Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 106/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 106/2016

Miðvikudaginn 12. október 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 14. mars 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 4. mars 2016 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 21. mars 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 27. apríl 2016.

Kærandi lagði fram viðbótargögn 30. júní 2016. Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 13. júlí 2016 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fæddur 1952. Hann bý ásamt eiginkonu sinni í fasteign hennar að B. Tekjur hans eru launatekjur og greiðslur frá lífeyrissjóðum.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 37.111.806 krónur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til veikinda.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 23. júní 2015 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. ágúst 2015 var honum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) og vísað til frekari upplýsinga á heimasíðu embættisins.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 23. október 2015 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. þar sem kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og látið hjá líða að leggja fyrir á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Í ágúst 2015 hafi kærandi fengið greiddan örorkulífeyri að fjárhæð 1.581.524 krónur afturvirkt vegna tímabilsins 1. ágúst 2013 til 31. júlí 2015. Af þeim ástæðum hafi greiðslugeta hans verið jákvæð í ágústmánuði 2015. Greiðslugeta kæranda hafi á hinn bóginn verið neikvæð bæði í september og október 2015 en einu tekjur hans þá mánuði hafi verið 76.326 krónur fyrir hvorn mánuð. Að mati umsjónarmanns hefði kærandi átt að leggja fyrir í ágúst 2015 þegar greiðslugeta hans var jákvæð, en það hafi hann ekki gert. Meðal annars samkvæmt þessu teldi umsjónarmaður að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 28. janúar 2016 var kæranda kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans. Kæranda var jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi svaraði með tölvupósti 30. janúar 2015.

Með bréfi til kæranda 4. mars 2016 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst staðfestingar á heimild til greiðsluaðlögunar. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi telur niðurstöðu umboðsmanns skuldara ranga. Þá er það mat hans að í málinu hafi ekki verið viðhafðir góðir stjórnsýsluhættir. Málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið fylgt en brotið hafi verið gegn málshraðareglu 9. gr. og meðalhófsreglu 12. gr.

Að því er varði málshraða vísar kærandi til 9. gr. stjórnsýslulaga þar sem segi að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt sé. Þar segi einnig að þegar fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni tefjast beri að skýra aðila máls frá því. Þá skuli upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta en þetta hafi ekki verið virt í máli hans.

Samkvæmt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga skuli stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmæltu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Þess skuli gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til.

Kærandi hafi veri óvinnufær frá X 2014 vegna veikinda og einu tekjur hans hafi verið endurhæfingarlífeyrir frá Tryggingastofnun. Kærandi hafi framfært sig með aðstoð eiginkonu sinnar. Vorið 2015 hafi hann sótt um örorkulífeyri hjá þeim lífeyrissjóðum þar sem hann átti réttindi og í lok júní sama ár hafi hann sótt um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Kærandi hafi síðan fengið tilkynningu frá umboðsmanni skuldara 19. ágúst 2015 um að búið væri að veita honum heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Ellefu dögum síðar hafi hann fengið fyrstu greiðslu örorkubóta frá lífeyrissjóðunum en það hafi verið eingreiðsla tvö ár aftur í tímann, ásamt greiðslu fyrir september 2015. Þessa fjármuni hafi hann afhent eiginkonu sinni sem innborgun inn á neikvæða framfærslugetu.

Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara 15. október 2015 sé mánaðarleg greiðslugeta kæranda neikvæð um 123.810 krónur. Að mati kæranda feli það ekkert annað í sér en skuldasöfnun. Kærandi hafi sent umboðsmanni skuldara hátt í eitt hundrað greiðslukvittanir til staðfestingar á því að eiginkona hans hafi staðið straum af framfærslukostnaði hans í lengri tíma. Að mati kæranda sé ekki eðlilegt að telja uppsafnaðar örorkubætur til tekna.

Frá því að umboðsmaður skuldara hafi samþykkt heimild kæranda til greiðsluaðlögunar og þar til ákvörðun um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana lá fyrir, hafi liðið sex og hálfur mánuður. Kærandi hafi á hinn bóginn aðeins fengið nokkra daga til að bregðast við fyrirspurnum umboðsmanns.

Á þeim tíma sem tekið hafi umboðsmann skuldara að komast að niðurstöðu í máli hans, þ.e. frá 19. ágúst 2015 til 4. mars 2016 hafi framfærslukostnaður hans verið neikvæður um 804.765 krónur (123.810 x 6,5 mán.), sé miðað við útreikninga umboðsmanns. Þetta sé nokkuð hærri fjárhæð en embættið telji að kærandi hafi átt að leggja fyrir.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 19. ágúst 2015 sem borist hafi kæranda með tölvupósti. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þær upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Kæranda hafi því vel mátt vera ljóst að hann skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hann hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í rúmlega 4 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. september 2015 til 31. janúar 2016. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, þar á meðal staðgreiðsluskrám og gögnum frá Tryggingastofnun, hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum.

Tekjur 1.568.247
ágúst - des. 2015
Meðaltekjur 392.062
á mán.
Framfærslukostn. 200.090
á mán.
Greiðslugeta 191.972
á mán.
Áætlaður 767.887
sparnaður

Í framangreindum útreikningum sé miðað við að unnt sé að leggja fyrir mismun meðaltekna og framfærslukostnaðar á mánuði. Sú fjárhæð sé nefnd greiðslugeta.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi verið 200.090 krónur á meðan hann hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag, þ.e. framfærslukostnað janúarmánaðar 2016 fyrir hjón, en gert sé ráð fyrir að kærandi hafi greitt helming þess kostnaðar. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi átt að geta lagt fyrir 767.887 krónur á fyrrnefndu tímabili.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kæranda með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almennan framfærslukostnað með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að honum sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir venjulegan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. séu lögð fram gögn þar um.

Gera verði þá kröfu til einstaklinga sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Kærandi hafi greint frá því að hann hafi greitt stóran hluta þeirra fjármuna sem hann átti að leggja til hliðar til eiginkonu sinnar en hún hefði að miklu leyti greitt framfærslukostnað hans undanfarin ár vegna lágra tekna hans. Kærandi hafi lagt fram reikninga og greiðslukvittanir sem sýni fram á þetta.

Kærandi kveðist hafa þurft að leggja út fyrir óvæntum kostnaði vegna lyfjakaupa og læknisþjónustu á tímabilinu. Þau gögn sem hann hafi framvísað vegna þessa skýri þó aðeins að hluta til hvers vegna hann hafi ekki lagt nægilega mikið fé til hliðar.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins telji umboðsmaður skuldara að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum í greiðsluskjóli. Því hafi greiðsluaðlögunarumleitanir hans verið felldar niður samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Það er mat kæranda að umboðsmaður skuldara hafi ekki viðhaft góða stjórnsýsluhættir í málinu. Málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið fylgt en brotið hafi verið gegn málshraðareglu 9. gr. og meðalhófsreglu 12. gr.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 23. júní 2015 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. ágúst 2015 var honum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Eftir þetta tók við athugun umsjónarmanns á málinu. Umboðsmaður skuldara fékk málið síðan til meðferðar frá umsjónarmanni, en með bréfi hins síðarnefnda til umboðsmanns skuldara 23. október 2015 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður. Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf þar að lútandi 28. janúar 2016 eða um þremur mánuðum síðar. Umboðsmaður skuldara felldi síðan niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda 4. mars 2016 eða rúmum mánuði eftir það.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. 15. gr. lge. kemur fram að ef umsjónarmaður tilkynnir umboðsmanni skuldara um upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil, skuli hann í kjölfarið taka afstöðu til málsins en þó gefa skuldara tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin. Sá tími sem umboðsmaður hefur til að taka afstöðu til tillögu umsjónarmanns er samkvæmt þessu ekki fyrirfram ákveðinn. Af orðalagi 1. mgr. 15. gr. má þó skilja að það verði að gera fljótlega. Í þessu tilviki liðu þrír mánuðir á milli tilkynningar umsjónarmanns og ákvörðunar umboðsmanns. Þó að æskilegt hefði verið, að mati úrskurðarnefndarinnar, að þessi tími væri styttri, er hann þó í ljósi aðstæðna ekki úr hófi og verður ekki séð að drátturinn hafi verið kæranda til tjóns eða haft áhrif á niðurstöðu málsins. Úrskurðarnefndin telur því að málshraðaregla 9. gr. stjórnsýslulaga hafi verið virt í málinu.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi 23. október 2015 lagði umsjónarmaður til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður, meðal annars á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi í framhaldinu greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 4. mars 2016.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem honum hafi verið unnt að leggja til hliðar á því tímabili sem hann naut greiðsluskjóls.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Kæranda bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var samþykkt hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærandi átt að leggja til hliðar 767.887 krónur frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt, eða allt frá 19. ágúst 2015 til 31. janúar 2016. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að hafa lagt neitt fyrir.

