Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 14/2014

Mál nr. 14/2014

Þriðjudaginn 9. febrúar 2016

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 19. febrúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 5. febrúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 27. febrúar 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 7. mars 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 20. mars 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 28. ágúst 2014. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1976 og 1968. Þau búa ásamt tveim börnum í eigin íbúð að C í Reykjavík.

Kærandi A starfar sem [.....] og kærandi B vinnur við [.....]. Auk launa fá kærendur greiddar barnabætur, vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til tekjulækkunar.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 21. október 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. desember 2010 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 31. júlí 2012 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. þar sem hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni í samræmi við greiðslugetu á því tímabili sem frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafði staðið yfir. Að mati umsjónarmanns hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar 5.360.000 krónur á tímabilinu. Þau hefðu meðal annars þurft að greiða óvænt útgjöld að fjárhæð 800.000 krónur vegna bifreiða- og tannviðgerða. Þá hafi þau greitt 840.000 krónur af bílasamningi. Kærendur hafi ekki gert grein fyrir því í hvað þeim 3.720.000 krónum sem eftir stóðu hafi verið ráðstafað.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 23. janúar 2014 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svar kærenda barst með tölvupósti 30. janúar 2014.

Með ákvörðun 5. febrúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska eftir því að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra verði dregin til baka og að umboðsmaður hefji slíkar umleitanir sem allra fyrst í samræmi við markmið og tímaviðmið lge.

Að mati kærenda sé markmið lge. að koma í veg fyrir að fólk missi heimili sín ef unnt sé að koma á samningi um viðráðanlega greiðslubyrði. Það sé síðan hlutverk umboðsmanns skuldara að aðstoða fólk í greiðsluerfiðleikum í samræmi við 1. gr. lge. Samkvæmt lge. sé gert ráð fyrir að afgreiðslutími umsókna um greiðsluaðlögun sé tiltölulega skammur. Svokallað greiðsluskjól, sem skuldarar fái eftir að umsókn sé samþykkt, ætti að gera þeim kleift að brúa bilið þar til fyrir liggi hvort greiðsluaðlögunarsamningur við kröfuhafa takist. Þannig telja kærendur að markmið með umsókn um greiðsluaðlögun sé ekki að leggja fyrir peninga heldur að umboðsmaður skuldara grípi á sem skemmstum tíma til aðgerða til að ná samningum við kröfuhafa. Kærendur álíti að mál þeirra hafi einungis átt að taka fáeina mánuði. Því til stuðnings vísi þau til 8. gr. lge. þar sem segi að tímabil greiðsluaðlögunarumleitana geti orðið allt að þrír mánuðir en engir frekari frestir séu veittir samkvæmt lge. Því sé það álit kærenda að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra hafi átt að taka þrjá mánuði frá því að umsókn var samþykkt. Umleitunum hefði þannig átt að vera lokið fyrir mitt ár 2011. Það hafi ekki gerst, en þess í stað virtust umleitanirnar við kröfuhafa hafa legið í dvala og áhersla lögð á að krefja kærendur um skýringar á því að þau hafi ekki sparað mörg hundruð þúsund, jafnvel milljónir króna, á stuttum tíma. Kærendur hefðu sjálf getað aðstoðað við umleitanirnar ef það hefði orðið til að flýta afgreiðslu málsins, en ekkert samband hafi verið haft við þau um það ferli sem tekið hafi á fjórða ár. Umboðsmanni skuldara hafi borið að standa við sett tímamörk en ella láta kærendur vita hvenær vænta mætti að tímabilinu lyki. Vísa þau til þess að um slíka upplýsingagjöf sé fjallað í 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærendur standi nú frammi fyrir því að þurfa að gera grein fyrir útborguðum launum sínum þrjú til fjögur ár aftur í tímann. Þau séu ekki bókhaldsskyld í heimilisrekstri og hafi því ekki haldið til haga reikningum sem allt í einu hafi skipt höfuðmáli í greiðsluaðlögunarumleitunum. Kærendur hafi þurft að greiða ýmis konar kostnað á tímabilinu. Til dæmis hafi þau slitið samvistir tímabundið, þurft að leggja út fyrir óvæntum útgjöldum vegna mikils tannlæknakostnaðar og þurft að sinna endurnýjun og viðhaldi húsnæðis og bifreiðar. Þá hafi kærendur þurft að taka fjárhagslegar ákvarðanir á þessum tíma. Þær ákvarðanir hafi verið í samræmi við persónulegt mat þeirra og hafi hvorki verið bornar undir umboðsmann skuldara né umsjónarmann, enda slíks ekki krafist. Kærendur telja óljóst hvort þau teljist hafa brotið lge. með því að taka ákvarðanir um að greiða eldri iðgjöld vegna fasteigna, fasteignagjöld eða tannlæknakostnað. Þau telja að seilst sé lengra en efni standi til við að stjórna einkalífi þeirra með því að þurfa að bera þess háttar ákvarðanir undir umboðsmann skuldara. Kærendur telja einnig langt gengið að opinberri stofnun sé fengið það hlutverk að leggja mat á það hvort einstaklingar hafi tekið rétta eða ranga ákvörðun þegar komi að því að ráðstafa launum sínum.

Þegar kærendur hafi lagt fram umsókn til umboðsmanns skuldara hafi þau verið í vanskilum með lán sín til nokkurra mánaða. Greiðslubyrði lána hafi reynst þeim þyngri en gert hafi verið ráð fyrir, meðal annars vegna tímabundins tekjumissis og tekjulækkunar. Að mati kærenda hefðu hefðbundnar skuldbreytingar lána dugað til, til að mynda með  lækkun höfuðstóls lána, væri það í boði eða lengja í lánstíma þeirra, til dæmis lána Íbúðalánasjóðs til 70 ára. Greiðslubyrði yrði þannig gerð viðráðanleg til framtíðar í samræmi við markmið lge. Í stað þess að sinna þessu hafi samskipti umsjónarmanns og kærenda snúist um hvað þau gætu og ættu að leggja til hliðar á tímabili greiðsluskjóls.

Kærendur geti ekki borið alla ábyrgð á því hve langan tíma það taki að koma á greiðsluaðlögunarsamningi sem talinn verði í árum. Þess vegna geti umboðsmaður skuldara ekki sagt fólki að sjá um sig sjálft eftir að hafa tekið mörg ár í að skoða málið. Það sé bæði erfitt og ákveðið inngrip inn í einkalíf kærenda að gera þeim að leggja matskennda fjárhæð til hliðar mánaðarlega. Engir hlutlægir mælikvarðar varðandi þetta séu í lge. Hér þurfi að meta lengd þess tíma sem um ræði og hvaða ráðstafanir eigi í hlut. Kærendur telja mat á því hvernig eðlilegt og venjulegt sé að ráðstafa launum mjög persónubundið. Menn afsali sér ekki rétti sínum til að vera sjálfs síns herrar með því að óska aðstoðar hjá umboðsmanni skuldara, nema þeir undirriti samning þess efnis. Í tengslum við það sé nauðsynlegt að skuldurum sé látið í hendur yfirlit yfir hvað umboðsmaður telji leyfilegt að eyða fjármunum í og jafnvel að þeim beri að leggja fyrir umsjónarmann einstakar ráðstafanir.

Kærendur vísa til athugasemda með 12. gr. lge. sem snúi að því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar. Víki skuldari augljóslega frá skyldum þeim, sem fram komi í 12. gr. lge. með vísvitandi hætti, geti slíkt leitt til þess að umsjónarmaður fái greiðsluaðlögunarumleitanir felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. Það sé því að áliti kærenda lagt í hendur umsjónarmanns að leggja mat á það hvort kærendur hafi með vísvitandi og augljósum hætti vikið frá skyldum sínum samkvæmt samningi sem sé í gildi á meðan greiðsluaðlögunarumleitanir standi yfir.

Hefðu kærendur  sjálf reynt að semja við kröfuhafa hefðu þau hugsanlega getað samið um mun lægri fjárhæðir vanskila og greiðslubyrði þeirra getað orðið viðráðanleg strax í byrjun árs 2011. Á þeim tíma sem kærendur hafi lagt fram umsókn sína hafi verið kynnt opinberlega að eðlilegast og heppilegast væri að leita til umboðsmanns skuldara. Þannig hafi verið mikill þrýstingur á kærendur að leita þangað.

Kærendur vísa til VIII. kafla frumvarps til lge. en þar segi að frumvarpið setji greiðsluaðlögunarferlinu ákveðinn ramma, kveði á um aðkomu umboðsmanns skuldara fyrir hönd stjórnvalda, aðstoð umsjónarmanns, afborgunarfjárhæð, greiðsluaðlögunartímabil, réttaráhrif, gildistíma o.fl. Tafir á málinu séu ekki á ábyrgð kærenda og því verði ábyrgðin ekki lögð á þau.

Kærendur benda einnig á að í frumvarpi til lge. komi eftirfarandi fram: „Einnig er rétt að taka tillit til þess hvort skuldari hefur börn á framfæri. Mikilvægt er að fjárhagsstaða forsjáraðila takmarki ekki um of möguleika barna til náms og aðhlynningar. Þá verður skuldari að geta tekist á við að greiða óvænt útgjöld, t.d. læknis- og tannlækningakostnað. Leitast skal við að tryggja að börn skuldara geti tekið fullan þátt í almennu tómstundastarfi barna á sama aldri í samfélaginu.“

Með vísan til þess sem fram hafi komið telja kærendur að það sé í anda lge. að þau taki sjálf ákvarðanir um ráðstöfun launa sinna meðal annars í þágu barna sinna, en annað barna þeirra sé á menntaskólaaldri en því fylgi töluverður kostnaður.

Kærendur vísa til frumvarps lge. að því er varðar starfsskyldur umsjónarmanns. Samkvæmt því sé mikilvægt að umsjónarmaður reyni með öllum ráðum að ná samkomulagi á milli lánardrottna og skuldara. Kærendur telja óvíst að umsjónarmaður þeirra hafi sinnt hlutverki sínu að þessu leyti. Hann hafi á hinn bóginn lagt áherslu á að þau legðu til hliðar, en kærendur telja það ekki í verkahring umsjónarmanns.

Kærendur telja að hvorki umboðsmaður skuldara né umsjónarmaður hafi sannað að þau hafi með augljósum og vísvitandi hætti ráðstafað sjálfsaflafé sínu í óþarfa eða í hluti sem þau hefðu getað verið án. Þau hafi ekki reiknað með að greiðsluaðlögunartímabilið yrði þrjú til fjögur ár. Það hafi leitt til þess að þau hafi ekki haldið utan um gögn vegna útgjalda heimilisins með skipulögðum hætti. Kærendur hafi ekki haft ásetning til að klekkja á umsjónarmanni eða kröfuhöfum með því að ráðstafa sjálfsaflafé sínu í munað eða óþarfa. Þau telja ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra óskýra og því átti þau sig ekki á því hvort talið sé að þau hafi með vísvitandi og augljósum hætti brotið gegn lge. Kærendur vísa til rannsóknarskyldu umsjónarmanns og umboðsmanns í þessu sambandi, en þessum aðilum hafi borið að kanna hvort kærendur hafi í reynd og með vísvitandi og augljósum hætti brotið gegn lge. Kærendur telja að slík afstaða geti ekki eingöngu byggst á almennum viðmiðum um framfærslu.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærendur hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar [21. október 2010] og hafi frestun greiðsla, svokallað greiðsluskjól, tekið gildi frá þeim degi. Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 36 mánuði, en miðað sé við tímabilið frá 1. janúar 2011 til 31. desember 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Laun 1. janúar 2011 til 31. desember 2013 að frádregnum skatti 23.662.650
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 1.016.684
Samtals 24.679.334
Mánaðarlegar meðaltekjur 685.537
Framfærslukostnaður á mánuði 382.485
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 303.052
Samtals greiðslugeta í 36 mánuði 10.909.872

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 685.537 krónur í meðaltekjur á mánuði á 36 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almennan framfærslukostnað með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkuð svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 382.485 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag og framfærslukostnaður desembermánaðar 2013 fyrir hjón með tvö börn á framfæri lagður til grundvallar. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir 10.909.872 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðal greiðslugetu að fjárhæð 303.052 krónur á mánuði í 36 mánuði.

Gera verði þá kröfu til þeirra, sem glími við svo verulega fjárhagsörðugleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi saman þau útgjöld sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta. Eigi það sérstaklega við á meðan kærendur séu með í vinnslu umsókn um samningaumleitanir vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja til hliðar það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi skylt að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Kærendur hafi gefið þær skýringar að tekjuskerðing og atvinnumissir hafi gert það að verkum að þeim hafi ekki tekist að leggja til hliðar fé á tímabilinu. Framangreindir útreikningar umboðsmanns miðist við útborgaðar tekjur samkvæmt skattframtölum og staðgreiðsluskrá og því sé tekið tillit til breytinga á tekjum. Umsjónarmaður hafi tekið tillit til óvæntra útgjalda að upphæð 1.640.000 krónur. Kærendur hafi ekki lagt fram önnur gögn og því vanti 9.269.872 krónur upp á að þau hafi lagt fyrir og uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Kærendur óska eftir því að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra verði dregin til baka og að umboðsmaður hefji slíkar umleitanir sem allra fyrst í samræmi við markmið og tímaviðmið lge. Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram verði kærunefndin við kröfum kærenda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Krafa kærenda þess efnis að embætti umboðsmanns skuldara hefji slíkar umleitanir sem allra fyrst á því ekki við um málið eins og það liggur fyrir. Kröfugerð kærenda fyrir kærunefndinni ber að skilja í samræmi við þetta.

Kærendur telja málsmeðferðartíma umboðsmanns skuldara hafa verið of langan og ekki í samræmi við lög. Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er ákvæði er lýtur að málshraða. Í 1. mgr. hennar segir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Í þessu efni má vísa til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5617/2009 en þar kemur fram: „Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er. Í ákvæðinu felst sá áskilnaður að aldrei megi vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Í lögunum er hins vegar ekki kveðið á um fastákveðinn afgreiðslutíma þar sem starfsemi, verkefni og aðbúnaður stjórnvalda er með ólíkum hætti. Það verður því að meta í hverju tilviki hvað teljist hæfilegur tími í þessu sambandi og þá með tilliti til umfangs máls.“. (Alþt. 1992−1993, A-deild, bls. 3294.). Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Í málinu liggur ekkert fyrir um ástæðu þess að dráttur varð á málsmeðferð umboðsmanns skuldara eftir að umsjónarmaður lagði til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður.  Verður því að telja að þær tafir hafi verið að ófyrirsynju.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 31. júlí 2012 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Að undangengu bréfi til kærenda 23. janúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 5. febrúar 2014.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekkert fé lagt til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur telja að Embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki gert þeim grein fyrir hversu mikið þau skyldu leggja til hliðar. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar, og komið fram í bæklingum eða á vefsíðum.

Með gildistöku laga nr. 128/2010 18. október 2010 tók gildi tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hjá þeim einstaklingum sem sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar fram til 1. júlí 2011. Þegar umsókn var lögð fram afhenti umboðsmaður skuldara þessum umsækjendum sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum umsækjenda í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal  var greint frá því að umsækjendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þyrfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá var greint frá því að umsækjendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimilis og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist hæfilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti umsækjandi ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðsla stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.

Þá sendi umboðsmaður skuldara umsækjendum sem voru í greiðsluskjóli bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur umsækjenda að leggja til hliðar fjármuni sem væru umfram framfærslu samkvæmt 12. gr. lge.

Á vefsíðu umboðsmanns skuldara á þeim tíma, er kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar, voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðslu-aðlögunarumleitanir. Eftirfarandi texta var að finna á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:

Þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilisins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrgðum fyrir umsækjanda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“

Kærunefndin telur að kærendum hafi mátt vera ljóst að þeim bar að haga framfærslukostnaði sínum eftir sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun. Í því sambandi var sérstaklega tilgreint á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun hvaða fjárhæðir framfærsla þeirra skyldi miðast við og að frekari upplýsingar um framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara væri að finna á vefsíðu embættisins. Í umsókninni segir „Þú finnur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara á heimasíðunni www.ums.is

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. desember 2010 þar sem kærendum var veitt heimild til greiðsluaðlögunar var þeim einnig bent á skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærunefndin telur að Embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kærendum þegar þau sótti um heimild til greiðsluaðlögunar með fullnægjandi hætti með því að veita upplýsingar um framfærsluviðmið við móttöku umsóknar, í tilkynningum sem sendar voru kærendum á tímabili greiðsluskjóls, á vefsíðu embættisins og með upplýsingum á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun. Upplýsingarnar lutu að útskýringum á afdráttarlausu lagaákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þar sem segir að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Eins og fram kemur í leiðbeiningunum er þar enn fremur útskýrt að skylda til að leggja fé til hliðar hefjist um leið og umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin og frestun greiðslna hefst. Þegar kærendum var veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar lá fyrir útreikningur umboðsmanns skuldara á framfærslukostnaði þeirra. Að þessu virtu er það álit kærunefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi framfylgt leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Kærendum bar því að virða skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá þeim tíma er þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar 21. október 2010.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 10.909.872 krónur á tímabilinu. Kærendur hafa ekkert lagt fyrir. Þau telja sig þó ekki hafa brotið gegn ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. desember 2010: Tveir mánuðir
Nettótekjur B 713.139
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 356.570
Nettótekjur A 628.385
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 314.193
Nettótekjur alls 1.341.524
Mánaðartekjur alls að meðaltali 670.762


Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur B 4.189.768
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 349.147
Nettótekjur A 3.275.085
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 272.924
Nettótekjur alls 7.464.853
Mánaðartekjur alls að meðaltali 622.071
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur B 3.970.059
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 330.838
Nettótekjur A 3.939.172
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 328.264
Nettótekjur alls 7.909.231
Mánaðartekjur alls að meðaltali 659.103
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur B 4.102.765
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 341.897
Nettótekjur A 4.185.711
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 348.809
Nettótekjur alls 8.288.476
Mánaðartekjur alls að meðaltali 690.706


Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. janúar 2014: Einn mánuður
Nettótekjur B 291.313
Nettótekjur A 323.912
Nettótekjur alls 615.225


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 25.619.309
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 656.905

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. janúar 2014: 39 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 25.619.309
Bótagreiðslur 1.016.682
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 26.635.991
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 682.974
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 382.485
Greiðslugeta kærenda á mánuði 300.489
Alls sparnaður í 39 mánuði í greiðsluskjóli x 300.489 11.719.076

Kærendur telja að í lge. sé ekki að finna hlutlæga mælikvarða varðandi kostnað við framfærslu í lge. Þau álíta það persónubundið hve mikill kostnaður hvers og eins skuldara í greiðsluaðlögun sé.

Við mat á því hvaða fjárhæð kærendum bar að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur, en í lge. er ekki heimild til að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reiknar út. Í c-lið 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 kemur fram að eitt af hlutverkum umboðsmannsins sé að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 15. júní 2010 segir um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara, er síðar varð að lögum nr. 100/2010: „Nefndin ræddi ítarlega hlutverk umboðsmanns skuldara og telur mikilvægt að stofnuninni verði falið að útbúa lágmarksframfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Nauðsynlegt er að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar komi fram raunhæf tillaga að greiðslum þar sem gert er ráð fyrir framfærsluþörf einstaklingsins og fjölskyldu hans. Jafnframt er mikilvægt að samræmis sé gætt að þessu leyti.“ Samkvæmt þessu gerði nefndin þá breytingartillögu á fyrirliggjandi frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara að inn í 2. mgr. 1. gr. var bætt staflið d þar sem fram kemur að eitt hlutverk Embættis umboðsmanns skuldara væri að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega. Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem sé umfram framfærslukostnað. Eins og kærendur benda á veitir þetta tiltekna ákvæði út af fyrir sig ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvernig framfærslukostnaður skuli reiknaður. Hér verður að hafa í huga að þær aðstæður sem 12. gr. lge. varðar eru að skuldarinn hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa og fela slíkir samningar að jafnaði í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggur þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði svo mikið sem honum er unnt af kröfunum. Í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir eru undirbúnar og síðan á greiðsluaðlögunartímanum sjálfum, er lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum frá skuldara eða innheimti kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Til að það takist er ljóst að skuldari verður að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili. Það er einnig mikilvægt að bæði skuldarar og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verður framfærslukostnaður skuldara að styðjast við fyrirfram ákveðið almennt viðmið. Í ljósi laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010, lögskýringargagna, lge. og þess sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að ekki er öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara.

Kærendur hafa greint frá því að þau hafi þurft að greiða mikil óvænt útgjöld á tímabili greiðsluskjóls. Þau hafi slitið samvistir tímabundið, tannlæknakostnaður hafi verið mikill og þau hafi þurft að standa straum af kostnaði vegna endurnýjunar og viðhalds húsnæðis og bifreiðar. Kærendur hafa engum gögnum vísað fram þessu til staðfestingar. Af þeim sökum er ekki unnt að taka tillit til þessa við útreikning á því hvaða fjárhæð kærendur hefðu átt að leggja til hliðar á tímabilinu.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndarinnar að kærendur hefðu átt að geta lagt fyrir 11.719.076 krónur á tímabilinu.

Að þessu virtu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Bar umboðsmanni skuldara því að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta