Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 88/2014

Mál nr. 88/2014

Fimmtudaginn 1. desember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 19. ágúst 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 6. ágúst 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 8. september 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. september 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 26. september 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Kærandi kom athugasemdum sínum á framfæri með bréfi 9. febrúar 2015 og voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 11. febrúar 2015. Engar frekari athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1972 og er einhleypur. Hann býr ásamt X uppkomnum börnum sínum í 150 fermetra íbúð að B en hann á 50% fasteignarinnar á móti fyrrverandi sambýliskonu sinni. Kærandi starfar sjálfstætt sem [...].

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 12. september 2011, eru 65.790.099 krónur. Kærandi stofnaði til helstu skuldbindinga árin 2005 til 2007.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til kaupa á fasteign árið 2007, sem var fjármögnuð með gengistryggðum lánum, en greiðslubyrði lánanna hækkaði verulega í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Auk þess hafi kærandi frá haustinu 2010 haft lágar tekjur þar sem rekstur [...] hans hafi ekki gengið sem skyldi.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 15. febrúar 2011 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. september 2011 var honum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 26. maí 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Umsjónarmaður taldi fyrirliggjandi gögn ekki gefa nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem upplýsingar um tekjur hans væru misvísandi en framlagðir launaseðlar kæranda væru ekki í samræmi við upplýsingar frá honum sjálfum um innborganir á bankareikning hans. Umsjónarmaður taldi kæranda einnig hafa brotið gegn skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að stofna til nýrra skulda á tímabili greiðsluskjóls með því að greiða ekki fasteignagjöld og þing- og sveitarsjóðsgjöld.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 18. júní 2014 þar sem honum var kynnt tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans. Þá var kæranda gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kæranda bárust með bréfi 25. júlí 2014.

Með ákvörðun 6. ágúst 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. og d-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 15. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir ákvörðun umboðsmanns skuldara og krefst þess að greiðsluaðlögunarferli verði sett í viðunandi farveg á ný sem geti leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun komist á.

Kærandi vísar til þess að hann sé með sjálfstæðan rekstur. Hann kveðst ekki sinna bókhaldi sínu sjálfur og séu tekjur hans mjög breytilegar. Erfitt sé því að gefa upp rauntekjur hvers árs fyrr en við gerð skattframtals. Upplýsingar um tekjur ársins 2013 hafi verið í vinnslu og því hafi skattframtali 2014, vegna tekna ársins 2013, ekki verið skilað. Kærandi hafi ekki vitað hvenær upplýsingar um tekjur hans lægju fyrir og bendir á að umboðsmanni skuldara og umsjónarmanni hafi verið heimilt að óska skýringa frá þeim sem sjái um bókhald kæranda. Það hafi ekki verið gert heldur hafi greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda verið felldar niður. Það hafi íþyngjandi afleiðingar fyrir kæranda og brjóti í bága við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins sem og góða stjórnsýsluhætti.

Kærandi kveður umsjónarmann hafa vitað að laun kæranda væru áætluð samkvæmt þeim launaseðlum sem lagðir hefðu verið fram í málinu, en eftir eigi að taka tillit til kostnaðar sem falli á móti og því endurspegli launin ekki rauntekjur kæranda. Kærandi áréttar að laun hans hafi verið mjög breytileg á tímabili greiðsluskjóls. Í bréfi umsjónarmanns sé vísað til þess að engar upplýsingar liggi fyrir um laun kæranda árið 2014 en hann kannist ekki við að umsjónarmaður hafi óskað eftir þeim upplýsingum. Þá áskilji kærandi sér rétt til að skila upplýsingum um tekjur ársins 2014 til kærunefndarinnar.

Í bréfi umsjónarmanns sé einnig vísað til þess að kærandi hafi stofnað til nýrra skuldbindinga á tímabili greiðsluskjóls. Kærandi kveður málið hafa tafist úr hófi í meðferð umsjónarmanns, því hafi verið illa sinnt og ákvarðanir verið undarlegar.

Í athugasemdum kæranda frá 9. febrúar 2015 kemur fram að umboðsmaður skuldara hafi talið umsókn kæranda fullbúna þegar hún var samþykkt 9. september 2011. Því verði að telja að kærandi hafi skilað inn öllum þeim gögnum og upplýsingum sem skylt var. Þá hafi mál hans tekið 35 mánuði í vinnslu frá því að heimild til greiðsluaðlögunar var veitt og sé sá dráttur ekki á ábyrgð kæranda. Hann hafi ítrekað verið beðinn um frekari gögn og hafi skilað þeim eftir bestu getu. Einkennilegt verði að telja að umsjónarmaður geri tillögu um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana, þrátt fyrir að hann hafi fengið öll þau gögn sem hann hafi óskað eftir frá kæranda. Þá verði að telja þær skyldur sem hvíli á kæranda samkvæmt 12. gr. lge. vera of íþyngjandi með tilliti til þess langa tíma sem það hafi tekið fyrir kæranda að fá lausn á greiðsluvanda sínum hjá umboðsmanni skuldara og umsjónarmanni.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 6. gr. lge. séu tilteknar þær aðstæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segi að skylt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í 4. gr. lge. séu raktar þær upplýsingar og gögn sem skuldara beri að leggja fram þegar sótt sé um heimild til greiðsluaðlögunar. Þá segi í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. að umsókn skuli fylgja upplýsingar um hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist. Jafnframt skuli greina hvort skuldari muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.

Í bréfi umsjónarmanns komi fram að misræmi sé á milli framlagðra launaseðla kæranda og bankareiknings hans en þær tekjur sem fram komi á bankayfirliti séu umtalsvert hærri en launaseðlar gefi til kynna. Auk þess telji umsjónarmaður vafa leika á því hvort launaseðlarnir séu réttir og hvenær þeir hafi verið gefnir út þar sem á launaseðlunum fyrir tímabilið 1. febrúar 2013 til 1. október 2013 sé miðað við skattþrep sem ekki voru kynnt fyrr en með fjárlögum 1. október 2013. Kærandi hafi skýrt þetta svo að launaseðlarnir hafi verið bráðabirgðalaunaseðlar þar sem bókhald og ársreikningar hafi enn verið í vinnslu. Engar frekari skýringar hafi borist og engin gögn hafi verið lögð fram af hálfu kæranda sem varpi betra ljósi á tekjur hans. Þá hafi kærandi ekki skilað skattframtali 2014, vegna tekna ársins 2013, auk þess sem engar upplýsingar um tekjur kæranda á árinu 2014 sé að finna í gögnum málsins en engar upplýsingar sé að finna um tekjur kæranda í staðgreiðsluskrá eftir janúar 2013.

Í 12. gr. lge. sé mælt fyrir um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna, nema skuldbinding sú sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Kærandi hafi stofnað til skulda á tímabili greiðsluskjóls með því að greiða ekki fasteignagjöld fyrir árin 2011, 2012, 2013 og 2014, samtals að fjárhæð 1.069.474 krónur, og með því að greiða ekki þing- og sveitarsjóðsgjöld árin 2012 og 2013, samtals að fjárhæð 983.087 krónur. Kærandi telji vanskilin ekki vera nýjar skuldir í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem þau séu tilkomin vegna skuldbindinga sem kærandi stofnaði til áður en umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt. Þá telji kærandi skuldbindingarnar auk þess hafa verið nauðsynlegar til að sjá honum og fjölskyldu hans farborða. Kærandi telji enn fremur að vanskilin séu tilkomin vegna seinagangs umsjónarmanns og framtaksleysis.

Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. lge. nái frestun greiðslna ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi verið veitt. Kæranda hafi því borið að greiða þær kröfur sem til féllu eftir að frestun greiðslna hófst 15. febrúar 2011. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að honum hafi verið nauðsynlegt að stofna til framangreindra skulda til að sjá sér eða fjölskyldu sinni farborða og verði því að telja að hann hafi stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt framangreindu sé ekki skýrt hverjar tekjur kæranda hafi verið árið 2013 og engar upplýsingar sé að finna um tekjur hans það sem af sé ári 2014. Af þeim sökum verði að telja fjárhag kæranda óglöggan í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Þá hafi kærandi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og sé heimild hans til greiðsluaðlögunarumleitana því felld niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Þess er krafist af hálfu kæranda að greiðsluaðlögunarferli hans verði sett í viðunandi farveg á ný sem geti leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun komist á.

Felli umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara niður getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að nefndin staðfesti eða felli ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi. Staðfesti kærunefndin ákvörðun umboðsmanns skuldara falla greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda þá þegar niður. Verði fallist á kröfu kæranda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi leiðir það sjálfkrafa til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda halda áfram. Skilja verður kröfugerð kæranda með tilliti til þessa.

Kærandi telur umboðsmann skuldara hvorki hafa viðhaft góða stjórnsýsluhætti né sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem ekki hafi verið leitað skýringa hjá þeim aðilum, sem sjái um bókhald kæranda, á því hvers vegna tekjur hans væru enn óljósar áður en greiðsluaðlögunarumleitanir hans voru felldar niður.

Um sérstaka skyldu umboðsmanns skuldara til að rannsaka mál er mælt fyrir um í 5. gr. lge. Styðst ákvæðið við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Þá þarf stjórnvald að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hvaða upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál. Í rannsóknarreglunni felst þó ekki að stjórnvaldi beri sjálfu að afla allra upplýsinga, en stjórnvald getur beint þeim tilmælum til aðila að hann veiti tilteknar upplýsingar eða leggi fram gögn.

Tilgangur greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. gr. lge. er að koma á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu í þeim tilvikum er skuldari uppfyllir skilyrði lge. Einn meginþáttur umboðsmanns skuldara í rannsókn greiðsluaðlögunarmáls er því eðli málsins samkvæmt að staðreyna hve mikið skuldari geti greitt af skuldbindingum sínum en greiðslugetan byggist meðal annars á tekjum hans. Í athugasemdum með 4. gr. frumvarps til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn vegna umsóknar um greiðsluaðlögun, enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn til að fá yfir hann heildarmynd. Eflaust sé ómögulegt eða erfitt um vik fyrir umboðsmann að nálgast einhver gögn og sé það þá á ábyrgð skuldarans að afla þeirra. Samkvæmt þessu var það í verkahring kæranda að afla þeirra gagna sem umboðsmaður skuldara óskaði eftir við vinnslu málsins. Hlutverk umboðsmanns skuldara að þessu leyti er samkvæmt lge. að leggja mat á þau gögn sem liggja fyrir, meðal annars gögn sem kærandi hefur lagt fram, eftir atvikum að beiðni umboðsmanns.

Í málinu liggur fyrir bréf umboðsmanns skuldara til kæranda 18. júní 2014 þar sem honum var veitt færi á að skýra misræmi varðandi upplýsingar sem hann veitti um tekjur sínar. Einnig var óskað eftir því að kærandi skilaði skattframtali 2014, fyrir tekjuárið 2013, og upplýsingum til staðgreiðsluskrár Ríkisskattstjóra um tekjur ársins 2014. Að mati kærunefndarinnar var eins og málið liggur fyrir ekki á færi annarra en kæranda að afla þessara gagna en hann varð ekki við því. Samkvæmt framangreindu verður ekki fallist á þær staðhæfingar kæranda að rannsóknarregla 5. gr. lge., sbr. rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin við málsmeðferð umboðsmanns skuldara.

Þá telur kærandi málsmeðferðartíma hjá umsjónarmanni hafa verið of langan.

Í 9. gr. stjórnsýslulaga er ákvæði er lýtur að málshraða. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 15. febrúar 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. september 2011 var honum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og 21. desember 2011 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Hinn 26. maí 2014 sendi hann umboðsmanni skuldara tillögu um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana kæranda. Umboðsmaður skuldara sendi í kjölfarið bréf til kæranda 18. júní 2014 vegna tillögu umsjónarmanns og veitti kæranda vikufrest til að bregðast við því. Að lokum var síðan tekin ákvörðun af hálfu embættisins 6. ágúst 2014 um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda.

Í málinu liggur fyrir að frá því að umsjónarmaður var skipaður og þar til hann sendi umboðsmanni skuldara tillögu sína liðu um það bil 29 mánuðir. Í málinu liggur einnig fyrir að umsjónarmaður hafði samband við kæranda með tölvupósti 3. júní 2013 til að afla upplýsinga og gagna vegna málsins en það var tæplega 18 mánuðum eftir skipun umsjónarmanns. Þrátt fyrir að málið hafi verið í vinnslu hjá umsjónarmanni lengur en almennt þykir æskilegt telur kærunefndin ekki að um slíkar tafir sé að ræða að það brjóti í bága við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga, einkum ef litið er til aðstæðna á þeim tíma, meðal annars til fjölda greiðsluaðlögunarmála sem þá voru til meðferðar af hálfu Embættis umboðsmanns skuldara og umsjónarmanna á hans vegum. Kærunefndin tekur einnig fram að almennt sé talið að tafir á afgreiðslu máls geti ekki valdið ógildingu ákvörðunar, nema þær hafi haft áhrif á niðurstöðu hennar. Í þessu máli er það álit kærunefndarinnar að slíku sé ekki til að dreifa.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í 15. gr. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í 12. gr. lge. er fjallað um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. má skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna, nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. lge. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í skýringum með frumvarpi til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge. Í 4. gr. laganna er gerð grein fyrir því hvernig umsókn um greiðsluaðlögun eigi að vera úr garði gerð og er þar talið upp í ellefu töluliðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókninni. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að umsókn skuli fylgja upplýsingar um hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.

Í 3. mgr. 4. gr. lge. segir að með umsókn um greiðsluaðlögun skuli fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma, vottorð um hjúskaparstöðu og fjölskyldu og síðustu fjögur skattframtöl skuldara. Þá kemur fram í niðurlagi 4. mgr. sömu lagagreinar að skuldari skuli að jafnaði útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara. Þá ber einnig að líta til þess sem kemur fram í 2. mgr. 16. gr. lge. að í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun skuli tiltaka viðeigandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu skuldara, meðal annars upplýsingar um tekjur, skuldir, eignir og mánaðarleg útgjöld.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjanda um greiðslu-aðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Samkvæmt gögnum málsins skilaði kærandi hvorki skattframtali 2014, vegna tekna ársins 2013, til Ríkisskattstjóra né er að finna upplýsingar um tekjur hans eftir janúar 2013 í staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra. Kærunefndin telur að fallast verði á það mat umboðsmanns skuldara að framlagðir launaseðlar og yfirlit bankareiknings gefi ekki nægilega skýra mynd af tekjum kæranda, enda hefur kærandi staðfest að launaseðlarnir endurspegli ekki raunverulegar tekjur hans.

Með hliðsjón af því sem fram hefur komið telur kærunefndin að kærandi hefði þurft að skila framtali 2014, vegna tekjuársins 2013, og jafnframt veita Ríkisskattstjóra upplýsingar um mánaðarlegar tekjur sínar árið 2014 til að glögg mynd fengist af fjárhag hans eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur. Kærandi hefur ekki skilað frekari gögnum til kærunefndarinnar um tekjur sínar á þessum tíma. Af þessum sökum skortir fullnægjandi upplýsingar til að gefa nægilega glögga heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu kæranda til að unnt sé að gera frumvarp til samnings um greiðslu-aðlögun, sbr. 2. mgr. 16. gr. lge. Að mati kærunefndarinnar verður að telja að ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil við þessar aðstæður.

Þá byggist hin kærða ákvörðun á því að kærandi hafi látið hjá líða að greiða fasteignagjöld og þing- og sveitarsjóðsgjöld á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Með því hafi hann stofnað til skulda í greiðsluskjóli en það sé í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærandi telur að vanskil sín megi rekja til þess hve lengi mál hans var hjá umsjónarmanni og að skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. laganna séu of íþyngjandi sé litið til þess langa tíma sem mál hans hafi tekið.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 15. febrúar 2011 og umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn hans með ákvörðun 9. september sama ár. Frestun greiðslna hófst á umsóknardegi, sbr. bráðabirgðaákvæði nr. II. í lge. Kæranda bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. frá 15. febrúar 2011.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hefur ekki staðið skil á greiðslum vegna fasteignagjalda að fjárhæð 956.191 króna sem féllu í gjalddaga árin 2011, 2012 og 2013 sem og vegna fasteignagjalda að fjárhæð 113.283 krónur sem féllu í gjalddaga árið 2014. Í greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara, sem fylgdi ákvörðun embættisins um að veita kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar, var þó gert ráð fyrir að fasteignagjöld að fjárhæð 20.000 krónur væru meðal mánaðarlegra útgjalda kæranda á tímabilinu, enda nær frestun greiðslna ekki til slíkra krafna sem verða til eftir að greiðsluskjól kemst á eða eftir atvikum að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge.

Kærandi lét einnig undir höfuð leggjast að greiða þing- og sveitarsjóðsgjöld að fjárhæð 983.087 krónur sem féllu í gjalddaga árin 2012 og 2013.

Nákvæmar upplýsingar um greiðslugetu kæranda árin 2013 og 2014 liggja ekki fyrir í málinu. Samkvæmt gögnum málsins náði kærandi ekki endum saman árið 2012. Verður því ekki á því byggt að hann hafi brotið gegn d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á þeim árum. Af fyrirliggjandi gögnum má á hinn bóginn ráða að greiðslugeta kæranda hafi verið jákvæð árið 2011. Í framfærsluútreikningum umboðsmanns skuldara var gert ráð fyrir því að fyrrnefnd gjöld, sem fóru í vanskil hjá kæranda, væru á meðal reglulegra útgjalda hans á meðan frestun greiðslna stæði yfir, enda nær slík frestun ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. Að mati kærunefndarinnar stofnaði kærandi því til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. á árinu 2011. Í því sambandi hefur sú málsvörn kæranda að vanskilin megi rekja til þess hve lengi mál hans var hjá umsjónarmanni ekki áhrif.

Með vísan til framangreinds telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 1. mgr. 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta