsett er til að létta á greiðslubyrði skuldara vegna afborgana af fasteignaveðkröfum. Greiðsluaðlögun miðar eðli málsins samkvæmt að því að laga fyrirliggjandi skuldir að núverandi greiðslugetu skuldara og er þar ekki gert ráð fyrir að óviss kostnaður af húsaleigu til framtíðar hafi áhrif á samninga, enda standa lagaskilyrði ekki til þess.
Við þessar aðstæður verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður þar sem hann féllst ekki á að selja fasteign sína, sbr. 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal