Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 18/2014

Mál nr. 18/2014

Fimmtudaginn 12. maí 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 25. febrúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. febrúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 4. mars 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. mars 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 20. mars 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust 31. mars 2014.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1975. Hún er gift og býr ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum í eigin 188,4 fermetra raðhúsi að B í Reykjavík. Kærandi hefur unnið við bókhald og skrifstofustörf. Í ákvörðun umboðmanns skuldara 26. júní 2012 þar sem kæranda var veitt heimild til greiðsluaðlögunar kemur fram að útborgaðar mánaðarlegar tekjur hennar séu 275.944 krónur.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 61.885.399 krónur. Kærandi er jafnframt í ábyrgð fyrir skuldbindingum eiginmanns hennar og fyrirtækja á þeirra vegum, samtals að fjárhæð 47.729.043 krónur. Til helstu skuldbindinga og ábyrgða var stofnað árið 2007 vegna fasteignakaupa og atvinnureksturs.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til mikils samdráttar í rekstri [.....]fyrirtækis sem eiginmaður hennar rekur og hún starfaði hjá. Árið 2008 fór að halla undan fæti hjá fyrirtækinu og missti kærandi þá atvinnu sína. Auk þess hafi greiðslubyrði lána hækkað sem leiddi til þess að kærandi gat ekki staðið við skuldbindingar sínar. 

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 26. júní 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 6. mars 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem komið hefðu fram upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil. Umsjónarmaður greindi frá því að á fyrsta fundi með kæranda 12. nóvember 2012 hafi komið fram að kærandi starfaði hjá félagi í eigu eiginmanns hennar, C, og að tekjur hennar þar hafi hækkað frá því í ágúst 2012 úr 90.000 krónum í 200.000 krónur brúttó. Gögn hafi síðan borist frá kæranda 23. nóvember 2012 þar sem fram hafi komið að tekjur kæranda hafi numið 380.000 krónum brúttó frá og með október 2012. Í kjölfar þess hafi umsjónarmaður  meðal annars óskað skýringa á því hvers vegna tekjur hafi hækkað svo verulega. Þá óskaði umsjónarmaður eftir yfirliti af launareikningi kæranda frá því að hún sótti um greiðsluaðlögun. Þann 18. desember 2012 barst umsjónarmanni afrit af launareikningi kæranda auk skýringa á hækkun launa. Greint var frá því að ástæðan fyrir hækkun launa hafi verið sú að forsvarsmenn félagsins hefðu ekki talið forsendur fyrir hækkun launa fyrr en í nóvember 2012. Með tölvupósti 18. janúar 2013 bárust þær skýringar að stopular launagreiðslur til kæranda ættu sér eðlilegar skýringar þar sem þær hafi ráðist af tekjuflæði félagsins. Með tölvupósti 18. janúar 2013 upplýsti umsjónarmaður kæranda um að þær skýringar, sem kærandi hafði gefið á misræmi milli staðgreiðsluskrár RSK og launagreiðslna, hafi ekki verið fullnægjandi. Þá benti umsjónarmaður á að samkvæmt gögnum málsins hefðu verið gerðar breytingar á launagreiðslum til kæranda frá félaginu í ágúst vegna tímabilsins febrúar-júlí 2012 sem síðan hafi verið bakfærðar í lok október 2012 samkvæmt staðgreiðsluyfirliti. Upplýsingar sem skýrðu þessar breytingar hafi ekki verið til staðar.

Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að í málinu liggi fyrir að kærandi hafi ekki fengið greidd laun við upphaf hvers mánaðar í samræmi við uppgefin laun. Þá stemmi greiðslur frá C samkvæmt launareikningi ekki við uppgefnar tekjur samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK. Þá sé óútskýrt hvers vegna launabreytingar voru gerðar í ágúst 2012 vegna tímabilsins febrúar-júlí 2012 og voru bakfærðar í lok október 2012. Auk þess hafði umrætt félag hvorki staðið skil á staðgreiðslu né tryggingargjaldi, auk þess sem skuld þess vegna virðisaukaskatts hafi numið 2.600.000 krónum um áramótin 2012-2013. Með vísan til þessa hafi umsjónarmaður meðal annars talið að fjárhagur kæranda væri óljós, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 6. janúar 2014 þar sem henni var boðið að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn innan tilskilins frests, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella ætti niður heimild til greiðsluaðlögunar. Kærandi svaraði bréfi umboðsmanns skuldara með tölvupóstum 1. og 11. febrúar 2014.

Með ákvörðun 14. febrúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr. lge., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild hennar til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi og að samþykkt verði umsókn kæranda um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun með samningi.

Kærandi mótmælir því harðlega að hún hafi með ráðnum hug eða grófri vanrækslu veitt rangar og villandi upplýsingar. Þá hafi kæranda ekki verið tilkynnt á fundi með starfsmanni embættisins að fyrri greiðsluaðlögun myndi falla úr gildi við afgreiðslu umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun. Starfsmanni embættisins hafi borið að tilkynna það áður en kærandi tók afstöðu til þess hvort hún ætlaði sér að fara í það ferli sem henni stóð til boða. Kærandi hafi því aldrei samþykkt að fyrri greiðsluaðlögun, sem hún fékk hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, yrði felld úr gildi enda hafi dómurinn kveðið upp úrskurð í því máli. Umboðsmaður skuldara geti ekki fellt úr gildi úrskurði dómstóla.  

Varðandi fyrirspurnir um laun kæranda hafi því verið svarað að forsvarsmenn C teldu ekki forsendur til að hækka laun hennar fyrr en í nóvember 2012. Hins vegar hafi aðstæður breyst þar sem rekstur félagsins hafi verið erfiður og erfitt hafi verið fyrir félagið að standa skil á fjárskuldbindingum. Kærandi hafi gert ráð fyrir að leyst yrði úr þessu og hafi vonast til þess að laun hennar yrðu leiðrétt.

Kærandi gerir athugasemdir við að Embætti umboðsmanns skuldara hafi gert viðskipti eiginmanns hennar tortryggileg og um leið gert kæranda ábyrga fyrir rekstri sem hún hafi ekkert komið nálægt að öðru leyti en því  að vera gift eiganda fyrirtækisins og vera starfsmaður þess. Þá hafi bréf umboðsmanns skuldara til kæranda verið mjög óskýrt og ekki auðveldlega í það ráðið hvaða þættir málsins það voru sem embættið taldi ekki nægjanlega upplýsta. Þetta hafi haft áhrif á getu kæranda til þess að koma að andmælum í málinu.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti RSK frá árinu 2012 hafi kærandi fengið greiddar 400.000 krónur í laun nokkrum sinnum frá félaginu C. Þessar greiðslur hafi síðan verið dregnar til baka. Óskað hafi verið skýringa kæranda, bæði með bréfi 6. janúar 2014 og með tölvupósti 4. febrúar 2014. Skýringar kæranda hafi verið þær að fjármunir hefðu verið færðir á milli en félagið C hafi ekki gengið vel á þessum tíma. Kærandi hafi ekki skýrt nánar hvað átt væri við eða í hvaða tilgangi þetta hafi verið gert. Að mati umboðsmanns skuldara hafi skýringar kæranda ekki verið fullnægjandi.

Þá hafi umboðsmaður skuldara óskað eftir að kærandi útskýrði mismun á tekjum samkvæmt staðgreiðsluyfirliti RSK og greiðslum frá vinnuveitanda hennar C inn á bankareikning hennar frá árinu 2012. Samkvæmt bankayfirliti kæranda hafi greiðslur frá félaginu verið um 300.000 krónum lægri en uppgefnar nettótekjur samkvæmt staðgreiðsluyfirliti RSK. Kærandi hafi greint frá því að þetta misræmi hafi verið vegna erfiðleika hjá félaginu C en þetta hafi verið lagfært. Kærandi hafi hins vegar enga tilraun gert til að sýna umboðsmanni skuldara fram á það með gögnum að launin hafi fengist greidd eða að gerðar hafi verið viðeigandi leiðréttingar á staðgreiðsluskrá.

Með tölvupósti umboðsmanns skuldara 4. febrúar 2014 hafi kæranda verið greint frá því að staðgreiðsluyfirlit hennar sýndi engar tekjur frá því í ágúst 2013. Því hefði embættið engar upplýsingar um tekjur kæranda frá þeim tíma. Þess hafi verið óskað að kærandi greiddi staðgreiðslu annars gæfu fyrirliggjandi gögn ekki glögga mynd af fjárhag hennar í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Kærandi hafi ekki orðið við þeirri beiðni umboðsmanns skuldara. Upplýsingar um tekjur kæranda, sem ekki hafi verið taldar fram á staðgreiðsluskrá, verði að telja þess eðlis að það sé einungis á færi kæranda að veita þær. Eftir heildstætt mat á atvikum málsins hafi umboðsmaður skuldara talið að fyrirliggjandi gögn hafi ekki gefið nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara greinir frá því að samkvæmt 3. mgr. 7. gr. lge. falli eldri gildur nauðasamningur til greiðsluaðlögunar sjálfkrafa úr gildi við samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun. Embættið hafi alla jafna gengið út frá því að þeir einstaklingar sem leggi inn umsókn um greiðsluaðlögun séu, eða telji sig vera, í verulegum greiðsluerfiðleikum og að þeir hafi ekki fengið fullnægjandi úrlausn sinna mála eftir öðrum leiðum. Hafi kærandi verið í vafa um afleiðingar þess að sækja um greiðsluaðlögun hafi henni borið að óska eftir  útskýringum með hugsanlegum samanburði við áðurgerðan nauðasamning til greiðsluaðlögunar samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum. Í málinu liggi ekkert fyrir um að þess hafi verið óskað. Í þessu sambandi verði að leggja áherslu á að umsækjandi um greiðsluaðlögun leggi fram umsókn af fúsum og frjálsum vilja. Almennt verði að gera þær kröfur til umsækjenda að þeir kynni sér það úrræði sem sótt sé um og hugsanleg réttaráhrif þess.

Umboðsmaður skuldara gerir athugasemdir við málflutning kæranda þess efnis að ekki hafi mátt ráða af gögnum málsins hvaða þætti embættið taldi ekki nægilega upplýsta og það hafi haft áhrif á getu kæranda til þess að koma andmælum sínum á framfæri. Umboðsmaður skuldara hafi sent kæranda bréf 6. janúar 2014 en 10. janúar sama ár hafi borist tölvupóstur frá kæranda sem hafi óskað eftir fresti til að veita skýringar. Í andmælum kæranda 1. febrúar 2014 komi fram að henni hafi þótt bréf umboðsmanns skuldara óskýrt. Í ljósi þess að skýringar kæranda voru ófullnægjandi hafi umboðsmaður skuldara veitt kæranda frekari frest til að skýra ákveðin atriði málsins með tölvupóst 4. febrúar 2014. Svör kæranda hafi borist með tölvupósti 11. febrúar 2014. Að mati umboðsmanns skuldara hafi því með skýrum hætti legið fyrir hvaða þættir málsins hafi ekki verið nógu vel upplýstir og gerðu það að verkum að fyrirliggjandi gögn voru ekki talin gefa nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði hrundið og að heimild verði veitt til greiðsluaðlögunar. Felli umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Samkvæmt lge. gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin staðfesti eða felli úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara. Verði fallist á kröfu kæranda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi leiðir það sjálfkrafa til þess að greiðsluaðlögunarumleitanirnar halda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Skilja verður kröfugerð kæranda með tilliti til þessa.

Kærandi telur að andmælaréttur hennar hafi ekki verið virtur þar sem bréf umboðsmanns skuldara til kæranda 6. janúar 2014 hafi verið mjög óskýrt og ekki auðveldlega í það ráðið hvaða þættir málsins það voru sem embættið taldi ekki nægjanlega upplýsta.

Samkvæmt ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun í því er tekin. Í því er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi réttur varðar einkum upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru. Í bréfi umboðsmanns skuldara 6. janúar 2014, sem barst kæranda ásamt afriti af tilkynningu umsjónarmanns til embættisins 6. mars 2013, kom fram að upplýsingar skorti varðandi launagreiðslur til kæranda frá félaginu C.

Samkvæmt málsatvikum var kæranda með greinilegum hætti gerð grein fyrir því hvaða upplýsingar og gögn skorti til að glögg mynd fengist af fjárhag hennar samkvæmt lge. Fullyrðingar um annað eiga sér enga stoð í gögnum málsins. Samkvæmt því telur kærunefndin að málsmeðferð umboðsmanns skuldara hafi að þessu leyti verið í samræmi við lögbundinn andmælarétt kæranda.

Kærandi telur að umboðsmanni skuldara hafi borið að upplýsa kæranda um að nauðasamningur hennar til greiðsluaðlögunar myndi falla úr gildi ef umsókn hennar um greiðsluaðlögun yrði samþykkt. Þá telur kærandi að samþykki hennar hafi þurft að liggja fyrir til þess að gildur nauðasamningur yrði felldur úr gildi.

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. lge. fellur gildur nauðasamningur til greiðsluaðlögunar úr gildi, sbr. e-lið 1. mgr. 6. gr. lge., þegar umboðsmaður skuldara samþykkir umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt framangreindu ákvæði lge. fellur gildur nauðasamningur úr gildi ef umboðsmaður skuldara samþykkir umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt gögnum málsins liggur ekki fyrir að kærandi hafi veitt upplýsingar um nauðasamning sem hún hafði áður undirgengist. Ákvæði 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, felur í sér að stjórnvaldi ber að veita nauðsynlegar leiðbeiningar. Ekki verður ætlast til þess að stjórnvald veiti leiðbeiningar um atriði sem eru á ábyrgð og aðeins á færi viðkomandi umsækjanda að upplýsa um.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í athugasemdum með b-lið 1. mgr. 6. gr. í frumvarpi til lge. segir að mikilvægt sé að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Er áréttað, eins og víða annars staðar í lge., að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína.

Í 4. gr. lge. er greint frá því hvaða gögn og upplýsingar þurfi að liggja fyrir þegar óskað er greiðsluaðlögunar. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun þurfi að koma fram hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðast svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skal greina hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra. 

Það er mat Embættis umboðsmanns skuldara að fyrirliggjandi gögn hafi ekki gefið nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda. Meðal annars hafi kærandi ekki orðið við beiðni umboðsmanns skuldara um að veita upplýsingar um tekjur hennar frá ágústmánuði 2013. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi ekki upplýst um þessar tekjur.

Kærandi hefur ekki lagt fram þau gögn sem nauðsynleg eru til að sýna fram á hverjar eru tekjur hennar. Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar, sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge., grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda byggist greiðsluaðlögun að hluta til á því að skuldari greiði af skuldum sem hann hefur stofnað til að því marki sem greiðslugeta hans leyfir. Af þessum sökum er nauðsynlegt að tekjur kæranda liggi ljósar fyrir, ella er ekki mögulegt að leggja mat á greiðslugetu hennar eða hversu háa fjárhæð hún geti greitt til kröfuhafa sem verður að liggja til grundvallar samningi um greiðsluaðlögun.

Þegar framanritað er virt verður að telja að kærandi hafi látið hjá líða að upplýsa um tekjur sínar eins og henni er skylt að gera samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. Skorti því fullnægjandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu kæranda.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.


ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta