Mál nr. 73/2016
Mál nr. 73/2014
Fimmtudaginn 1. desember 2016
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 17. júlí 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 4. júlí 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.
Með bréfi 21. júlí 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 14. ágúst 2014.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 19. ágúst 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem þau gerðu með tölvupósti 26. janúar 2015. Athugasemdir kærenda voru sendar til umboðsmanns skuldara með bréfi 27. janúar 2015. Engar frekari athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd 1977 og 1965 og eru í hjúskap. Þau búa ásamt X börnum sínum í eigin íbúð að C, sem er 160 fermetrar að stærð.
Kærandi A starfar hjá D í hlutastarfi og kærandi B starfar hjá E. Auk launatekna fá kærendur meðlag, barnabætur og umönnunarbætur.
Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 7. nóvember 2012, eru 56.526.253 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga á árunum 2004 til 2008.
Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til atvinnuleysis, tekjulækkunar og offjárfestingar.
Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 13. júní 2012 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. nóvember 2012 var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Frestun greiðslna, eða svokallað greiðsluskjól, hófst við samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.).
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 18. júní 2014 tilkynnti sá fyrrnefndi að hún teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og því ætti að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Mat umsjónarmanns var að kærendur hefðu ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni á því tímabili sem frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafði staðið yfir. Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að miðað við heildartekjur kærenda ættu þau að hafa getað lagt fyrir 1.644.216 krónur á tímabili greiðsluskjóls en hafi ekkert lagt til hliðar. Kærendur hafi lagt fram gögn vegna útlagðs kostnaðar á tímabilinu að fjárhæð 335.585 krónur. Þrátt fyrir að tekið yrði tillit til heildarútgjalda kærenda vegna útlagðs kostnaðar á tímabilinu, sem að sögn þeirra hafi numið 968.585 krónum, hefðu þau engu að síður átt að geta lagt fyrir 675.631 krónu.
Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 25. júní 2014 þar sem þeim var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Þá var kærendum jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kærenda bárust með tölvupósti 2. júlí 2014.
Með ákvörðun 18. júlí 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur óska þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði endurskoðuð og að þeim verði veitt heimild til greiðsluaðlögunar.
Að sögn kærenda láðist þeim að geyma kvittanir fyrir óvæntum útgjöldum vegna fermingar og viðhalds fasteignar, en klæðning hússins og gluggar hafi legið undir skemmdum. Auk þess hafi eigum verið stolið úr [...] þeirra og þær skemmdar. Þá telja kærendur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara ekki duga til að reka stóra fjölskyldu. Laun kæranda A hafi enn fremur lækkað þegar hún missti atvinnu sína hjá F úr 230.000 krónum að meðaltali á mánuði í 180.000 krónur fyrir nóvember, desember og janúar sl. Í júní 2014 hafi útgreidd laun hennar numið 90.000 krónum vegna mismunandi útgreiðslureglna hjá Vinnumálastofnun og G þar sem hún hafi fengið tímabundið starf. Kærendur kveða það fé sem þau hafi náð að leggja fyrir hafa verið nýtt í rekstur heimilisins.
Kærendur gera athugasemd við að í bréfi [umboðsmanns skuldara] 4. júlí 2014 sé vísað til fundar umsjónarmanns og kærenda en hann hafi aldrei farið fram.
Í athugasemdum kærenda kemur fram að kostnaður vegna tómstunda barna hafi verið 242.000 krónur, auk þess sem kostnaður vegna frístundaheimilis sé 70.000 krónur á mánuði. Þá hafi kærandi A engin laun fengið í janúar 2014 þar sem hún hafi verið á fyrirframgreiddum mánaðarlaunum hjá F en Vinnumálastofnun greiði laun eftir á. Kærendur hafi lagt fyrir í hverjum mánuði en illa hafi gengið að láta það sem eftir var duga út mánuðinn.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.
Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann nýtur greiðsluskjóls. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. segi að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 18 mánuði en frestun greiðslna hafi varað frá 7. nóvember 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og útreikningum umsjónarmanns, sem miðar við 17 mánuði í greiðsluskjóli, hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:
Launatekjur 1. desember 2012 til 30. apríl 2014 að frádregnum skatti | 8.209.328 |
Meðlag | 861.308 |
Barnabætur | 530.226 |
Umönnunarbætur | 1.004.156 |
Heildartekjur á tímabili greiðsluskjóls | 10.605.018 |
Mánaðarlegar meðaltekjur | 623.825 |
Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 623.825 krónur í meðaltekjur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls.
Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hafi fjárhagur kærenda verið eftirfarandi á tímabili greiðsluskjóls í krónum:
Meðaltekjur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls | 623.825 |
Framfærslukostnaður á mánuði* | 527.106 |
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði | 96.719 |
Samtals greiðslugeta | 1.644.216 |
* Framfærslukostnaður miðar við útgjöld hjóna með X börn samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í júní 2014, auk þess sem byggt var á upplýsingum frá kærendum. Umsjónarmaður miðaði þó við að læknis- og lyfjakostnaður kærenda væri 10.000 krónum hærri en í framangreindu viðmiði.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir venjulegan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Kærendur kveðist hafa þurft að leggja út fyrir óvæntum útgjöldum að fjárhæð 611.000 krónur og hafi þau lagt fram gögn um það. Þá kveða kærendur sparnað nema 400.000 krónum. Þrátt fyrir að tekið yrði tillit til skýringa kærenda væri ljóst að útlagður kostnaður þeirra og sparnaður næmi samanlagt aðeins 61% af þeirri fjárhæð sem þau hefðu átt að geta lagt til hliðar á tímabili greiðsluskjóls. Kærendur hafi því ekki veitt umboðsmanni skuldara fullnægjandi skýringar á því hvers vegna þau hafi ekki lagt fyrir meira á tímabilinu en raun beri vitni.
Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Upplýsingarnar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þá hafi fylgt skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. með ákvörðun um samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun 7. nóvember 2012, sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Kærendum hafi því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Þess er krafist að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála felli úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar og veiti þeim áframhaldandi heimild til að leita hennar.
Felli umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að nefndin staðfesti eða felli ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi. Staðfesti kærunefndin ákvörðun umboðsmanns skuldara falla greiðsluaðlögunarumleitanir þá þegar niður. Verði fallist á kröfu kærenda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi leiðir það sjálfkrafa til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda halda áfram. Skilja verður kröfugerð kærenda með tilliti til þessa.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.
Á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skal skuldari samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu var umsókn kærenda samþykkt 7. nóvember 2012 og hófst frestun greiðslna sama dag. Frá og með þeim degi bar kærendum jafnframt að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýstir um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 1.644.216 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Sparnaður kærenda nemi 400.000 krónum.
Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa launatekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:
Tímabilið 1. desember 2012 til 31. desember 2012: Einn mánuður | |
Nettótekjur kærenda | 503.746 |
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir | |
Nettótekjur kærenda | 6.029.813 |
Nettó mánaðartekjur kærenda að meðaltali | 502.484 |
Tímabilið 1. janúar 2014 til 30. júní 2014: Sex mánuðir | |
Nettótekjur kærenda | 2.775.108 |
Nettó mánaðartekjur kærenda að meðaltali | 462.518 |
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, upplýsingar úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra og skattframtölum um tekjur kærenda var greiðslugeta þeirra þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. desember 2012 til 30. júní 2014: 19 mánuðir | |
Nettólaunatekjur alls í greiðsluskjóli | 9.308.667 |
Barnabætur | 915.654 |
Skattfrjálsar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins* | 1.405.998 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 11.630.319 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 612.122 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns** | 517.488 |
Greiðslugeta kærenda á mánuði | 94.634 |
Alls sparnaður í 19 mánuði í greiðsluskjóli x 94.634 | 1.798.047 |
* Umönnunargreiðslur og barnalífeyrir fyrir tímabilið 1. desember 2012 til 31. desember 2013. Ekki liggja fyrir gögn í málinu um þessar greiðslur á árinu 2014.
**Framfærslukostnaður miðar við útgjöld hjóna með X börn samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í júní 2014, auk þess sem byggt var á upplýsingum frá kærendum.
Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Umboðsmanni skuldara er ekki heimilt að styðjast við önnur viðmið þegar kostnaður við framfærslu er metinn. Eins og fram hefur komið var framfærslukostnaður kærenda miðaður við útgjöld hjóna með X börn. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna hefur staðið er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.
Kærendur hafa lagt fram gögn vegna kostnaðar, sem ekki hafði verið gert ráð fyrir á tímabili greiðsluskjóls, samtals að fjárhæð 424.754 krónur, og verða þau lögð til grundvallar við útreikninga á því hve háa fjárhæð kærendum bar að leggja til hliðar á tímabilinu eins og hér greinir: Kærunefndin telur rétt að taka tillit til kostnaðar vegna tannlækninga að fjárhæð 29.000 krónur, kaupa á þvottavél fyrir 74.715 krónur, viðgerðar á bíl fyrir 67.892 krónur, fermingarveislu að fjárhæð 89.169 krónur og fermingargjafar að fjárhæð 69.900 krónur, samtals 330.676 krónur. Einnig voru lagðar fram millifærslukvittanir vegna brúðkaupsgjafar og kostnaðar við brúðkaup sonar kærenda, samtals að fjárhæð 94.078 krónur, en ekki verður talið að um óvænt og nauðsynleg útgjöld sé að ræða til framfærslu fjölskyldu kærenda og verður því ekki tekið tillit til þess kostnaðar. Alls verður því við úrlausn kærunefndarinnar tekið tillit til kostnaðar að fjárhæð 330.676 krónur.
Kærendur hafa einnig lagt fram gögn vegna læknis- og lyfjakostnaðar á tímabili greiðsluskjóls, samtals að fjárhæð 98.329 krónur, þar sem þau telja þann kostnað vera hærri í hverjum mánuði en gert er ráð fyrir í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Samkvæmt framlögðum gögnum nam kostnaður kærenda vegna læknisþjónustu og lyfja að meðaltali 5.175 krónum á mánuði miðað við að greiðsluskjól stæði yfir í 19 mánuði (98.329/19). Í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara fyrir júní 2014 fyrir hjón með X börn er gert ráð fyrir að mánaðarlegur kostnaður vegna læknisþjónustu og lyfja sé 21.641 króna. Kærunefndin telur því að kærendur hafi ekki sýnt fram á að kostnaður þeirra vegna læknisþjónustu og lyfja sé hærri en áætlað er fyrir fjölskyldu af þeirra stærð samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara.
Að þessu virtu hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 1.467.371 krónu á tímabili greiðsluskjóls (1.798.047 – 330.676). Kærendur kveðast hafa lagt fyrir 400.000 krónur, en þau hafa ekki lagt fram nein gögn sem sýna fram á þann sparnað og verður sú fjárhæð því ekki lögð til grundvallar við útreikning á þeirri fjárhæð sem kærendur áttu að geta lagt til hliðar. Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem þau fengu í hendur þegar umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var samþykkt, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt þessu hafa kærendur ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Í ljósi þess er að framan greinir telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir