Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 96/2014

Mál nr. 96/2014

Fimmtudaginn 8. desember 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 4. september 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. ágúst 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 11. september 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 23. september 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 26. september 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem þau gerðu með bréfi 7. október 2014. Athugasemdir kærenda voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 14. október 2015. Engar frekari athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1969 og 1964 og eru í sambúð. Þau búa ásamt X börnum sínum í eigin íbúð að C sem er 176 fermetrar að stærð. Kærendur eiga einnig 141 fermetra íbúð að D.

Kærandi A starfar sem [...] hjá E. Kærandi B fær greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun og lífeyrisgreiðslur frá Lífeyrissjóði Verzlunarmanna og Greiðslustofu lífeyrissjóða. Auk launatekna fá þau leigutekjur, barnabætur og vaxtabætur.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 12. febrúar 2014, eru 39.078.251 króna. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga á árunum 2004 til 2008.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína einkum til lægri tekna í kjölfar veikinda. Þá hafi þau selt yfirveðsetta [...] í sinni eigu árið 2010 en lánin, sem færð voru yfir á aðra eign sem þau keyptu eftir söluna, hefðu hækkað mikið í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun hjá Embætti umboðsmanns skuldara 6. ágúst 2013 og með ákvörðun embættisins 12. febrúar 2014 var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Frestun greiðslna, eða svokallað greiðsluskjól, hófst við samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.).

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 23. júní 2014 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og því ætti að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að 13. mars 2012 hefðu kærendur keypt fasteignina að D, en ekki fengið samþykkt greiðslumat hjá Íbúðalánasjóði fyrir því að yfirtaka lán sem hvíldi á 1. veðrétti eignarinnar. Þá hefðu kærendur greitt 160.000 krónur inn á lánið á tímabili greiðsluskjóls 1. mars 2014 sem að mati umsjónarmanns bryti í bága við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., en seljandi eignarinnar væri skuldari lánsins. Umsjónarmaður óskaði í framhaldinu eftir skýringum símleiðis hjá kæranda A á fyrrnefndum fasteignakaupum og á framangreindri greiðslu sem kærendur hefðu innt af hendi í greiðsluskjóli. Að sögn kæranda A hefði verið ákveðið við kaup kærenda á fasteigninni að seljandi yrði áfram skráður skuldari láns á 1. veðrétti fasteignarinnar. Þau hefðu greitt 160.000 krónur af láninu svo að Íbúðalánasjóður myndi ekki innheimta kröfuna hjá seljanda. Umsjónarmaður telur að kærendum hafi borið skylda til að leggja til hliðar þær 160.000 krónur sem þau greiddu inn á fyrrgreint lán, sbr. fyrrgreint ákvæði lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 3. júlí 2014 þar sem þeim var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Þá var kærendum jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kærenda bárust með tölvupósti 10. júlí 2014, auk þess sem kærendur ræddu við starfsmann umboðsmanns skuldara í síma sama dag og aftur 15. ágúst 2014.

Með ákvörðun 20. ágúst 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu heimildar þeirra til að leita greiðsluaðlögunar og fara fram á að heimild þeirra verði áfram í gildi.

Kærendur kveðast ekki skilja athugasemdir umboðsmanns skuldara þar sem lánið og greiðslustaða þeirra hafi alltaf verið „upp[i] á borði,“ auk þess sem þau hafi lækkað skuldir sínar um rúmlega 10.000.000 króna með því að gera makaskipti á íbúð sem þau hafi átt í EF og íbúðinni að D.

Í athugasemdum kærenda 7. október 2014 kemur fram að í umsókn þeirra um greiðsluaðlögun og við vinnslu málsins hafi komið skýrt fram að ekki hefði tekist að breyta láni yfir á þeirra nafn við kaup á íbúðinni D. Seljandi hafi því áfram verið skráður skuldari lánsins og greiðsluskjólið hafi því ekki tekið til þess. Í samráði við umboðsmann skuldara hafi verið ákveðið að greiða af þessu láni til að komast hjá nauðungarsölu eignarinnar. Með því hefðu kærendur talið að þau væru að vernda hagsmuni kröfuhafa en ekki að mismuna þeim. Kærendur mótmæla því að þau hafi brotið gegn skyldum sínum með því að nota hluta af ráðstöfunartekjum sínum til að greiða af láninu, enda hafi það verið í samræmi við það sem rætt hafi verið við umboðsmann skuldara. Ekki teljist samningsbrot af hálfu kærenda að umsjónarmaður eða umboðsmaður skuldara hafi síðan skipt um skoðun og verið ósammála þeirri ákvörðun.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann nýtur greiðsluskjóls. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. segi að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærendur hafi greitt 160.000 krónur í afborgun af láni þriðja aðila sem hvíli á 1. veðrétti fasteignar kærenda að D og hafi gefið þær skýringar að þau hafi ekki viljað að krafan yrði innheimt hjá lántaka sem væri seljandi eignarinnar. Að mati umboðsmanns skuldara verði að telja að kærendum hefði borið að leggja þetta fé til hliðar í samræmi við skyldur þeirra samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. í stað þess að greiða af láni þriðja aðila.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Kærendur kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild þeirra til að leita greiðsluaðlögunar og fara fram á að heimild til greiðsluaðlögunar verði áfram í gildi.

Felli umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að nefndin staðfesti eða felli ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi. Staðfesti kærunefndin ákvörðun umboðsmanns skuldara lýkur greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda þá þegar. Verði fallist á kröfu kærenda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi leiðir það sjálfkrafa til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra halda áfram. Skilja verður kröfugerð kærenda með tilliti til þessa.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu var umsókn kærenda samþykkt 12. febrúar 2014 og hófst frestun greiðslna sama dag. Frá og með þeim degi bar kærendum jafnframt að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýstir um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 160.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls sem þau hafi greitt inn á lán þriðja aðila á tímabilinu.

Ekki verður séð af gögnum málsins að lagt hafi verið heildarmat á fjárhag kærenda á tímabili greiðsluskjóls með það að augnamiði að kanna hvort þau hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Við mat á málsmeðferð umboðsmanns skuldara ber meðal annars að líta til rannsóknarreglu 5. gr. lge., sem styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvald þarf að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi beri að afla um viðkomandi mál.

Samkvæmt framangreindu bar umboðsmanni skuldara að rannsaka fjárhag kærenda á öllu því tímabili sem greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra stóðu yfir eða frá 12. febrúar 2014 og þar til þær voru felldar niður 20. ágúst 2014. Mat embættisins á fjárhag kærenda á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., sem náði eingöngu til greiðslu þeirra af láni þriðja manns að fjárhæð 160.000 krónum, var því ófullnægjandi og verða greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra ekki felldar niður einvörðungu á grundvelli þess mats.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að greiðsluaðlögunar-umleitanir kærenda hafi verið felldar niður án þess að umboðsmaður skuldara hafi sinnt þeirri rannsóknarskyldu sem á honum hvílir samkvæmt 5. gr. lge. Af þeim sökum ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir umboðsmann skuldara að taka málið aftur til meðferðar.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er felld úr gildi og málið sent til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara að nýju.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta