Mál nr. 114/2013
Fimmtudaginn 11. júní 2015
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 19. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. júlí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.
Með bréfi 25. júlí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 26. ágúst 2013.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 29. ágúst 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi 11. september 2013. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 12. september 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd 1963 og 1959. Þau eru í hjúskap og búa ásamt tveimur uppkomnum börnum sínum í eigin 102 fermetra íbúð að C götunr. 17a í sveitarfélaginu D.
Kærandi A starfar sem stuðningsfulltrúi og við aðhlynningu. Kærandi B starfar sem sölumaður. Mánaðarlegar launatekjur kærenda eftir greiðslu skatta eru 484.431 króna.
Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 27.773.032 krónur.
Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til tekjulækkunar, veikinda og aukinnar greiðslubyrði lána.
Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 31. mars 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. nóvember 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 19. júní 2013 óskaði umsjónarmaður eftir afstöðu embættisins til þess hvort áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda væru heimilar með tilliti til a-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.
Í bréfi umsjónarmanns kom fram að kærendur hefðu notið frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, frá því í nóvember 2011. Undir rekstri málsins hefðu kærendur lýst því yfir að þau hefðu lagt til hliðar 1.300.000 krónur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Greiðslugeta kærenda hafi verið 227.000 krónur á mánuði og því hefði þeim átt að vera unnt að leggja til hliðar töluvert hærri fjárhæð eða um 7.000.000 króna á tímabilinu. Hafi kærendur greint frá því að þau hafi þurft að leggja í kostnað vegna bifreiðaviðgerða og kaupa á bifreið. Engin gögn hafi verið lögð fram þessu til staðfestingar.
Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 20. júní 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar-umleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kærenda, sem barst umsjónarmanni þeirra, hafi komið fram að þau væru ekki í greiðsluerfiðleikum ef þau lifðu því lífi sem umboðsmaður leggi til en framfærsluviðmið embættisins væru út í hött.
Með bréfi til kærenda 3. júlí 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur vísa til þess að embætti umboðsmanns skuldara hafi valdið kærendum skaða með því að standa sig ekki í réttindabaráttu fyrir kærendur eins og því sé skylt að gera lögum samkvæmt. Kærendur kæra enn fremur meðferð embættis umboðsmanns skuldara á þeim og fjölskyldu þeirra. Skilja verður þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi. Einnig er embætti umboðsmanns skuldara kært fyrir að vísa þeim úr því skjóli sem greiðsluaðlögunin hafi veitt þeim en þau hafi haft meginhluta skulda sinna í ólögmætum gengisbundnum lánum. Kærendur telja embættið eiga að láta skuldara njóta alls vafa.
Kærendur vísa til 34. gr. lge. sem mæli fyrir um að ráðherra setji reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga. Engin reglugerð sé þó fyrir hendi né löglegar verklagsreglur. Telji kærendur því að embætti umboðsmanns skuldara leggi huglægt mat á hvert mál fyrir sig og þetta mat breytist frá einu máli til þess næsta og einum starfsmanni til annars. Séu þessi vinnubrögð ekki líðandi og vilji þau að tekið sé á þessari brotalöm áður en dæmt verði í málinu þannig að unnið sé í samræmi við lög.
Kærendur geri sérstaklega athugasemd við þá fullyrðingu sem greini í ákvörðun umboðsmanns skuldara að „við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri UMS „einkum“ að kanna hvort fyrir liggi þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð samanber 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga númer 101/2010“. Vilji kærendur fá skýr svör frá embætti umboðsmanns og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála um hvar það standi í lögum, að ekki sé talað um reglugerðina sem ekki sé til, að embætti umboðsmanns beri fyrst og fremst að kanna hvernig hægt sé að vísa fólki úr greiðsluaðlögun. Þar sem markmiðið með stofnun embættis umboðsmanns skuldara hafi verið að gæta hagsmuna og réttinda skuldara finnist kærendum ótækt að embættið líti svo á að 6. gr. lge. sé megingrein laganna þegar hinar 35 greinar laganna snúi að því að skýra hvernig embættið skuli aðstoða skuldara.
Í huga kærenda verði þau fyrir velferðarmissi ef kærunefndin leyfi embætti umboðsmanns að vísa þeim úr greiðsluaðlögun.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið á heimasíðu embættisins. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 24. nóvember 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar kæmi að því að semja við kröfuhafa.
Kærendur hafi óskað greiðsluaðlögunar 31. mars 2011 og hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge., svokallað greiðsluskjól, þá hafist. Greiðsluskjól kærenda hafi samkvæmt því staðið yfir í 26 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. apríl 2011 til 31. maí 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:
Launatekjur 1. apríl 2011 til 31. maí 2013 að frádregnum skatti | 14.093.394 |
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla | 539.324 |
Samtals | 14.632.718 |
Mánaðarlegar meðaltekjur | 562.797 |
Framfærslukostnaður á mánuði | 305.610 |
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði | 257.187 |
Samtals greiðslugeta í 26 mánuði | 6.686.858 |
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim er jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 305.610 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt þessu sé miðað við framfærslukostnað júnímánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna og eitt barn auk annars kostnaðar samkvæmt upplýsingum kærenda sjálfra. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir allt að 6.686.858 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðaltekjur að fjárhæð 562.797 krónur á mánuði í 26 mánuði. Kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn er sýni fram á óvænt útgjöld á tímabili greiðsluskjóls.
Í tölvupósti sem kærendur hafi sent umsjónarmanni 28. júní 2013 hafi komið fram að þau ættu þrjú börn en ekki eitt eins og umboðsmaður miði við. Þá hafi ekki verið tekið tillit til kostnaðar við bílaviðgerðir þar sem um reikningslaus viðskipti hafi verið að ræða. Þá komi þar fram að annar kærenda hafi lagt sparnað þeirra að fjárhæð 1.300.000 krónur undir í spilavíti í von um að hækka fjárhæðina en allur sparnaðurinn hafi tapast. Loks greini kærendur frá því að þau hafi orðið fyrir fjárútlátum í tengslum við andlát náinna ættingja.
Að því er varði fjölda barna á framfæri kærenda séu tveir einstaklingar skráðir til heimilis með kærendum samkvæmt þjóðskrá. Þessir einstaklingar séu fæddir 1987 og 1995. Ekki sé gert ráð fyrir að umsækjendur um greiðsluaðlögun séu með fullorðin börn sín á framfæri. Við framfærsluútreikning sé gert ráð fyrir að kærendur hafi 17 ára dóttur sína á framfæri.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Kærendur gera athugasemd við að embætti umboðsmanns skuldara vísi þeim úr því skjóli sem felist í greiðsluaðlögun. Kærunefndin vísar í þessu sambandi til 1. mgr. 11. gr. lge. Þar kemur fram að þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabundin frestun greiðslna. Í bráðabirgðaákvæði II við lge., sbr. lög nr. 128/2010, kemur fram að frá gildistöku laganna og til 1. júlí 2011 hefjist tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður hefur móttekið umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt þessu geta skuldarar átt rétt til greiðsluskjóls við tvenns konar aðstæður. Í fyrsta lagi þegar umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt. Í öðru lagi við móttöku umsóknar um greiðsluaðlögun hafi umsóknin verið móttekin fyrir 1. júlí 2011. Samkvæmt 6. mgr. bráðabirgðaákvæðis II við lge. fellur greiðsluskjólið niður að loknum kærufresti samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar. Kæri skuldari synjun umboðsmanns skuldara framlengist greiðsluskjól þar til niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála liggur fyrir. Staðfesti kærunefnd greiðsluaðlögunarmála niðurstöðu umboðsmanns skuldara fellur greiðsluskjólið þá þegar niður. Skortir því lagaskilyrði til að kærunefndin geti hlutast til um greiðsluskjól kærenda.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Eins og fram er komið var kærendum skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Með bréfi 19. júní 2013 óskaði umsjónarmaður meðal annars eftir afstöðu embættis umboðsmanns skuldara til þess hvort áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda væru heimilar með tilliti til a-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 3. júlí 2013.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 6.686.858 krónur frá 1. apríl 2011 til 31. maí 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum er gert ráð fyrir að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 257.187 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn er sýni óvænt útgjöld á tímabilinu og enn fremur hafi þau greint frá því að hafa tapað sparnaði sínum í spilavíti.
Í máli kærenda hefur meðal annars komið fram að þau telji framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara ekki raunhæf. Þá verður að skilja málatilbúnað þeirra þannig að þau hafi tvö fullorðin börn sín á framfæri og fari fram á að tekið sé tillit til þess við útreikning á framfærslukostnaði.
Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindum tímabilum:
Tímabilið 1. apríl 2011 til 31. desember 2011: Níu mánuðir | |
Nettótekjur A | 2.377.028 |
Nettómánaðartekjur A að meðaltali | 264.114 |
Nettótekjur B | 2.159.340 |
Nettómánaðartekjur B að meðaltali | 239.927 |
Nettótekjur alls | 4.536.368 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 504.041 |
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir | |
Nettótekjur A | 3.397.511 |
Nettómánaðartekjur A að meðaltali | 283.126 |
Nettótekjur B | 3.061.851 |
Nettómánaðartekjur B að meðaltali | 255.154 |
Nettótekjur alls | 6.459.362 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 538.280 |
Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. júní 2013: Sex mánuðir | |
Nettótekjur A | 1.779.285 |
Nettómánaðartekjur Aað meðaltali | 296.548 |
Nettótekjur B | 1.556.737 |
Nettómánaðartekjur B að meðaltali | 259.456 |
Nettótekjur alls | 3.336.022 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 556.004 |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 14.331.752 |
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli | 530.806 |
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. apríl 2011 til 30. júní 2013: 27 mánuðir | |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 14.331.752 |
Bótagreiðslur | 539.324 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 14.871.076 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 550.781 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns | 305.610 |
Greiðslugeta kærenda á mánuði | 245.171 |
Alls sparnaður í 27 mánuði í greiðsluskjóli x 245.171 | 6.619.606 |
Samkvæmt framangreindu ætti sparnaður kærenda að vera 6.619.606 krónur.
Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.
Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.
Kærendur hafa hvorki lagt fram gögn er sýna fram á óvænt útgjöld á tímabilinu né gögn er sýna fram á að framfærslukostnaður þeirra hafi verið hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara gerir ráð fyrir. Í því sambandi liggur ekkert fyrir um að kærendur hafi borið framfærslukostnað vegna tveggja fullorðinna barna sinna. Samkvæmt því er fram kemur í málinu eiga kærendur ekki sparnað.
Í málinu hefur ekki þýðingu að reglugerðarheimild 34. gr. lge. hefur ekki verið nýtt enda fer um málsmeðferð samkvæmt lge. og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.
Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir