Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 54/2013

Fimmtudaginn 25. júní 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 4. apríl 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. mars 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 8. apríl 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 16. apríl 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfum 22. apríl og 22. ágúst 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 11. september 2012.

Með bréfi 16. september 2013 óskaði kærunefndin eftir afstöðu umboðsmanns skuldara vegna athugasemda kærenda. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru hjón, fædd 1962 og 1950. Þau búa í 162,6 fermetra eigin húsnæði að C götu nr. 33 í sveitarfélaginu D. Kærandi A er öryrki og kærandi B er atvinnulaus en hefur þó unnið hlutastarf þegar tækifæri hafa gefist. Tekjur kærenda eftir greiðslu skatta eru samtals 339.225 krónur á mánuði að meðtöldum vaxtabótum.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 37.844.539 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga árin 2004 til 2008.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til atvinnumissis og veikinda kæranda B sem hafi haft í för með sér tekjulækkun. Jafnframt sé kærandi A öryrki og hún því tekjulág. Kærendur hafi einnig þurft að aðstoða son kæranda B.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 6. október 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. júní 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 23. janúar 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og því ætti að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Mat umsjónarmanns var að kærendur hefðu ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni í samræmi við greiðslugetu á því tímabili sem frestun greiðslna hafði staðið yfir. Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að miðað við meðaltekjur kærenda hafi mánaðarleg greiðslugeta þeirra umfram framfærslukostnað verið 172.242 krónur í þá 26 mánuði sem kærendur hafi verið í greiðsluskjóli.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 25. febrúar 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Umboðsmanni skuldara bárust athugasemdir kærenda með bréfi 14. mars 2013. Þar gerðu kærendur meðal annars grein fyrir því að þau væru ósátt við þá málsmeðferð sem mál þeirra hefði fengið hjá umboðsmanni skuldara þann tíma sem þau höfðu verið í greiðsluskjóli. Þá teldu þau framfærslukostnað sinn hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara gerðu ráð fyrir. Að auki hefðu þau orðið fyrir óvæntum kostnaði á tímabilinu.

Með bréfi til kærenda 20. mars 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað þeirra þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur telja að málsmeðferð og málshraði í máli þeirra hafi ekki verið í samræmi við þær upplýsingar sem komi fram á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Að mati kærenda hafi umsjónarmaður, sem skipaður var í upphafi, ekki sinnt hlutverki sínu. Kærendurnir séu þar að auki ósáttir við að hafa ekki fengið að sjá tillögur af samningum í málinu eða hvaða möguleikar væru í stöðu þeirra.

Á fundi kærenda og umsjónarmanns hafi komið fram að þeim bæri að leggja til hliðar fé sem væri afgangs en sú skylda hafi ekki verið útskýrð nánar. Þá hafi þeim ekki verið gerð grein fyrir að til staðar væru viðmið í þeim efnum. Hafi þau haldið þeim fjármunum eftir sem þau gátu. Sökum atvinnuleysis og vegna þess að ýmislegt óvænt og ófyrirséð hafi átt sér stað hafi þau ekki getað lagt nógu mikið fyrir. Kærendur telja framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara mjög lágt. Vísa þau sérstaklega til þess að þau telji sig ekki geta lifað á þeim 77.026 krónum sem ætlaðar séu til kaupa á mat og hreinlætisvörum meðal annars af þeirri ástæðu að börn þeirra og barnabörn eigi það til að heimsækja kærendur. Einnig hafi kærendur þurft að greiða fyrir lyf og læknisþjónustu. Telja þau mánaðarlegan framfærslukostnað sinn 87.227 krónum hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir.

Kærendur hafi fengið vaxtabætur að fjárhæð 640.237 krónur árið 2011. Peningunum hafi þau varið til að kaupa ný dekk á bíla sína að fjárhæð 175.000 krónur, þau hafi notað 200.000 krónur til jólahalds og 200.000 til 250.000 krónur til að halda upp á 50 ára afmæli kæranda A.

Þá telja kærendur ekki réttlátt að þau haldi sjálf eftir þeim arfi sem þau hafi fengið eftir móður kæranda B. Börn þeirra hafi verið náin ömmu sinni og því hafi kærendur gefið þeim töluverðan hluta arfsins.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 2. mgr. 12. gr. komi fram að telji umsjónarmaður skuldara hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunar­umleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Í a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar komi fram að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 26 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. nóvember 2010 til 31. desember 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. nóvember 2010 til 31. desember 2012 að frádregnum skatti 8.948.623
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 574.903
Arfur 1.079.016
Samtals 10.601.916
Mánaðarlegar meðaltekjur 407.766
Framfærslukostnaður á mánuði 266.236
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 141.530
Samtals greiðslugeta í 26 mánuði 3.679.780

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 407.766 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 26 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur hafi notið greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 266.236 krónur á meðan frestun greiðslna hafi staðið yfir. Tekið sé mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum febrúarmánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna einstaklinga. Gengið sé út frá því að kærendur hefðu að öllu óbreyttu átt að hafa getu til að leggja fyrir um 3.679.780 krónur ef miðað sé við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 141.530 krónur á mánuði.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkuð svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að ekki sé lagaheimild til þess að taka sérstakt tillit til framfærslukostnaðar annarra skyldmenna en barna sem eru á framfæri umsækjenda við greiðsluaðlögun, þar með talið barnabarna. Við útreikning á framfærslukostnaði sé því ekki hægt að taka tillit til þess að kærendur eigi uppkomin börn og barnabörn sem komi í heimsóknir til þeirra, en almennt sé litið til þess að framfærsluskyldu foreldris ljúki við 18 ára aldur barna.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hafi kærendur ekki mátt ráðstafa hluta af arfi til barna sinna, þó svo að ekki sé greiddur af arfi tekjuskattur samkvæmt lögum um tekjuskatt nr. 90/2003, heldur erfðafjárskattur samkvæmt lögum um erfðafjárskatt nr. 14/2004. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem afgangs sé eftir framfærslu fjölskyldunnar, en engin ákvæði séu í þeim lögum sem veiti heimild til undanþágu vegna tekna sem ekki séu tekjuskattsskyldar.

Það leiði af þeim skyldum sem kveðið sé á um í a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. að kærendum hafi borið að leggja til hliðar það fé sem þau hafi fengið í arf. Með því að ráðstafa hluta af arfinum til barna sinna hafi þau ráðstafað fjármunum sem gagnast hefðu lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur telja að sú málsmeðferð sem þau hafi fengið meðan á greiðsluskjóli stóð hafi ekki verið fullnægjandi. Þau hafi ekki fengið nægar leiðbeiningar og ekki verið upplýst um skyldur sínar í greiðsluaðlögunarferlinu. Í kæru kemur fram að kærendum hafi ekki verið ljóst að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar ákveðna fjárhæð samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þau kveðast ekki hafa verið upplýst um skyldu sína til að leggja til hliðar fjármuni í greiðsluskjóli fyrr en með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 23. janúar 2013 en þá höfðu kærendur verið í greiðsluskjóli í rúmlega 26 mánuði.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar, komið fram í bæklingum eða á vefsíðum.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram sú meginregla að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Með setningu laga nr. 128/2010, sem tóku gildi 18. október 2010, var lögfest bráðabirgðaákvæði II lge. þess efnis að tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. myndi hefjast við móttöku umsókna sem bærust umboðsmanni skuldara fyrir 1. júlí 2011. Frestunin skyldi einnig gilda um umsóknir sem umboðsmaður skuldara hafði móttekið fyrir gildistöku laganna en í þeim tilvikum hófst greiðslufrestun við gildistöku laganna 18. október 2010. Fram kemur í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn og frestun greiðslna hefst. Bar kærendum samkvæmt framangreindu því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna frá 18. október 2010.

Í tilefni af gildistöku laga nr. 128/2010 sendi umboðsmaður skuldara kærendum sérstakt upplýsingaskjal 18. október 2010 þar sem greint var frá skyldum þeirra í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að kærendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þurfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að væri þessum skyldum ekki fylgt gæti það valdið synjun greiðsluaðlögunar á síðari stigum. Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. júní 2011 þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt greiðsluáætlun, sem einnig fylgdi ákvörðun umboðsmanns skuldara, var mánaðarleg greiðslugeta kærenda eftir greiðslu framfærslukostnaðar nákvæmlega tiltekin. Þá sendi umboðsmaður skuldara kærendum bréf 27. nóvember 2012 en á þeim tíma voru þau í greiðsluskjóli. Í bréfunum var meðal annars minnt á skyldur þeirra til að leggja til hliðar fjármuni sem voru umfram framfærslukostnað samkvæmt 12. gr. lge.

Kærunefndin telur að embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kærendum með fullnægjandi hætti. Var um að ræða upplýsingar og útskýringar á afdráttarlausu lagaákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þar sem segir að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Að þessu virtu er það álit kærunefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi framfylgt leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga við meðferð málsins.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kemur fram að meðan leitað er greiðsluaðlögunar skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 23. janúar 2013 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Óskaði hann þess að umboðsmaður skuldara felldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 20. mars 2013.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 3.679.780 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 1. nóvember 2010 til 31. desember 2012. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 141.530 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur enga fjármuni lagt til hliðar.

Kærendur kveðast ekki hafa haft tök á því að leggja fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem framfærslukostnaður þeirra sé hærri en viðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. desember 2010: Tveir mánuðir
Nettótekjur A 327.331
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 163.666
Nettótekjur B 355.196
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 177.598
Nettótekjur alls 682.527
Mánaðartekjur alls að meðaltali 341.264

 

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur A 1.950.999
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 162.583
Nettótekjur B 2.310.932
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 192.578
Nettótekjur alls 4.261.931
Mánaðartekjur alls að meðaltali 355.161

 

Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.031.398
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 169.283
Nettótekjur B 2.374.477
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 197.873
Nettótekjur alls 4.405.875
Mánaðartekjur alls að meðaltali 367.156

 

Tímabilið 1. janúar 2013 til 28. febrúar 2013: Tveir mánuðir
Nettótekjur A 339.546
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 169.773
Nettótekjur B 466.541
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 233.271
Nettótekjur alls 806.087
Mánaðartekjur alls að meðaltali 403.044

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, opinberar upplýsingar um tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. nóvember 2011 til 28. febrúar 2013: 28 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.156.420
Arfur 1.079.016
Bótagreiðslur nettó 574.903
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 11.810.339
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 421.798
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 266.236
Greiðslugeta kærenda á mánuði 155.562
Alls sparnaður í 28 mánuði greiðsluskjóli x 155.562 4.355.731

 

Við mat á því hvaða fjárhæð kærendum bar að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Því verður ekki gert ráð fyrir að framfærslukostnaður kærenda hafi verið 87.227 krónur á mánuði að meðaltali umfram framfærsluviðmið. Þar verður í fyrsta lagi að líta til þess að samkvæmt lge. er ekki heimild til að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reiknar út, þó svo að uppkomin börn og barnabörn séu tíðir gestir á heimili kærenda. Í öðru lagi hafa kærendur ekki lagt fram nein gögn um aukinn lækna- og lyfjakostnað, en til þess að litið sé til aukins kostnaðar vegna þessa verða kærendur að framvísa kvittunum sem styðja þær upplýsingar. Kærendur hefðu samkvæmt framansögðu átt að geta lagt fyrir 4.355.731 krónu á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt gögnum málsins og skýringum kærenda var arfi þeim sem kærendur fengu ráðstafað að hluta til til barna þeirra. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. ber skuldara að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem er afgangs eftir framfærslu fjölskyldunnar og er arfur þar ekki undanskilinn enda ekki heimildir til slíkrar undanþágu í lge. Enn fremur var kærendum óheimilt að ráðstafa arfinum þar sem bann er lagt við því í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að skuldari láti af hendi eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla.

Það er því mat kærunefndarinnar að með því að ráðstafa hluta af arfi til barna sinna hafi kærendur ráðstafað fjármunum sem gagnast hefðu lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c- liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt framansögðu bar umboðsmanni skuldara að fella greiðsluaðlögunar-umleitanir kærenda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

 Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta