Mál nr. 92/2014
Mál nr. 92/2014
Fimmtudaginn 27. október 2016
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.
Þann 28. ágúst 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 26. júní 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 2. september 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 1. október 2014.
Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 7. október 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 14. janúar 2015. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur 1979 og er einhleypur. Hann á X börn sem búa hjá mæðrum sínum. Kærandi býr í eigin íbúð að B, sem er 79,7 fermetrar að stærð. Kærandi er atvinnulaus og fær framfærslustyrk frá C.
Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 18. júní 2012, eru 21.341.799 krónur. Til helstu skulda var stofnað árið 2009 vegna fasteignakaupa.
Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til atvinnuleysis og veikinda.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. júní 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hans.
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 21. febrúar 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem kærandi hefði hafnað því að selja fasteign sína sem varði niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge.
Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að mánaðarleg greiðslugeta kæranda sé neikvæð um 11.443 krónur en mánaðarlegar afborganir af veðkröfum innan matsverðs fasteignar séu 89.782 krónur. Umsjónarmaður telji að kærandi geti ekki greitt af þeim kröfum sem tryggðar séu með veði í fasteigninni og rúmist innan verðmats hennar en kærandi hafi ekki fallist á sölu fasteignarinnar.
Með vísan til þessa telji umsjónarmaður að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 13. júní 2014 þar sem honum var kynnt tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda. Þá var honum jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi kom sjónarmiðum sínum á framfæri með tölvupósti 20. og 26. júní 2014.
Með ákvörðun 26. júní 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærandi kærir ákvörðun umboðsmanns skuldara um að selja fasteign hans að B. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans verði felld úr gildi.
Kærandi kveðst ekki vilja selja fasteign sína þar sem hann geti ekki fengið ódýrara húsnæði til leigu á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi kveðst vera byrjaður að vinna og stunda nám með vinnu. Vonir kæranda standi til þess að tekjur hans verði nógu háar til að geta greitt af fasteigninni, auk þess sem hann bíði eftir að fá leiðréttingu fasteignalána.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem sá fyrrnefndi telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara vísar til útreikninga umsjónarmanns og kveður mánaðarlegar afborganir af veðkröfum innan matsverðs fasteignar kæranda að B vera 89.782 krónur en að mánaðarleg greiðslugeta kæranda sé neikvæð um 11.443 krónur. Að mati umsjónarmanns þurfi því að selja fasteign kæranda, en telji hann sig ekki geta framfylgt ákvörðun umsjónarmanns beri að fella niður greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. er kveðið á um að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.
Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar mega ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má, að mati umsjónarmanns, að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu.
Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið þeirra aðgerða, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu, teljist það ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að hann verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.
Í athugasemdum í frumvarpi með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.
Eins og áður hefur komið fram lagði umsjónarmaður til að fasteign kæranda að B yrði seld þar sem kærandi hefði ekki fjárhagslegt svigrúm til að greiða fastar mánaðargreiðslur af veðkröfum innan matsverðs eignarinnar.
Samkvæmt skattframtali 2014 var fasteignamat eignarinnar 17.300.000 krónur en áhvílandi lán voru þá alls 21.175.182 krónur.
Í málinu liggur fyrir yfirlit Ríkisskattstjóra sem sýnir að nettólaun kæranda á tímabilinu janúar til maí 2014 voru alls 1.080.512 krónur eða 216.102 krónur á mánuði að meðaltali. Áætlaður framfærslukostnaður hans var 202.547 krónur á mánuði samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara frá 18. júní 2012 kæranda til hagsbóta. Miðað við framangreindar forsendur átti kærandi því 13.555 krónur aflögu á mánuði til að greiða af skuldbindingum sínum á fyrrgreindu tímabili, en afborganir af áhvílandi veðkröfum innan verðmats fasteignarinnar nema samtals 72.936 krónum samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Þannig er ljóst að kærandi hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að greiða af veðkröfum innan matsverðs fasteignarinnar í samræmi við a-lið 1, mgr. 21. gr. lge.
Á grundvelli ákvæða lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum að selja þá eign sem veðsett er til að létta á greiðslubyrði skuldara vegna fasteignaveðkrafna.
Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Eggert Óskarsson
Þórhildur Líndal