Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 84/2014

Mál nr. 84/2014

Fimmtudaginn 1. desember 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 8. ágúst 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 23. júlí 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 26. ágúst 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 1. október 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 7. október 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Andmæli kærenda bárust með bréfi 27. mars 2015.

Andmæli kærenda voru send umboðsmanni skuldara með bréfi 31. mars 2015 og óskað eftir afstöðu til þeirra sem barst með framhaldsgreinargerð embættisins 4. maí 2015.

Framhaldsgreinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 7. maí 2015 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Andmæli kærenda bárust með bréfum 17. janúar 2016, 22. febrúar sama ár og 26. september sama ár.

Andmæli kærenda voru send umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 26. september 2016. Afstaða umboðsmanns skuldara barst með bréfi 3. október 2016.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1953 og 1954. Þau eru í sambúð og eiga saman X uppkomin börn. Þau búa ásamt X börnum sínum í eigin húsnæði sem er 168 fermetrar að stærð.

Kærandi A starfar við eigin rekstur í [...] en kærandi B starfar sem [...] í C.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 3. október 2011, eru 41.410.304 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 1999 vegna fasteignakaupa.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til [...] kæranda A, sem endað hafi með gjaldþroti, og til tveggja [...] sem hann varð fyrir árin X og X.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 2. mars 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. október 2011 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 20. september 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í bréfi umsjónarmanns greinir frá því að í ljós hafi komið að kærendur hafi ekki greitt fasteignagjöld og gjöld vegna brunatryggingar í greiðsluskjóli. Auk þess hefði ekki verið staðið skil á greiðslu tryggingargjalds og staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi á árunum 2012 og 2013. Með því að standa ekki skil á þessum gjöldum á tímabili greiðsluskjóls taldi umsjónarmaður að kærendur hefðu brotið skyldur sínar samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá hafi legið fyrir krafa sem tilkomin væri vegna vangoldins virðisaukaskatts sem ætla mætti að fæli í sér upplýsingar sem kæmu í veg fyrir að greiðsluaðlögun væri heimil. Auk þess að standa ekki skil á lögbundnum gjöldum hafi kærendur ekki lagt fyrir á tímabili greiðsluskjóls og því jafnframt brotið gegn a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 14. mars 2014 var þeim kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Þá var kærendum jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Andmæli kærenda bárust umboðsmanni skuldara með bréfi 28. apríl 2014. Þann 7. maí 2014 óskaði umboðsmaður skuldara eftir nánari rökstuðningi hjá kærendum á því hvers vegna þau hefðu ekki lagt fé til hliðar í greiðsluskjóli og barst embættinu svar frá þeim 21. maí sama ár. Hinn 30. maí 2014 sótti kærandi A fund hjá umboðsmanni skuldara og var í kjölfarið ákveðið að setja mál kærenda á bið þar til fullreynt yrði hvort hægt væri að leysa skuldavanda þeirra hjá ráðgjafa embættisins. Hinn 2. júlí 2014 lá fyrir að skuldavandi kærenda yrði ekki leystur hjá ráðgjafa og óskaði kærandi A þá eftir fundi hjá umboðsmanni skuldara. Í framhaldi þess mætti kærandi A á fund umboðsmanns skuldara 10. júlí 2014.

Með ákvörðun 23. júlí 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæru þeirra svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunar-umleitanir þeirra verði felld úr gildi.

Í kæru og greinargerðum kærenda er farið ítarlega yfir framgang málsins. Kærendur benda á að aldrei hafi verið minnst á að leggja þyrfti peninga til hliðar í greiðsluskjóli og fullyrðing um greiðslu leigu sé röng.  Kærendur kveða dóttur þeirra hafa átt heimili hjá þeim með unga dóttur sína og þær búi þar enn.

Kærendur telja að umboðsmaður skuldara hafi ekki tekið tillit til andmæla þeirra við tillögu umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Kærendur hafi sent umboðsmanni skuldara andmæli sín með bréfi 28. apríl 2014 merkt „uppkast“ og síðar hafi það verið sent embættinu fullfrágengið 21. maí 2014. Ekkert hafi verið vitnað í þetta bréf í ákvörðun umboðsmanns skuldara og það hafi ekki verið í gögnum málsins. Kærendur taka fram að í fyrrgreindu bréfi hafi gangur málsins verið rakinn og gerðar fjölmargar athugasemdir við framvindu þess. Hvergi í gögnum málsins sé að sjá að umboðsmaður skuldara hafi reynt að staðreyna það sem þar hafi komið fram með því að ganga á umsjónarmann um svör við gagnrýni á verk hans. Ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi að þessu leyti verið einhliða þar sem málsástæðum kærenda og hagsmunum hafi ekki á nokkurn máta verið haldið á lofti. Einungis hafi verið verið stiklað lauslega og á óljósan hátt yfir hið ófullgerða bréf og látið þar við sitja.

Kærendur vísa til þess að samkvæmt skattframtölum og framfærsluviðmiði umboðmanns skuldara og að viðbættum kostnaði vegna húsnæðis hafi kærendur mögulega getað lagt til hliðar 2.800.000 krónur en ekki 6.500.000 krónur eins og fram komi í hinni kærðu ákvörðun.

Kærendur greina frá samskiptum sínum við starfsmenn umboðsmanns skuldara og umsjónarmann og telja að nokkuð vanti af gögnum um samskipti þeirra við þann síðarnefnda. Kærendur vísa til þess að í tölvupóstsamskiptum við umsjónarmann á tímabilinu komi ekki fram nein fyrirmæli eða leiðsögn um skyldur af nokkru tagi, svo sem hvaða útgjaldaliði ætti að halda áfram að greiða eða að sú skylda væri lögð á kærendur að leggja fyrir peninga á meðan beðið væri niðurstöðu í málinu.

Kærendur vísa sérstaklega til þess sem fram hafi komið í bréfi umsjónarmanns frá 14. nóvember 2011 þar sem orðrétt segi: „Þá vekur umsjónarmaður athygli á því að samkvæmt 11. gr. laga nr. [101/]2010 skal fresta öllum greiðslum meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum stendur og er lánardrottnum óheimilt að taka við greiðslum á kröfum sínum.“ Kærendur spyrja hvernig hægt sé að skilja fyrirmælin á annan veg en að fresta öllum greiðslum.

Þá hafi í ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 23. júlí 2014 verið vísað í bréf til kærenda, 7. október 2011 og sagt að þar hafi verið vakin athygli á skyldum umsækjanda vegna greiðsluaðlögunar. Kærendur kveða þetta ekki rétt. Hvergi hafi verið að finna neitt um skyldur. Hins vegar sé að finna í samskiptum þeirra umsjónarmanna sem hafi haft málið með höndum og starfsmanns Íslandsbanka hf. og annarra aðila, orðaskipti um að kærendur hafi ekki greitt ýmsa liði og ekki lagt fyrir svo sem þeim hafi borið að gera.

Kærendur telja það alvarlega vanrækslu af umsjónarmanni að vara þau ekki við og áminna um að þarna væri um að ræða hluti sem réðu úrslitum um hvort kærendur fengju afgreiðslu málsins sem að var stefnt og þau hefðu haft fullar væntingar um allan tímann. Þetta hafi meðal annars orðið til þess að kærendur greiddu ekki brunatryggingargjöld á þeim tíma sem kærandi A var tekju- og bótalaus eftir alvarlegt [...]. Kærendur telja að séu samskipti þeirra og umsjónarmanns skoðuð, sem þau mælast til að verði vandlega gert, komi þessi vanræksla í ljós.

Kærendur kveða nokkra aðila hafa komið að því að vinna frumvarp til greiðsluaðlögunar en kærendur hafi ekkert fengið að vita um framgang þeirra. Þegar nýr starfsmaður umsjónarmanns hafi tekið við málinu virtist hafa átt sér stað einhver upplýsingaöflun og í kjölfarið hafi umsjónarmaður lagt til að greiðsluaðlögunarumleitunum við kærendur yrði hætt. Kærendur kveða umsjónarmann aldrei hafa haft samband við þau, hvorki bréflega, í tölvupósti né í síma.

Kærendur kveða þær ástæður, sem tíundaðar hafi verið í hinni kærðu ákvörðun, vera rangar og tölur sem þar hafi verið settar fram, svo sem um þá fjárhæð sem þau hefðu átt að geta lagt fyrir, ekki vera í neinu samræmi við þær tekjur sem kærendur hafi haft á tímabili greiðsluskjóls. Kærandi A hafi til að mynda stóran hluta þessa tíma verið tekjulaus vegna [...].

Kærendur vísa til þess að í hinni kærðu ákvörðun sé vísað í framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara telji rétt og samkvæmt þeim hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar um 6.500.000 króna á meðan mál þeirra beið úrlausnar. Kærendur telja ekki ástæðu til að rekja þetta eða hrekja, en leggja þess í stað fram yfirlit sem unnið hafi verið úr skattframtölum þeirra þar sem fram komi hverjar rauntekjur kærenda voru á fyrrgreindum tíma.

Kærendur ítreka að þeim hafi ekki verið leiðbeint um skyldur þeirra í greiðsluaðlögun fyrir utan að fresta skyldi öllum greiðslum meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum stæði og að lánardrottnum væri óheimilt að taka við greiðslum á kröfum sínum. Í samskiptum við umsjónarmann hafi ekkert verið vikið að þessum skyldum kærenda. Þá hafi í hinni kærðu ákvörðun verið bent á að allar upplýsingar og leiðbeiningar fyrir umsækjendur væri að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara og telja kærendur greinilegt að embættið vænti þess að verða ekki sakað um vanrækslu á upplýsingaskyldu í málinu. Kærendur vísa til ákvæðis 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Um sé að ræða almenna reglu sem ekki verði upphafin með almennum yfirlýsingum um upplýsingar á heimasíðu stofnunar á borð við umboðmann skuldara þannig að skjólstæðingur beri hallann af því, sé hann ekki sjálfur upplýstur um það sem öllu geti varðað um afgreiðslu á málum hans. Eðli málsins samkvæmt hafi umboðsmanni skuldara og umsjónarmanni borið að upplýsa kærendur um öll einstök atriði sem umsókn þeirra um greiðsluaðlögun varðaði og öllu réði um lyktir hennar. Að mati kærenda hafi báðir aðilar látið það undir höfuð leggjast.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir venjulegan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í rúmlega 40 mánuði en í útreikningum umboðsmanns skuldara sé miðað við tímabilið frá apríl 2011 til og með desember 2013 sem eru 33 mánuðir. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Heildartekjur 1. apríl 2011 til 31. desember 2013 að frádregnum skatti* 15.414.306
Meðaltekjur á mánuði 467.100
Framfærslukostnaður á mánuði 271.459
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 195.641
Samtals greiðslugeta í 33 mánuði 6.456.159

* Heildartekjur, að frádregnum sköttum og gjöldum, en að meðtöldum vaxtabótum, sérstakri vaxtaniðurgreiðslu, ofgreiddum gjöldum og greiðslum frá börnum kærenda vegna sameiginlegs heimilishalds.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 467.100 krónur í meðaltekjur á mánuði á 33 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 271.459 krónur á mánuði á meðan þau voru í greiðsluskjóli. Miðað sé við nýjustu mögulegu framfærsluviðmið fyrir hjón, kærendum í hag. Á þessum grundvelli sé gengið út frá því að kærendur hafi átt að geta lagt fyrir 6.456.159 krónur á fyrrnefndu tímabili, sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 195.641 krónu á mánuði í 33 mánuði.

Kærendur hafi ekki veitt umboðsmanni skuldara fullnægjandi skýringar á því hvers vegna þau lögðu ekki fyrir fé á meðan frestun greiðslna stóð.

Öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun hafi verið aðgengilegar upplýsingar um skyldur þeirra í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. á heimasíðu umboðsmanns skuldara, www.ums.is. Að auki séu skyldur skuldara ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun 7. október 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Kærendum hafi því mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau áttu aflögu í lok hvers mánaðar til að greiða af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Að framangreindu virtu hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að kærendur telji að embættið hafi ekki leiðbeint þeim um hvaða áhrif frestun greiðslna hefði, en þau hafi hvorki verið upplýst um að þeim bæri að leggja fé til hliðar á tímabili greiðsluskjóls né að þau ættu að greiða tilfallandi gjöld í mánuði hverjum samkvæmt greiðsluáætlun. Umboðsmaður skuldara vísar til þeirra upplýsinga sem liggi fyrir um verklag og framkvæmd upplýsingagjafar til umsækjenda um greiðsluaðlögun varðandi frestun greiðslna. Embættið telur að leiðbeiningarskyldu hafi verið sinnt með fullnægjandi hætti og að það hafi verið á ábyrgð kærenda að kynna sér úrræðið og réttaráhrif þess, hafi þau ekki þrátt fyrir leiðbeiningar embættisins talið ljóst hvernig haga skyldi fjármálum sínum á tímabili frestunar greiðslna.

 Þá hafi kærendur talið að starfsmaður umboðsmanns skuldara hafi litið fram hjá andmælum sínum með því að vísa í uppkast andmælabréfs frekar en lokaútgáfu þess. Umboðsmaður skuldara bendir á að vísað sé til lokaútgáfu bréfsins frá 21. maí 2014 í ákvörðun embættisins og vísar aðdróttunum kærenda alfarið á bug.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærendur telja að umboðsmaður skuldara hafi ekki gætt að leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að veita ekki skýr fyrirmæli um að kærendur ættu að leggja fé til hliðar af launum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með lögum nr. 128/2010, sem birt voru 18. október 2010, tók gildi tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hjá þeim einstaklingum sem sóttu um heimild til að leita greiðsluaðlögunar fram til 1. júlí 2011. Þegar umsókn var lögð fram á þessum tíma afhenti umboðsmaður skuldara umsækjendum sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum þeirra í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var áréttað að umsækjendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þyrfti mánaðarlega til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá var greint frá því að umsækjendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimilis og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti umsækjandi ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðslna stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.

Þá sendi umboðsmaður skuldara þeim sem voru í greiðsluskjóli bréf 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur þeirra til að leggja til hliðar fé sem væri umfram framfærslukostnað samkvæmt 12. gr. lge.

Á vefsíðu umboðsmanns skuldara á þeim tíma er kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunar-umleitanir. Eftirfarandi texta var að finna á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:

Þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilsins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrgðum fyrir umsækjenda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“

Kærunefndin telur með vísan til þessa að kærendum hafi mátt vera ljóst þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun að þeim bar að leggja til hliðar þá fjármuni sem voru umfram framfærslukostnað þeirra samkvæmt sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. október 2011 þar sem þeim var veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Þá var sérstaklega vakin athygli kærenda á skyldum þeirra samkvæmt 12. gr. lge. í lokaorðum ákvörðunarinnar. Í greiðsluáætlun, sem einnig fylgdi ákvörðun umboðsmanns skuldara, var mánaðarleg greiðslugeta kærenda að teknu tilliti til framfærslukostnaðar tiltekin 102.620 krónur.

Kærunefndin telur að Embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kærendum þegar þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar með fullnægjandi hætti með því að veita upplýsingar við móttöku umsóknar, í tilkynningu sem send var kærendum á tímabili greiðsluskjóls, með upplýsingum á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun og á heimasíðu Embættis umboðsmanns skuldara. Þar var að finna útskýringar á afdráttarlausu lagaákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þar sem segir að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Eins og fram kemur í leiðbeiningunum er þar enn fremur útskýrt að skylda til að leggja fé til hliðar hefjist þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin, þ.e. um leið og frestun greiðslna hefst. Kærendum bar því að virða skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá þeim tíma er þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar 2. mars 2011.

Það er því álit kærunefndarinnar að þær leiðbeiningar sem kærendur fengu undir rekstri málsins hafi verið fullnægjandi. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið fellst kærunefndin því ekki á sjónarmið kærenda um að leiðbeiningar hafi skort að þessu leyti.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem skyldur skuldara við greiðsluaðlögun eru tilgreindar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunar-umleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 20. september 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í bréfinu kemur meðal annars fram að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í kjölfarið felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með hinni kærðu ákvörðun 23. júlí 2014.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við um leið og umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 2. mars 2011 og umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn þeirra með ákvörðun 7. október 2011. Kærendum bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara 2. mars 2011.

Umboðsmaður skuldara telur að kærendur hafi átt að leggja til hliðar 6.456.159 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram 2. mars 2011.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. apríl 2011 til 31. desember 2011: Níu mánuðir
Nettótekjur kæranda A 1.310.784
Nettó mánaðartekjur kæranda Aað meðaltali 145.643
Nettótekjur kæranda B 1.601.490
Nettó mánaðartekjur kæranda Bað meðaltali 177.943
Nettótekjur alls 2.912.274
Mánaðartekjur alls að meðaltali 323.586
   
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur kæranda A 1.921.310
Nettó mánaðartekjur kæranda A að meðaltali 160.109
Nettótekjur kæranda B 2.262.308
Nettó mánaðartekjur kæranda B að meðaltali 188.526
Nettótekjur alls 4.183.618
Mánaðartekjur alls að meðaltali 348.635
   
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur kæranda A 650.883
Nettó mánaðartekjur kæranda Aað meðaltali 54.240
Nettótekjur kæranda B 2.364.082
Nettó mánaðartekjur kæranda B að meðaltali 197.007
Nettótekjur alls 3.014.965
Mánaðartekjur alls að meðaltali 251.247
   
Tímabilið 1. janúar 2014 til 30. júní 2014: Sex mánuðir
Nettótekjur kæranda A 613.677
Nettó mánaðartekjur kæranda A að meðaltali 102.280
Nettótekjur kæranda B 1.043.827
Nettó mánaðartekjur kæranda B að meðaltali 173.971
Nettótekjur alls 1.657.504
Mánaðartekjur alls að meðaltali 276.251
   
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 11.768.361
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 301.753

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda, vaxtabætur o.fl., var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. apríl 2011 til 30. júní 2014: 39 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 11.768.361
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla og vaxtabætur 402.678
Ofgreidd opinber gjöld, álag og inneign 616.427
Óskattskyldar greiðslur tryggingafélaga* 113.360
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 12.900.826
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 330.790
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns** 271.459
Greiðslugeta kærenda á mánuði 59.331
Alls sparnaður í 39 mánuði í greiðsluskjóli x 59.331 2.313.909

*Samkvæmt skattframtali 2014, vegna tekna 2013

**Heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum febrúarmánaðar 2014 fyrir hjón.

Við mat á því hvaða fjárhæð kærendum beri að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna hefur staðið er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Í útreikningum umboðsmanns skuldara á tekjum kærenda var gert ráð fyrir mánaðarlegu framlagi tveggja uppkominna barna þeirra að fjárhæð 100.000 krónur vegna búsetu þeirra hjá kærendum. Aftur á móti var þar ekki gert ráð fyrir hærri framfærslukostnaði kærenda sem af þessu hlytist. Af þeim sökum verður ekki tekið tillit til framlags uppkominna barna til heimilishalds við útreikning á áætluðum sparnaði kærenda.

Að þessu virtu hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 2.313.909 krónur á tímabili greiðsluskjóls en hafa ekkert lagt fyrir.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta