Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 185/2013

Mál nr. 185/2013

Fimmtudaginn 10. desember 2015

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður


Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 22. desember 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 5. desember 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 6. janúar 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. mars 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. mars 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 14. júlí 2015. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 24. júlí 2015 og óskað eftir sjónarmiðum embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1947. Hann býr í eigin 121,2 fermetra íbúð með bílskúr að B í Reykjavík. Kærandi er öryrki og var síðast á vinnumarkaði árið 2000. Hann þiggur örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 28.432.365 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2006.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til tekjulækkunar og veikinda.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. maí 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 13. ágúst 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Í bréfinu kom fram að á fundi umsjónarmanns og kæranda 31. október 2012 hefði umsjónarmaður greint kæranda frá því að hann virtist eiga eign umfram skuldir í fasteign sinni. Eignin væri að fasteignamati 30.700.000 krónur en áhvílandi veðskuldir 22.108.191 króna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum væri greiðslugeta kæranda um 42.000 krónur á mánuði en greiðslubyrði áhvílandi lána 120.720 krónur. Hafi umsjónarmaður bent kæranda á að leita aðstoðar ráðgjafa Embættis umboðsmanns skuldara í því skyni að reyna að auka ráðstöfunartekjur og fá skuldbreytingu lána til að geta haldið fasteigninni. Hafi ráðgjafi í framhaldinu leiðbeint kæranda og hann hafi fengið ríflega fresti til að vinna að málinu. Umsjónarmaður hefði sent kæranda tölvupóst 25. júlí 2013 til að kanna stöðu málsins og upplýsa hann um að við óbreyttar aðstæður yrði að ákveða sölu fasteignarinnar. Einnig hefði kæranda verið kynnt hvaða afleiðingar það hefði í för með sér ef farið væri gegn ákvörðun umsjónarmanns um sölu fasteignarinnar. Kærandi hefði fengið frest til að taka afstöðu til málsins.

Kærandi hefði sent umsjónarmanni tölvupóst 7. ágúst 2013 þar sem fram kom að hann hefði átt við veikindi að stríða. Hann væri í atvinnuleit og óskaði eftir lengri fresti. Hafi umsjónarmaður hafnað frestbeiðni kæranda þar sem ríflegir frestir hefðu þegar verið veittir. Umsjónarmaður hafi greint kæranda frá því að hann yrði nú að fara fram á sölu á eigninni með vísan til 13. gr. lge. Kærandi hafi lýst því yfir í tölvupósti 9. ágúst 2013 að hann væri mótfallinn sölu á eigninni. Með vísan til þessa sæi umsjónarmaður sér ekki annað fært en að leggja til niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana með vísan til 5. mgr. 13. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 6. nóvember 2013 þar sem honum var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan viku og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar. Í svari kæranda hafi komið fram að hann væri að leita eftir aðstoð ættingja. Jafnframt var óskað eftir frekari fresti.

Með ákvörðun 5. desember 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir því að fá hluta skulda sinna niðurfelldan og að tekin verði upp greiðsluaðlögun með samningi við kröfuhafa. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi. Einnig óskar kærandi eftir viðbótarfresti til að finna lausn á vanda sínum til frambúðar.

Í kæru gerir kærandi grein fyrir veikindum sínum en hann telur að átt hefði að veita honum frekari fresti í málinu. Hann hafi reynt að komast í vinnu en veikindin hafi hamlað því.

Kærandi kveðst ekki geta verið án fasteignar sinnar, enda hefði hann búið þar síðan 1980. Við sölu eignarinnar fengi hann ekki nægilega mikið til að geta keypt minni íbúð. Hann telji því ósanngjarnt að honum sé gert að selja eignina.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segi að við mat á því hvort mælt skuli með sölu fasteignar samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. skuli meðal annars horft til þess hvort íbúðarhúsnæði skuldara sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfi auk þess sem miklar líkur þurfi að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun ljúki. Þá segi í niðurlagi 1. mgr. 13. gr. lge. að umsjónarmanni sé heimilt að leita afstöðu lánardrottna áður en mælt sé með sölu fasteignar.

Í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. segi að haldi skuldari eftir eignum, sem veðkröfur á hendur honum hvíli á, skuli hann greiða fastar mánaðargreiðslur af þeim veðkröfum, sem séu innan matsverðs eignar, á tímabili greiðsluaðlögunar og skuli þeim varið til greiðslu krafna eftir ákvæðum 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Fastar mánaðargreiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varði, nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður sé umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu en þó aldrei lægri en 60% af hæfilegu leiguverði fyrir sambærilega fasteign. Ljóst sé þó að slík ráðstöfun sé aðeins til örfárra mánaða með fyrirvara um fyrirsjáanlega hækkun á tekjum skuldara.

Kærandi hafi ekki samþykkt sölu á fasteign sinni þrátt fyrir mat umsjónarmanns um að nauðsynlegt sé að selja eignina í greiðsluaðlögunarferlinu. Fasteign kæranda sé 121,2 fermetra íbúð í C Reykjavíkur. Megi gera ráð fyrir að markaðsverð eignarinnar sé umtalsvert hærra en fasteignamat sem sé 30.700.000 krónur. Samkvæmt bréfi umsjónarmanns séu afborganir áhvílandi lána um 120.000 krónur á mánuði en samkvæmt greiðsluáætlun embættisins sé mánaðarleg greiðslugeta kæranda 63.250 krónur.

Ekki verði talið að kærandi geti staðið skil á afborgunum veðkrafna innan matsverðs eignar, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge., og er fallist á það mat umsjónarmanns að nauðsynlegt sé að selja fasteign kæranda. Þá teljist ekki líklegt að greiðslugeta kæranda dugi til greiðslu á 60% af hæfilegu leiguverði eignarinnar, sbr. fyrrnefnda undanþágu. Ekkert bendi til þess að aðstæður kæranda séu tímabundnar í þeim skilningi að þær falli undir undanþáguna né teljist líklegt að kærandi geti staðið skil á föstum mánaðargreiðslum innan matsverðs eignar til framtíðar. Ekkert liggi fyrir um að tekjur kæranda hækki í náinni framtíð.

Auk ofangreinds sé ljóst að kærandi eigi eignir talsvert umfram skuldir og gæti leyst skuldavanda sinn með sölu fasteignarinnar. Embættið telji ekki forsendur fyrir því að tefja afgreiðslu málsins vegna veikinda kæranda, enda hafi þau hvorki áhrif á tekjur hans né möguleika til andmæla.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má að mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar, nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu, ef það teljist ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Í ákvörðun umboðsmanni skuldara 5. desember 2013 er miðað við laun kæranda í júlí 2012 en þá var greiðslugeta hans 63.250 krónur á mánuði. Að mati kærunefndarinnar hefði verið rétt að afla upplýsinga um tekjur kæranda á árinu 2013, einkum vegna þess að ákvörðun í málinu er byggð á greiðslugetu kæranda. Undir rekstri málsins aflaði kærunefndin yfirlits frá ríkisskattstjóra sem sýnir að laun kæranda á tímabilinu janúar til nóvember 2013 eru 268.690 krónur að meðaltali á mánuði. Mánaðarleg útgjöld kæranda miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara eru 154.161 króna. Greiðslugeta kæranda er því 114.529 krónur á mánuði áður en greitt er af fasteignaveðlánum sem er töluvert hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir í hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara.

Kærandi er eigandi íbúðar að B, Reykjavík. Fasteignamat íbúðarinnar er 30.700.000 krónur. Samkvæmt fyrirliggjandi kröfulýsingum hvíla á eigninni veðkröfur að fjárhæð 23.029.430 krónur. Samkvæmt gögnum málsins er mánaðarleg greiðslubyrði áhvílandi lána 125.622 krónur og vantar kæranda því 11.094 krónur til að geta staðið við mánaðarlega greiðslubyrði fasteignaveðlána. Hér verður þó jafnframt að líta til þess að samningskröfur á hendur kæranda nema 5.402.935 krónum og eru það einkum yfirdráttarskuldir. Þyrfti hann í öllu falli að standa undir greiðslum þeirra auk fasteignaveðlána vegna eignastöðu sinnar, en ljóst þykir að eignir kæranda eru meiri en skuldir. Kærandi á því í greiðsluerfiðleikum í skilningi lge. en líkur eru á því að hann geti staðið við fjárskuldbindingar sínar með því að selja íbúðina.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara segir orðrétt: „Fasteign umsækjanda, að B í Reykjavík, er 121,2 fermetra, fimm herbergja íbúð í C Reykjavíkur og má gera ráð fyrir því að markaðsvirði hennar sé umtalsvert hærra en fasteignamat, sem er 30.700.000 kr.“ Þó það sé mat kærunefndarinnar að óvarlegt sé að ganga út frá því að fasteign kæranda sé umtalsvert verðmeiri en fasteignamat gefur til kynna er þó ljóst að greiðsluvandi kæranda verður ekki leystur nema með sölu á fasteign hans. Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum að selja þá eign sem veðsett er til að kröfuhafar fái fullnustu á kröfum sínum og létt verði á greiðslubyrði skuldara vegna fasteignaveðkrafna. Kærandi hefur meðal annars fengið aðstoð hjá ráðgjöfum umboðsmanns skuldara, ríflega fresti til að vinna að lausn málsins og til að leita leiða til að kærandi gæti haldið fasteigninni án þess að það hafi skilað árangri. Hann hefur jafnframt verið upplýstur um afleiðingar þess að mæla gegn sölu á fasteign sinni.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki nægilega greiðslugetu til að greiða af veðlánum innan matsverðs íbúðar, sé miðað við fasteignamat.

Í málinu liggur fyrir að kærandi getur ekki greitt af samningskröfum nema með því að selja fasteign sína. Einnig er ljóst að kröfuhafar munu ekki samþykkja samning um greiðsluaðlögun nema hann selji fasteign sína þar sem eignir hans eru umfram skuldir.

Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur hafnað því að framfylgja fyrirmælum umsjónarmanns um sölu á eigninni. Við þessar aðstæður verður að telja að umsjónarmanni hafi borið að leggja til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge.

Samkvæmt framangreindu er fallist á að skilyrði hafi verið fyrir því að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda og er því hin kærða ákvörðun staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta