Mál nr. 90/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 90/2024
Föstudaginn 28. júní 2024
A
gegn
umboðsmanni skuldara
ÚRSKURÐUR
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Þann 21. febrúar 2024 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 14. febrúar 2024, þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi, sem er fæddur 1982, lagði fram umsókn um aðstoð vegna fjárhagsvanda 5. júlí 2023. Þann 9. janúar 2024 óskaði kærandi eftir því að umsókn hans yrði breytt í umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. lög um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge). Með bréfi, dags. 17. janúar 2024, var kæranda tilkynnt að við meðferð málsins hefðu komið í ljós atriði sem leitt gætu til synjunar um heimild til greiðsluaðlögunar. Með bréfinu var kæranda veitt færi á að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun um afgreiðslu umsóknar yrði tekin. Viðbrögð kæranda bárust með tölvupóstum á tímabilinu 22. janúar 2024 til 16. febrúar 2024. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 14. febrúar 2024, var umsókn kæranda synjað á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Með bréfi, dags. 28. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 12. mars 2024. Viðbótarathugasemdir og gögn frá kæranda bárust 13. mars 2024. Greinargerð umboðsmanns var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 14. mars 2024, og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti, dags. 13. mars 2024 Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja honum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.
Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri. Hann hafi einungis haft nógu mikið milli handanna til að framfleyta sér. Nú hafi hann ekki heilsu til að vinna lengur og eigi enga peninga til að greiða skuldir. Kærandi kveðst í raun vera orðinn gjaldþrota og telur framtíðina ekki bjarta hvað þetta varðar.
Kærandi kveðst hafa leitað til umboðsmanns skuldara í þeirri von að fá aðstoð en hafi ekki fengið hana. Kærandi kveðst eflaust verða heimilislaus sökum þess.
Kærandi viðurkennir að hann hafi gert mistök og kveðst ekki munu gera þau aftur. Fjölskylduaðstæður hans hafi verið erfiðar og hann hafi eytt um efni fram. Kærandi kveður ástandið í fjármálum sínum hafa áhrif á heilsu hans auk þess sem framfærslukostnaður hans sé í algjöru lágmarki. Hann bendir á að sökum veikinda sinna muni hann ekki getað unnið fulla vinnu í framtíðinni og óski því enn eftir aðstoð með skuldir sínar.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 14. febrúar 2024, er vísað til þess að í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Í 4. gr. lge. séu raktar þær upplýsingar og þau gögn sem skuldara beri að leggja fram þegar sótt sé um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 4. gr. lge. skuli koma fram í umsókn hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem sé af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.
Þá segi í 3. mgr. 4. gr. lge. að með umsókn skuli fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem fram komi í umsókn og síðustu fjögur skattframtöl skuldara.
Í 5. gr. sé jafnframt kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og geti hann, ef þörf krefur krafist þess að skuldari staðfesti uppgefnar upplýsingar með skriflegum gögnum.
Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um greiðsluaðlögun komi fram að þær ástæður sem fjallað er um í 2. mgr. 6. gr. laganna eigi það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju eða öllu leyti rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.
Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Til þess að umboðsmaður skuldara geti metið hvort þær aðstæður, sem taldar séu upp í stafliðum a-g í 2. mgr. 6. gr. lge., eigi við í máli skuldara þurfa fyrirliggjandi gögn hverju sinni auk þess að gefa nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara.
Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hafi tekjur kæranda á árinu 2023 verið alls 4.266.462 kr. eftir greiðslu skatta og annarra gjalda. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbanka hafi heildarvelta á reikningum í eigu kæranda hjá bankanum verið alls 19.877.251 kr. á árinu 2023. Heildarmunur milli tekna umsækjanda og veltu á reikningi í eigu kæranda hafi því verið 15.610.789 kr. á árinu 2023.
Kæranda hafi verið sent andmælabréf frá embættinu þann 17. janúar 2024 þar sem óskað hafi verið eftir skýringum á ákveðnum færslum inn á reikning í hans eigu, samtals að fjárhæð 10.101.921 kr. Kærandi hafi sent eftirfarandi svör og upplýsingar við ofangreindu andmælabréfi.
Í tölvupósti 22. janúar 2024 veitti kærandi þær upplýsingar að innlagnir/millifærslur frá B að fjárhæð 3.364.122 kr. á árinu 2023 væru peningar sem hún hefði lagt inn á kæranda og hann lagt aftur inn á hana. Að sögn kæranda hafi peningarnir einnig verið notaðir til innborgana vegna bifreiðaviðskipta. BKærandi hafi fengið innborgun inn á bankareikning sinn þann 23. janúar 2023 að fjárhæð 1.284.795 kr. Samkvæmt svari frá kæranda þann 22. janúar 2024 hafi þeir fjármunir verið nýttir til bifreiðaviðskipta að hluta en eftirstöðvarnar verið lagðar inn á fyrrnefnda B. Kærandi segir hana vera fyrrum unnustu sína og hún hafi hjálpað honum mikið fjárhagslega eftir að hún seldi fasteign í C.
Í sama tölvupósti hafi verið að fínna vísbendingar um að innlagnir kæranda í seðlum að fjárhæð 5.195.500 kr. væru tekjur. Til að fá þessar vísbendingar staðfestar hafi verið sendur annar tölvupóstur til kæranda 2. febrúar 2024 sem hann svaraði 5. febrúar 2024. Í því svari bar kærandi fyrir sig minnisleysi og sagðist ekki muna hvort þetta væru allt tekjur. Hann sagðist þó muna eftir því að hafa tekið út seðla í gegnum hraðbanka af kreditkorti sínu og lagt inn á bankareikning sinn.
Kærandi hafi verið beðinn um að staðfesta ofangreindar frásagnir sínar með gögnum. Þann 6. febrúar 2024 sendi kærandi embættinu tvö bankayfirlit. Annað yfirlitið hafi verið vegna reiknings nr. 0111-26-017004 en hitt vegna kreditkorts kæranda. Samkvæmt reikningsyfirlitinu hafi kærandi fengið innborgun inn á framangreindan bankareikning þann 23. janúar 2023 vegna slysabóta frá D. að fjárhæð 1.284.795 kr. Megnið af þeirri innborgun eða 1.100.000 kr. hafi svo verið millifærð inn á reikning B þann 24. janúar 2023.
Send yfirlit hafi einnig leitt í ljós enn frekari innlagnir á árinu 2024 frá fyrrum unnustu (B) inn á bankareikning kæranda. Það sem af sé ári hafi borist þrjár innlagnir samtals að fjárhæð 508.222 kr. inn a reikning kæranda frá fyrrnefndri B.
Bifreiðaviðskipti
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi einnig átt í bifreiðaviðskiptum á árinu 2023. Embættið óskaði eftir upplýsingum um kaup- og söluverð vegna viðskiptanna en auk þess hafi verið óskað eftir upplýsingum um hvernig söluverði bifreiðanna hafi verið ráðstafað.
Kærandi sendi gögn vegna ofangreindra bifreiðaviðskipta þann 5. febrúar 2024 m.a. kaupsamning og afsal vegna kaupa og sölu á […] með fastanr. X. Bíllinn hafi verið keyptur þann 30. mars 2023 á 8.390.00 kr. en seldur þann 4. september 2023 á 6.740.000 kr. Þá hafi kærandi einnig sent kaupsamning og afsal vegna sölu á […] með fastanr. X en bifreiðin hafi verið seld 30. mars 2023 á 5.390.000 kr. Ekki hafi fylgt með upplýsingar um kaupverð þeirrar bifreiðar.
Að mati embættisins hafi ofangreind staða leitt til þess að fyrirliggjandi gögn og upplýsingar hafi ekki verið til þess fallin að gefa skýra mynd af fjárhag og eignum skuldara, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Kæranda hafi verið sent ábyrgðarbréf, dags. 17. janúar 2024, og í bréfinu gerð grein fyrir mikilvægi þess að skýra þar til greind álitaefni og leggja fram gögn. Embættið taldi að kæranda hefði verið gefið færi á að andmæla fyrirsjáanlegri synjun umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með greindu ábyrgðarbréfi og einnig að svör sem borist hefðu með tölvupóstum, breyttu engu um niðurstöðu málsins.
Í greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 12. mars 2024, til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að umboðsmaður skuldara fari fram á að ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun frá 14. febrúar 2024 verði staðfest.
Um atvik málsins segir í greinargerðinni að við meðferð málsins hafi komið í ljós misræmi á tekjum samkvæmt opinberum gögnum og veltu á reikningi kæranda hjá Landsbankanum en slíkt misræmi geti leitt til synjunar um heimild til greiðsluaðlögunar sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Í því skyni að stemma af upplýsingar um tekjur samkvæmt opinberum gögnum kallaði umboðsmaður skuldara eftir upplýsingum um veltu á bankareikningi kæranda. Sú athugun hafi leitt í ljós mismun á veltu á bankareikningi nr. X hjá Landsbankanum og tekjum kæranda. Heildarmunur milli tekna kæranda samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra og veltu á reikningi í eigu hans hafi samkvæmt athugun numið 15.610.789 kr. á árinu 2023. Embættið hafi í framhaldinu kallað eftir yfirliti yfir innborganir á bankareikning kæranda.
Rétt sé að benda á að hluti veltu á reikningi kæranda frá árinu 2023 hafi verið vegna slysabóta sem hann fékk greiddar út að fjárhæð 1.284.795 kr. en embættið óskaði eftir nánari skýringum á þeirri innborgun í ábyrgðarbréfi dags. 17. janúar 2024.
Kæranda hafi verið sent ábyrgðarbréf, dags. 17. janúar 2024, þar sem honum hafi verið gefið færi á að leggja fram skýringar og gögn vegna hluta þeirra innborgana sem höfðu borist inn á bankareikning hans, til að varpa ljósi á fjárhag hans. Í bréfinu hafi verið óskað eftir nánari skýringum á í hvaða tilgangi innborganirnar hefðu verið greiddar inn á bankareikning kæranda og hvernig fjármunum hefði verið ráðstafað. Þar að auki hafi verið óskað eftir upplýsingum um hvort ofangreindar innborganir væru tekjur og hvort kærandi gerði ráð fyrir áframhaldandi tekjum til framtíðar litið, sem hann gæti nýtt til greiðslu skulda.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi átt í töluverðum bifreiðaviðskiptum á árunum 2019-2023 og hafi því verið óskað eftir upplýsingum um kaup- og söluverð bifreiða á þessu tímabili. Með tölvupósti, dags. 2. febrúar 2024, hafi tímabilið verið afmarkað við kaup- og söluvirði bifreiða á árinu 2023.
Viðbrögð kæranda við ábyrgðarbréfinu hafi borist með tölvupóstum á tímabilinu [22.] janúar 2024 til 16. febrúar 2024.
Með ákvörðun, dags. 14. febrúar 2024, hafi kæranda verið synjað um greiðsluaðlögun með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Umboðsmanni skuldara ber við mat á umsókn að líta til þeirra aðstæðna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 1. mgr. greinarinnar komi fram að skylt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun, með vísan til þeirra aðstæðna sem þar eru tilgreindar. Í hinni kærðu ákvörðun sé rökstuðningur fyrir synjun umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun, með vísan til 6. gr. lge. og einnig farið yfir atvik málsins og hvernig þau heimfærast undir umrædd ákvæði 6. gr. lge.
Við meðferð málsins hafi kæranda verið veitt færi á að gera athugasemdir og leggja fram gögn í málinu vegna þeirra atriða sem þóttu geta leitt til synjunar á umsókn hans um greiðsluaðlögun. Eftir að hafa skoðað upplýsingar frá kæranda og gögn málsins hafi umboðsmaður skuldara engu að síður komist að þeirri niðurstöðu að synja ætti kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar þar sem fyrirliggjandi gögn gáfu ekki nægilega glögga mynda af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun fjárhag hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Hin kærða ákvörðun hafi byggt á heildstæðu mati á aðstæðum kæranda, miðað við þau gögn sem fyrir lágu. Ekkert hafi komið fram á síðari stigum sem breytt getur þeim forsendum sem synjun á heimild kæranda til greiðsluaðlögunar sé byggð á.
Með fyrrnefndu ábyrgðarbréfi sem sent hafi verið kæranda 17. janúar 2024 telji embættið, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sig hafa veitt kæranda færi á að andmæla fyrirsjáanlegri synjun umsóknar um greiðsluaðlögun og að svör sem bárust með tölvupóstum breyti engu um niðurstöðu málsins.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fari umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar byggist á þágildandi b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Með lögum nr. 21/2024 sem tóku gildi 23. febrúar 2024 voru gerðar breytingar á lge., m.a. á 6. gr. laganna. Þar sem hin kærða ákvörðun var tekin í tíð eldri laga verður hér miðað við 6. gr. laganna eins og hún var áður en lög nr. 21/2024 tóku gildi.
Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni skuldara sé skylt að hafna umsókn, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda sé mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.
Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal þannig veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn, sbr. 4. og 5. gr. lge. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjanda um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda þann 17. janúar 2024 var óskað frekari upplýsinga og gagna frá kæranda, fyrst og fremst vegna innborgana á bankareikning hans sem námu alls 14.413.347 kr. árið 2022 og 10.101.921 kr. árið 2023. Nánar tiltekið óskaði umboðsmaður skuldara eftir upplýsingum um í hvaða tilgangi fjármunirnir voru greiddir inná reikning kæranda og hvernig þeim hafi verið ráðstafað.
Líkt og að framan greinir leitaðist kærandi við að veita umbeðnar útskýringar með tölvubréfum til umboðsmanns skuldara á tímabilinu 22. janúar til 16. febrúar 2024. Þá liggur fyrir samkvæmt framlögðum gögnum að heildarmismunur tekna kæranda árið 2023 og innborgana á reikning hans nam samtals 14.325.994 kr. að teknu tilliti til slysabóta sem hann fékk greiddar að fjárhæð 1.284.795 kr. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki séð að skýringar kæranda varðandi framangreindar innlagnir á bankareikning hans og mismun á þeim og tekjum hans árið 2023 geti talist fullnægjandi. Með hliðsjón af framlögðum gögnum málsins verður fjárhagur kæranda því að teljast óljós að þessu leyti.
Með vísan til framangreinds bar að synja umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er samkvæmt því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn A, um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson