Mál nr. 147/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 147/2016
Miðvikudaginn 26. október 2016
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Þann 14. apríl 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 31. mars 2016 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.
Með bréfi 20. apríl 2016 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. maí 2016.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 13. júlí 2016 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærendur eru fædd 1982 og 1981 og búa í eigin fasteign að C.
Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 14.085.323 krónur.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. júní 2015 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.
Með bréfi til umboðsmanns skuldara 25. nóvember 2015 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður. Umsjónarmaður hafi verið í reglulegum tölvupóstsamskiptum við kærendur á tímabilinu ágúst til október 2015. Hann hafi sent kærendum tölvupóst 26. október 2015 þar sem meðal annars var óskað eftir upplýsingum um tekjur kæranda A og óvænt útgjöld kærenda á tímabili greiðsluaðlögunar. Þar sem svar hafi ekki borist hafi umsjónarmaður ítrekað beiðnina með tölvupóstum 2., 6. og 16. nóvember 2015. Í síðasta tölvupóstinum hafi kærendum verið veittur þriggja daga lokafrestur til að svara og leggja fram umbeðin gögn. Þar hafi jafnframt verið tekið fram að bærist svar ekki myndi umsjónarmaður beina málinu í niðurfellingarferli samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.). Engin svör hafi borist frá kærendum. Þá hafi umsjónarmaður hringt í kærendur 24. nóvember 2015 en ekki hafi náðst í þau.
Samkvæmt framangreindu væru komnar fram upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil, sbr. 1. mgr. 16. gr. lge. Umsjónarmaður leggi því til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði felldar niður á grundvelli 15. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 11. mars 2016. Þar var kærendum kynnt framkomið bréf umsjónarmanns frá 25. nóvember 2015 og þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn innan tilskilins frests áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar. Engin svör hafi borist frá kærendum.
Með bréfi til kærenda 31. mars 2016 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru þeirra þannig að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður verði felld úr gildi.
Á meðan að mál kærenda hafi verið til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara hafi verið gerð sú krafa til kærenda að þau myndu leggja fé til hliðar. Að mati kærenda hafi sú fjárhæð, sem þeim var reiknuð til framfærslu, verið óraunhæf. Ekki hafi verið tekið tillit til aðstæðna sem kærendur kveðast hafa fært góð rök fyrir.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til þess að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun er tekin.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu svo raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar í náinni framtíð. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. er skuldara skylt að hafa samráð við umsjónarmann við undirbúning frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun. Þær skyldur sem hvíli á skuldara samkvæmt 4. og 5. gr. lge. að því er varði upplýsingagjöf og framvísun gagna, hljóti eðli málsins samkvæmt að hvíla á honum þar til greiðsluaðlögunarsamningur komist á. Þetta eigi einkum við ef aðstæður breytist eða nýjar upplýsingar um fjárhag skuldara komi fram. Skuldara sé þannig skylt að veita upplýsingar um fjárhag sinn óski umsjónarmaður eða umboðsmaður skuldara eftir því.
Í samræmi við ákvæði 1. mgr. 16. gr. lge. og eðli málsins samkvæmt sé ekki mögulegt að halda áfram greiðsluaðlögunarumleitunum standi vilji kærenda ekki til þess. Umsjónarmaður hafi ítrekað reynt að fá frekari gögn og upplýsingar frá kærendum en án árangurs. Umsjónarmaðurinn hafi tiltekið skýrt hvaða upplýsingar vantaði til að unnt væri að halda vinnslu málsins áfram, en það hafi meðal annars verið upplýsingar um tekjur annars kærenda og hvaða fjárhæð þau hefðu lagt til hliðar af launum og öðrum tekjum á tímabili frestunar greiðsla, svokallaðs greiðsluskjóls. Slíkar upplýsingar verði að liggja fyrir svo að hægt sé að gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun.
Að framangreindu virtu hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge. Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. skal umsjónarmaður eins fljótt og auðið er eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Frumvarpið skal samið í samráði við skuldara.
Í máli þessu telur umsjónarmaður að skort hafi á samstarfsvilja kærenda þar sem þau hafi látið hjá líða að leggja fram gögn til staðfestingar á upplýsingum sem óskað hafi verið eftir í október 2015.
Í samskiptum við umsjónarmann í september 2015 greindu kærendur frá því að kærandi A hefði misst vinnu sína hjá D en væri að vinna sjálfstætt sem [...] Tekjur hennar yrðu því mjög óreglulegar en búist væri við því að hún fengi 120.000 til 160.000 krónur greiddar í september 2016. Í tölvupósti umsjónarmanns til kærenda 21. október 2015 kom fram að upplýsingar vantaði um tekjur kæranda A vegna októbermánaðar sama ár. Spurt var um tekjurnar þann mánuð og hverjar þær yrðu næstu mánuði á eftir. Í svari kærenda frá 25. október 2015 var greint frá því að kærandi A yrði ekki með neinar tekjur næstu mánaðarmót og óljóst væri með mánaðamótin þar á eftir.
Umsjónarmaður sendi kærendum tölvupóst 26. október 2015. Þar var greint frá því að kærendur þyrftu að leggja fram gögn vegna tiltekinna óvæntra útgjalda sem þau hefðu orðið að leggja út fyrir á tímabili greiðsluskjóls. Einnig var óskað svara við því hvort kærandi A hefði tök á að fá greiddar atvinnuleysisbætur þar sem hún yrði tekjulaus. Tekjur hennar yrðu að liggja fyrir svo unnt væri að halda vinnslu málsins áfram. Umsjónarmaður sendi kærendum ítrekanir 2., 6. og 16. nóvember 2015 með tölvupósti. Í ítrekun 16. nóvember 2015 gaf umsjónarmaður kærendum þriggja daga frest til að leggja fram umbeðin gögn og veita þær upplýsingar sem óskað hefði verið eftir. Engin gögn bárust frá kærendum.
Með tölvupósti til kærenda 25. nóvember 2015 greindi umsjónarmaður kærendum frá því að hann hefði sent málið til baka til umboðsmanns skuldara með tilkynningu um að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil. Einnig voru í tölvupóstinum leiðbeiningar um framhald málsins. Engin svör bárust frá kærendum.
Samkvæmt þessu hafa kærendur ekki lagt fram þau gögn sem eru nauðsynleg til að sýna fram á hverjar tekjur þeirra eru. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda byggir greiðsluaðlögun öðrum þræði á því að skuldari greiði af skuldum sem hann hefur stofnað til að því marki sem hann getur. Af þessum sökum er nauðsynlegt að tekjur skuldara liggi ljósar fyrir, ella er ekki mögulegt að leggja mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt til kröfuhafa á grundvelli samnings um greiðsluaðlögun.
Í 4. tölulið 1. mgr. 4. gr. lge. kemur fram að með umsókn um greiðsluaðlögun skuli skuldari greina frá því hverjar tekjur hans séu. Þá segir í 1. mgr. 5. gr. lge. að skuldari skuli staðfesta upplýsingar með skriflegum gögnum að kröfu umboðsmanns skuldara. Í 2. mgr. 5. gr. segir að umboðsmaður skuldara skuli afla frekari upplýsinga sem hann telji að skipt geti máli, meðal annars um tekjur skuldara. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. verður frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun ekki samið nema í samráði við skuldara og er ljóst að atbeina hans þarf til að svo megi verða. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er rakið hvað skuli taka fram í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun, meðal annars að tiltaka skuli viðeigandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag skuldara og greiðslugetu, meðal annars upplýsingar um tekjur, skuldir, eignir og mánaðarleg útgjöld. Kærendur veittu ekki þann atbeina sem nauðsynlegur var í þessu tilliti, en létu hjá líða að upplýsa um tekjur sínar, eins og þeim er skylt að gera samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. en þær upplýsingar sem kærendur höfðu veitt um tekjur kæranda A fram að því höfðu verið óljósar. Ekki lágu því fyrir fullnægjandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu kærenda vegna frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 16. gr. lge. Í þessu ljósi verður að telja að skort hafi á samstarfsvilja kærenda í málinu.
Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 15. gr., sbr. 4. tölul. 1. mgr. 4. gr., 1. og 2. mgr. 5. gr. og 1. og 2. mgr. 16. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal