Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 101/2014

Mál nr. 101/2014

Fimmtudaginn 8. desember 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 17. september 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 5. september 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 22. september 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 29. september 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 6. október 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send með bréfi 14. janúar 2015. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru fæddir 1980 og 1975 og eru í hjúskap. Þau eiga 118 fermetra íbúð að C og búa þar ásamt syni sínum. Kærandi A starfar á D og kærandi B starfar á E.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 29. janúar 2014, eru 39.222.048 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga vegna fasteignakaupa árið 2008.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til kaupa á fasteign árið 2008. Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 hafi afborganir af fasteignaveðlánum kærenda hækkað og afborganir af bílaláni sem var í erlendri mynt. Auk þess hafi framkvæmdir á sameign C aukið greiðslubyrði þeirra töluvert.

Í málinu kemur fram að kærendur hafi sótt um greiðsluaðlögun 10. desember 2013. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 29. janúar 2014 var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum þeirra.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 8. júlí 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Umsjónarmaður taldi kærendur hafa brotið gegn skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að stofna til nýrrar skuldar á tímabili greiðsluskjóls með því að taka fjölgreiðslulán hjá Borgun hf. á tímabilinu.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 29. ágúst 2014 þar sem þeim var kynnt tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Þá var kærendum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kærenda bárust með tölvupósti 3. september 2014.

Með ákvörðun 5. september 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til d-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 15. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærendur kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara og óska eftir áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitunum.

Kærendur kveðast ekki hafa brotið gegn þeim reglum sem gildi um greiðsluaðlögun af ásetningi heldur hafi þau misskilið leiðbeiningar umboðsmanns skuldara vegna tungumálaörðugleika. Ferlið hafi heldur ekki verið nægilega vel útskýrt fyrir þeim og þau gert mistök vegna þessa misskilnings.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 12. gr. lge. sé mælt fyrir um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna, nema skuldbinding sú sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Kærendur hafi stofnað til skulda á tímabili greiðsluskjóls með því að taka fjölgreiðslulán að fjárhæð 154.796 krónur hjá Borgun hf. í febrúar 2014 vegna viðskipta við F. Að sögn umsjónarmanns hafi kærendur einnig tekið fjölgreiðslulán hjá Borgun hf. í október 2013 að fjárhæð 169.411 krónur vegna viðskipta við G en þau hafi sótt um greiðsluaðlögun í desember 2013. Ekki verði hjá því komist að telja að með hátterni sínu hafi kærendur stofnað til nýrra skuldbindinga sem skaðað hafi hagsmuni kröfuhafa en þau hafi ekki sýnt fram á að þessar skuldbindingar væru nauðsynlegar til heimilishalds með vísan til d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærendur kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara og óska eftir að greiðsluaðlögunar-umleitanir þeirra haldi áfram.

Felli umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara niður getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að nefndin staðfesti eða felli ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi. Staðfesti kærunefndin ákvörðun umboðsmanns skuldara lýkur greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda þá þegar. Verði fallist á kröfu kærenda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi leiðir það sjálfkrafa til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra halda áfram. Skilja verður kröfugerð kærenda með tilliti til þessa.

Kærendur telja umboðsmann skuldara ekki hafa leiðbeint þeim á fullnægjandi hátt þar sem tungumálaörðugleikar hafi orðið til þess að þau hafi misskilið þær reglur sem gildi um greiðsluaðlögun.

Stjórnvaldi ber skylda til að veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Skuldara ber að virða skyldur samkvæmt 12. gr. lge. á þeim tíma er hann leitar greiðsluaðlögunar. Samkvæmt gögnum málsins tala kærendur ekki íslensku en samskipti þeirra við embættið fóru fram á ensku. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun var send til þeirra í pósti og meðfylgjandi ákvörðun embættisins var sérstakt skjal á ensku þar sem fram komu upplýsingar um ferli greiðsluaðlögunar og þær skyldur sem hvíla á skuldurum samkvæmt 12. gr. lge. Slíkar upplýsingar mátti einnig finna á ensku á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Kærendur geta því ekki borið fyrir sig með réttu að þau hafi misskilið leiðbeiningar umboðsmanns skuldara vegna tungumálaörðugleika eða að ferlið hafi ekki verið nægilega vel útskýrt fyrir þeim. Kærendum bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn þeirra.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í 15. gr. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 12. gr. lge. er fjallað um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. má skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna, nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærendur stofnuðu til nýrrar skuldbindingar á tímabili greiðsluskjóls með því að taka lán hjá Borgun hf. 3. febrúar 2014 að fjárhæð 152.820 krónur. Þá benda fyrirliggjandi gögn enn fremur til þess að greiðslugeta kærenda hafi verið jákvæð á árinu 2014 en ekkert hefur verið greitt af fyrrnefndu láni þrátt fyrir að greiðsluaðlögun taki ekki til krafna sem hafa orðið til eftir að umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið tekin til greina, sbr. a-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Að mati kærunefndarinnar þykir því ljóst að kærendur brutu gegn skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með framangreindri ráðstöfun.

Með vísan til þess er að framan greinir telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 1. mgr. 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta