Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 138/2013

Fimmtudaginn 10. september 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 12. október 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 27. ágúst 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 17. október 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. október 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 30. október 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1958 og 1959. Þau búa ásamt syni sínum á menntaskólaaldri í eigin 104,4 fermetra íbúð að C götu nr. 6 í sveitarfélaginu C.

Kærandi A starfar sem verkefnastjóri og er einnig í námi. Kærandi B er sérkennari. Mánaðarlegar nettótekjur kærenda eru 712.588 krónur vegna launa og vaxtabóta.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 46.148.207 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til mikillar hækkunar á lánum, skulda vegna verslunar sem þau ráku á árunum 2003 til 2005, atvinnuleysis og tekjulækkunar.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 27. júní 2011 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. mars 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til embættis umboðsmanns skuldara 15. janúar 2013 sendi umsjónarmaður málið til baka til embættisins þar sem hann taldi að fella þyrfti greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til a- og c-liða 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kom fram að kærendur hefðu ekki lagt fyrir í samræmi við greiðslugetu á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Greiðslugeta kærenda væri um 300.000 krónur á mánuði og hafi þau lagt fyrir um 1.000.000 króna á tímabilinu. Umsjónarmaður hafi ítrekað óskað eftir gögnum og reikningum sem sýndu fram á óvænt útgjöld kærenda í greiðsluskjóli en kærendur hafi einungis framvísað reikningum vegna útgjalda að fjárhæð 313.888 krónur. Í málinu hafi einnig komið fram að kærendur hefðu greitt húsaleigu fyrir móður kæranda A að fjárhæð um 50.000 krónur á mánuði á tímabilinu.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 18. júní 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kærenda 1. júlí 2013 kom fram að sparnaður þeirra í greiðsluskjólinu væri um 3.400.000 krónur en ekki 1.000.000 króna eins og umsjónarmaður héldi fram. Útborguð laun kærenda á tímabili greiðsluskjóls hefðu verið 14.145.819 krónur eða um 615.000 krónur á mánuði að frádreginni meðlagsskuld kæranda A að fjárhæð um 1.300.000 krónur sem greidd hafi verið á tímabilinu. Kærendur hafi orðið fyrir óvæntum útgjöldum á tímabilinu, alls að fjárhæð 2.766.708 krónum sem sundurliðist svo:

 

Útgjaldaliður Fjárhæð alls Meðaltal á mán.
Matur, ferðir o.fl. tengt menntaskóla sonar 437.000 19.000
Tölva vegna menntaskóla sonar 130.000 5.652
Skólagjöld í menntaskóla sonar 97.500 4.239
Tannlækningar 350.691 15.247
Bílaviðgerðir og gjöld 324.892 14.126
Gleraugu 118.100 5.135
Fjölskylduráðgjöf 80.000 3.478
Læknisþjónusta vegna dóttur 45.000 1.957
Endurnýjun heimilistækja 159.900 6.952
Hraðasektir 23.625 1.027
Mötuneyti, stéttar- og starfsmannafélög 880.000 38.261
Kostnaður vegna hests og kattar 120.000 5.217
Samtals 2.766.708 120.292

 

Með bréfinu lögðu kærendur fram reikningsyfirlit yfir bankareikning kæranda B þar sem fram kom að innstæða væri 3.001.660 krónur, launaseðla kæranda A vegna júlí 2011 til júlí 2013 og launaseðla kæranda B vegna maí 2011 til júní 2013. Umboðsmaður óskaði frekari gagna og skýringa en þær bárust ekki.

Með bréfi til kærenda 27. ágúst 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að þeim verði veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

Að mati kærenda á 15. gr. lge. ekki við í málinu. Þegar þau hafi sótt um greiðsluaðlögun hafi þeim ekki verið kynnt nægilega vel ákvæði lge. um skyldu til sparnaðar.

Kærendur hafi lagt fyrir um 3.400.000 krónur í greiðsluskjóli en ekki 1.000.000 króna eins og umsjónarmaður þeirra hafi haldið fram. Þá sé mikið misræmi á milli þeirra launa sem umsjónarmaður telji kærendur hafa fengið útborguð og raunverulegra útborgaðra launa. Umsjónarmaður telji útborguð laun hafa verið 16.499.217 krónur á tímabilinu en þau hafi í reynd aðeins verið 14.145.819 krónur. Skýrist það af því að meðlagsskuld að fjárhæð 1.300.000 krónur hafi verið dregin af launum kærenda A á tímabilinu. Þá séu greiðslur í stéttarfélög 7.000 krónur á mánuði og kostnaður vegna mötuneytis 40.000 krónur á mánuði. Alls nemi þetta 2.353.398 krónum.

Umsjónarmaður telji kærendur hafa átt að leggja til hliðar 8.997.928 krónur á tímabilinu. Sé tekið tillit til framangreindra greiðslna að fjárhæð 2.353.398 krónur og sparnaðar kærenda að fjárhæð 3.400.000 krónur vanti 4.244.530 krónur upp á sparnað kærenda samkvæmt ströngu viðmiði umboðsmanns skuldara. Eigi þá eftir að taka tillit til óvæntra útgjalda, kostnaðar vegna tannlæknis, gleraugna, hærri símreikninga og þess að kærandi A greiði tvöfalt meðlag með barni sínu. Þá hafi kærandi A þurft að aðstoða aldraða móður sína með greiðslu húsaleigu.

Kærendum hafi ekki verið mögulegt að aðlaga strax útgjöld sín að viðmiði umboðsmanns skuldara enda mikill munur á því viðmiði og raunverulegum útgjöldum kærenda. Mesti munurinn sé vegna kostnaðar við mat og hreinlætisvörur en þar muni um 28.000 krónum á mánuði. Þá sé kostnaður við lyf og læknisþjónustu að jafnaði um 5.000 krónum hærri en viðmið umboðsmanns geri ráð fyrir. Kærandi A sé í meira en 100% starfi en hann vinni á mörgum stöðum. Til þess að það sé unnt verði hann að hafa bíl til afnota. Kostnaður við rekstur bifreiðar sé þess vegna um 10.000 krónum hærri en viðmiðunarfjárhæð umboðsmanns skuldara. Samskiptakostnaður kærenda sé einnig hærri en viðmið umboðsmanns en það sé vegna vinnu kæranda A. Einnig þurfi hann að fylgjast vel með fjölmiðlum og því sé nauðsynlegt fyrir hann að vera áskrifandi að þeim en það kosti alls 7.590 krónur á mánuði. Stærstu óvæntu útgjöld kærenda séu vegna menntaskólagöngu sonar þeirra. Kærendur greiði skólagjöldin og hafi keypt fyrir hann fartölvu þegar hann hóf námið. Alls nemi þessi kostnaður um 437.000 krónum umfram viðmið umboðsmanns skuldara. Einnig hafi kærendur þurft að greiða fyrir tannlæknaþjónustu, bílaviðgerðir og fjölskylduráðgjöf. Þá hafi þau þurft að kaupa ný heimilistæki og gleraugu og hafi orðið fyrir kostnaði vegna hesta og kattar. Alls nemi þessi kostnaður 2.766.708 krónum.

Að öllu þessu virtu sé tæpast hægt að rökstyðja að kærendur hafi ekki gætt skyldu sinnar um að leggja fyrir. Þá sé sérstaklega bent á að kröfuhafar sem stundi lánastarfsemi margfaldi framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara með 1,5 þegar þeir leggi mat á greiðslugetu viðskiptavina sinna. Því sé augljóst að þótt viðmið umboðsmanns skuldara gefi hugmynd um útgjöld séu þau ekki tæmandi talin, heldur þvert á móti aðeins viðmið.

Markmið lge. sé að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi  milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Í 12. gr. lge. sé ekki kveðið á um hvernig afmarka eigi framfærslu á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Í 3. mgr. 16. gr. lge. sé fjallað um hvernig frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun eigi að vera úr garði gert, þ.e. að framfærsla skuldara og fjölskyldu hans skuli tryggð. Í 4. mgr. 16. gr. lge. sé kveðið nánar á um þetta þannig að feli frumvarp umsjónarmanns í sér að skuldari inni af hendi reglulegar afborganir á tilteknu tímabili skuli umsjónarmaður miða við að skuldari haldi eftir svo miklu af tekjum sínum að dugi til að sjá honum, heimilisfólki hans og þeim einstaklingum sem hann hefur framfærsluskyldu við samkvæmt lögum farborða. Í ákvæðinu sé kveðið á um að umsjónarmaður skuli notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Þetta ákvæði taki samkvæmt orðanna hljóðan til þess hvernig frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings skuli byggt upp en ekki til þess hvernig framfærslu skuldara skuli háttað meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum standi.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. segi um a-lið 1. mgr. 12. gr.: „Ákvæði 12. gr. snúa að því hvernig skuldari skal haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Víki skuldari augljóslega frá þessum skyldum með vísvitandi hætti getur slíkt leitt til þess að umsjónarmaður fái greiðsluaðlögunarumleitanir felldar niður á grundvelli 15. gr. Í ákvæðinu er í fyrsta lagi nefnt að skuldari skuli leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það sem fer umfram það sem hann þarf til framfærslu sinnar, fjölskyldu og heimilis síns. Sökum ákvæða 11. gr. um greiðslustöðvun á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana er viðbúið að slík staða geti komið upp.“ Af þessum orðum megi draga þá ályktun að mikið þurfi að koma til svo að skuldari teljist hafa brotið gegn skyldum sínum, enda sé áskilnaður um að skuldari víki augljóslega og með vísvitandi hætti frá skyldum sínum.

Einnig verði að setja þetta ákvæði í samhengi við almenn markmið laganna um að hraða sem kostur sé uppgjöri þar sem alvarlegur skuldavandi sé til staðar. Þannig segi til dæmis í almennum athugasemdum með frumvarpi til lge.: „Greiðsluaðlögun er ætlað að auðvelda skuldara að endurskipuleggja fjármál sín og laga skuldir að greiðslugetu, þannig að raunhæft sé að hann geti staðið við skuldbindingar sínar. [...] Það er markmið þessa frumvarps að einstaklingar fari framvegis frekar þessa leið við uppgjör og endurskipulagningu fjármála sinna en þvingaða leið skuldaskilaréttarins.“ Í þessu felist að tilgangur lge. sé að gera einstaklingum kleift að gera samning við kröfuhafa og stuðla þannig að því að uppgjör skuldara verði ekki á grundvelli skuldaskilaréttarins. Þær heimildir sem umsjónarmanni séu veittar með 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., til að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hljóti að vera undantekningarákvæði þar sem umsjónarmanni sé almennt uppálagt að reyna að koma á samningi milli kröfuhafa og skuldara.

Þegar allt framanritað sé virt telji kærendur að túlka beri ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þröngt og að mikið þurfi að koma til svo að ákvæðið eigi við. Það sé því mat þeirra að þau hafi ekki brotið gegn ákvæðinu og því sé ekki ástæða til að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 16. mars 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar kæmi að því að semja við kröfuhafa.

Kærendur hafi óskað greiðsluaðlögunar 27. júní 2011 og hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge., svokallað greiðsluskjól, þá hafist. Greiðsluskjól kærenda hafi samkvæmt því staðið yfir í rúma 23 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. júlí 2011 til maíloka 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. júlí 2011 til 31. maí 2013 að frádregnum skatti 16.236.375
Barnabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 262.842
Samtals 16.499.217
Mánaðarlegar meðaltekjur 717.357
Framfærslukostnaður á mánuði 326.143
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 391.214
Samtals greiðslugeta í 23 mánuði 8.997.928

 

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim er jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 326.143 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag. Samkvæmt þessu sé miðað við framfærslukostnað júnímánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna og eitt barn. Kærendur hafi lagt fram yfirlit yfir framfærslukostnað að fjárhæð 459.778 krónur á mánuði en samkvæmt framangreindu verði að leggja framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara til grundvallar. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 8.997.928 krónur á fyrrnefndu tímabili, sé miðað við greiðslugetu að fjárhæð 391.214 krónur á mánuði í 23 mánuði.

Kærendur hafi bent á að umtalsverðar fjárhæðir séu dregnar frá útborguðum launum þeirra vegna mötuneytis, stéttarfélags- og starfsmannafélagsgjalda. Hafi þau lagt fram launaseðla því til stuðnings. Kostnaður vegna mötuneytis falli undir liðinn „matur og hreinlætisvörur“ samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara. Verði því ekki tekið tillit til þess kostnaðar umfram framfærsluviðmið. Hið sama gildi um gjald í starfsmannafélag en það falli undir liðinn „önnur útgjöld“ og/eða „tómstundir“ samkvæmt framfærsluviðmiðum. Auk þess sé slíkt gjald valkvætt og teljist ekki nauðsynlegur kostnaður vegna framfærslu. Stéttarfélagsgjald, sem kærendur hafi greitt á tímabilinu, sé meðal annars greitt í þeim tilgangi að hljóta styrki og fjárhagslega aðstoð við nauðsynleg útgjöld svo sem gleraugnakaup, sálfræðiþjónustu, tannlæknakostnað og þess háttar. Kærendur hafi lagt fram ýmsar kvittanir vegna þess háttar kostnaðar sem þau telji að draga eigi frá þeirri fjárhæð sem lögð skyldi fyrir á tímabilinu. Ekki sé gerð grein fyrir þeim styrkjum sem þau hafi fengið eða eigi rétt á frá stéttarfélagi sínu og því sé gert ráð fyrir að styrkir vegna ofangreinds frá stéttarfélagi komi á móti greiðslum kærenda í stéttarfélög. Verði því ekki tekið tillit til greiðslna til stéttarfélags sem aukins kostnaðar við framfærslu.

Kærandi A hafi greitt alls 1.250.000 krónur vegna meðlagsskuldar á tímabili greiðsluskjóls. Ekki sé heimilt að greiða eldri skuldir á tímabilinu en Innheimtustofnun sveitarfélaga hafi látið draga nefnda fjárhæð af launum hans þrátt fyrir að það sé óheimilt. Kærandi hafi leitast við að fá fjárhæðina endurgreidda en það hafi ekki tekist. Í ljósi þessara sérstöku og óviðráðanlegu aðstæðna verði tekið tillit til þessarar greiðslu þegar fjárhæð sparnaðar sé reiknuð út. Þá hafi kærendur lagt fram kvittanir vegna óvæntra útgjalda að fjárhæð 313.888 krónur. Þegar tekið hafi verið tillit til þessara fjárhæða hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 7.434.040 krónur en þau hafi aðeins lagt fram gögn um sparnað að fjárhæð 3.001.660 krónur.

Kærendur hafi tiltekið ýmsan kostnað að fjárhæð 2.766.708 krónur vegna óvæntra útgjalda. Með tölvupósti til kærenda 2. júlí 2013 hafi þau verið upplýst um að þau þyrftu að leggja fram gögn þessum kostnaði til stuðnings. Það hafi þau ekki gert og því sé ekki unnt að taka tillit til hans.

Embætti umboðsmanns skuldara dragi í sjálfu sér ekki í efa fullyrðingar kærenda um háan framfærslukostnað að öðru leyti en því að aukin útgjöld í slíkum mæli geti talist til brota á þeim skyldum sem á kærendum hvíli samkvæmt 12. gr. lge. Gera verði þá kröfu til einstaklinga sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf að þeir dragi úr útgjöldum, sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunar-umleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem er umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að þeim verði veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi leiðir það sjálfkrafa til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda halda áfram. Kröfugerð kæranda ber því að skilja með hliðsjón af því.

Kærendur telja að þeim hafi ekki verið kynnt nægilega ákvæði lge. um skyldu til sparnaðar þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar, komið fram í bæklingum eða á vefsíðum.

Með setningu laga nr. 128/2010, sem voru birt 18. október 2010, tók gildi tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hjá þeim einstaklingum sem sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar fram til 1. júlí 2011. Þegar umsókn var lögð fram afhenti umboðsmaður skuldara þessum umsækjendum sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum umsækjenda í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að umsækjendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þyrfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í upplýsingaskjalinu var einnig greint frá því að umsækjendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimils og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti umsækjandi ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðslna stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.

Þá sendi umboðsmaður skuldara umsækjendum, sem voru í greiðsluskjóli, bréf 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur umsækjenda að leggja til hliðar fjármuni sem voru umfram framfærslu samkvæmt 12. gr. lge.

Á vefsíðu umboðsmanns skuldara, á þeim tíma er kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar, voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunarumleitanir. Eftirfarandi texta var að finna á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:

 „Þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilsins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrgðum fyrir umsækjenda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“

Kærunefndin telur að kærendum hafi mátt vera ljóst að þeim bar að haga framfærslu sinni eftir sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun. Í því sambandi var sérstaklega tilgreint á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun hvaða fjárhæðir framfærsla þeirra skyldi miðast við og að frekari upplýsingar um framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara væri að finna á vefsíðu embættisins. Í umsókninni segir „Þú finnur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara á heimasíðunni www.ums.is“

Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. mars 2012 þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt greiðsluáætlun, sem einnig fylgdi ákvörðun umboðsmanns skuldara, var mánaðarleg greiðslugeta kærenda eftir greiðslu framfærslukostnaðar tiltekin 433.834 krónur.

Kærunefndin telur að embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kærendum þegar þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar með fullnægjandi hætti með því að veita upplýsingar við móttöku umsóknar, í tilkynningu sem send var kærendum á tímabili greiðsluskjóls, á vefsíðu embættisins og með upplýsingum á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun. Var um að ræða útskýringar á afdráttarlausu lagaákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þar sem segir að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Eins og fram kemur í leiðbeiningunum er þar enn fremur útskýrt að skylda til að leggja fé til hliðar hefjist frá því að umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin þegar frestun greiðslna hefst. Að þessu virtu er það álit kærunefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi framfylgt leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Kærendum bar því að virða skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá þeim tíma er þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar 27. júní 2011.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið var kærendum skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Með bréfi 15. janúar 2013 sendi umsjónarmaður málið aftur til umboðsmanns skuldara þar sem hann taldi að fella bæri greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður, meðal annars með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunar-umleitanir kærenda niður 27. ágúst 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga, sbr. lög nr. 28/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum er gert ráð fyrir að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 391.214 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Að mati embættisins hafi kærendur átt að leggja til hliðar 8.997.928 krónur frá 1. júlí 2011 til 31. maí 2013. Til frádráttar komi sparnaður kærenda að fjárhæð 3.001.660 krónur, framlagðir reikningar vegna óvæntra útgjalda að fjárhæð 313.888 krónur og greiddar meðlagsskuldir að fjárhæð 1.250.000 krónur. Eftir standi þá 4.432.380 krónur sem kærendur hefðu átt að leggja til hliðar.

Kærendur kveða framfærslukostnað sinn mun hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir en einnig hafi þau þurft að greiða ýmis óvænt útgjöld á tímabilinu. Þá hafi útborguð laun þeirra verið lægri en umboðsmaður skuldara reikni með vegna greiðslna til starfsmannafélags, stéttarfélaga og fyrir mötuneyti. Loks hafi kærandi A þurft að aðstoða móður sína við greiðslu húsaleigu. Þegar tekið sé tillit til þessa telja kærendur sig hafa lagt fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011:  Sex mánuðir
Nettótekjur A 2.934.713
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 489.119
Nettótekjur B 1.459.266
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 243.211
Nettótekjur alls 4.393.979
Mánaðartekjur alls að meðaltali 732.330


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 5.558.868
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 463.239
Nettótekjur B 2.952.749
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 246.062
Nettótekjur alls 8.511.617
Mánaðartekjur alls að meðaltali 709.301


Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. júlí 2013: Sjö mánuðir
Nettótekjur A 3.031.793
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 433.113
Nettótekjur B 1.747.106
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 249.587
Nettótekjur alls 4.778.899
Mánaðartekjur alls að meðaltali 682.700


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 17.684.495
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 707.380

 

Sé miðað við framfærslukostnað, samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. júlí 2013: 25 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 17.684.495
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 707.380
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 326.143
Greiðslugeta kæranda á mánuði 381.237
Alls sparnaður í 25 mánuði í greiðsluskjóli x 381.237 9.530.920

 

Kærendur telja að túlka beri ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um sparnað í greiðsluskjóli þröngt. Mikið þurfi því að koma til svo að ákvæðið eigi við en það veiti ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvernig framfærslukostnaður skuldara skuli reiknaður. Þau benda á að í lögskýringargögnum sé tekið fram að skuldari þurfi að hafa vikið augljóslega og með vísvitandi hætti frá skyldum um sparnað og að markmið lge. sé að ljúka uppgjöri skuldamála einstaklinga með samningi frekar en úrræðum skuldaskilaréttarins. Með hliðsjón af þessu og atvikum málsins telja þau sig ekki hafa brotið gegn ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Eins og kærendur benda á er það markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Meðal annars þess vegna er skuldara gert að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem er umfram framfærslukostnað á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Féð skal nota til að greiða kröfuhöfum þegar kemur að efndum greiðsluaðlögunarsamnings.

Í c-lið 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 kemur fram að eitt af hlutverkum umboðsmannsins sé að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 15. júní 2010 segir um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara, er síðar varð að lögum nr. 100/2010: „Nefndin ræddi ítarlega hlutverk umboðsmanns skuldara og telur mikilvægt að stofnuninni verði falið að útbúa lágmarksframfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Nauðsynlegt er að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar komi fram raunhæf tillaga að greiðslum þar sem gert er ráð fyrir framfærsluþörf einstaklingsins og fjölskyldu hans. Jafnframt er mikilvægt að samræmis sé gætt að þessu leyti.“ Samkvæmt þessu gerði nefndin þá breytingartillögu á fyrirliggjandi frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara að inn í 2. mgr. 1. gr. var bætt staflið d þar sem fram kemur að hlutverk embættis umboðsmanns skuldara sé að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega.

Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem er umfram framfærslukostnað. Eins og kærendur benda á veitir þetta tiltekna ákvæði út af fyrir sig ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvernig framfærslukostnaður skuli reiknaður. Hér verður að hafa í huga að þær aðstæður sem 12. gr. lge. varðar eru þær að skuldarinn hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa. Eins og áður hefur verið vikið að er um að ræða samninga sem að jafnaði fela í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggur þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði svo mikið sem honum er unnt af kröfunum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir eru undirbúnar og yfirstandandi, er lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum frá skuldara eða innheimti kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Jafnframt verður skuldari að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili til þess að honum takist að leggja fyrir á tímabilinu. Það er einnig mikilvægt að bæði skuldarar og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verður framfærslukostnaður skuldara að styðjast við fyrirfram ákveðið almennt viðmið. Í ljósi laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010, lögskýringargagna, lge. og þess sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að ekki er öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara. Telur kærunefndin því að við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli beri að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur.

Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er einnig gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum til hagsbóta fyrir skuldara en á þann hátt er unnt að taka tillit til sérstakra eða ófyrirséðra kostnaðarliða viðkomandi skuldara. Kærendur hafa lagt fram kvittanir sem sýna greiðslu á neðangreindum útgjöldum á tímabilinu í krónum:

 

Útgjaldaliður Fjárhæð
   
Skólagjöld 101.000
Bilaviðgerðir 115.611
Bifreiðaskoðun og dekkjaskipti 32.094
Sálfræðiþjónusta 11.000
Gleraugu 118.100
Fjölskylduráðgjöf 8.000
Tannlækningar 232.715
Læknisþjónusta 22.386
MP-3 spilari 4.995
Tölvutenging 11.295
Vatns- og fráveitugjöld 81.662
Fasteignagjöld 52.428
Sjónvarp 59.990
Samtals 851.276

 

Af ofangreindum kostnaði er kostnaður við bifreiðaskoðun og dekkjaskipti innifalinn í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara og sömuleiðis kostnaður við læknisþjónustu, fasteigna-, vatns- og fráveitugjöld. Samkvæmt því hefur þegar verið gert ráð fyrir þessum kostnaði þegar greiðslugeta kærenda er reiknuð út. Verður því ekki litið svo á að um óvænt útgjöld sé að ræða og því ekki unnt að draga þennan kostnað frá þeirri fjárhæð sem kærendur hafa átt að leggja til hliðar. Á hinn bóginn telur kærunefndin að líta beri á kostnað vegna skólagjalda, bílaviðgerða, gleraugnakaupa og tannlæknaþjónustu sem nauðsynlegan kostnað vegna framfærslu í skilningi lge. Alls nemur þessi kostnaður kærenda 567.426 krónum og verður hann færður til lækkunar á sparnaði kærenda samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá hafa kærendur greitt fyrir sálfræðiþjónustu, fjölskylduráðgjöf, kostnað við tölvutengingu, MP-3 spilara og sjónvarp alls 95.280 krónur. Þennan kostnað er að mati kærunefndarinnar ekki unnt að líta á sem nauðsynlegan til að sjá fjölskyldunni farborða og verður því ekki tekið tillit til hans við útreikning á sparnaði.

Kærendur hafa lagt fram launaseðla sem sýna frádrátt af launum þeirra vegna kostnaðar við mötuneyti á vinnustað samtals að fjárhæð 379.872 krónur, greiðslu í starfsmannafélag kæranda A alls að fjárhæð 22.000 krónur og greiðslur til stéttarfélaga kærenda alls að fjárhæð 214.231 króna. Samtals nema þessar greiðslur 616.103 krónum. Að því er þessar greiðslur varðar er gert ráð fyrir fæðiskostnaði í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Ekki eru rök til að líta með öðrum hætti á kostnað við fæðiskaup í mötuneyti en önnur fæðiskaup kærenda. Telur kærunefndin því ekki unnt að draga þennan kostnað frá þeirri fjárhæð sem kærendur hafa átt að leggja fyrir á tímabilinu. Kostnaður við starfsmanna- og stéttarfélög er ekki skyldubundinn og því telst sá kostnaður ekki nauðsynlegur til framfærslu fjölskyldunnar á tímabili greiðsluskjóls. Verður því ekki heldur tekið tillit til þess kostnaðar við útreikninga á því hve háa fjárhæð kærendum bar að leggja til hliðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Einnig sýna launaseðlarnir að meðlag að fjárhæð 1.079.156 krónur hefur verið dregið af launum kæranda A á tímabilinu. Eins og sérstaklega stendur á í máli þessu og þar sem fjárhæðin var dregin af kæranda A án hans beiðni verður fjárhæðin dregin frá þeirri fjárhæð sem kærendur hefðu átt að leggja fyrir samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt framangreindu hefði sparnaður kærenda í greiðsluskjóli átt að vera eftirfarandi í krónum:

 

Sparnaður í greiðsluskjóli 9.530.920
m.v. framfærsluviðmið  
Frádráttur vegna -567.426
óvæntra útgjalda  
Frádráttur vegna -1.079.156
meðlagsgreiðslna  
Sparnaður í greiðsluskjóli 7.884.338

 

Samkvæmt framlögðu bankayfirliti er sparnaður kærenda 3.001.660 krónur. Vantar því 4.882.678 krónur upp á sparnað kærenda (7.884.338 krónur - 3.001.660 krónur) sem þeim bar að leggja til hliðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Telur kærunefndin að hér sé um svo verulega fjárhæð að ræða að ekki sé unnt að líta öðruvísi á en svo að kærendur hafi augljóslega og með vísvitandi hætti vikið frá skyldum um sparnað. Í því sambandi ber einnig að hafa í huga það sem áður hefur verið sagt um þær leiðbeiningar sem kærendum voru veittar að þessu leyti.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta