Mál nr. 135/2013
Fimmtudaginn 3. september 2015
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 4. september 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 21. ágúst 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 12. september 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. október 2013.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 15. október 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 21. október 2013. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 24. október 2013 og óskað eftir sjónarmiðum embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 20. desember 2013. Hún var send kæranda með bréfi 10. mars 2014 og honum boðið að gera athugasemdir. Framhaldsgreinargerð kæranda barst með bréfi 18. mars 2014.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur 1968. Hann býr í eigin fasteign að B götu nr. 24 sveitarfélaginu D. Í fasteigninni eru tvær íbúðir, en kærandi býr í annarri þeirra en leigir hina út.
Kærandi er atvinnulaus. Hann þiggur atvinnuleysisbætur og framfærslustyrk frá sveitarfélaginu D. Hann fær einnig vaxtabætur og húsaleigutekjur.
Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til ársins 2007 er hann hóf eigin rekstur í félaginu X ehf. Einnig kveðst kærandi eiga við veikindi að stríða.
Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 36.319.386 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2006 til 2011.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. febrúar 2013 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.
Með bréfi til umboðsmanns skuldara 3. júlí 2013 tilkynnti umsjónarmaður að fram hefðu komið upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum væru ráðstöfunartekjur kæranda að meðaltali mánuðina janúar til maí 2013 alls 114.681 króna á mánuði. Áætlaður mánaðarlegur framfærslukostnaður, miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara og samkvæmt gögnum frá kæranda sjálfum, væri 182.340 krónur. Samkvæmt þessu væri greiðslugeta kæranda neikvæð um 67.659 krónur.
Kærandi eigi tveggja íbúða hús. Umsjónarmaður metur aðra íbúðin að verðmæti 6.860.000 krónur en hina 7.860.000 krónur. Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge. skuli umsjónarmaður óska eftir því við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge., framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. 13. gr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna. Umsjónarmaður hafi rætt símleiðis við kæranda 18. júní 2013 um greiðslugetu kæranda og framangreind skilyrði. Í símtalinu hafi umsjónarmaður greint frá því að það væri mat hans að selja þyrfti fasteignirnar þar sem kærandi gæti ekki greitt mánaðarlegar afborganir veðkrafna. Hafi umsjónarmaður óskað eftir afstöðu kæranda til sölu fasteignanna en kærandi óskað eftir tíma til umhugsunar. Hafi umsjónarmaður veitt kæranda frest til 25. júní 2013 og síðan viðbótarfrest til 2. júlí 2013. Umsjónarmaður hafi fengið svar frá kæranda 3. júlí 2013 þar sem enn hafi verið óskað eftir fresti. Þar sem umsjónarmaður hafi alls veitt kæranda fjórtán daga til að láta uppi afstöðu sína hafi ekki verið fallist á lengri frest.
Þar sem umsjónamaður hafi ekki álitið unnt að vinna málið frekar hafi hann tilkynnt umboðsmanni skuldara að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil og því teldi hann að fella bæri niður greiðsluaðlögunarumleitanir samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 9. ágúst 2013 þar sem honum var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan viku og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar. Í svari kæranda hafi komið fram að honum þætti veittur frestur of knappur þar sem hann væri á lyfjum sem hefðu áhrif á virkni hans. Hann þyrfti að hafa aðra með í ráðum þar sem hann treysti sjálfum sér ekki fyllilega við þær kringumstæður sem væru uppi. Kæranda þætti ósanngjarnt ef greiðsluaðlögunarumleitanir hans yrðu felldar niður þegar vitað væri að tekjur hans yrðu mun hærri innan nokkurra mánaða. Sjúkralaun, sem kærandi ætti von á, næmu um 200.000 krónum svo að nánast yrði um tvöföldun launa að ræða. Einnig eigi kærandi rétt á greiðslum frá lífeyrissjóði en ekki lægi enn fyrir hversu háar þær greiðslur yrðu. Þá hafi kærandi fengið beiðni um að leigja út aðra íbúð sína fyrir 90.000 krónur á mánuði frá 1. febrúar 2014.
Með bréfi til kæranda 21. ágúst 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærð er sú ákvörðun umboðsmanns skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir séu felldar niður þar sem kærandi vilji ekki selja fasteign sína. Einnig er kærð sú staðhæfing umboðsmanns skuldara að gagnaöflun í málinu sé lokið. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærandi greinir frá því að fasteign hans að B götu nr. 24 sveitarfélaginu D sé tvær íbúðir. Hefði kærandi viljað sjá leyst þannig úr málinu að hann gæti haldið efri hæðinni þannig að skuldir á henni yrðu færðar niður í 100% af íbúðarmati. Neðri hæðin yrði seld en stærstur hluti veðskulda hvíli á neðri hæðinni. Myndi þetta gjörbreyta afborgunum veðkrafna og sé því eðlilegt að málið verði skoðað með tilliti til þessa. Einnig sé þetta sanngjörn niðurstaða því ella þurfi kærandi að fara á dýran og óöruggan leigumarkað.
Nú hafi ríkisstjórn Íslands samþykkt skuldaniðurfellingu á íbúðarlánum. Því leggi kærandi til að mál hans verði skoðað með tilliti til þessa og einnig vegna hækkunar á mati húsnæðis sem verið hafi umtalsverð á milli ára.
Kærandi sé sjúklingur sem eigi von á sjúkralaunum vegna örorku. Fyrir fólk í þeirri stöðu sé það í knappasta lagi að veita vikufrest til að koma andmælum á framfæri við umboðsmann skuldara og síðan tveggja vikna frest til að kæra ákvörðun umboðsmanns. Auðvelt sé fyrir fólk sem eigi við andleg veikindi að stríða að láta hugfallast þegar svo naumur tími sé veittur.
Þá telur kærandi að umsjónarmaður hafi ekki kallað eftir afriti af skuldabréfi sem kærandi hafið gefið út til ríkissjóðs til greiðslu á skattskuldum. Samkvæmt því sé gagnaöflun ekki lokið í málinu.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Það sé mat umsjónarmanns að kærandi hafi ekki tekjur til að halda fasteign sinni að B götu nr. 24 sveitarfélaginu D. Aðspurður um tekjur sínar hafi kærandi greint frá því að hann fengi tekjur frá Vinnumálastofnun og framfærslustyrk frá sveitarfélaginu D. Einnig fengi hann leigutekjur en hann leigði út herbergi fyrir 30.000 krónur á mánuði og gæfi leigutekjurnar ekki upp til skatts. Meðallaun kæranda samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra frá 1. janúar til 1. maí 2013 væru 114.681 króna en framfærslukostnaður 185.805 krónur. Greiðslugeta kæranda sé því neikvæð um 71.124 krónur. Mánaðarlegar afborganir veðkrafna séu 92.036 krónur að sögn umsjónarmanns.
Kærandi sé þinglýstur eigandi að B götu nr. 24, sveitarfélaginu D. Í eigninni séu tvær íbúðir, annars vegar 68,3 fermetra íbúð á neðri hæð en fasteignamat hennar sé 6.860.000 krónur. Hins vegar 82,5 fermetra íbúð á efri hæð en fasteignamat hennar sé 7.860.000 krónur.
Kærandi kveðst vera ósáttur við að ekki sé tekið tillit til þess að tekjur hans muni aukast umtalsvert á næstu mánuðum. Embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki borist nein gögn sem staðfesti þetta. Þó svo að embættið myndi taka tillit til þess að brúttótekjur kæranda yrðu um 200.000 krónur á mánuði væri það ekki nóg til að standa straum af framfærslu og mánaðarlegri afborgun veðkrafna. Þá sé ekki unnt að taka tillit til tekna sem kærandi fái hugsanlega eftir hálft ár.
Ákvörðun embættis umboðsmanns skuldara byggist á heildstæðu mati á aðstæðum kæranda miðað við fyrirliggjandi gögn.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 13. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns, samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt15. gr.
Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar mega ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má að mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi.
Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði er almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.
Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.
Í málinu liggur fyrir yfirlit ríkisskattstjóra sem sýnir að laun kæranda á tímabilinu janúar til maí 2013 eru 114.681 króna að meðaltali á mánuði. Mánaðarleg útgjöld kæranda miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara og upplýsingar frá kæranda sjálfum eru 185.805 krónur. Greiðslugeta kæranda er því neikvæð um 71.124 krónur á mánuði áður en greitt er af fasteignaveðlánum.
Kærandi er eigandi tveggja íbúða að B götu nr. 24 í sveitarfélaginu D. Veðbönd eru ekki þau sömu á íbúðunum. Samkvæmt því sem fram kemur í kæru telur kærandi að lausn málsins felist í því að hann haldi íbúð á efri hæð og greiði af áhvílandi veðláni innan matsverðs eignarinnar en íbúð á neðri hæð verði seld. Fram kemur í gögnum málsins að miðað er við að verðmæti íbúðanna er talið hið sama og fasteignamat þeirra.
Greiðsla af áhvílandi lánum innan matsverðs á íbúð á annarri hæð er 33.388 krónur á mánuði. Greiðsla af áhvílandi lánum innan matsverðs á íbúð á fyrstu hæð er 58.648 krónur á mánuði. Samkvæmt þessu hefur kærandi ekki greiðslugetu til að greiða af veðlánum innan matsverðs íbúðar hvort sem miðað er við íbúð á fyrstu hæð eða íbúð á annarri hæð. Samkvæmt þessu lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge., og gerði umboðsmaður það með ákvörðun 21. ágúst 2013.
Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum að selja þá eign sem veðsett er til að létta á greiðslubyrði skuldara vegna fasteignaveðkrafna. Þá telur kærunefndin að ekki sé unnt að líta öðruvísi á málavexti, meðal annars með hliðsjón af frásögn kæranda sjálfs, en að hann hafi hafnað því að framfylgja fyrirmælum umsjónarmanns um sölu á eigninni.
Við þessar aðstæður verður að telja að umsjónarmanni hafi borið að leggja til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge.
Hin kærða kvörðun umboðsmanns skuldara er byggð á því að skilyrði lagaákvæðanna séu fyrir hendi og ber, með vísan til atvika málsins og þess sem hér að framan er rakið, að staðfesta mat hans á því. Samkvæmt því er staðfest ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir