Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 65/2014

Mál nr. 65/2014

Fimmtudaginn 10. nóvember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 16. júní 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. maí 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 26. júní 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 8. júlí 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 9. júlí 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með tölvubréfi 8. október 2014.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1969. Hún er einstæð og býr ásamt X börnum sínum í eigin fasteign sem er 111 fermetra íbúð að B. Kærandi er [...].

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 27. mars 2014, eru 29.221.902 krónur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til skilnaðar árið 2006 sem hafi dregið úr greiðslugetu hennar. Þá hafi kærandi orðið óvinnufær eftir að hafa lent í bílslysi árið X og aðgerðar í kjölfar þess.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. október 2011 var umsókn kæranda samþykkt og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 22. febrúar 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem kærandi hefði hafnað því að selja fasteign sína sem varði niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge., auk þess sem kærandi hefði ekki veitt upplýsingar sem nauðsynlegar væru til að vinna mál hennar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Kærandi óskaði eftir endurmati á tekjum sínum og í ljósi nýrra upplýsinga var henni veitt áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunarumleitana með bréfi umboðsmanns skuldara 2. október 2013. Við vinnslu málsins hjá umboðsmanni skuldara kom í ljós að kærandi hefði fengið greidda út eingreiðslu vegna örorkubóta í ágúst 2013, samtals að fjárhæð 3.113.424 krónur, sem stóðu óhreyfðar á bankareikningi hennar. Nýr umsjónarmaður var í framhaldi þessa skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 24. janúar 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 2. gr. lge. til þess að geta leitað greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 13. mars 2014 þar sem henni var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr . lge. Svar kæranda barst með tölvubréfi 9. apríl 2014.

Með ákvörðun 30. maí 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður með vísan til þess að hún uppfyllti ekki skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar og með vísan til 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar. Skilja verður málatilbúnað hennar svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi vísar til þess að hún hafi sótt um greiðsluaðlögun árið 2011 og á greiðsluaðlögunartíma hafi hún verið með fjóra umsjónarmenn. Kærandi kveðst vera öryrki og að stór hluti inneignar hennar í banka sé vegna lífeyrisréttinda sem hún hafi fengið greidd aftur í tímann og slysabóta vegna sjúkdóms og veikinda. Hún kveðst óttast að þessir fjármunir fari allir í skuldir og þá eigi hún erfitt með að sjá um framfærslu tveggja barna sinna. Kærandi vill að tekið sé tillit til þess að hún sé einstæð móðir tveggja barna.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. beri að synja umsókn um greiðsluaðlögun sýni fyrirliggjandi gögn ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. lge. geti einstaklingur, sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar, leitað greiðsluaðlögunar í samræmi við lge. Í 2. mgr. 2. gr. komi fram hvenær einstaklingur teljist ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar samkvæmt lge. Í V. hluta almennra athugasemda við greinargerð með lge. komi fram að skuldari skuli sýna fram á greiðsluvanda sinn og að hafna beri umsókn sé greiðslugeta til staðar, enda þótt eiginfjárstaða sé neikvæð. Í athugasemdum við greinargerð með 2. gr. lge. segi að sé það mögulegt skuli skuldari leita annarra leiða til að laga skuldbindingar sínar að greiðslugetu áður en hann leiti greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt gögnum málsins séu heildarskuldir kæranda 29.221.902 krónur en eignir hennar alls 33.183.729 krónur. Samkvæmt fasteignamati sé fasteign kæranda 25.500.000 króna virði en markaðsverð, miðað við staðsetningu og verð sambærilegra eigna á því svæði, væri líklega minnst 28.500.000 krónur. Kærandi hafi fengið eingreiðslu frá þremur lífeyrissjóðum á tímabilinu, samtals að fjárhæð 5.787.777 krónur fyrir frádrátt skatts, auk óskattskyldrar greiðslu tryggingafélags að fjárhæð 2.861.556 krónur. Samkvæmt gagnaöflun umboðsmanns skuldara eigi kærandi enn 4.588.930 krónur á bankareikningi sínum.

Samkvæmt niðurstöðum útreikninga ráðgjafa umboðsmanns skuldara hafi kæranda vantað 19.895 krónur mánaðarlega til að geta staðið í skilum með greiðslur af skuldbindingum sínum, þar með talið greiðslubyrði dráttarvaxta af vanskilum, miðað við tekjur hennar. Embættið hafi sent kæranda tillögur um mögulegar leiðir til að hún gæti staðið við skuldbindingar sínar til framtíðar og greitt upp vanskil, til að mynda með þeim fjármunum sem stæðu á bankareikningi hennar. Kærandi hafi ekki brugðist við eða óskað eftir aðstoð embættisins til að koma jafnvægi á fjárhag sinn með þeim hætti sem embættið hafi lagt til.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi fyrirliggjandi gögn ekki sýnt fram á að kærandi uppfyllti skilyrði 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. til að leita greiðsluaðlögunar, enda hafi fjárhagsstaða hennar batnað á tímabilinu og hafi embættinu því verið skylt að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Eignir kæranda, tekjur og fjárhagsstaða bendi til þess að hún teljist ekki vera í verulegum greiðsluvanda til framtíðar og að líkur hafi verið til þess að vægari úrræði gætu leyst skuldavanda hennar. Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Ef fram koma upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skal umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. lge. getur einstaklingur, sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar, leitað greiðsluaðlögunar í samræmi við lge. Í 2. mgr. 2. gr. segir að einstaklingur teljist ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar ætla megi að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Í athugasemdum við 1 gr. í greinargerð með frumvarpi til lge. kemur fram að forsenda þess að skuldari geti sótt um heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé sú að hann eigi við verulega greiðsluerfiðleika að etja og sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Þegar afstaða sé tekin til þess hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar þurfi að meta hve mikið skuldari getur greitt af skuldbindingum sínum á mánuði og möguleika hans á að standa í skilum. Hafna beri umsókn geti hann greitt af þeim, enda þótt eiginfjárstaða viðkomandi sé neikvæð. Þá komi fram í athugasemdum við 2. gr. í greinargerð með frumvarpi til lge. að það skilyrði sé sett í 1. mgr. 2. gr. að skuldari sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Miðað sé við að greiðsluvandi skuldara verði viðvarandi.

Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 24. janúar 2014 lagði umsjónarmaður til að umboðsmaður skuldara felldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr. lge. þar sem hún ætti eignir umfram skuldir.

Samkvæmt gögnum málsins var staða eigna og skulda eftirfarandi í krónum þegar hin kærða ákvörðun var tekin:

Eignir
Fasteign* 25.250.000
Bifreið** 1.935.495
Bankareikningar 5.957.637
Eignir alls 33.143.132
Skuldir
Veðkrafa 27.619.802
Tékkareikningur 1.049.632
Bílasamningur 184.968
Kreditkort 367.500
Skuldir alls 29.221.902
Alls eignir umfram skuldir 3.921.230

* Samkvæmt fasteignamati 2013

** Samkvæmt skattframtali 2012

Samkvæmt útreikningum ráðgjafa umboðsmanns skuldara frá 17. desember 2013 var áætluð mánaðarleg greiðslubyrði kæranda af skuldbindingum hennar 167.961 króna en greiðslugeta kæranda var þá 148.066 krónur. Kæranda skorti því 19.895 krónur til að geta staðið við mánaðarlegar afborganir af skuldbindingum sínum. Umboðsmaður skuldara benti kæranda á ákveðnar leiðir til að brúa þetta bil með tillögum í bréfi embættisins frá 17. desember 2013 og taldi umboðsmaður skuldara því að hægt væri að koma fjárhag kæranda á réttan kjöl með endurskipulagningu fjármála hennar. Henni hafi meðal annars verið bent á leiðir til að greiða upp vanskil, til að mynda með því að nota þá fjármuni sem voru inn á bankabók hennar til að létta á mánaðarlegri greiðslubyrði afborgana af lánum. Samkvæmt gögnum málsins eru afborganir veðkröfu 102.872 krónur og vanskil af henni 3.283.151 króna. Með því að greiða af nýju láni sem tekið yrði til að greiða upp vanskil yrðu þá afborganir af því um 30.000 krónur miðað við óverðtryggt lán til 15 ára. Samtals yrði greiðslubyrði kæranda um 132.000 krónur á mánuði og innan greiðslugetu hennar. Með því að greiða einnig upp allar samningskröfur, eins og kæranda hafi verið bent á að gera, yrði greiðslubyrði hennar jákvæð. Að þessu gættu uppfyllir kærandi ekki skilyrði laganna um að eiga í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.

Með vísan til þessa, svo og atvika málsins að öðru leyti, telur kærunefndin að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 2. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga og því eigi a-liður 1. mgr. 6. gr. lge. við í málinu. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þessa staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta