Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 84/2011

Mánudaginn 19. ágúst 2013

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 26. desember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 9. desember 2011, þar sem umsókn hans um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi, dags. 5. janúar 2012, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 26. janúar 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 2. febrúar 2012, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 15. febrúar 2012. Voru athugasemdir kæranda sendar umboðsmanni skuldara með bréfi, dags. 20. febrúar 2012, sem skilaði inn framhaldsgreinargerð með bréfi, dags. 28. febrúar 2012.

 I. Málsatvik

Kærandi leigir íbúð í Noregi, en hann fluttist til Noregs árið 2009. Hann á þrjú börn sem hann greiðir meðlag með. Hann hefur sameiginlega forsjá með tveimur af börnunum, en þau eru öll búsett á Íslandi. Kærandi er menntaður viðskiptafræðingur og starfar á fjármáladeild sjúkrahússins X. Samkvæmt launaseðlum eru nettólaun kæranda 19.505 norskar krónur á mánuði ef mið er tekið af meðaltali launa hans fyrir ágúst, september og október 2011.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til þess að í ágúst 2007 keypti hann, ásamt fyrrverandi konu sinni, fimm herbergja íbúð. Í október 2008 missti hann síðan vinnuna ásamt hliðartekjum sem komu frá knattspyrnuiðkun. Í kjölfarið hafi hann orðið fyrir tekjuskerðingu sem hafi leitt til vanskila.

Heildarskuldir kæranda eru 47.554.116 krónur samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara og þar af falla 6.472.678 krónur utan samnings.

Þann 2. desember 2011 lá umsókn kæranda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Var umsókn hans synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 9. desember 2011, á grundvelli þess að hann uppfyllti ekki skilyrði greiðsluaðlögunar skv. 4. mgr. 2. gr. og a-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

 II. Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að hann hafi fengið fyrirspurn frá umboðsmanni skuldara þar sem óskað var eftir gögnum og framtíðarplönum. Skildi hann fyrirspurnina þannig að verið væri að leita eftir upplýsingum um framtíðarplön á þeim árum sem möguleg greiðsluaðlögun færi fram. Svaraði því kærandi að hann væri ekki á heimleið nema hann fengi sambærilega vinnu með sambærilegum launum á Íslandi. Tók hann jafnframt fram að hann ætti börn á Íslandi og vildi komast sem fyrst heim.  

Í athugasemdum sínum við greinargerð umboðsmanns tekur kærandi fram að hans framtíðarplön séu að búa á Íslandi og ef allar áætlanir standist muni hann flytja heim eigi síðar en síðla árs 2014.

Varðandi þá staðreynd að hann sé í föstu starfi í Noregi bendir kærandi á að vinnuveitanda kæranda bar skylda að fastráða hann eftir sex mánaða starf. Það sé ástæðan fyrir því að hann sé fastráðinn hjá X.

 III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að við mat á umsókn beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. ákvæðisins komi fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laga til að leita greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður vísar einnig til 4. mgr. 2. gr. lge. þar sem kveðið er á um að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar sem eiga lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu skilyrði megi þó víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er íslenskur ríkisborgari sem tímabundið er búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda enda leiti hann hennar einungis vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi við lánardrottna sem eiga hér heimili.

Vísar umboðsmaður til fyrirliggjandi gagna þar sem komi fram að kærandi hafi flust búferlum til Noregs árið 2009 og samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi hann breytt lögheimili sínu þann 2. apríl 2009. Hann hafi því dvalið í Noregi í alla vega tvö ár og níu mánuði þegar ákvörðun var tekin. Bendir umboðsmaður á að í samskiptum við kæranda hafi komið fram að óráðið sé með framtíðarplön hans, hann sé með börn á Íslandi og hafi hug á að flytjast heim sem fyrst. Hann sé hins vegar í ágætri vinnu í Noregi og til þess að hann geti flutt aftur til landsins þurfi hann að fá vinnu sem sé sambærileg eða betri en sú vinna sem hann er í núna.

Vísar umboðsmaður til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 14/2011 þar sem fjallað var um hvort líta ætti á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að undantekningarheimild 4. mgr. 2. gr. lge. ætti við. Í niðurstöðu nefndarinnar segi: „Til að afmarka þau tilvik þar sem um tímabundna búsetu erlendis er að ræða verður [að] líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu, sem er ekki ætlað að ná til allra sem flytja erlendis um ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Það ræður ekki úrslitum í málum af þessu tagi hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt erlendis. Hins vegar verður við það að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd neinum gögnum og er ekki fullnægjandi í þessu sambandi að viðkomandi lýsi því yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands einhvern tímann í framtíðinni, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.“

Að mati umboðsmanns hafi kærandi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á að búsetu hans erlendis sé fyrirfram markaður tími. Hann hafi jafnframt svarað því í tölvupósti að framtíðaráætlanir séu óráðnar og hann muni ekki flytja til Íslands nema honum bjóðist atvinna sem hann telji a.m.k. jafngóða þeirri sem hann hefur í Noregi.

Umboðsmaður áréttar að þær undantekningareglur sem lýst er í a- og b-liðum 4. mgr. 2. gr. lge. verði að skýra þröngt. Eins sé ljóst af áðurnefndum úrskurði kærunefndar í máli nr. 14/2011, orðalagi ákvæðisins og eðli reglunnar sem undantekningar að gera verði nokkrar kröfur til umsækjenda um greiðsluaðlögun sem eru búsettir erlendis um að þeir sýni fram á að búseta þeirra erlendis sé aðeins tímabundin, þ.e. hafi verið markaður fyrirfram ákveðinn tími. Eins verði slík staðhæfing að vera studd fullnægjandi gögnum.

Hvað varðar þær staðhæfingar kæranda um að framtíðaráætlanir hans séu að flytjast aftur til landsins og ef allar áætlanir standist muni hann flytja til Íslands eigi síðar en síðla árs 2014, þá sé þessi staðhæfing ekki studd neinum haldbærum rökum eða gögnum. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að undantekningar í a- eða b-liðum 4. mgr. 2. gr. lge. taki til aðstæðna hans.

Umboðsmaður telur að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins að kærandi uppfylli ekki skilyrði þess að leita greiðsluaðlögunar skv. a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge., og fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 IV. Niðurstaða

Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. lge. geta þeir einir leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eiga lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu skilyrði er heimilt að víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er íslenskur ríkisborgari sem sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda að uppfylltum öðrum skilyrðum greinarinnar.

Í máli þessu er ágreiningur um hvort líta eigi á búsetu kæranda í Noregi sem tímabundna þannig að áðurnefnd undantekningarheimild í 4. mgr. 2. gr. laganna eigi við. Með tímabundinni búsetu er átt við að sýnt sé fram á eða gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur tímabundið verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Verður jafnframt að styðja slíka staðhæfingu gögnum og er ekki fullnægjandi í því sambandi að viðkomandi lýsi því yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands í framtíðinni, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.

Undir rekstri málsins hjá nefndinni lagði kærandi fram yfirlýsingu frá atvinnuveitanda sínum í Noregi. Þar kemur fram að að loknu reynslutímabili hafi kærandi verið fastráðinn starfsmaður, þar sem ekki hafi verið grundvöllur fyrir tímabundinni ráðningu samkvæmt norskum lögum og er þar vísað til arbeidsmiljøloven nr. 62 frá 2005, ákvæðis 14-9.  

Með vísan til framangreinds hefur kærandi sýnt fram á að líklegt er að búsetu hans erlendis sé markaður ákveðinn tími og hann tímabundið búsettur erlendis í skilningi laganna. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar er því felld úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um greiðsluaðlögun er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta