Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 76/2014

Mál nr. 76/2014

Fimmtudaginn 24. nóvember 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 22. júlí 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 11. júlí 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 14. ágúst 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 11. september 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 17. september 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1968 og 1976 og eru í hjúskap. Þau búa í eigin húsnæði að C, sem er 238 fermetra einbýlishús, ásamt X stálpuðum börnum sínum. Kærandi A er [...] og starfar hjá D. Kærandi B er [...]og starfar sem [...].

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 28. febrúar 2012, eru 79.823.162 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga árin 2005 og 2006 vegna fasteignakaupa.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til atvinnuleysis og hækkunar lána í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008, þá sérstaklega til hækkunar láns í erlendri mynt.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. febrúar 2012 var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 28. janúar 2014 tilkynnti sá fyrrnefndi að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og því ætti að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Mat umsjónarmanns var að kærendur hefðu ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni á því tímabili sem frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefði staðið yfir. Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að miðað væri við tímabilið maí 2013 til janúar 2014 þar sem kærendur hefðu fyrst í maí 2013 orðið fær um að greiða af skuldbindingum sínum eftir að hafa staðið straum af mánaðarlegum framfærslukostnaði. Að mati umsjónarmanns hefði sparnaður kærenda á framangreindu tímabili átt að nema 2.574.000 krónum en kærendur hefðu ekkert lagt til hliðar. Í skýringum þeirra hefði komið fram að ástæður þess væru lægri tekjur þeirra vegna sumarfrís og ýmis kostnaður sem þau hefðu orðið að leggja út fyrir á tímabili greiðsluskjóls.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 4. júní 2014 þar sem þeim var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Þá var kærendum jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kærenda bárust með bréfi 23. júní 2014.

Með ákvörðun 11. júlí 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru þeirra þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveðast ekki hafa fengið fund með umboðsmanni skuldara þar sem þeim hafi verið kynnt að þau ættu að halda kvittunum til haga. Þau hafi því ekki geymt kvittanir vegna fatakaupa, en börn þeirra hafi tekið vaxtakipp og því hafi kostnaður vegna fatakaupa verið töluverður. Kærendur hafi greitt vangoldin fasteignagjöld sem námu tæpri 1.000.000 króna, sem þau hafi upphaflega haldið að þau þyrftu ekki að greiða í greiðsluskjóli, auk þess að hafa látið gera við bifreið fyrir um það bil 100.000 krónur án þess að fá kvittun. Þá telja kærendur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara of lág, enda séu börn þeirra nær fullvaxin og því sé ekki rétt að miða matarkostnað við X börn og tvo fullorðna. Auk þess hafi umboðsmaður skuldara vanmetið fasteignagjöld kærenda.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann nýtur greiðsluskjóls. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. segi að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var móttekin 30. júní 2011 eða í 30 mánuði. Kærendur hafi búið erlendis meiri hluta þess tíma sem þau hafi verið í greiðsluskjóli. Útreikningar umboðsmanns skuldara miði við tímabilið maí 2013 til apríl 2014, samtals 12 mánuði, þar sem greiðslugeta kærenda hafi fyrst orðið jákvæð eftir að þau bæði voru flutt heim og komin með vinnu á Íslandi í maí 2013.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi fjárhagur kærenda verið eftirfarandi frá maí 2013 til apríl 2014 í krónum:

Tímabilið 1. maí 2013 til 31. desember 2013
Nettó launatekjur 5.277.967
Leigutekjur 640.000
Heildartekjur á tímabilinu 5.917.967
Tekjur að meðaltali á mánuði 739.746
Framfærslukostnaður á mánuði* 514.766
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 224.980
Samtals greiðslugeta á tímabilinu 1.799.839

* Framfærslukostnaður er reiknaður miðað við útgjöld hjóna með X börn samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í júní 2014 og upplýsingum frá kærendum um annan kostnað. Reiknað er með tvöföldum kostnaði vegna reksturs bifreiðar þar sem kærendur ráku tvo bíla.

Tímabilið 1. janúar 2014 til 30. apríl 2014
Nettó launatekjur 2.632.847
Leigutekjur 320.000
Heildartekjur á tímabilinu 2.952.847
Tekjur að meðaltali á mánuði 738.212
Framfærslukostnaður á mánuði* 514.766
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 223.446
Samtals greiðslugeta á tímabilinu 893.783

* Framfærslukostnaður er reiknaður miðað við útgjöld hjóna með X börn samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í júní 2014 og upplýsingum frá kærendum um annan kostnað. Reiknað er með tvöföldum kostnaði vegna reksturs bifreiðar þar sem kærendur ráku tvo bíla.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt framangreindum útreikningum hefðu kærendur því alls átt að leggja 2.693.622 krónur til hliðar á tímabili greiðsluskjóls. Umboðsmaður vísi til þess að kærendur hafi lagt fram gögn vegna útlagðs kostnaðar á tímabilinu, samtals að fjárhæð 935.000 krónur, og að kærendur kveðist hafa lagt 900.000 krónur til hliðar. Þrátt fyrir þær skýringar sé ljóst að kærendur hafi ekki lagt nægilega mikið til hliðar.

Umboðsmaður skuldara hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Upplýsingarnar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Kærendum hafi því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skal skuldari samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 30. júní 2011. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lge. hófst tímabundin frestun greiðslna frá gildistöku laganna til 1. júlí 2011 þegar umboðsmaður skuldara hafði móttekið umsókn um greiðsluaðlögun. Skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge. eiga við frá þeim tíma er umsókn hefur verið móttekin og er greiðslum þá frestað í samræmi við bráðabirgðaákvæðið. Kærendum bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. um leið og þau sóttu um greiðsluaðlögun 30. júní 2011. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í greiðsluskjóli í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Eins og fram kemur í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hvílir sú skylda á skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar að leggja til hliðar sparnað. Tímabil greiðsluaðlögunar-umleitana kærenda hófst 30. júní 2011, en mat umboðsmanns skuldara er byggt á fjárhag kærenda á tímabilinu 1. maí 2013 til 30. apríl 2014. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að samkvæmt frásögn umsjónarmanns hafi kærendur ekki haft neitt aflögu til að leggja til hliðar af tekjum sínum fyrr en í maí 2013 en þá hafi þau bæði verið komin með vinnu á Íslandi.

Í ódagsettu bréfi kærenda til umboðsmanns skuldara kemur fram að annar kærenda hafi verið tekjulaus í febrúar og mars 2013 og gera kærendur athugasemdir við að ekki sé miðað við allt árið 2013 í útreikningum embættisins.

Við mat á málsmeðferð umboðsmanns skuldara ber meðal annars að líta til rannsóknarreglu 5. gr. lge., sem styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvald þarf að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi beri að afla um viðkomandi mál.

Þegar allt framanritað er virt verður að telja að umboðsmaður skuldara hafi byggt mat sitt á fjárhag kærenda á tímabilinu 30. júní 2011 til 30. apríl 2013 á frásögn umsjónarmanns án þess að staðreyna grundvallarupplýsingar um tekjur þeirra og útgjöld og leggja sjálfstætt mat á fjárhag þeirra.

Samkvæmt framangreindu bar umboðsmanni skuldara að rannsaka fjárhag kærenda á öllu því tímabili sem greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra stóðu yfir eða frá 30. júní 2011 og þar til þær voru felldar niður 11. júlí 2014. Mat embættisins á fjárhag kærenda, sem náði eingöngu til framangreinds tímabils eftir að þau fluttu aftur til Íslands frá E, var því ófullnægjandi og verða greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra ekki felldar niður á grundvelli þess.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að greiðsluaðlögunar-umleitanir kærenda hafi verið felldar niður án þess að umboðsmaður skuldara hafi sinnt þeirri rannsóknarskyldu sem á honum hvílir samkvæmt 5. gr. lge. Af þeim sökum ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir umboðsmann skuldara að taka málið aftur til meðferðar.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er felld úr gildi og lagt fyrir umboðsmann skuldara að taka málið aftur til meðferðar.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta