Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 71/2014

Mál nr. 71/2014

Fimmtudaginn 20. október 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 9. júlí 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra frá A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 23. júní 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 21. júlí 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst 29. ágúst 2014 með bréfi 21. ágúst sama ár.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 2. september 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 14. janúar 2015. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1962 og er í hjúskap. Hún býr ásamt eiginmanni sínum og X uppkomnum börnum í eigin húsnæði að B, sem er 149,5 fermetra einbýlishús ásamt 53,8 fermetra bílskúr. Kærandi á 50% hlut í fasteigninni á móti eiginmanni sínum. Kærandi er [...] og starfar hjá C. Tekjur kæranda eru launatekjur.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 7. nóvember 2012 eru 45.559.051 króna. Kærandi stofnaði til helstu skuldbindinga á árunum 2004 til 2008.

Kærandi rekur greiðsluerfiðleika sína til tekjulækkunar, veikinda maka og hækkunar á greiðslubyrði lána og framfærslukostnaði.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. nóvember 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hennar.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 13. nóvember 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem kærandi hefði hafnað sölu fasteignar, sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að fasteignamat eignar kæranda að B sé 32.450.000 krónur samkvæmt fasteignamati árið 2014. Á fasteigninni hvíli veðkröfur frá Landsbankanum hf. sem samtals séu að fjárhæð 91.647.203 krónur. Veðkröfur að fjárhæð 41.784.369 krónur séu tilkomnar vegna tryggingar á skuldbindingum eiginmanns kæranda, en bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Á fasteigninni hvíli einnig krafa vegna ógreiddrar brunatryggingar að fjárhæð 96.462 krónur. Umsjónarmaður kveðst hafa haft samband við Landsbankann hf. og kannað hvort kærandi gæti mögulega yfirtekið eignarhlut eiginmanns síns og þannig komist hjá því að selja fasteignina. Landsbankinn hf. hafi svarað því til að þá þyrfti kærandi að kaupa eignarhluta eiginmanns síns og standast greiðslumat hjá bankanum ætti hún að geta greitt af áhvílandi lánum. Þar sem kærandi væri í greiðsluaðlögun og gæti ekki aukið við skuldbindingar sínar væru litlar sem engar líkur á því að hún gæti haldið fasteigninni.

Umsjónarmaður kveður mánaðarlegar meðaltekjur kæranda eftir greiðslu skatta vera 226.315 krónur og að áætlaður framfærslukostnaður hennar sé 133.887 krónur sé miðað við helming neysluviðmiðs umboðsmanns skuldara fyrir hjón sem reki eina bifreið, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge., og gögn frá kæranda sjálfum. Kærandi hafi því um það bil 92.428 krónur á mánuði til að greiða af skuldbindingum sínum, en mánaðarleg greiðslubyrði áhvílandi veðkrafna sem falla innan matsverðs fasteignarinnar sé um 124.000 krónur. Umsjónarmaður kveður kæranda því ekki geta greitt af áhvílandi veðkröfum innan matsverðs, en kærandi hafi þrátt fyrir það ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um að selja fasteignina.

Með vísan til þessa telji umsjónarmaður að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 17. mars 2014 þar sem henni var kynnt tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kæranda bárust með bréfi 27. mars 2014 og óskaði hún eftir nánari upplýsingum og rökstuðningi frá umboðsmanni til að geta nýtt sér andmælarétt sinn. Umboðsmaður skuldara sendi því annað bréf til kæranda 10. júní 2014 þar sem nánari upplýsingar voru veittar um afstöðu embættisins og útreikninga á greiðslugetu kæranda. Svör hennar bárust í framhaldinu með bréfi 16. júní 2014.

Með ákvörðun 23. júní 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild hennar til að leita greiðsluaðlögunar. Hún fer fram á að hinni kærðu ákvörðun verði snúið við og að umboðsmanni skuldara verði falið að hjálpa kæranda að finna lausn á sínum skuldamálum í samræmi við lög um greiðsluaðlögun. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi telur að villa sé fyrir hendi í ákvörðun umboðsmanns skuldara þar sem lagt sé til grundvallar að mánaðarleg greiðslugeta hennar, sem sé 149.000 krónur samkvæmt greiðsluáætlun embættisins, dugi ekki til að greiða mánaðarlegar afborganir af fasteign hennar sem nemi 124.000 krónum á mánuði.

Kærandi telur enn fremur að ekkert sé í lögum um greiðsluaðlögun sem banni að hún eigi 50% í fasteigninni að B á móti Landsbankanum hf.

Að mati kæranda sé einnig rangt hjá Landsbankanum hf. að skuldara sé óheimilt að auka við skuldbindingar sínar á meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum standi samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Um það vísar kærandi í nefndarálit, sem lagt hafi verið fram á Alþingi 25. nóvember 2010, þar sem fram komi að heimilt sé að stofna til skuldbindinga vegna húsnæðis og öflunar aðfanga sem nauðsynleg séu heilsu og velferð fjölskyldunnar.

Enn fremur sé aðfinnsluvert að umboðsmaður skuldara hafi hvergi í ferlinu haft samráð við kæranda eins og gert sé ráð fyrir í 16. gr. lge. Umboðsmaður skuldara og umsjónarmaður hafi fyrst haft samráð við Landsbankann hf. en kærandi hafi ekki fengið að sjá ætlaða afstöðu bankans eða hvernig hún sé orðuð.

Kærandi telur málsmeðferð umboðsmanns skuldara hafa verið ábótavant og að ekki hafi verið farið eftir grunnreglum stjórnsýslulaga um leiðbeiningarskyldu, andmælarétt og fleira. Umsókn hennar hafi upphaflega verið vísað frá þar sem bú eiginmanns hennar hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og hafi kæranda aldrei verið leiðbeint af hálfu embættisins. Þá hafi tekið heilt ár að afgreiða umsókn um greiðsluaðlögun þegar kærandi sótti um að nýju.

Kærandi fer fram á að fá greiddan málskostnað að mati nefndarinnar.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem sá fyrrnefndi telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Það sé samdóma mat umsjónarmanns og umboðsmanns skuldara að koma þurfi til sölu fasteignar kærenda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kærandi mótmælt útreikningi embættisins á því hversu mikið hún gæti greitt af skuldbindingum sínum og farið fram á að tekið yrði tillit til tekna maka hennar og framlags barna þeirra til heimilisins. Með hliðsjón af því hafi mánaðarleg greiðslugeta kæranda verið endurreiknuð og miðað við þær forsendur geti kærandi að mati embættisins greitt 149.000 krónur á mánuði af skuldbindingum sínum að teknu tilliti til framfærslukostnaðar.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kröfuhafar hafi staðfest að vegna gjaldþrots eiginmanns kæranda yrði að selja fasteign þeirra svo að greiðsluaðlögunarumleitanir gætu haldið áfram. Af þeim sökum hafi það ekki úrslitaþýðingu fyrir úrslausn málsins hvort kærandi hafi greiðslugetu til að halda fasteigninni þar sem afdráttarlaus afstaða kröfuhafa komi í veg fyrir það. Þá hafi afstaða umsjónarmanns um nauðsyn þess að selja fasteign kæranda einnig verið skýr. Mál kæranda verði ekki leyst með þeim aðferðum sem greiðsluaðlögun hafi upp á að bjóða öðruvísi en með því að selja fasteign hennar.

Vegna athugasemdar kæranda um að það sé rangt hjá Landsbankanum hf. að óheimilt sé að gera samning um greiðsluaðlögun við kæranda vegna d-liðar 12. gr. lge. bendir umboðsmaður skuldara á að ekki hafi verið tekin efnisleg afstaða til mótmæla kröfuhafa í hinni kærðu ákvörðun. Ákvörðun embættisins hafi fyrst og fremst byggst á skýrri afstöðu kröfuhafa um að fasteignina yrði að selja, en því hafi alfarið verið hafnað að kærandi héldi henni. Eðli málsins samkvæmt verði að fallast á það með skipuðum umsjónarmanni að ekki sé hægt að halda frjálsum samningsumleitunum áfram fari vilji og kröfur samningsaðila ekki saman.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til þeirra forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge., þar sem kærandi hafi ekki farið eftir fyrirmælum umsjónarmanns um að selja fasteign sína.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. er kveðið á um að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun sé tekin.

Í máli þessu hefur umsjónarmaður mælt fyrir um sölu fasteignar kæranda sem er 50% eignarhluti í einbýlishúsi að B. Kærandi átti eignina til helminga á móti eiginmanni sínum en þegar hin kærða ákvörðun var tekin hafði bú hans verið tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt upplýsingum frá kæranda. Að sögn kæranda hafi skiptastjóri lýst því yfir í bréfi 17. ágúst 2012 við umboðsmann hennar að hann sæi „engan tilgang í að selja yfirveðsetta fasteign þeirra D og A.“

Þar sem kærandi er aðeins eigandi hluta eignarinnar þarf meðeigandi hennar, eðli málsins samkvæmt, að samþykkja sölu hennar til að mögulegt sé að selja hana við greiðsluaðlögun. Ekki verður séð að einungis eignarhluti kæranda verði seldur, enda um eina íbúð að ræða. Atbeini meðeiganda kæranda er því nauðsynlegur til að eignin verði seld. Samkvæmt þessu kemur fyrst til þess að meta viðhorf kæranda til fyrirhugaðrar sölu eignarinnar þegar meðeigandi hefur samþykkt söluna fyrir sitt leyti.

Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvald þarf því að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál. Eins og mál þetta liggur fyrir var nauðsynlegt að afla viðhlítandi upplýsinga um það hvort bú eiginmanns kæranda hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta, og þá hvenær, til að unnt væri að leggja mat á hvort selja skyldi fasteign samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. með tilliti til afstöðu meðeiganda.

Ekki verður séð af gögnum málsins að aflað hafi verið upplýsinga eða gagna um það hver hafi verið meðeigandi kæranda að fasteign hennar þegar hin kærða ákvörðun var tekin, hvort bú eiginmanns hennar hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta á þeim tíma, hver væri skiptastjóri búsins, hver afstaða hans til sölu eignarinnar væri eða hvort skiptum væri lokið. Afstaða meðeiganda kæranda að fasteigninni, vegna sölu hennar, lá því ekki fyrir áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

Að mati kærunefndarinnar eru við þessar aðstæður ekki fyrir hendi forsendur samkvæmt framansögðu til þess að kanna sölu nefndrar fasteignar, án þess að samþykki meðeiganda til sölunnar liggi fyrir. Til þess að afla afstöðu meðeiganda þarf auk þess að liggja fyrir hver sé meðeigandi kæranda að fasteigninni. Fáist samþykki meðeiganda ekki kemur til kasta kröfuhafa að taka afstöðu til frumvarps til greiðsluaðlögunar kæranda með hliðsjón af atvikum málsins. Eins og málið liggur fyrir koma ákvæði 1. og 5. mgr. 13. gr. lge. því ekki til frekari skoðunar að svo stöddu.

Kröfu um greiðslu málskostnaðar verður að mati kærunefndarinnar að skilja svo að farið sé fram á greiðslu þóknunar til umboðsmanns kæranda sem hefur komið fram fyrir hana gagnvart kærunefndinni. Kærandi vísar til þess að með því að hafa ekki virt stjórnsýslulög hafi umboðsmaður skuldara bakað sér bæði ómæld óþægindi og tjón.

Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Þar segir að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar. Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kæranda, kjósi hann að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur fyrir kærunefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila kærunefndinni að ákvarða kæranda kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærandi verði sjálfur að bera þann kostnað sem hann kann að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Beiðni kæranda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, verður að telja að ekki hafi verið forsendur til að taka ákvörðun um hvort selja ætti fasteign kæranda á grundvelli 1. mgr. 13. gr. lge., þar sem nægilegra upplýsinga og gagna hafði ekki verið aflað áður en hin kærða ákvörðun var tekin, sbr. 2. mgr. 5. gr. lge. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar af leiðandi voru ekki lagaskilyrði til að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Með vísan til þess ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er felld úr gildi. Kröfu um málskostnað er hafnað.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta