Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 17/2014

Mál nr. 17/2014

Þriðjudaginn 9. febrúar 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 26. febrúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. febrúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 4. mars 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 11. mars 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 14. mars 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1962 og 1952. Þau eru í hjúskap og búa í leiguhúsnæði í C. Kærendur eiga fasteignir að D í Reykjavík og E í Rangárþingi ytra.

Kærandi A er húsasmiður að mennt og starfar við þá iðn. Kærandi B er atvinnulaus. Tekjur kærenda eru vegna launa og atvinnuleysisbóta.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 66.225.247 krónur.

Að sögn kærenda má að miklu leyti rekja fjárhagserfiðleika þeirra til fasteignaviðskipta, minnkandi verkefna kæranda A og atvinnuleysis kæranda B.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. febrúar 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 15. september 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður. Frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi hafi verið sent kröfuhöfum 19. apríl 2013. Helstu athugasemdir hafi borist frá Arion banka. Í kjölfarið hafi umsjónarmaður farið í samningaviðræður við bankann með liðsinni umboðsmanns skuldara. Niðurstöður viðræðnanna hafi legið fyrir 3. júní 2013 og sumarið 2013 hafi umsjónarmaður reynt að fá afstöðu kærenda til þess hvað þau vildu gera í framhaldinu. Í ágúst 2013 hafi kærendur komið með málamiðlunartillögu sem var borin undir stærstu kröfuhafa þeirra, en bæði Arion banki og Íslandsbanki höfnuðu tillögunni í ágúst 2013. Eftir þetta hafi kærendur óskað eftir því að málinu yrði frestað til áramóta 2013/2014. Umsjónarmaður hafi sent kærendum tölvupóst 2. september 2013 og útskýrt stöðu mála og hvaða kosti kærendur ættu. Svars hafi verið óskað fyrir 6. september 2013. Jafnframt hafi kærendum verið bent á að bærist ekki svar sæi umsjónarmaður sér ekki annað fært en að leggja það til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunar-umleitanir þeirra yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Efnisleg svör hafi ekki borist frá kærendum.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður eins fljótt og auðið sé gera frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi. Kærendur hafi ekki gert umsjónarmanni kleift að ljúka þeirri vinnu og telji hann því að þeir hafi ekki verið til samstarfs um framhald málsins. Umsjónarmaður leggi því til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði felldar niður.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 27. janúar 2014 þar sem þeim var kynnt framkomið bréf umsjónarmanns. Kærendum var jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn innan tilskilins frests áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar. Kærendur óskuðu eftir fresti með tölvupósti 4. febrúar 2014 en þeirri beiðni var hafnað.

Með ákvörðun 14. febrúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og honum gert að veita kærendum heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 101/2010.

Kærendur telja ákvörðun umboðsmanns skuldara ranga og að embættið geri þeim erfitt að leysa skuldavanda sinn.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara komi fram að kærendum hafi verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar þar sem þau hafi ekki sinnt tilskildu samráði við umsjónarmann sinn, sbr. 1. mgr. 16. gr. lge. Þessu hafni kærendur. Umsjónarmaður hafi sent kröfuhöfum frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun 19. apríl 2013. Það frumvarp hafi þó ekki verið samþykkt og samningar ekki náðst við kröfuhafa fyrr en 3. júní 2013. Kærendum hafi þá verið kynnt framkomið frumvarp en þau ekki verið fyllilega sátt við það og óskað eftir því að umsjónarmaður héldi áfram viðræðum við kröfuhafa. Jafnframt hafi kærendur upplýst umsjónarmann um að þau teldu frumvarpið ekki gefa rétta mynd af fjárhag þeirra. Þau hafi sérstaklega óskað eftir því að beðið yrði með úrlausn málsins þar til þeirri óvissu, sem ríkt hefði um boðuð úrræði stjórnvalda við skuldavanda heimilanna, væri aflétt. Ekki hafi verið fallist á þessar óskir kærenda.

Í 2. mgr. 16. gr. lge. segi að í frumvarpi eigi að draga fram heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu skuldara og þar á meðal skuli tiltaka upplýsingar um tekjur, skuldir, eignir og mánaðarleg útgjöld. Í 5. gr. lge. sé lögð rannsóknarskylda á umboðsmann skuldara en rannsóknarskyldan eigi sér jafnframt stoð í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.). Í rannsóknarskyldunni felist að umboðsmaður skuldara skuli afla allra nauðsynlegra upplýsinga sem máli geti skipt varðandi skuldir, tekjur og framferði skuldara og skuli hann tryggja að þær komi allar fram í frumvarpi að samningi um greiðsluaðlögun. Fyrrgreind ákvæði eigi að tryggja að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun í því sé tekin. Þá eigi aðilar að stjórnsýslumáli rétt á því að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun sé tekin í því. Í andmælaréttinum felist jafnframt réttur aðila til að andmæli hans séu könnuð með fullnægjandi og hlutlausum hætti. Umboðsmaður skuldara hafi gefið kærendum kost á að gera athugasemdir við tilteknar upplýsingar eða gögn og þannig telji embættið sig hafa virt lögbundinn andmælarétt. Að mati kærenda hafi andmælaréttar ekki verið gætt þegar stjórnvald taki ákvörðun óháð þeim athugasemdum sem komið hafi verið á framfæri.

Eftir að óskir kærenda um frestun málsmeðferðar voru settar fram hafi aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar verið kynnt. Geri hún ráð fyrir að verðtryggð húsnæðislán verði færð niður um fjárhæð sem svari til verðbóta umfram 4,8% á tímabilinu desember 2007 til ágúst 2010. Því hafi fyrrgreindri óvissu vegna skuldavanda heimilanna verið að hluta til eytt. Ljóst sé að gangi þetta eftir sé staða kærenda mun betri en fram komi í því frumvarpi sem sent hafi verið kröfuhöfum.

Umboðsmaður skuldara hafi fellt niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar þar sem þau hafi ekki viðhaft tilskilið samráð við umsjónarmann. Í 16. gr. lge. sé ekki útskýrt í hverju greint samráð felist og engar leiðbeiningar sé að finna í athugasemdum við lge. Kærendur hafi ávallt verið tilbúin til að veita umsjónarmanni þær upplýsingar sem óskað hafi verið eftir og standi í þeirri trú að hafa fullnægt öllum skyldum sem á þeim hvíli. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. ssl. beri stjórnvaldi að veita þeim, er til þess leiti, nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerti starfssvið þess. Af reglunni leiði að stjórnvaldi beri að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði, hafi til dæmis ekki verið veittar nægilega ítarlegar upplýsingar. Engar formkröfur séu fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Í þessu ljósi hefði umsjónarmanni borið að leiðbeina kærendum betur og upplýsa hver staða þeirra væri.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé markmið með greiðsluaðlögun að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Samningur um greiðsluaðlögun kæmi  í veg fyrir að kærendur þyrftu að fara þvingaða leið skuldaskilaréttarins svo sem að leita gjaldþrots eða almennra nauðasamninga. Að mati kærenda sé ákvörðun umboðsmanns skuldara íþyngjandi og í slíkum tilvikum beri stjórnvöldum að gæta meðalhófs, sbr. 12. gr. ssl. Samkvæmt ákvæðinu megi stjórnvöld ekki fara strangar í sakirnar en nauðsyn beri til og verði að telja það harkalegt af hálfu umboðsmanns skuldara að veita kærendum ekki svigrúm þar til aðgerðir stjórnvalda lægju ljósar fyrir. Á þeim tíma er umsjónarmaður hafi sent málið aftur til umboðsmanns skuldara hafi þess ekki verið langt að bíða.

Kærendur telja samkvæmt framangreindu að umboðsmaður skuldara hafi ekki virt leiðbeiningarskyldu sína, rannsóknarreglu og meðalhófsreglu eða veitt þeim andmælarétt. Þau hafi því ekki notið þeirrar málsmeðferðar eða réttinda sem þeim hafi borið.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu svo að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar í náinni framtíð. Eigi umsjónarmanni að vera unnt að gera drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun verði að leggja þær skyldur á kærendur að þau veiti liðsinni sitt eins og þörf krefji, enda beri umsjónarmanni að semja frumvarp í samráði við skuldara. Athafnaskylda kærenda um þetta atriði sé leidd af 1. mgr. 16. gr. lge.

Umsjónarmaður telji kærendur ekki hafa sinnt tilskildu samráði við sig, sbr. 1. mgr. 16. gr. lge., þar sem þau hafi ekki upplýst um afstöðu sína til áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitana og ítrekað óskað eftir fresti á afgreiðslu málsins. Í samræmi við ákvæði 1. mgr. 16. gr. lge. og eðli málsins samkvæmt sé ekki mögulegt að halda áfram greiðsluaðlögunarumleitunum, standi vilji skuldara ekki til þess. Umsjónarmaður hafi ítrekað reynt að fá afstöðu þeirra til áframhaldandi meðferðar málsins, en án árangurs.

Kærendur hafi endurtekið óskað eftir fresti, meðal annars vegna endurútreiknings lána. Ekki sé unnt að tefja greiðsluaðlögunarumleitanir á meðan beðið sé niðurstöðu um almenn úrræði stjórnvalda svo sem eins og leiðréttingu verðtryggðra lána. Í þessu sambandi sé vísað til úrskurða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 230/2012 og 234/2012. Í síðarnefnda úrskurðinum segi orðrétt um beiðni kæranda til að fresta afgreiðslu máls þar til erlend lán hefðu verið endurútreiknuð: “Aðili getur borið tiltekið álitaefni undir stjórnvald í því skyni að fá úrlausn málsins í samræmi við gildandi lög. Stjórnvöldum eru settar ákveðnar skorður við meðferð slíkra mála, til dæmis með stjórnsýslulögum, sérlögum og því sem nefnt hefur verið góðir stjórnsýsluhættir [...] Þegar mál er orðið tækt til ákvörðunar ber stjórnvaldi að taka ákvörðun í því. Þýðingarlaust er að bera erindi undir stjórnvald ef ekki er ætlast til að það sé afgreitt í samræmi við aðstæður, eins og þær liggja fyrir í málinu, og þau lög og reglur sem stjórnvaldi ber að starfa eftir.“

Samkvæmt ofangreindum úrskurðum kærunefndarinnar telji umboðsmaður skuldara ekki tækt að tefja samningaumleitanir, og þar með lengja í tímabili frestunar greiðslna, vegna óvissu um kröfur og/eða samningaumleitanir við kröfuhafa á öðrum vettvangi. Kærendur hafi ekki sinnt samráði við umsjónarmann samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. þar sem þau hafi ekki gefið upp afstöðu sína um áframhald málsins þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Af þeim sökum verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

Kærendur telji umboðsmann skuldara ekki hafa virt rannsóknarreglu 5. gr. lge. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.). Að mati umboðsmanns sé ómögulegt að afla upplýsinga er sýni fram á endanlega fjárhæð þeirra lána kærenda sem bíði endurútreiknings og líti embættið svo á að það hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni hvað þau lán varði.

Kærendur telji að umboðsmaður skuldara hafi ekki uppfyllt leiðbeiningarskyldu 7. gr. ssl. Þessu mótmælir umboðsmaður, enda hafi kærendur verið upplýst um stöðu máls þeirra eins og fram komi í tölvupóstsamskiptum. Kærendur telji einnig að umboðsmaður hafi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. ssl. Þessu andmæli umboðsmaður einnig og bendi á hagsmuni kröfuhafa og þau réttaráhrif sem felist í frestun greiðslna, svokölluðu greiðsluskjóli, en þess hafi kærendur notið frá október 2010.

Þá telji kærendur að embætti umboðsmanns hafi brotið gegn andmælareglu 13. gr. ssl. Umboðsmaður vísar því á bug og bendir á að við meðferð málsins hafi kærendum verið veitt færi á að gera athugasemdir og leggja fram gögn máli sínu til stuðnings.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og honum gert að veita kærendum heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 101/2010.

Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunar-umleitanir kærenda samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram verði kærunefndin við kröfum kærenda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Krafa kærenda þess efnis að umboðsmanni skuldara verði gert að veita kærendum heimild til að leita greiðsluaðlögunar kemur því ekki til skoðunar eins og málið liggur fyrir.

Kærendur álíta að umboðsmaður skuldara hafi ekki hagað málsmeðferð sinni í samræmi við rannsóknarreglu 5. gr. lge. og ekki gætt leiðbeiningarskyldu 7. gr., meðalhófsreglu 12. gr. eða andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Rannsóknarregla 5. gr. lge. styðst við rannsóknarreglu 10. gr. Stjórnsýslulaga, en samkvæmt henni skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er  tekin í því. Stjórnvald þarf að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál. Tilgangur greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. gr. lge. er að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu í þeim tilvikum er skuldari uppfyllir skilyrði lge. Af málatilbúnaði kærenda verður ekki ráðið með hvaða hætti þau telja að umboðsmaður skuldara hafi brotið rannsóknarregluna við meðferð málsins. Að mati kærunefndarinnar liggur ekkert fyrir í málinu sem rennir stoðum undir fullyrðingar þeirra um að reglan hafi verið brotin. Verður því ekki fallist á sjónarmið þeirra að þessu leyti.

Þá telja kærendur að umsjónarmanni hafi borið að leiðbeina þeim betur og upplýsa hver staða málsins væri. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Einnig er talið að stjórnvaldi sé skylt að veita leiðbeiningar um þær réttarheimildir sem á reynir og reglur um málsmeðferð. Í ákvæði 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga felst þó ekki skylda til að veita umfangsmikla eða sérfræðilega ráðgjöf.

Við meðferð málsins hjá umsjónarmanni fengu kærendur leiðbeiningar um stöðu málsins, þá kosti sem þau þurftu að taka afstöðu til í málinu og hvaða afleiðingar val þeirra hefði í för með sér. Þetta má meðal annars sjá af tölvupósti umsjónarmanns til kærenda 2. september 2013. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara var kærendum sent bréf 27. janúar 2014 þar sem þeim var gerð grein fyrir málinu, þeim gefið færi á að tjá sig um það og hverju það varðaði ef þau brygðust ekki við bréfinu. Með vísan til þessa telur kærunefndin að málsmeðferð hafi verið í samræmi við leiðbeiningarreglu stjórnsýslulaga, bæði hjá umsjónarmanni og umboðsmanni skuldara.

Kærendur telja enn fremur að Embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki virt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Nánar tiltekið hafi það verið harkalegt af hálfu umboðsmanns skuldara að veita kærendum ekki svigrúm þar til aðgerðir stjórnvalda um skuldavanda heimilanna lægju ljósar fyrir. Meðalhófsreglan beinist að efnislegri ákvörðun stjórnvalds en ekki að undirbúningi ákvarðanatöku svo sem hvaða fresti aðili máls fær við meðferð þess. Þegar af þeirri ástæðu á 12. gr. stjórnsýslulaga ekki við um frestbeiðnir kærenda undir rekstri málsins.

Kærendur telja sig ekki hafa notið andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga þar sem umboðsmaður skuldara hafi tekið ákvörðun, óháð þeim athugasemdum sem kærendur hafi komið á framfæri. Samkvæmt fyrrnefndri lagagrein skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin í því. Í þessu er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og ákveðnum sjónarmiðum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi skylda varðar eingöngu upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru. Andmælareglu stjórnsýslulaga er ætlað að veita aðila máls rétt til að hafa áhrif við úrlausn málsins og gæta hagsmuna sinna. Sé andmælaréttar gætt hefur stjórnvald uppfyllt lagaskyldu sína, en það er þá undir málsaðila sjálfum komið að nýta sér þennan rétt. Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 27. janúar 2014 var óskað eftir upplýsingum og gögnum frá þeim. Í bréfinu var meðal annars gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lágu að baki því að embættið taldi ekki unnt að fresta máli kærenda, sbr. 16. gr. lge., og að hvaða leyti umboðsmaður skuldara teldi ákvæðið eiga við um málatilbúnað þeirra. Að mati kærunefndarinnar hafi kærendur með bréfi þessu fengið fullnægjandi tækifæri til að tjá sig um efni málsins á þann hátt sem gert er ráð fyrir í 13. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefndin telur samkvæmt þessu að andmælaréttur kærenda hafi verið virtur og nægilega skýr afstaða tekin til þeirra andmæla sem fram komu af þeirra hálfu.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge. Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. skal umsjónarmaður eins fljótt og auðið er eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Frumvarpið skal samið í samráði við skuldara.

Í máli þessu telur umsjónarmaður að skort hafi á samstarfsvilja kærenda. Þessu hafna kærendur. Umsjónarmaður sendi kærendum tölvupóst 2. september 2013 þar sem ítarlega var gerð grein fyrir þeim leiðum sem kærendum væru færar í málinu. Umsjónarmaður útskýrði einnig hvað hver og ein leið hefði í för með sér. Kærendur voru beðin um að láta vita um afstöðu sína í allra síðasta lagi 6. september 2013. Með tölvupósti til umsjónarmanns 4. september 2013 greindu kærendur frá því að lögmaður þeirra myndi svara umsjónarmanni. Ekkert svar barst.

Tilgangur greiðsluaðlögunar er að ná samningum milli skuldara og kröfuhafa en í máli kærenda var ljóst seinni hluta ágústmánaðar 2013 að það myndi ekki takast, þrátt fyrir töluverðar tilraunir. Engu að síður létu kærendur hjá líða að hafa það frumkvæði sem nauðsynlegt var til að málinu yrði fram haldið í samræmi við ákvæði lge. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. verður frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun ekki samið nema í samráði við skuldara og er ljóst að atbeina skuldara er þörf til að svo megi verða. Kærendur veittu ekki þann atbeina sem nauðsynlegur var. Í þessu ljósi verður að telja að skort hafi á samstarfsvilja kærenda í málinu.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta