Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 179/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 179/2016

Miðvikudaginn 14. september 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 9. maí 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. apríl 2016 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 26. maí 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 31. maí 2016.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 1. júní 2016 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 28. júlí 2016. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 29. júlí 2016 og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 11. ágúst 2016. Hún var send kærendum með bréfi 16. ágúst 2016 og þeim gefinn kostur á að koma að andmælum. Frekari andmæli bárust ekki.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1969 og 1965. Þau eru gift og búa á C. Meðfram [...] hafa kærendur unnið önnur störf.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra allt aftur til ársins 1985 er þau keyptu sér íbúðarhúsnæði en lán hafi hækkað mjög vegna verðbólgu. Árið 1989 [...] en misstu [...] árið 1996 vegna mikilla skulda. Eftir þetta hafi kærendur flust á C en þau hafi stofnað til töluverðra skulda til að [...]. Allt frá upphafi hafi verið mikill halli á rekstri [...].

Samkvæmt skattframtali ársins 2015 eru skuldir kærenda vegna [...] 24.273.929 krónur og aðrar skuldir 27.739.269 krónur. Alls nema skuldir þeirra því 52.013.198 krónum.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. júlí 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Heimildin var felld niður 6. nóvember 2013, meðal annars þar sem umbeðin gögn höfðu ekki borist. Kærendur kærðu ákvörðun um niðurfellingu til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Undir málsmeðferð hjá kærunefndinni lögðu kærendur fram nauðsynleg gögn og því afturkallaði umboðsmaður skuldara ákvörðun sína um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana 2. mars 2015. Málið fór því aftur til efnismeðferðar hjá umboðsmanni og nýr umsjónarmaður var skipaður.

Með bréfi nýs umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 18. júní 2015 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Kærendur hefðu stofnað til nýrra skulda á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, andstætt fyrirmælum d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Þá hefðu þau notað söluandvirði persónulegra eigna sinna til að greiða stofnhlutafé í félaginu D. Með þessu hafi þau látið af hendi eignir og verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla og þar með brotið gegn ákvæðum c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Einnig teldist fjárhagur kærenda óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 28. desember 2015 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Andmæli kærenda bárust 8. febrúar 2016.

Með bréfi til kærenda 18. apríl 2016 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Þess er krafist að úrskurðarnefndin ógildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar.

Kærendur gera athugasemdir við málsmeðferð umboðsmanns skuldara. Þá telja þau að embættið hafi vanrækt leiðbeiningarskyldu sína samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda B hafi ekki verið kunnugt um að háttsemi kæranda A gæti haft áhrif á rétt hans til greiðsluaðlögunar, enda beri hvort hjóna ábyrgð á eigin skuldbindingum. Kærandi B geri athugasemd við að umboðsmaður hafi ekki leiðbeint honum um þýðingu þess að hann sækti sameiginlega um greiðsluaðlögun með kæranda A. Embættið hafi heldur ekki gefið kæranda B kost á því að skilja umsókn sína frá umsókn kæranda A.

Persónuleg virðisaukaskattskuld kæranda B sé 168.275 krónur miðað við 8. desember 2015 og nemi 0,22% af heildarskuldum hans en ekki 4,3% eins og umboðsmaður skuldara haldi fram. Sú skuld geti ekki talist umtalsverð miðað við fjárhag hans, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Kærandi B sé ekki persónulega ábyrgur fyrir skuldum félaganna E, F og/eða D á opinberum gjöldum. Hæstu skuldirnar, eða 89%, séu vegna E. Félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota en skiptum sé ekki lokið. Kærendur telja að lausafjármunir og viðskiptakröfur félagsins eigi að duga til greiðslu krafna.

Kærendur gera athugasemdir við að umboðsmaður skuldara reikni greiðslugetu þeirra neikvæða um 13.622 krónur og setji það í samhengi við skuldir sem eigi undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Að mati kærenda sé framsetning embættisins villandi, bæði varðandi meðaltekjur og framtíðartekjur kærenda, sem verði til þess að skuldir samkvæmt lagaákvæðinu virðist nema meiru miðað við fjárhag þeirra.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Samkvæmt d-lið lagaákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir, sem refsing liggi við, girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Þessi skilningur hafi meðal annars verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Fyrir liggi að félög tengd kærendum skuldi virðisaukaskatt og staðgreiðslu launagreiðanda. Samkvæmt gögnum frá fyrirtækjaskrá gegni kærendur ábygðarstöðum í Fsf. Þá sé kærandi A framkvæmdastjóri félagsins E ehf. en félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota X 2014. Kærandi A sé einnig framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í D ehf. Loks skuldi kærandi B persónulega virðisaukaskatt. Ofangreindar skuldir séu sem hér greinir í krónum:

Kærandi B Staða gjalda 8.12.2015 Staða gjalda 8.4.2016
Virðisaukaskattur
2012 24.100
2013 5.000
2015 139.175 310.375
Alls: 168.275 310.375
F sf. Staða gjalda 8.12.2015 Staða gjalda 8.4.2016
Virðisaukaskattur
2013 10.000 10.000
2014 15.000 15.000
Alls: 25.000 25.000
E ehf. Staða gjalda 8.12.2015 Staða gjalda 8.4.2016
Staðgreiðsla launagreiðanda
2013 2.464.570 2.556.949
2014 151.125 156.785
Alls: 2.615.695 2.713.734
Virðisaukaskattur
2014 201.759 209.886
Alls: 2.817.454 2.923.620
D ehf. Staða gjalda 8.12.2015 Staða gjalda 8.4.2016
Virðisaukaskattur
2015 171.509 178.526
Alls gjöld er varða refsiábyrgð 3.182.238 3.437.521

Fjárhæð þessara vangoldnu gjalda þyki, með hliðsjón af fjárhag þeirra, svo há að óhæfilegt sé að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.

Á kærendum hvíli sú skylda sem tilgreind sé í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá skuli fyrirsvarssmaður félags hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisvist, sbr. 1. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Þær skuldir sem vísað sé til í þessu samhengi séu vangoldnir vörsluskattar, nánar tiltekið virðisaukaskattur og staðgreiðsla launagreiðanda. Stærstan hluta skuldanna megi rekja til E ehf. sem nú sé undir gjaldþrotaskiptum. Kærendur hafi andmælt því að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra verði felldar niður, meðal annars á þeim forsendum að eignir þrotabúsins hrökkvi fyrir skuldum. Umboðsmaður hafi leitað eftir staðfestingu þessa efnis hjá skiptastjóra félagsins en staðfesting hafi ekki fengist. Ekki þyki fært að bíða með málið lengur sökum þessa en taka verði mið af fyrirliggjandi gögnum við mat á umsókn kærenda.

Þegar metið er hvort aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. séu fyrir hendi sé litið heildstætt á eigna- og skuldastöðu og tekjur og greiðslugetu skuldara. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nemi eignir kærenda 3.966.435 krónum en skuldir 79.993.194 krónum. Eignastaða kærenda sé því neikvæð um 76.026.759 krónur. Skuldir sem kærendur beri ábyrgð á vegna fyrrnefndra vörsluskattskulda nemi 3.437.521 krónu, sem telja verði allháa fjárhæð, en þær nemi um 4,3% af heildarskuldum kærenda.

Mánaðarleg greiðslugeta kærenda sé neikvæð um 13.622 krónur og sé þá reiknað út frá meðaltali tekna janúar til mars 2016 og framfærslukostnaði samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara vegna apríl 2016 fyrir fjögurra manna fjölskyldu, auk upplýsinga um framfærslukostnað frá kærendum sjálfum. Að mati embættisins séu skuldir sem falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. verulegar miðað við fjárhag kærenda og því ekki hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærendur geri athugasemd við að neikvæð greiðslugeta þeirra sé sett í samhengi við skuldir sem eigi undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. en það telji þau villandi og ekki gefa rétta mynd af framtíðartekjum þeirra. Umboðsmaður fái upplýsingar um tekjur úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og frá Tryggingastofnun ríkisins. Ekki sé unnt að taka mið af framtíðartekjum við mat á greiðslugetu þar sem ekki sé vitað hverjar þær verði. Embættið geti því ekki miðað við annað en þær upplýsingar sem nú liggi fyrir um tekjur kærenda.

Kærendur telja umboðsmann skuldara hafa látið hjá líða að sinna leiðbeiningarskyldu samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gagnvart þeim. Nánar tiltekið hafi embættið ekki upplýst þau um afleiðingar þess að þau sæktu um greiðsluaðlögun saman, en þau hefðu einnig getað sótt um sitt í hvoru lagi eða skilið umsóknirnar að við meðferð málsins.

Samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga skuli stjórnvald veita þeim er til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiði að stjórnvaldi beri að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði svo sem að gera aðila viðvart hafi hann ekki skilað nauðsynlegum gögnum eða veitt nægilega ítarlegar upplýsingar. Engar formkröfur séu gerðar til leiðbeiningarskyldu þannig að leiðbeiningar geti verið skriflegar eða munnlegar, almennar eða sérstakar. Til dæmis geti leiðbeiningar verið settar fram í bæklingum frá stjórnvaldi, auglýsingum eða á vefsíðum. Einnig sé talið að stjórnvaldi sé skylt að veita leiðbeiningar um þær réttarreglur sem á reyni.

Í málinu liggi fyrir að kærandi A hafi borið ábyrgð á greiðslu vörsluskatta félaganna E ehf. og D ehf. en hún hafi verið fyrirsvarsmaður félaganna, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Með því að láta hjá líða að sjá til þess að félögin skiluðu virðisaukaskatti og staðgreiðslu launagreiðanda hafi hún bakað sér skuldbindingu í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Samanlögð fjárhæð opinberra gjalda er varði refsiábyrgð beggja kærenda nemi 3.437.521 krónu. Þar af nemi gjöld sem eingöngu séu á ábyrgð kæranda A alls 3.102.146 krónum.

Kærendur hafi sótt sameiginlega um greiðsluaðlögun svo sem þeim hafi verið heimilt samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge. Þeim hafi í sameiningu verið veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. júlí 2011. Í greinargerð með frumvarpi til lge. komi fram að heimild til að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge. sé ætluð þeim sem séu í einhverjum mæli ábyrgir fyrir skuldum hvors annars. Eigi hjón eða sambýlisfólk veðtryggða fasteign í óskiptri sameign sé eðlilegt að þau leiti greiðsluaðlögunar í sameiningu, enda úrræðið háð því að eigandi geti ekki greitt af áhvílandi veðskuldum. Séu auk þess horfur á að sameiginleg greiðsluaðlögun leiði til þess að málsmeðferð og framkvæmd greiðsluaðlögunar megi einfalda með þessum hætti sé slíkt heimilt. Þar sem kærendur hafi leitað greiðsluaðlögunar í sameiningu hafi verið tekin afstaða til umsóknar þeirra út frá þeim forsendum. Það komi þó ekki í veg fyrir að kærandi B geti leitað greiðsluaðlögunar sem einstaklingur.

Kærendur hafi búið á C frá árinu X og greiði [...] leigu fyrir [...]. Auk þess greiði þau fasteignagjöld af [...]. Kærendur hafi [...] vegna fjármögnunar á uppbyggingu og endurbótum á C. Kærandi B sé skráður greiðandi þriggja lána frá árunum 2002 og 2004 sem tryggð séu með veði C. Fjárhæð lánanna nemi nú 14.112.057 krónum og hafi þau verið í vanskilum frá árinu 2006. Kærandi A sé skuldari láns frá 2006 hjá Íslandsbanka sem einnig sé tryggt með veði í C. Fjárhæð lánsins nemi nú 13.605.060 krónum og hafi það verið í vanskilum frá 2008.

Skuldir kærenda skiptist þannig að 3% séu sameiginlegar skuldir þeirra, 64% séu skuldir kæranda B og 33% séu skuldir kæranda A. Í ljósi sameiginlegra fjárhagslegra hagsmuna kærenda vegna [...], fjárhæðar vörsluskattskulda kæranda A og neikvæðrar greiðslugetu kærenda, hvort sem litið sé til greiðslugetu þeirra saman eða sitt í hvoru lagi, liggi fyrir að greiðsluerfiðleikar kærenda verði ekki leystir með því að aðskilja umsóknir þeirra. Þá sé vísað til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 7/2012 en þar hafi umsókn um greiðsluaðlögun verið synjað vegna refsiverðra gjalda annars kæranda.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins sé heimild kærenda til greiðsluaðlögunar felld niður á grundvelli 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærendur gera meðal annars athugasemdir við málsmeðferð umboðsmanns skuldara og telja að embættið hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Stjórnvaldi ber samkvæmt þessu að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar. Einnig er talið að stjórnvaldi sé skylt að veita leiðbeiningar um þær réttarheimildir sem á reynir og reglur um málsmeðferð. Í ákvæði 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga felst þó ekki skylda til að veita umfangsmikla eða sérfræðilega ráðgjöf.

Kærendur leituðu sameiginlega greiðsluaðlögunar eins og þeim er heimilt að gera samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge. Þau telja að umboðsmanni skuldara hafi borið að upplýsa þau um að vörsluskattskuldir sem annað þeirra beri ábyrgð á hefði áhrif á stöðu hins við greiðsluaðlögunarumleitanir. Það hefði átt að leiða til þess að afgreiða mætti mál þeirra sérstaklega og óháð stöðu meðumsækjanda. Í greinargerð með frumvarpi til lge. kemur fram að heimildin til að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge. sé ætluð þeim sem séu í einhverjum mæli ábyrgir fyrir skuldum hvors annars. Kærendur leituðu greiðsluaðlögunar í sameiningu sem hjón og telur úrskurðarnefndin þau uppfylla skilyrði lagagreinarinnar til þess. Leyst verður úr máli þeirra í samræmi við það. Mál kæranda B kemur því ekki til úrlausnar óháð máli kæranda A nema hann leiti á ný greiðsluaðlögunar og þá sem einstaklingur. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að leiðbeiningarskyldu umboðsmanns skuldara gagnvart kærendum hafi verið áfátt.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið 2. mgr. 6. gr. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Þá segir í 15. gr. lge. að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Meðal þeirra atriða sem þar falla undir er d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, en umboðsmaður skuldara synjaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.

Þær skuldir sem umboðsmaður skuldara vísar til í ákvörðun sinni og varða d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eru neðangreindar persónulegar skuldir kæranda B og skuldir félaga sem kærendur voru í forsvari fyrir, vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda, í krónum:

Upphafleg fjárhæð Fjárhæð apríl 2016
Kærandi B:
Virðisaukaskattur 2015 245.000 310.375
Kærandi B alls: 245.000 310.375
D ehf.:
Virðisaukaskattur 2015 152.642 178.526
D ehf. alls: 152.642 178.526
F sf.:
Virðisaukaskattur 2013 10.000 10.000
Virðisaukaskattur 2014 15.000 15.000
F sf. alls: 25.000 25.000
E ehf.:
Staðgreiðsla launagreiðanda 2013 1.737.755 2.556.949
Staðgreiðsla launagreiðanda 2014 113.101 156.785
Virðisaukaskattur 2014 155.225 209.886
E ehf. alls: 2.006.081 2.923.620
Samtals: 2.428.723 3.437.521

Kærendur áttu hvort um sig 45% í sameignarfélaginu F og báru þar af leiðandi beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins samkvæmt 2. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög.

Fyrir liggur, samkvæmt gögnum frá fyrirtækjaskrá, að á þeim tíma er hér skiptir máli var kærandi A stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi D ehf. og framkvæmdastjóri og prókúruhafi E ehf. Hvíldi því á henni sú skylda fyrirsvarsmanns félags sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Fyrirsvarsmaður félags skal einnig hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.

Eins og sjá má af framangreindum lagaákvæðum ber eigendum sameignarfélaga og fyrirsvarsmönnum einkahlutafélaga að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur. Ofangreind ákvæði eiga því við um kæranda B, kærendur sem eigendur F sf. og kæranda A sem fyrirvarsmann D ehf. og E ehf.

Að því er varðar ofangreindar virðisaukaskattskuldir verður að líta til þess að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geta til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Samkvæmt gögnum málsins er höfuðstóll vörsluskattskulda þeirra sem kærendur bera ábyrgð á alls 2.428.723 krónur og heildarskuldin nemur alls 3.437.521 krónu með vöxtum. Með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hafa kærendur bakað sér skuldbindingu með refsiverðri háttsemi í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., samkvæmt fortakslausum ákvæðum 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt.

Samkvæmt framansögðu hefur úrskurðarnefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats á þeim aðstæðum er tilgreindar eru í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuldir er kærendur stofnuðu til persónulega, sem eigendur og/eða fyrirsvarsmenn framangreindra félaga nemi einhverju miðað við fjárhag þeirra. Við það mat telur úrskurðarnefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt álagningarseðli og skattframtali ársins 2015 vegna tekna ársins 2014 er eignastaða kærenda neikvæð um tæplega 52.000.000 króna. Á sama tíma nema tekjur þeirra alls 173.145 krónum á mánuði að meðaltali. Skuld sem kærendur hafa stofnað til með framangreindri háttsemi nemur sem fyrr segir 3.437.521 krónu með vöxtum eða 6,6% af heildarskuldum kærenda. Að mati úrskurðarnefndarinnar er þetta skuld sem telja verður allháa en hún fellur ekki undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f–lið 1. mgr. 3. gr. lge. Þá hafa kærendur stofnað til þessara skuldar með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum hans með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í ofangreindu dómsmáli var skuldin til komin vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Úrskurðarnefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili, enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir.

Það er því mat úrskurðarnefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að þær skuldir kærenda, sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti, falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að teljast verulegar miðað við fjárhag kærenda þannig að ekki sé hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur úrskurðarnefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að fella niður heimild A og B til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til 1. mgr. 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er með vísan til þess staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A og B til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta