Mál nr. 93/2014
Mál nr. 93/2014
Fimmtudaginn 3. nóvember 2016
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.
Þann 29. ágúst 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. ágúst 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 2. september 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 2. október 2014.
Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 7. október 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 21. október sama ár og voru sendar umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 28. október 2014. Engar frekari athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Kærandi er fædd 1964 og er í hjúskap. Hún býr í eigin raðhúsi að B sem er 253 fermetrar að stærð. Kærandi starfar sem [...] C.
Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 14. nóvember 2012, eru 109.828.773 krónur. Helstu skuldir eru frá 2006 og eru þær vegna fasteignakaupa.
Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína einkum til fasteignakaupa og tekjulækkunar. Þá hafi maki kæranda verið atvinnulaus og fyrirtæki í eigu þeirra hjóna orðið gjaldþrota eftir efnahagshrunið haustið 2008. Í kjölfar þess hafi fjárhagserfiðleikar þeirra hafist árið 2009.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. nóvember 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hennar.
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 6. mars 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem kærandi hefði hafnað því að selja fasteign sína sem varði niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge.
Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að fasteignamat fasteignar kæranda að B árið 2014 sé 57.100.000 krónur en samkvæmt verðmati fasteignasala frá 10. janúar 2014 sé verðmæti eignarinnar 42.000.000 króna, Kröfur sem tryggðar séu með veði í fasteigninni nemi um það bil 113.000.000 króna. Umsjónarmaður sendi frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun til kröfuhafa 29. janúar 2014 þar sem lagt var til að kærandi fengi að halda fasteign sinni. Landsbankinn mótmælti frumvarpinu og taldi kæranda hafa hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt, auk þess sem bankinn teldi verðmat fasteignasala ekki endurspegla raunverulegt verðmæti fasteignarinnar. Umsjónarmaður hafi upplýst kæranda í kjölfarið um að selja þyrfti fasteign hennar vegna framkominna mótmæla kröfuhafa en hún hafi ekki fallist á það.
Með vísan til þessa telji umsjónarmaður að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 25. júní 2014, þar sem henni var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi kom sjónarmiðum sínum og andmælum á framfæri með tölvupóstum 17. júlí 2014 og 4. og 11. ágúst sama ár.
Með ákvörðun 14. ágúst 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi kærir ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Skilja verður málatilbúnað hennar svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærandi kveður Landsbankann hafa aflað samsvarandi verðmats og þess sem hún lagði fram við meðferð málsins þegar hún óskaði eftir 110% leiðinni, en nú neiti Landsbankinn að miða við verðmatið.
Kærandi kveðst vilja halda fasteign sinni og sé það fyrst og fremst vegna skólagöngu sonar hennar. Hann sé [...], hafi glímt við mikinn kvíða og átt mjög erfitt uppdráttar í leikskóla. Honum hafi gengið betur og eignast vini á D og búi þar við ákveðið öryggi. Kærandi vilji allt til vinna til að geta búið þar áfram en mjög erfitt sé að fá leiguhúsnæði á D. Kærandi vísar í athugasemdir við 13. gr. lge. þar sem fram komi að við mat á því hvort fasteign skuldara skuli seld skuli líta til áhrifa þess á skuldara og fjölskyldumeðlimi, meðal annars með tilliti til skólagöngu.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að nauðsynlegt hafi verið að mati umsjónarmanns og með hliðsjón af mótmælum kröfuhafa að selja fasteign kæranda að Vesturströnd 7. Kærandi hafi látið í ljós þá afstöðu sína að hún vilji ekki selja fasteignina. Umboðsmaður skuldara telji því greiðsluaðlögunarumleitanir ekki geta haldið áfram framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns um sölu fasteignarinnar.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara ítrekar að frumvarp til greiðsluaðlögunar sé byggt á frjálsum samningum milli samningsaðila. Í málinu liggi fyrir mótmæli kröfuhafa þar sem farið sé fram á að fasteign kæranda verði seld og hafi umsjónarmaður talið ljóst að þeir myndu ekki samþykkja frumvarpið nema svo yrði gert.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þyki umsjónarmanni ástæða til getur hann leitað afstöðu lánardrottna áður en slík ákvörðun er tekin. Í 5. mgr. 13. gr. lge. er kveðið á um að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.
Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið þeirra aðgerða, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða því frá að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu teljist það ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að hann verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.
Eins og áður hefur komið fram lagði umsjónarmaður til að fasteign kæranda að B yrði seld. Að mati umsjónarmanns var nauðsynlegt að eignin yrði seld til að samningar næðust við kröfuhafa í kjölfar þess að þeir mótmæltu frumvarpinu. Umsjónarmaður lagði verðmat fasteignasala, að fjárhæð 42.000.000 króna, til grundvallar við mat á verðmæti eignarinnar.
Samkvæmt 1. gr. lge. er markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Í þessu skyni er umsjónarmanni með greiðsluaðlögunarumleitunum heimilt að grípa til ýmissa úrræða svo sem að ákveða að selja þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án samkvæmt 13. gr. lge. Ef umsjónarmanni þykir ástæða til getur hann leitað afstöðu lánardrottna áður en slík ákvörðun er tekin.
Í athugasemdum með 13. gr. í frumvarpi til lge. segir að við mat á því hvort selja skuli eignir skuldara skuli umsjónarmaður bera saman hagsmuni lánardrottna og skuldara af sölunni, en þeir geti verið misjafnir eftir söluverðmæti eignar og fjölda lánardrottna. Skal þá miðað við að sala eignanna hafi áhrif á greiðsluhlutfall krafna svo um munar fyrir alla lánardrottna. Við mat á því hvort fasteign skuldara skuli seld skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess að hve miklu leyti eignin er veðsett. Við þær aðstæður þar sem veðskuldir eru undir matsverði fasteignar megi ætla að til álita komi að eignin verði seld, að því gefnu að tryggt sé að söluandvirðinu að frádreginni greiðslu veðskulda, megi ráðstafa bæði til kaupa eða leigu á nýrri íbúð fyrir skuldara og til greiðslu krafna samkvæmt greiðsluaðlöguninni. Enn fremur skuli umsjónarmaður meta hvort líklegt sé að skuldari geti staðið við greiðslu veðkrafna innan matsverðs fasteignar, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge.
Ljóst er af gögnum málsins að Landsbankinn hf. lagðist gegn frumvarpi því sem umsjónarmaður gerði til samnings um greiðsluaðlögun fyrir hönd kæranda. Að mati bankans taldist framkomið verðmat fasteignasala á eigninni, að fjárhæð 42.000.000 króna, ekki endurspegla raunverulegt virði eignarinnar en fasteignamat hennar væri 57.100.000 króna. Í framhaldinu tók umsjónarmaður ákvörðun um að kærandi skyldi selja fasteign sína og vísaði um þá ákvörðun til afstöðu kröfuhafa. Ekki er að sjá af gögnum málsins að umsjónarmaður hafi tekið afstöðu til mótmæla kröfuhafa eða talið að nýjar upplýsingar væru komnar fram sem breyttu fyrra mati hans á nauðsyn þess að selja fasteign kæranda. Í gögnum málsins er hvorki að finna samskipti af hálfu umsjónarmanns við kröfuhafa né kæranda eftir að afstaða Landsbankans var ljós, fyrir utan tölvupóst til kæranda 7. mars 2014, með leiðbeiningum um kæruheimild vegna niðurfellingar heimildar kæranda til greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. lge. skal umsjónarmaður leitast við að fá lánardrottinn til að endurskoða afstöðu sína leggist hann gegn frumvarpi til greiðsluaðlögunar, eftir atvikum með því að gera í samráði við skuldara breytingar á frumvarpinu sem skal þá sent öðrum lánardrottnum á nýjan leik.
Samkvæmt 13. gr. lge. getur umsjónarmaður með greiðsluaðlögun leitað afstöðu lánardrottna þyki honum ástæða til áður en ákvörðun um sölu eignar er tekin. Engu að síður ber honum að leggja sjálfstætt mat á það hvort réttlætanlegt sé að gera þá kröfu til skuldara að hann selji eignir sínar. Af frumvarpi umsjónarmanns sem sent var til kröfuhafa 29. janúar 2014, u.þ.b. fimm vikum áður en hann tók ákvörðun um sölu fasteignar kæranda, verður ráðið að umsjónarmaður hafði þegar metið þetta atriði og komist að þeirri niðurstöðu að kærandi gæti staðið undir afborgunum af húsnæðinu í samræmi við a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Eins og mál þetta liggur fyrir var nauðsynlegt af hálfu umsjónarmanns að taka afstöðu til þess á nýjan leik hvort selja þyrfti fasteign kæranda, meðal annars með því að leggja mat á það hvort mótmæli Landsbankans hf. varðandi verðmæti eignarinnar ættu við rök að styðjast og hvort það ætti að leiða til þess að mat umsjónarmanns á nauðsyn þess að selja fasteign kæranda myndi breytast.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að telja að ágallar hafi verið á málsmeðferðinni sem nauðsynlegt var að bæta úr áður en greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður. Umboðsmanni skuldara var því rétt að beina því til umsjónarmanns, á þeim tíma er nefnt bréf hans barst embættinu, að hann tæki sjálfstæða ákvörðun um sölu fasteignarinnar á grundvelli 1. mgr. 13. gr. lge. í samræmi við þau sjónarmið sem hér hafa verið rakin. Þess í stað tók embættið ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 5. mgr. 13. gr. lge. þar sem kærandi hafði ekki fallist á ákvörðun umsjónarmanns um að selja fasteign sína.
Samkvæmt því sem að framan greinir verður að telja umboðsmaður skuldara hafi fellt niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda án þess að meðferð málsins hafi verið í samræmi við ákvæði lge. Með vísan til þess ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og er lagt fyrir umboðsmann skuldara að taka málið til meðferðar á ný.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er felld úr gildi og lagt fyrir umboðsmann skuldara að taka málið aftur til meðferðar.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Þórhildur Líndal