Hinn 31. ágúst 2015 fékk kærandi greiddan örorkulífeyri frá C lífeyrissjóði og Lífeyrissjóði D fyrir tímabilið ágúst 2013 til ágúst 2015 í eingreiðslu. Eingreiðslan náði 24 mánuði aftur í tímann, auk þess sem kærandi fékk greiðslu fyrir ágúst 2015, samtals 1.580.982 krónur eða að meðaltali 63.239 krónur fyrir hvern mánuð. Ráðstöfunartekjur kæranda á tímabilinu ágúst til desember 2015 að hinum eftir á greidda örorkulífeyri meðtöldum, voru alls 1.568.247 krónur en mismunur stafar af endurgreiddum ofgreiddum bótum. Samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara var mánaðarlegur framfærslukostnaður kæranda 200.090 krónur.

Þegar tekjur kæranda í greiðsluskjóli eru reiknaðar út verður að mati úrskurðarnefndarinnar að taka tillit til þess að fyrrnefndar greiðslur lífeyrissjóða voru fyrir liðinn tíma. Eins og mál þetta liggur fyrir telur úrskurðarnefndin að ekki sé unnt að gera kæranda að leggja til hliðar örorkulífeyri sem hann fékk greiddan 31. ágúst 2015 vegna undangenginna tveggja ára þó svo að greiðsla hafi verið innt af hendi í einu lagi eftir að greiðsluskjól hans hófst en skjólið hafði þá aðeins varað í um tvær vikur. Við útreikning á ráðstöfunartekjum kæranda er því eingreiðslu lífeyrissjóðs deilt niður á undangengna 24 mánuði og miðað við að hann hafi á tímabilinu ágúst 2013 til ágúst 2015 fengið greiddar 63.239 krónur á mánuði vegna örorkulífeyris. Ráðstöfunartekjur hans á tímabilinu ágúst til desember 2015 eru samkvæmt þessu eftirfarandi:

Örorkulífeyrir 316.196
ágúst - des. 2015
Örorkulífeyrir 63.239
á mán. meðaltal
Endurgreiðsla ofgreiddra -22.537
bóta á mán. meðaltal
Ráðstöfunartekjur 40.703
á mán. meðaltal
Framfærslukostnaður 200.090
á mán.
Greiðslugeta -159.387
á mánuði

Miðað við ofangreindar forsendur var greiðslugeta kæranda neikvæð á tímabili greiðsluskjóls og því ekki unnt að gera kröfu til þess að hann legði til hliðar svo sem gert var ráð fyrir í hinni kærðu ákvörðun.

Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin ekki á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan hann naut greiðsluskjóls. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málið sent til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara að nýju.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er felld úr gildi og málið lagt fyrir umboðsmann skuldara að nýju.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta