Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 97/2012

Fimmtudaginn 27. febrúar 2014

 

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 24. maí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 11. maí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 1. júní 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. júní 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 8. júní 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1979. Hann er í óskráðri sambúð og á eitt barn af fyrra sambandi sem hann greiðir meðlag með. Hann býr tímabundið í Noregi vegna atvinnu sinnar og leigir þar húsnæði. Kærandi á 332 fermetra einbýlishús að B götu nr. 58 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er smiður og starfar sem verktaki við smíðar hjá X AS í Noregi. Hann kveður mánaðarlegar tekjur sínar fyrir frádrátt skatts vera 402.274 krónur. Ekki liggja fyrir upplýsingar um tekjur hans eftir greiðslu skatta.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til efnahagshrunsins 2008. Hann hafi keypt lóð með þáverandi eiginkonu sinni árið 2007 og hafið byggingu einbýlishúss. Á þeim tíma hafi kærandi rekið smíðafyrirtæki í félagi við annan mann og hafi það gengið vel. Þau hjónin hafi tekið lán vegna byggingarinnar og hafi þau að hluta verið í erlendri mynt. Byggingu hússins hafi ekki verið lokið við skilnað þeirra seinni hluta ársins 2008 og hafi kærandi ákveðið að taka við húsinu. Eftir því sem efnahagslægðin dýpkaði hafi rekstur fyrirtækis kæranda orðið erfiðari og hafi að lokum verið hætt. Kærandi hafi neyðst til að flytja inn í óklárað húsið en hann hafi eftir bestu getu reynt að standa skil á lánum. Þegar mánaðarleg greiðslubyrði hafi verið orðin um 300.000 krónur hafi engin leið verið fyrir hann að forðast vanskil. Þessu til viðbótar hafi kærandi lent í bílslysi í janúar 2010 og hlotið áverka á hálsi og baki en ekki sé enn ljóst hver langtímaáhrif áverkanna verði.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 72.704.417 krónur og falla 69.387.155 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þær skuldir sem falla utan samnings um greiðsluaðlögun eru 258.801 króna vegna ógreiddrar staðgreiðslu, 2.028.546 krónur vegna virðisaukaskatts og meðlagsskuld að fjárhæð 1.029.915 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2007 til 2008 vegna fasteignakaupa.

Kærandi lagði fram umsókn sína um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. maí 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-, f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærð er niðurstaða umboðsmanns skuldara um að synja umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Verður að skilja það svo að kærandi krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveður umboðsmann skuldara tiltaka tvær meginástæður synjunar. Annars vegar ógreidd launatengd gjöld að fjárhæð 411.864 krónur og hins vegar meðlagsskuld að fjárhæð 1.029.915 krónur. Kærandi hafi ekki hugmynd um hvaða gjöld sé átt við þegar vísað sé til launatengdra gjalda. Kærandi tekur þó fram að hann vilji ekki fullyrða neitt um réttmæti skuldarinnar. Hann telji þetta það lága fjárhæð að hann gæti greitt hana ef það skipti máli fyrir umsókn hans um greiðsluaðlögun þar sem fjárhagsstaða hans hafi batnað töluvert við vinnu í Noregi.

Meðlagsskuld hafi verið í vanskilum frá desember 2008 en þá hafi sú staða verið komin upp að kærandi hafi neyðst til að velja hvaða skuldir hann greiddi og hverjar ekki. Hann hafi lagt mesta áherslu á að missa ekki fasteign sína og reynt að gera húsið íbúðarhæft. Á þessum tíma hafi hann ekki haft fastan samastað og átt nýfætt barn.

Kæranda finnst niðurlægjandi og bera vott um algert skilningsleysi að embætti umboðsmanns skuldara telji að hann hafi „bakað“ sér þessa aðstöðu með ásetningi á einhvern hátt. Kærandi hafi staðið í þeirri trú að embættið ætti að reyna að leysa úr vanda skuldara.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Í ákvæðinu sé það tekið fram að við mat á því skuli taka sérstakt tillit til atvika sem talin séu upp í stafliðum ákvæðisins.

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lge. sé tekið fram um 2. mgr. 6. gr. að þau atriði sem umboðsmaður skuldara skuli sérstaklega líta til við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar miði að hluta til við þágildandi 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Sé þar byggt á þeirri meginreglu að skuldari skuli ekki eiga kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.

Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi bakað sér skuldbindingar sem gætu varðað refsingu eða skaðabótaskyldu en hann hafi ekki staðið skil á virðisaukaskatti frá 2009. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 sé refsivert ef skattskyldur maður afhendi eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hafi innheimt eða honum borið að innheimta. Fjárhæð virðisaukaskattskuldar sé alls 2.028.546 krónur Fram hafi komið í tölvupóstsamskiptum við kæranda að hann telji ekki ástæðu til að leiðrétta þann virðisaukaskatt sem skattstjóri hafi áætlað honum.

Á yfirliti tollstjóra komi fram að kærandi hafi ekki staðið skil á opinberum gjöldum eftirtalin ár:

Gjöld Ár
Þing- og sveitarsjóðsgjöld 2010, 2011
Bifreiðagjald 2012
Staðgreiðsla tryggingagjalds 2009, 2010, 2011
Staðgreiðsla reiknaðra launa 2011
Virðisaukaskattur 2009, 2010, 2011

Samanlögð fjárhæð vangoldinna opinberra gjalda sé 3.789.288 krónur og af því sé ógreiddur virðisaukaskattur 2.028.546 krónur. Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra sé um að ræða áætlun að hluta og álagningu að hluta en hin álögðu gjöld séu öll í vanskilum. Virðisaukaskattskuldir séu allar byggðar á áætlunum.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 hafi rétturinn tekið 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d til umfjöllunar. Af niðurstöðu dómsins megi ráða að skuldbinding sem stofnað sé til með þeirri háttsemi sem ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. tiltaki geti varðað synjun á heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 hafi nefndin fallist á þá túlkun umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að samþykkja greiðsluaðlögun þar sem kærandinn hafi ekki staðið skil á vörslusköttum. Í niðurstöðu nefndarinnar komi fram að ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. hafi verið skilið svo að „skattaskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei“.

Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þar sem óhæfilegt þyki að veita hana hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum hafi framast verið unnt. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011 hafi verið fjallað um að líta yrði til f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. þegar skuldir kæranda væru vegna opinberra gjalda eða greiðslna í sjóði sem ætlaðir væru til samneyslu eða samtryggingar. Gætu slíkar skuldir leitt til synjunar á heimild til greiðsluaðlögunar.

Af gögnum málsins verði ráðið að hluti skulda kæranda sé einmitt þess eðlis að líta verði til sjónarmiða að baki f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge., þ.e. skuldir við sjóði sem ætlaðir séu til samneyslu eða samtryggingar og vangreidd opinber gjöld, en til viðbótar við þau opinberu gjöld sem nefnd séu að framan hafi kærandi einnig látið undir höfuð leggjast að greiða launatengd gjöld að fjárhæð 411.864 krónur og meðlag að fjárhæð 1.029.915 krónur. Vanskil kæranda á launatengdum gjöldum séu frá janúar 2008 og vanskil meðlagsgreiðslna séu frá desember 2008. Fjárhagsvandræði kæranda hafi ekki verið byrjuð í byrjun árs 2008 enda hafi hann þá ákveðið að byggja einbýlishús. Ekki verði annað séð en að kærandi hafi verið fær um að standa við skuldbindingar sínar í byrjun árs 2008 enda hafi hann stofnað til umtalsverðra skulda síðar á árinu.

Skuldir sem kærandi hafi stofnað til með refsiverðum hætti samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. nemi 2.028.546 krónum sem í sjálfu sér verði að telja háa fjárhæð. Hafi skuld þessi umtalsvert vægi við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar.

Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið, úrlausna dómstóla og niðurstöðu kærunefndar greiðsluaðlögunarmála þyki óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu og einhverju næmi miðað við fjárhag. Því verði ekki hjá því komist að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Vegna fjárhæðar virðisaukaskattskuldar, vangoldinna opinberra gjalda og annarra lögbundinna skuldbindinga, þ.e. launatengdra gjalda og meðlagsskulda að fjárhæð 1.441.779 krónur, telji umboðsmaður skuldara að g-liður 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við í málinu. Einnig þyki ljóst að kærandi hafi ekki staðið í skilum með tilteknar skuldbindingar eins og honum hafi framast verið unnt á meðan hann hafi ekki verið í fjárhagserfiðleikum og eigi f-liður 2. mgr. 6. gr. lge. því einnig við í málinu.

Leiði heildstætt mat umboðsmanns skuldara til þess að óhæfilegt þyki að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-, f- og g-liða.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Sú skuldbinding sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi er skuld vegna virðisaukaskatts samtals að fjárhæð 2.028.546 krónur frá árunum 2009, 2010 og 2011.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Fyrir liggur að kærandi skuldar virðisaukaskatt sem byggður er á áætlun ríkisskattstjóra. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara var kærandi spurður að því hvort hann teldi áætlunina endurspegla rétta skattskyldu. Einnig var honum bent á að hann gæti farið fram á leiðréttingu álagningar teldi hann svo ekki vera. Loks var honum bent á að heimilt væri að synja umsókn um greiðsluaðlögun vegna vanskila á virðisaukaskatti. Þrátt fyrir þetta hlutaðist kærandi ekki til um leiðréttingar á hinum áætlaða virðisaukaskatti. Lítur kærunefndin því svo á að kærandi telji virðisaukaskattskuldina rétta. Af því leiðir að ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 eiga við um kæranda sem virðisaukaskattskyldan aðila.

Að því er varðar nefnda virðisaukaskattskuld verður að líta til þess að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Með því að láta hjá líða að skila virðisaukaskatti hefur kærandi bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð um liðlega 25.000.000 króna. Skuld sem kærandi hefur stofnað til með framangreindri háttsemi nemur alls 2.028.546 krónum eða 2,8% af heildarskuldum hans. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að telja verulegar miðað við fjárhag kæranda þannig að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta