Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 21/2014

Mál nr. 21/2014

Miðvikudaginn 17. febrúar 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 27. febrúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. febrúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 4. mars 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. mars 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. mars 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 28. mars 2014. Voru þær sendar Embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 31. mars 2014 og óskað eftir afstöðu embættisins til athugasemda kæranda. Með tölvubréfi 16. apríl 2014 tilkynnti umboðsmaður skuldara að embættið myndi ekki aðhafast frekar í málinu.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1962. Hann er einstæður en á þrjár dætur og dvelja tvær þeirra hjá honum aðra hvora helgi. Kærandi býr í eigin 55,7 fermetra íbúð að B í Reykjavík.

Kærandi er menntaður bifvélavirki og starfar við [.....].

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 27.446.612 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2004 til 2008.

Kærandi rekur greiðsluerfiðleika sína til atvinnuleysis og lágra tekna. Einnig hafi afborganir lána af íbúð hans hækkað mikið.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 7. október 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. júní 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 8. ágúst 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Samkvæmt gögnum málsins hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 938.651 krónu á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, í samræmi við skyldur hans samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærandi hefði greint frá því að sparnaður hans á tímabilinu næmi 240.000 krónum en hann hefði ekki framvísað staðfestingu þar að lútandi. Þá kæmi fram hjá kæranda að til óvæntra útgjalda hafi komið vegna viðgerðar og reksturs á bifreið að fjárhæð 891.603 krónur, hann hafi greitt einkaskuldir að fjárhæð 110.000 krónur og framlag til dætra sinna að fjárhæð 100.000 krónur. Umsjónarmaður hafi talið að framlögð gögn vegna bifreiðarinnar væru ófullnægjandi en í ljós hefði komið að kærandi væri ekki eigandi bifreiðarinnar heldur hefði hann afnot af henni. Þá teldi umsjónarmaður að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að greiða skuldir í greiðsluskjóli en í lagagreininni komi fram að skuldari skuli ekki láta af hendi eignir eða verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla. Þá hefði komið í ljós að kærandi hefði ekki staðið við gerðan samning um meðlagsgreiðslur, þrátt fyrir að hafa haft til þess greiðslugetu en það sé andstætt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 11. desember 2013 var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 17. janúar 2014.

Með bréfi til kæranda 14. febrúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. og a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka mál kæranda til meðferðar að nýju og veita honum heimild til greiðsluaðlögunarumleitana.

Kærandi gerir athugasemdir við málavaxtalýsingu umboðsmanns skuldara. Hann hafi veitt umboðsmanni skuldara fullnægjandi upplýsingar um fjölskylduaðstæður sínar gagnstætt því sem haldið hafi verið fram. Með bréfi sínu til umboðsmanns 17. janúar 2014 hafi hann meðal annars gert grein fyrir því að hann hefði eignast þriðju dóttur sína. Þá hefði kærandi sérstaklega ráðfært sig við umsjónarmann sinn um hvort það hefði áhrif á umsókn hans „ef hann kynntist konu á tímabilinu“. Kærandi hafi skilið umsjónarmann sinn þannig að skuldir hans kæmu mögulegum framtíðarmaka ekki við þar sem hann hefði stofnað til skuldanna áður en samband þeirra hófst. Umsjónarmaður hafi ekki gert kæranda sérstaklega grein fyrir tilkynningarskyldu af hans hálfu hvað þetta atriði varðar. Að sögn kæranda hafi hann og barnsmóðir hans aðskilinn fjárhag.

Umboðsmaður skuldara telji að kærandi hafi greitt 110.000 krónur á tímabilinu í „einkaskuldir“. Þetta sé byggt á misskilningi. Um sé að ræða kostnað sem kærandi hafi greitt og hafi verið hluti af framfærslukostnaði hans á tímabilinu. Hafi því ekki verið um að ræða greiðslu á skuld í þeim skilningi sem umboðsmaður skuldara haldi fram.

Kærandi hafi komið heiðarlega fram gagnvart umboðsmanni skuldara og tilkynnt um breyttar aðstæður eftir bestu getu og kunnáttu. Kærandi mótmælir því að hafa með ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um mikilsverðar aðstæður í málinu í skilningi d-liðar 1. mgr. 6. gr. lgr. en mikið verði að koma til svo að ákvæðið eigi við. Kærandi hafi til dæmis haft frumkvæði að því að tilkynna umboðsmanni um breyttar fjölskylduaðstæður. Kærandi hafi einnig eftir bestu getu gefið umboðsmanni skuldara upplýsingar um hvernig sambúð hans og barnsmóður hans væri háttað, en hann hafi átt í erfiðleikum með að útskýra það með nákvæmum hætti.

Kærandi mótmælir því að hafa brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., en ályktanir umboðsmanns skuldara þar að lútandi byggi að miklu leyti á getgátum og röngum ályktunum. Samkvæmt ákvæðinu beri skuldara að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Gerð sé krafa um að sýnt sé fram á með óyggjandi hætti að skuldari hafi af ásetningi eða með gáleysi rýrt fjárhagsstöðu sína en það hafi umboðsmaður skuldara ekki sýnt fram á. Kærandi hafi samviskusamlega lagt til hliðar af launum sínum eins og kostur hafi verið. Ekki sé augljóst af orðalagi ákvæðisins hve víðtæk þessi skylda sé eða hvernig hún skuli afmörkuð í einstökum tilfellum. Þá sé ekki kveðið á um það hvernig afmarka eigi framfærslukostnað á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Af athugasemdum með frumvarpi til lge. megi ráða að mikið þurfi til svo að skuldari teljist hafa brotið gegn skyldum sínum, enda áskilji frumvarpið að skuldari víki augljóslega og með vísvitandi hætti frá skyldum sínum. Kærandi vísar til úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. X-28/2013 þessu til stuðnings. Þar komi meðal annars fram að eðlilegar skýringar hafi verið á því að skuldari hafi ekki lagt meira fé til hliðar. Þannig hafi skuldari verið atvinnulaus á stórum hluta tímabilsins, sótt nám sem ekki hafi verið lánshæft og ýmis aðkallandi útgjöld vegna barna hans hafi fallið til.

Þá verði einnig að setja ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. í samhengi við almenn markmið lge. um að hraða eigi uppgjöri á þeim málum þar sem alvarlegur skuldavandi sé fyrir hendi. Þannig segi til dæmis í almennum athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lge. að greiðsluaðlögun sé ætlað að auðvelda skuldara að endurskipuleggja fjármál sín og laga skuldir að greiðslugetu þannig að raunhæft sé að hann geti staðið við skuldbindingar sínar. Það sé markmið frumvarpsins að einstaklingar fari frekar þessa leið við uppgjör og endurskipulagningu fjármála sinna en þvingaða leið skuldaskilaréttarins. Í þessu felist að tilgangur lge. sé að gera skuldurum kleift að gera samning við kröfuhafa, en það stuðli að því að þeir verði ekki gjaldþrota eða þurfi að gera almennan nauðasamning. Þær heimildir sem umsjónarmanni séu veittar með 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., til að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hljóti að skoðast sem undantekning sem túlka beri þröngt þar sem umsjónarmanni sé almennt uppálagt að reyna að koma á samningi milli kröfuhafa og skuldara.

Kærandi kveðst hafa lagt fyrir 240.313 krónur í greiðsluskjóli en hann hafi ekki getað lagt meira til hliðar á tímabilinu. Kærandi hafi haft afnot af bifreið sem hann eigi í raun. Bifreiðin hafi þurft töluvert viðhald, enda hefði hún annars skemmst. Slíkt hefði haft í för með sér að kærandi hefði þurft að kaupa aðra bifreið vegna vinnu sinnar og barna en það hefði ekki verið ódýrara og því ekki til hagsbóta fyrir kröfuhafa. Kærandi, sem sé bifvélavirki að mennt, hafi sjálfur lagt mikla vinnu í viðgerðirnar og einnig fengið aðstoð kunningja síns. Af þessum sökum hafi viðgerðin verið mun ódýrari en ella. Kærandi hafi lagt fram myndir sem sýni ásigkomulag bifreiðarinnar fyrir og eftir viðgerðir og að þær hafi í raun farið fram á bifreiðinni. Kærandi hafi einnig orðið fyrir óvæntum útgjöldum samtals að fjárhæð 169.233 krónur vegna bifreiðarinnar. Kærandi áætlar þó að kostnaður við viðgerðirnar hafi verið mun meiri á tímabilinu en hann hafi tilgreint. Í ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. sé ekki kveðið á um að skuldari verði að geta lagt fram kvittanir fyrir öllum útgjöldum sínum. Óumdeilt sé að viðgerð hafi farið fram á bifreiðinni og verði því að taka þann kostnað með í reikninginn.

Kærandi bendir á að í útreikningi umboðsmanns skuldara á framfærslukostnaði sé gert ráð fyrir tryggingum að fjárhæð 5.000 krónur á mánuði. Samkvæmt yfirliti frá Verði tryggingum hf. hafi hann greitt samtals 150.508 krónur á 22 mánaða tímabili eða 6.841 krónu á mánuði.

Samkvæmt þeim framfærslukostnaði, sem reiknaður hafi verið fyrir kæranda, sé gert ráð fyrir því að hann sé barnlaus. Á þeim tíma sem útreikningur hafi farið fram hafi kærandi átt tvær dætur. Þótt þær hafi ekki átt lögheimili hjá kæranda og gert sé ráð fyrir því að hann greiddi meðlag að fjárhæð 25.175 krónur á mánuði sé eðlilegt að gera ráð fyrir meiri kostnaði vegna barnanna. Þannig dvelji dætur hans hjá honum af og til og taki hann þátt í eðlilegum kostnaði vegna þeirra. Sú breyting myndi hafa í för með sér að útgjöld samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara hækkuðu úr 132.713 krónum í 179.428 krónur á mánuði. Greiðslugeta kæranda myndi því lækka sem næmi mismuninum. Þá hafi kærandi eignast þriðju dóttur sína [...] 2013 en það hafi eðli máls samkvæmt haft talsverð útgjöld í för með sér. Af þessum ástæðum sé ótækt að miða framfærslukostnað kæranda við barnlausan einstakling. Mun nær væri að miða við framfærslukostnað einstaklings með eitt barn, ef ekki eitt og hálft barn. Kærandi hafi greitt ýmislegt fyrir dætur sínar sem óraunhæft sé að ætla að stutt sé með reikningum. Meðal annars hafi hann gefið þeim afmælisgjafir sem hafi kostað 5.000 krónur til 10.000 krónur, rétt þeim aur öðru hverju, greitt hluta kostnaðar við tómstundastarf, boðið þeim í bílferðir um landið og greitt ýmsan kostnað því fylgjandi, tekið þátt í fatakaupum og svo framvegis. Það sé með engu móti tekið tillit til þessara útgjalda en kærandi áætlar varlega að þau séu um það bil 100.000 krónur.

Kærandi hafi verið atvinnulaus hluta tímabils greiðsluskjóls en þá hafi verið erfitt að leggja til hliðar. Umsjónarmaður virðist ekki hafa tekið tillit til þessa.

Kærandi mótmæli því að hafa brotið gegn c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þótt handskrifað blað sem hann hafi afhent umsjónarmanni kynni að hafa bent til þess.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá sé í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kveðið á um að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Umboðsmaður skuldara vísi til d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. hvíli á skuldara skylda til samráðs við umsjónarmann við undirbúning frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun. Sú skylda, sem hvíli á skuldara samkvæmt 4. og 5. gr. lge., hljóti því eðli máls samkvæmt að hvíla á skuldara þar til greiðsluaðlögunarsamningur kemst á. Eigi það sér í lagi við ef aðstæður breytast eða nýjar upplýsingar um fjárhag skuldara koma fram, hvort sem um er að ræða upplýsingagjöf gagnvart umsjónarmanni eða umboðsmanni skuldara.

Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu. Umboðsmaður skuldara telur kæranda hafa brotið í bága við lagaákvæðið. Kærandi virtist hafa stofnað til sambúðar á tímabili frestunar greiðslna og einnig eignast þriðja barn sitt án þess að upplýsa umsjónarmann um breyttar aðstæður sínar. Umboðsmaður skuldara hafi beint ýmsum fyrirspurnum til kæranda um fjölskylduaðstæður hans og ástæður þess að umsjónarmaður hafi ekki verið upplýstur um hagi kæranda. Ekki hafi borist fullnægjandi svör. Er það mat umboðsmanns skuldara að fyrrnefnd háttsemi kæranda sé ámælisverð og hann hafi brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. með því að hafa af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar varðandi aðstæður sem teljist mikilsverðar í málinu.

Kærandi hafi óskað eftir heimild til að leita greiðsluaðlögunar 7. október 2011. Umsókn hans hafi verið samþykkt 13. júní 2012 og hafi þá frestun greiðslna hafist, svokallað greiðsluskjól, samkvæmt 11. gr. lge. auk þess sem skyldur kæranda hafi þá tekið gildi. Öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem notið hafi greiðsluskjóls hafi verið sent bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 13. júní 2012 sem honum hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þessa séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þessu til viðbótar hafi umsjónarmaður endurtekið minnt kæranda á skyldu hans til sparnaðar. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kæranda því mátt vel vera ljóst að hann skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hann hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 17 mánuði en miðað er við tímabilið frá 1. júlí 2012 til 31. desember 2013. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. júlí 2012 til 31. desember 2013 að frádregnum skatti 4.526.404
Samtals 4.526.404
Mánaðarlegar meðaltekjur 266.259
Framfærslukostnaður á mánuði 210.527
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 55.732
Samtals greiðslugeta í 17 mánuði 947.444

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kæranda með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almennan framfærslukostnað með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að skuldurum sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 266.259 krónur í meðaltekjur á mánuði á 17 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er hann naut greiðsluskjóls.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að heildarútgjöld kæranda hafi mest verið 210.527 krónur á mánuði á meðan hann hafi notið greiðsluskjóls. Sé miðað við framfærsluviðmið í nóvember 2013 fyrir einstakling. Sé miðað við nýjustu mögulegu framfærsluviðmið kæranda í hag. Á þessum grundvelli sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir 947.444 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 55.732 krónur á mánuði í 17 mánuði.

Kærandi kveðist hafa lagt fyrir 240.000 krónur á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Auk þess hafi kærandi gert grein fyrir útlögðum kostnaði á tímabili frestunar greiðslna með handskrifuðum skýringum vegna útgjalda samtals að fjárhæð 1.101.603 krónur. Þar af kveðist kærandi hafa greitt 891.603 krónur vegna viðhalds bifreiðar. Umrædd bifreið sé þó ekki í eigu kæranda heldur barnsmóður hans. Kærandi hafi lagt fram kvittanir vegna viðhalds og viðgerða á bifreiðinni fyrir samtals 201.817 krónur umfram framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Kærandi kveðist hafa greitt um 100.000 krónur vegna dætra sinna á tímabilinu. Samkvæmt uppfærðri greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara hafi kærandi greitt 102.000 krónur til viðbótar við áætlaðan kostnað vegna umgengni á tímabilinu.

Að teknu tilliti til uppfærðs framfærslukostnaðar vegna umgengni við dæturnar hafi greiðslugeta kæranda verið áætluð 48.826 krónur á mánuði. Ætti kærandi því að hafa getað lagt fyrir 830.042 krónur á fyrrnefndu 17 mánaða tímabili. Að teknu teknu tilliti til útlagðs kostnaðar vegna viðhalds og viðgerða á bifreið að fjárhæð 201.817 krónur ætti sparnaður kæranda að nema 628.225 krónum. Með vísan til þessa telur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærandi kveðst einnig hafa orðið fyrir ýmsum útgjöldum vegna fæðingar barns hans. Erfitt sé að meta útlagðan kostnað og framframfærslukostnað kæranda á tímabilinu þar sem barnsmóðir kæranda hafi verið með skráð lögheimili á heimili hans frá 20. nóvember 2012 og barn þeirra frá fæðingu. Kærandi hafi ekki veitt fullnægjandi upplýsingar um fjölskylduaðstæður sínar og framfærslukostnað. Kveður kærandi að hann og barnsmóðir hans hafi aðskilinn fjárhag en gögn málsins bendi á hinn bóginn til þess að fjárhagur þeirra sé sameiginlegur, í það minnsta að einhverju leyti. Umboðsmaður skuldara bendir til dæmis á að barnsmóðir kæranda sé skráður eigandi bifreiðar sem hann kveðist eiga og reka. Það þyki einnig benda til þess að kærandi og barnsmóðir hans hafi sameiginlegan fjárhag að kærandi greiði barnsmóður sinni ekki meðlag. Þar sem kærandi hafi ekki svarað fyrirspurnum umboðsmanns skuldara um fjölskylduaðstæður með fullnægjandi hætti sé umboðsmanni ómögulegt að leggja mat á framfærslukostnað hans að þessu leyti.

Gera verði þá kröfu til þeirra, sem glími við svo verulega fjárhagsörðugleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi saman þau útgjöld sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta. Eigi það sérstaklega við á meðan skuldarar séu með í vinnslu umsókn um samningaumleitanir vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja til hliðar það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi skylt að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Að því er varði c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hafi kærandi endurgreitt nákomnum skuldir að fjárhæð 110.000 krónur á tímabilinu. Það feli, að mati umboðsmanns skuldara, í sér mismunun kröfuhafa þar sem þetta fé hefði annars gagnast lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka mál hans til meðferðar að nýju og veita honum heimild til greiðsluaðlögunarumleitana.

Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram, verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi. Krafa kæranda þess efnis að umboðsmaður skuldara veiti kæranda heimild til greiðsluaðlögunarumleitana kemur því ekki til skoðunar eins og málið liggur fyrir. Samkvæmt framansögðu verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. með vísan til d-liðar 1. mgr. 6. gr. og a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. lge.

Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi 8. ágúst 2013 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður. Í framhaldi af því felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 14. febrúar 2014.

Að því er varðar d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. telur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi vanrækt að tilkynna umsjónarmanni um breytta hagi og fjölskylduaðstæður og með því brotið gegn lagaákvæðinu. Kærandi mótmælir þessu og kveðst hafa haft frumkvæði að því að tilkynna umboðsmanni um breyttar aðstæður sínar eftir því sem hann hafi getað. Honum hafi þó fundist erfitt að útskýra nákvæmlega hvernig sambandi hans og barnsmóður hans væri háttað.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. hvílir á umsjónarmanni skylda til samráðs við skuldara við undirbúning frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun. Sú skylda sem hvílir á skuldara samkvæmt 4. og 5. gr. lge. hlýtur því eðli málsins samkvæmt að vera fyrir hendi þar til greiðsluaðlögunarsamningur kemst á og sér í lagi ef aðstæður breytast eða nýjar upplýsingar um fjárhag skuldara koma fram. Í gögnum málsins liggur fyrir yfirlýsing kæranda 27. janúar 2014 um að á þeim tíma hafi hann ekki verið í sambúð með barnsmóður sinni. Er þetta í samræmi við opinbera skráningu. Verður því að mati kærunefndarinnar að miða við að kærandi hafi verið einstæður í greiðsluskjóli á þeim tíma og að aðstæður hans hafi að þessu leyti ekki breyst á tímabilinu. Þótt vissulega megi taka undir að í frásögn kæranda varðandi fjölskyldumálefni hans sé tiltekið ósamræmi, liggur ekkert fyrir sem bendir til þess að fjárhagur hans sé breyttur frá því sem áður var. Að þessu virtu er það mat kærunefndarinnar að kærandi hafi ekki brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Þá byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar næga fjármuni á því tímabili sem hann naut greiðsluskjóls. Kærandi mótmælir því.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var samþykkt hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 947.444 krónur frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt. Kærandi mótmælir því og kveðst hafa lagt fyrir samkvæmt skyldu sinni.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. júlí 2012 til 31. desember 2012: Sex mánuðir
Nettótekjur 1.392.648
Mánaðartekjur alls að meðaltali 232.108
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur 3.425.759
Mánaðartekjur alls að meðaltali 285.480
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. janúar 2014: Einn mánuður
Nettótekjur 307.124
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 5.125.532
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 269.765

Sé miðað við framfærslukostnað kæranda samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur hans og bætur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. júlí 2012 til 31. janúar 2014: 19 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 5.125.532
Vaxtabætur 400.000
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 5.525.532
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 290.817
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt uppfærðri greiðsluáætlun umboðsmanns* 217.433
Greiðslugeta kæranda á mánuði 73.384
Alls sparnaður í 19 mánuði í greiðsluskjóli x 73.384 1.394.305

*Samkvæmt uppfærðri greiðsluáætlun þar sem gert er ráð fyrir kostnaði að fjárhæð 32.906 krónur á mánuði vegna umgengni við börn kæranda.

Við mat á því hvaða fjárhæð kæranda bar að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur, en í lge. er ekki heimild til að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reiknar út. Í c-lið 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 kemur fram að eitt af hlutverkum umboðsmannsins sé að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 15. júní 2010 segir um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara, er síðar varð að lögum nr. 100/2010: „Nefndin ræddi ítarlega hlutverk umboðsmanns skuldara og telur mikilvægt að stofnuninni verði falið að útbúa lágmarksframfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Nauðsynlegt er að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar komi fram raunhæf tillaga að greiðslum þar sem gert er ráð fyrir framfærsluþörf einstaklingsins og fjölskyldu hans. Jafnframt er mikilvægt að samræmis sé gætt að þessu leyti.“ Samkvæmt þessu gerði nefndin þá breytingartillögu á fyrirliggjandi frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara að í 2. mgr. 1. gr. var bætt staflið d þar sem fram kemur að eitt af hlutverkum Embættis umboðsmanns skuldara sé að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega. Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem er umfram framfærslukostnað. Eins og kærandi bendir á veitir þetta tiltekna ákvæði út af fyrir sig ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvernig framfærslukostnaður skuli reiknaður. Hér verður að hafa í huga að þær aðstæður sem 12. gr. lge. varðar eru þær að skuldarinn hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa. Þar er um að ræða samninga sem að jafnaði fela í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggur þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði svo mikið sem honum er unnt af kröfunum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir eru undirbúnar og yfirstandandi er lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum frá skuldara eða innheimti kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Til að það takist er ljóst að skuldari verður að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili. Það er einnig mikilvægt að bæði skuldarar og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verður framfærslukostnaður skuldara að styðjast við fyrirfram ákveðið almennt viðmið. Í ljósi laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010, lögskýringargagna, lge. og þess sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að ekki er öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara.

Kærandi hefur lagt fram kvittanir að fjárhæð 387.431 króna vegna ýmissa varahluta og viðhaldskostnaðar fyrir Toyota Land Cruiser bifreið. Kærandi er ekki eigandi bifreiðarinnar og verður því ekki tekið tillit til þessa kostnaðar við útreikning á sparnaði kæranda. Kærandi kveðst einnig hafa greitt tryggingar að fjárhæð 6.841 króna á mánuði á tímabili greiðsluskjóls, en umboðsmaður skuldara miði aðeins við að greiðsla trygginga sé 5.000 krónur á mánuði. Af þessu verður ráðið að kærandi telur sig hafa greitt 34.979 krónum meira fyrir tryggingar en framfærsluviðmið geri ráð fyrir á tímabili greiðsluskjóls. Af þeirri fjárhæð sem kærandi greiddi tryggingafélagi sínu voru 80.803 krónur vegna trygginga á fyrrnefndri bifreið sem er eins og áður segir ekki í eigu kæranda. Samkvæmt því var kæranda ekki heimilt að greiða nefndar bifreiðatryggingar og því verður ekki fallist á að hann hafi þurft að greiða fyrir tryggingar umfram það sem framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara gerði ráð fyrir.

Kærandi kveðst ósáttur við að í framfærsluviðmiði hans sé ekki sé gert ráð fyrir kostnaði vegna umgengni við tvær eldri dætur hans, sérstaklega í ljósi þess að hann greiði 25.175 krónur í meðlag á mánuði. Í fyrri greiðsluáætlun gerði umboðsmaður ráð fyrir 26.000 krónum á mánuði vegna umgengni kæranda við börn sín. Embættið sá síðan ástæðu til að hækka þessa fjárhæð um 6.906 krónur á mánuði. Fellst kærunefndin á þetta sjónarmið umboðsmanns skuldara. Í ofangreindum framfærsluútreikningi er þannig miðað við að kostnaður við umgengni við börn kæranda sé 32.906 krónur á mánuði.

Fyrir kærunefndinni hefur kærandi sýnt fram á sparnað að fjárhæð 40.069 krónur á tímabilinu. Dregst sú fjárhæð frá þeirri fjárhæð sem kærandi hefði átt að leggja til hliðar í greiðsluskjóli en gerði ekki. Samkvæmt þessu skortir á sparnað kæranda sem nemur 1.354.326 krónum (1.394.305 krónur – 40.069 krónur = 1.354.326 krónur).

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að því er varðar c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. telur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi endurgreitt nákomnum skuldir að fjárhæð 110.000 krónur á tímabilinu og þannig brotið gegn lagaákvæðinu. Að mati umboðsmanns skuldara fela þessar greiðslur í sér mismunun gagnvart kröfuhöfum þar sem fjármunum var ráðstafað á þennan hátt en hefðu annars gagnast lánardrottnum sem greiðsla samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærandi segist ekki hafa verið að greiða skuld heldur hafi umræddar 110.000 krónur verið hluti af framfærslukostnaði hans á tíma greiðsluskjóls. Þau gögn sem fram hafa verið lögð varðandi greiðslu þessarar skuldar er handskrifað blað frá kæranda þar sem meðal annars kemur fram: „Greiddar einkaskuldir 2013. C kr. 80.000. D kr. 30.000.“ Kærandi hefur ekki lagt fram gögn er renna stoðum undir þá fullyrðingu hans að um sé að ræða framfærslukostnað. Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.


ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta