Mál nr. 6/2014
Mál nr. 6/2014
Miðvikudaginn 20. janúar 2016
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.
Þann 17. janúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. desember 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 7. febrúar 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 7. mars 2014.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. mars 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 1. september 2014.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur 1981 og býr í eigin íbúð að B í Reykjavík, sem er 90 fermetrar að stærð. Hann starfar sem framkvæmdastjóri og stundar einnig [.....] við Háskóla Íslands. Tekjur kæranda eru vegna launa og vaxtabóta.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 27. nóvember 2012 eru 43.998.526 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2006.
Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til atvinnuleysis og efnahagshrunsins árið 2008.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 6. janúar 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. nóvember 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns skuldara var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge).
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 26. nóvember 2013 var lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í bréfinu kom fram það mat umsjónarmanns að fjárhagur kæranda væri óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Að mati umsjónarmanns var annars vegar óljóst hverjar tekjur kæranda á tímabili greiðsluskjóls hefðu verið. Hins vegar taldi hann óljóst hvert verðmæti tveggja félaga, sem kærandi hefði átt hluti í og selt á árunum 2010 og 2013, hefði verið samkvæmt ársreikningum þeirra. Þá vísaði umsjónarmaður einnig til e-liðar 2. mgr. 6. gr. þar sem hann taldi líklegt að félögin hefðu verið seld á undirverði og kærandi því gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti, sbr. einkum 2. mgr. 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.).
Þá kom fram í bréfi umsjónarmanns að með kaupum kæranda á 50% hlut í félaginu C ehf. hefði kærandi brotið í bága við c- og d-liði 1. mgr. 12. gr. með því að láta af hendi verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla og með því að gera ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna. Þá hafi kærandi sömuleiðis brotið gegn ákvæðum c- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge með því að selja foreldrum sínum 50% hlut í fyrrnefndu félagi 30. apríl 2013. Loks hefði kærandi brotið gegn c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að greiða Lánasjóði íslenskra námsmanna 460.000 krónur vegna vanskila sem komu til áður en frestun greiðslna hófst.
Samkvæmt upplýsingum Íslandsbanka hafi velta á reikningi kæranda frá upphafi ársins 2013 til 20. nóvember 2013 verið 6.100.000 krónur. Þetta sé ekki í samræmi við þær tekjur kæranda sem fram koma í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fyrir árið 2013. Að mati umsjónarmanns hefði kærandi að minnsta kosti átt að geta lagt fyrir 1.533.310 krónur á tímabilinu. Að sögn kæranda hefði hann lagt fyrir um 300.000 krónur. Hann hefði þurft að leggja út fyrir óvæntum kostnaði vegna viðgerða á húsi og bifreið, en ekki getað sýnt fram á þann kostnað með kvittunum. Kærandi hefði átt að geta lagt fyrir 1.073.310 krónur á tímabilinu að frádreginni greiðslu til LÍN. Með vísan til þessa hafi það verið mat umsjónarmanns að kærandi hefði ekki lagt fyrir fjármuni eins og honum var framast unnt á tímabili greiðsluskjóls, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 27. nóvember 2013 var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Andmæli bárust frá kæranda með bréfi 20. desember 2013.
Með bréfi til kæranda 30. desember 2013 felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að umsjónarmaður uppfylli rannsóknarskyldu sína og leggi í framhaldinu fram samning um greiðsluaðlögun fyrir kröfuhafa þannig að þeir fái tækifæri til að meta hvernig hagsmunum þeirra sé best borgið.
Kærandi telur umsjónarmann ekki hafa uppfyllt 5. gr. lge. um rannsóknarskyldu umboðsmanns skuldara. Málið sé svo vanreifað að ekki sé unnt að leggja mat á stöðu kæranda. Að mati kæranda hafi umsjónarmaður dregið í efa gjörninga sem hann hafi ekki kannað til hlítar og virðist skorta skilning á raunverulegu virði hlutabréfa. Kærandi vísar til þess að umsjónarmaður hafi dregið í efa að 55,4% hlutur félagsins D ehf. í félaginu E ehf. hafi aðeins verið 1.000 króna virði. Kærandi kveður að bæði félögin verði tekin til gjaldþrotaskipta fljótlega. Hann hafni því að verðmæti félaganna hafi verið óljóst og því eigi ákvæði b- og e-liða 2. mgr. 6. gr. ekki við í málinu.
Þá sé það ekki rétt að kærandi hafi ráðstafað peningum sem áttu að koma í hlut kröfuhafa með því að selja hlut sinn í C ehf., en í því tilviki hafi 250.000 eingöngu verið færðar til. Því eigi c- og d-liðir 1. mgr. 12. gr. lge. ekki við gagnstætt því sem umboðsmaður skuldara haldi fram.
Varðandi greiðslur kæranda til Lánasjóðs íslenskra námsmanna þá hafi þær farið fram með samþykki fyrrverandi umsjónarmanns og hafi verið forsenda fyrir því að kærandi gæti haldið áfram námi. Kærandi hafi því verið í góðri trú þegar hann greiddi þá skuld.
Umsjónarmaður álykti ranglega að tekjur kæranda árið 2013 hafi í raun verið hærri en staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra gefi til kynna. Kærandi telur það mikla einföldun að tengja saman veltu á bankareikningi og tekjur og fullyrðir að hann hafi ekki haft hærri tekjur en hann hafi gefið upp til skatts.
Að sögn kæranda hafi hann leitast við að endurskipuleggja sín persónulegu fjármál og fjármál þeirra fyrirtækja, sem hann hafi verið í forsvari fyrir, með það að markmiði að lágmarka tjón kröfuhafa. Vilji kröfuhafa til þessa hafi verið lítill sem enginn. Umsjónarmaður telji kæranda hafa reynt að skaða hagsmuni kröfuhafa með einbeittum hætti. Ef meginatriði málsins séu skoðuð megi sjá að kröfuhafar hafi ekki á nokkurn hátt orðið fyrir tjóni vegna greiðsluskjóls kæranda. Tíminn hafi unnið með kröfuhöfum, meðal annars vegna hækkandi fasteignaverðs.
Kærandi hafnar því að hafa brotið gegn skyldum sínum um að leggja fyrir á tímabili greiðsluaðlögunar. Hann telur framfærslukostnað umsjónarmanns vanmetinn með hliðsjón af framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Því hafi hann ekki brotið gegn a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Að mati kæranda tók umboðsmaður skuldara ákvörðun um að kærandi uppfyllti skilyrði lge. þegar honum var veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Kærandi telur að málatilbúnaður umsjónarmanns þýði í raun að greiðsluaðlögun standi einstaklingum sem stundi atvinnurekstur ekki til boða. Það sé andstætt markmiðum lge. sem séu að veita einstaklingum í greiðsluerfiðleikum tækifæri til að endurskipuleggja fjárhag sinn og ná frjálsum samningum við kröfuhafa. Kærandi hafi komið heiðarlega fram við greiðsluaðlögunarumleitanir og lagt fram öll umbeðin gögn. Að mati hans sé fjárhagsstaða hans nægilega skýr til að unnt sé að bera frumvarp um greiðsluaðlögunarsamning undir kröfuhafa og láta þá meta hvort forsendur séu fyrir samningi.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segi að skylt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Í 4. gr. lge. sé gerð grein fyrir þeim upplýsingum og gögnum sem skuldara beri að leggja fram þegar sótt sé um heimild til greiðsluaðlögunar. Í 4. tl. 1. mgr. 4. gr. lge. segi að umsókn skuli fylgja upplýsingar um tekjur skuldara, hvort heldur þær séu af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina frá hvort skuldari muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.
Í 5. gr. lge. sé kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar. Geti umboðsmaður, ef þörf krefur, krafist þess að skuldari staðfesti gefnar upplýsingar með skriflegum gögnum. Í greinargerð með frumvarpi til lge. komi fram í athugasemdum við 4. gr. að upptalning 4. gr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir því að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar séu í ákvæðinu. Einnig komi fram að gert sé ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn, enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn til að fá af honum heildarmynd. Ljóst sé að margir þurfi aðstoð við gagnaöflun og aðstoði umboðsmaður við það auk þess sem embættið geti sjálft aflað upplýsinga með heimild frá skuldara. Þá segi að eflaust verði ómögulegt eða erfitt fyrir umboðsmann að nálgast einhver gögn og sé það því á ábyrgð skuldara að afla þeirra.
Kærandi hafi ekki skýrt það misræmi sem sé á milli tekna hans og veltu á bankareikningi þrátt fyrir athugasemdir kröfuhafa, fyrirspurnir umsjónarmanns og umboðsmanns skuldara. Þá hafi kærandi hvorki veitt fullnægjandi skýringar á verðmæti eignarhlutar síns í félaginu D ehf. á þeim tíma er eignarhluturinn var seldur né heldur um ástæður þess að hann keypti 50% hlut í C ehf. á tímabili greiðsluskjóls. Hann hafi ekki lagt fram nein gögn máli sínu til stuðnings utan ársreikninga. Kærandi hafi því ekki skýrt fjárhag sinn með fullnægjandi hætti, sbr. ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. og 5. gr. lge. þrátt fyrir óskir umsjónarmanns og umboðsmanns skuldara. Umboðsmaður telur umbeðnar upplýsingar um fjárhag kæranda bæði mikilvægar og nauðsynlegar til þess að unnt sé að fá heildarmynd af fjárhag hans. Það sé á ábyrgð kæranda að leggja fram viðhlítandi gögn og fullnægjandi skýringar að því er varði fjárhag hans.
Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá sé í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kveðið á um að á meðan frestun greiðslna standi yfir skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.
Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun sem honum hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þær upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Kæranda hafi því vel mátt vera ljóst að hann skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hann hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.
Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns, sem umboðsmaður skuldara vísi til, hafi kærandi átt að geta lagt til hliðar 1.073.310 krónur á tímabili greiðsluskjóls sé gengið út frá tekjum kæranda að fjárhæð 2.108.180 krónur en þessar tekjur komi fram í staðgreiðsluskrá og skattframtölum hans. Á hinn bóginn hafi velta á bankareikningi kæranda fyrstu 11 mánuði ársins 2013 verið um 6.100.000 krónur. Kærandi hafi ekki getað útskýrt þetta misræmi en hann kveðist einungis hafa lagt til hliðar 300.000 krónur. Hafi kærandi samkvæmt þessu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Kærandi hafi á tímabili greiðsluskjóls ráðstafað fjármunum til kaupa á helmingshlut í félaginu C ehf. auk þess sem hann hafi greitt skuld í vanskilum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hann hafi þannig látið af hendi fjármuni sem gagnast gætu kröfuhöfum sem greiðsla á tímabilinu. Kærandi kveðst hafa selt foreldrum sínum fyrrnefndan hlut í félaginu í ágúst 2013 gegn greiðslu sem hafi jafngilt útlögðum kostnaði hans vegna kaupa á hlutnum. Kærandi hafi ekki svarað fyrirspurnum um hvernig hann ráðstafaði þeim fjármunum sem hann hafi fengið greidda frá foreldrum sínum.
Gera verði þá kröfu til þeirra, sem glími við svo verulega fjárhagsörðugleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi saman þau útgjöld sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta. Eigi það sérstaklega við á meðan skuldarar séu með í vinnslu umsókn um samningsumleitanir vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja til hliðar það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi skylt að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Sú háttsemi kæranda að kaupa hlut í félagi og greiða af skuldum feli í sér mismunun gagnvart kröfuhöfum og með því hafi verið ráðstafað fjármunum sem hefðu annars gagnast lánardrottnum í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og a- og c- liði 1. mgr. 12. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Kærandi krefst þess að umsjónarmaður uppfylli rannsóknarskyldu sína og leggi í framhaldinu fram samning um greiðsluaðlögun fyrir kröfuhafa þannig að þeir fái tækifæri til að meta hvernig hagsmunum þeirra sé best borgið.
Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram verði kærunefndin við kröfum kæranda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Krafa kæranda þess efnis að umsjónarmaður uppfylli rannsóknarskyldu sína og leggi fram samning um greiðsluaðlögun fyrir kæranda kemur því ekki til skoðunar eins og málið liggur fyrir. Samkvæmt framansögðu verður að skilja kröfugerð kæranda svo að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og a- og c- liði 1. mgr. 12. gr. lge.
Í b-lið 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Í 15. gr. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.
Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 26. nóvember 2013 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr., sbr. meðal annars b-lið 1. mgr. 6. gr. og a- og c- liði 1. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 30. desember 2013.
Að því er varðar b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. telur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi ekki skýrt misræmi á milli tekna og veltu á bankareikningi. Þá skorti á að kærandi hafi veitt fullnægjandi skýringar á verðmæti eignarhlutar síns í félaginu D ehf. á þeim tíma er eignarhluturinn var seldur. Loks liggi ekki fyrir ástæður þess að kærandi hafi keypt 50% hlut í C ehf. á tímabili greiðsluskjóls.
Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni skuldara sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.
Í málinu liggur fyrir að ekki var óskað eftir reikningsyfirliti yfir bankareikninga kæranda. Fyrir hendi er tölvupóstur frá Íslandsbanka þar sem greint er frá því að velta á tilteknum bankareikningum kæranda hafi numið um 6.100.000 krónum frá 1. janúar til 20. nóvember 2013. Hvorki liggja fyrir upplýsingar um uppruna fjárins né hvernig kærandi ráðstafaði því. Þá hafi heldur ekki verið upplýst um hvenær féð kom inn á reikninga eða með hvaða hætti það gerðist. Að mati kærunefndarinnar skortir því forsendur fyrir því að unnt sé að leggja mat á hvort fyrrnefndir fjármunir hafi gert það að verkum að fjárhagur kæranda var ekki nægilega glöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Af gögnum málsins má ráða að kærandi átti hlut að nafnverði 166.667 krónur í D ehf. en félagið var stofnað í apríl 2007. Kærandi seldi hlutinn fyrir 1.000 krónur árið 2010. Ekki liggur fyrir hvert kaupverð hlutarins var. Af framlögðum ársreikningi félagsins fyrir árið 2010 má sjá að félagið hafði engar tekjur og eigið fé þess var neikvætt um rúmlega 18.700.000 króna. Með vísan til þessa telur kærunefndin ólíklegt að verðmæti félagsins hafi verið umfram fyrrgreint nafnverð á eignarhlut kæranda. Ekki þykir því sýnt fram á að sala kæranda á hlutum í félaginu hafi leitt til þess að fjárhagur hans var ekki nægilega glöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Að mati kærunefndarinnar gildir hið sama um kaup kæranda á 50% hlut í félaginu C ehf. Af þeim sökum verður því ekki fallist á þá afstöðu umboðsmanns skuldara að viðskipti kæranda með eignarhluti í fyrrnefndum einkahlutafélögum hafi ein og sér gert það að verkum að fjárhagur hans varð svo óljós að girði fyrir greiðsluaðlögun í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist einnig á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar næga fjármuni á því tímabili sem hann naut greiðsluskjóls, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í ákvæðinu kemur fram að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um skyldur sínar samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.
Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 1.073.310 krónur frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 1. febrúar 2011 til 30. nóvember 2013. Kærandi kveðst ekki hafa brotið gegn skyldum sínum til að leggja fyrir á tímabili greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:
Tímabilið 1. febrúar 2011 til 31. desember 2011: 11 mánuðir | |
Nettótekjur | 0 |
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir | |
Nettótekjur | 1.344.000 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 112.000 |
Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. nóvember 2013: 11 mánuður | |
Nettótekjur | 2.403.190 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 218.472 |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 3.747.190 |
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli | 110.211 |
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bótagreiðslur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. febrúar 2011 til 30. nóvember 2013: 34 mánuðir | |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 3.747.190 |
Bótagreiðslur | 1.183.155 |
Fjármagnstekjur nettó | 3.659.250 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 8.589.595 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 252.635 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns | 178.705 |
Greiðslugeta kæranda á mánuði | 73.930 |
Alls sparnaður í 34 mánuði í greiðsluskjóli x 73.930 | 2.513.620 |
Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.
Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem hann fékk í hendur, að honum hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.
Samkvæmt ofangreindu hefði kærandi átt að geta lagt til hliðar að lágmarki 2.513.620 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Hann kveðst hafa lagt fyrir 300.000 krónur, en auk þess þurft að standa straum af óvæntum kostnaði vegna viðhalds fasteignar og bifreiðar. Hann hefur þó ekki lagt fram nein gögn þessu til stuðnings og því sé ekki unnt að líta svo á að hann hafi lagt fyrir á tímabili greiðsluskjóls. Að mati kærunefndarinnar hefur kærandi því brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Loks byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að sú háttsemi kæranda að kaupa hlut í félagi og greiða af skuldum á tímabili greiðsluskjóls feli í sér mismunun gagnvart kröfuhöfum þar sem fjármunum sem var ráðstafað á þennan hátt hefðu annars gagnast lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.
Kærandi greiddi Lánasjóði íslenskra námsmanna 460.000 krónur á fyrrnefndu tímabili, en hann kveður greiðsluna hafa verið forsendu þess að hann gæti haldið áfram námi. Kærandi segir greiðsluna hafa verið innta af hendi með samþykki fyrrum umsjónarmanns en ekki hefur verið sýnt fram á það. Þá keypti kærandi helmingshlut í félaginu C ehf. fyrir 275.000 krónur á tímabilinu. Fellst kærunefndin á það mat umboðsmanns skuldara að ofangreind háttsemi feli í sér mismunun gagnvart kröfuhöfum þar sem þessir fjármunir hefðu annars gagnast lánardrottnum sem greiðsla. Hefur kærandi því brotið gegn ákvæði c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.
Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Eggert Óskarsson
Þórhildur Líndal