Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 137/2013

Fimmtudaginn 10. september 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 5. september 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. ágúst 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður. 

Með bréfi 24. september 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. október 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 15. október 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1979. Hún er einstæð og býr ásamt tveimur börnum sínum í eigin 70 fermetra íbúð að B götu nr. 69 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er menntaður snyrtifræðingur og er sjálfstætt starfandi. Hvorki liggja fyrir upplýsingar um laun hennar né aðrar tekjur.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 25.533.615 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2002 til 2010.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til kostnaðar við nám og lágra launa.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. maí 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 24. apríl 2013 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að embættið tæki afstöðu til þess hvort skilyrði væru til áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitana með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með tölvupósti 1. mars 2013 hafi umsjónarmaður upplýst kæranda um að hún þyrfti að selja fasteign sína að B götu nr. 69 í sveitarfélaginu C til þess að unnt væri að halda áfram greiðsluaðlögunarumleitunum hennar í samræmi við 13. gr. lge. Hafi afstaða umsjónarmanns annars vegar verið grundvölluð á gögnum málsins og hins vegar á fyrirliggjandi afstöðu kröfuhafa til draga að frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings. Hafi umsjónarmaður sent kæranda bréf 20. mars 2013 og veitt henni frest til 3. apríl sama ár til að upplýsa um afstöðu sína til sölu fasteignarinnar. Á fundi með umsjónarmanni 8. apríl 2013 hafi kærandi afdráttarlaust hafnað því að selja eignina. Hafi kærandi einkum vísað til þess að hún teldi húsaleigu nema hærri fjárhæð en greiðslur afborgana af húsnæðislánum.

Í framangreindu bréfi umsjónarmanns til umboðsmann skuldara 24. apríl 2013 er vísað til þess að Íbúðalánasjóður hefði gert athugasemdir við það að kærandi hefði ekkert greitt af húsnæðislánum frá því í janúar 2008. Meðal annars með hliðsjón af því og afstöðu kæranda til sölu fasteignarinnar verði ekki með neinu móti séð að kæranda sé unnt að standa straum af útgjöldum vegna fasteignarinnar til framtíðar til viðbótar við önnur útgjöld. Umsjónarmaður telji því ekki fyrir hendi skilyrði til áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitana kæranda.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 18. júlí 2013 þar sem henni var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan viku og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar. Sérstaklega hafi verið óskað eftir upplýsingum um tekjur kæranda frá mars til júlí 2013. Einnig hafi verið óskað eftir því að kærandi framvísaði skattframtali 2013 vegna tekjuársins 2012. Hafi þess verið þörf til að unnt væri að fá yfirsýn yfir fjárhag hennar. Í svari kæranda hafi komið fram að hún hafi ekki skilað skattframtali vegna tekjuársins 2012.

Með bréfi til kæranda 12. ágúst 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærð er synjun á greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Umsjónarmaður hafi upplýst kæranda um að taka ætti af henni íbúðina. Kærandi sé einstæð móðir með tvö börn og geti alls ekki fallist á að verða heimilislaus í greiðsluaðlögunarferli. Hún hafi óskað greiðsluaðlögunar meðal annars til að hafa öruggt húsaskjól. Kærandi telji sig eiga rétt á hjálp.

Kærandi greinir einnig frá því að hún sé ósátt við störf umsjónarmanns.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu svo raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Eigi umsjónarmanni að vera unnt að gera drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun, verði að leggja þær skyldur á kæranda að hún leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og skipti máli við gerð þess. Sömu gagna sé þörf við mat umboðsmanns skuldara á því hvort fella skuli niður greiðsluaðlögunarumleitanir samkvæmt 15. gr. lge. Athafnaskylda kæranda verði einnig leidd af ákvæði 1. mgr. 16. gr. lge.

Kærandi hafi ekki veitt umboðsmanni skuldara umbeðnar upplýsingar um tekjur sínar árið 2013 né heldur hafi hún framvísað skattframtali ársins 2013 vegna tekna ársins 2012. Fyrirliggjandi gögn gefi því ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem ekki sé hægt að leggja mat á það hvort kærandi hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. miðað við fyrirliggjandi gögn.

Umsjónarmaður telji að ráðstafa þurfi fasteign kæranda að B götu nr. 69 í sveitarfélaginu C þar sem kærandi hafi ekki greitt af húsnæðislánum sínum frá árinu 2008 og heldur ekki lagt til hliðar fé á tímabili greiðsluskjóls. Meti umsjónarmaður það svo að ekki séu skilyrði til þess að kærandi geti haldið fasteigninni að lokinni greiðsluaðlögun og sé umboðsmaður skuldara sammála því mati. Geti greiðsluaðlögunarumleitanir ekki haldið áfram telji kærandi sig ekki geta framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um sölu eignar.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Samkvæmt því er greiðsluaðlögun óheimil ef þessu lagaákvæði er ekki fullnægt. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Kærandi hefur ekki skilað skattframtali ársins 2013 vegna tekna ársins 2012. Kærandi hefur ekki heldur upplýst um tekjur sínar frá mars til júlí 2013. Umboðsmaður skuldara óskaði sérstaklega eftir þessum upplýsingum í bréfi til kæranda 18. júlí 2013. Í svari kæranda 26. júlí 2013 kom fram að hún hefði ekki skilað nefndu skattframtali.

Í fyrirliggjandi gögnum kemur fram að nettótekjur kæranda á tímabilinu 1. janúar til 31. júlí 2012 hafi alls verið 68.406 krónur. Aðrar upplýsingar lágu ekki fyrir um tekjur hennar á tímabilinu 1. janúar 2012 til 31. júlí 2013 er umboðsmaður skuldara tók ákvörðun í málinu. Kærandi hefur ekki framvísað umbeðnum gögnum þrátt fyrir beiðni þar um.

Samkvæmt þessu hefur kærandi látið hjá líða að upplýsa um tekjur sínar eins og henni er skylt að gera samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. Skortir því fullnægjandi upplýsingar sem tiltaka þarf til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu kæranda vegna frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 16. gr. lge. Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. grundvallarupplýsingar sem þurfa að liggja fyrir til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda byggir greiðsluaðlögun meðal annars á því að skuldari greiði af skuldum sem hann hefur stofnað til að því marki sem greiðslugeta hans leyfir. Af þessum sökum er nauðsynlegt að tekjur skuldara liggi ljósar fyrir, ella er ekki mögulegt að leggja mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt til kröfuhafa á grundvelli samnings um greiðsluaðlögun. Samkvæmt þessu verður að telja að fjárhagur kæranda sé óljós að framangreindu leyti og því hafi umboðsmanni skuldara borið að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Þá liggur fyrir að kærandi hefur ekki fallist á sölu fasteignar sinnar að B götu nr. 69 í sveitarfélaginu C. Á eigninni hvíla lán frá Íbúðalánasjóði. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar mega ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má, að mati umsjónarmanns, að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Eins og komið er fram hefur kærandi ekki upplýst um tekjur sínar. Liggur því ekki fyrir hve hátt hlutfall fasteignaveðkrafna samkvæmt 21. gr. lge. hún getur greitt. Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum að selja þá eign sem veðsett er til að létta á greiðslubyrði kæranda vegna fasteignaveðkrafna. Kærunefndin telur því að ekki sé unnt að líta öðruvísi á málavexti, meðal annars með hliðsjón af frásögn kæranda sjálfs, en hún hafi hafnað því að framfylgja fyrirmælum umsjónarmanns um sölu á eigninni.

Við þessar aðstæður verður að telja að rétt hafi verið að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta