Mál nr. 103/2014
Mál nr. 103/2014
Fimmtudaginn 10. nóvember 2016
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.
Þann 7. október 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 19. september 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.
Með bréfi 9. október 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. október 2014.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 24. október 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 7. nóvember 2014. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 23. janúar 2015 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.
I. Málsatvik
Kærendur eru fæddar 1966 og 1969. Þær eru í hjúskap og búa í eigin 192,2 fermetra einbýlishúsi að C. Uppkominn sonur kærenda býr hjá þeim.
Kærendur eru atvinnulausar.
Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 12. febrúar 2013, eru 62.130.668 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2008 til 2012.
Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til ársins 2010 þegar þær festu kaup á fasteign sinni að C.
Kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar með umsókn 21. nóvember 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. febrúar 2013 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 30. júlí 2014 lagði sá fyrrnefndi til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Umsjónarmaður telji að kærendur hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., enda hafi þær ekki lagt nægilega fjármuni til hliðar frá því frestun greiðslna hófst. Sparnaður kærenda ætti að nema 3.291.290 krónum en samkvæmt upplýsingum frá kærendum 30. júlí 2014 eigi þær engan sparnað. Kærendur hafi útskýrt hvers vegna þær hafi ekki getað sparað en útskýringar þeirra séu að litlu leyti studdar gögnum. Kærendur hafi einungis skilað inn kvittunum vegna kaupa á ísskáp fyrir 122.689 krónum og millifærslu vegna pípulagningarvinnu fyrir 16.186 krónum. Að auki hafi kærendur fengið leyfi frá fyrri umsjónarmanni til þess að ráðstafa 181.000 krónum til kaupa á bifreið. Aðrar skýringar sem kærendur hafi veitt séu til dæmis vegna viðgerðar á fasteign sinni, tannlæknakostnaðar, kaupa á eldavél og kaupa á legsteini. Sé tekið tillit til allra útgjalda, sem kærendur hafi komið með skýringar á, nemi heildarfjárhæð þeirra samtals 1.630.925 krónum. Það sé því ljóst að þrátt fyrir að tekið sé tillit til allra skýringa, sem kærendur veittu á því að hafa ekki lagt til hliðar í greiðsluskjóli, vanti enn töluvert upp á að sparnaður þeirra sé fullnægjandi eða um 1.660.365 krónur.
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 15. ágúst 2014 var þeim kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Þá var kærendum jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Engin svör bárust.
Með ákvörðun 19. september 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur óska eftir því að hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara verði breytt þannig að umsókn um greiðsluaðlögun verði samþykkt.
Kærendur vísa til þess að í ábyrgðarpósti til þeirra 23. september 2013 sé tekið fram að þær hafi ekki látið vita af tryggingabótum frá Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna vatnstjóns. Það sé alrangt, en þær hafi sent póst vegna tjónsins á sínum tíma og einnig nefnt það á fundi hjá umboðsmanni skuldara í febrúar 2014. Bæturnar hafi farið í að laga skemmdirnar, þ.e. til iðnaðarmanna o.fl.
Kærendur hafi sent bæði kvittanir og staðfestingar á þeim aukakostnaði sem þær hafi þurft að greiða síðastliðið ár, en því miður hafi þær gert mistök og keypt nótulausa vinnu til að lækka verðið. Þar af leiðandi sé erfitt að sanna ýmsan kostnað sem þær hafi þurft að leggja út fyrir, en þær hafi í flestum tilvikum getað fengið staðfestingu hjá viðkomandi aðilum. Kærendum reiknast til að útlagður kostnaður þeirra frá 1. ágúst 2013 sé 1.997.133 krónur.
Kærendur hafi einnig tekið út lífeyrissparnaðinn sinn á tímabili greiðsluaðlögunar. Það hafi sérstaklega verið gert vegna veikinda systur annars kæranda. Vinnumiðlun hafi tjáð þeim að þetta væri sparnaður og teldist ekki til tekna og því hafi þær haldið að sömu reglur giltu hjá umboðsmanni skuldara.
Sonur kærenda og tengdadóttir búi hjá þeim og munu þau greiða 100.000 - 120.000 krónur heim á mánuði fái kærendur tækifæri til að reyna að halda fasteign sinni. Þá muni móðir annars kæranda flytja til þeirra og muni hún greiða tæpar 80.000 krónur í leigu.
Kærendur telji að það sé tímabundið ástand að þær séu atvinnulausar en þær hafi alla tíð verið mjög duglegar í vinnu. Þær séu að reyna að byggja upp [...] á meðan ekkert annað býðst. Starfsemin lofi góðu en þær þori ekki að gefa allt í hana núna fari svo að þær missi húsnæðið en það sé tilvalið að vera með slíkan rekstur heima. Kærendur séu einnig að kynna sér [...] en þær neiti að gefast upp.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í hinni kærðu ákvörðun vísar umboðsmaður skuldara til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Skyldur kærenda í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. séu ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjanda. Þá hafi fylgt skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun 12. febrúar 2013 sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Þessar upplýsingar hafi einnig verið að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara www.ums.is. Kærendum hafi því vel mátt vera ljóst að þær skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þær hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa. Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í rúmlega 15 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. mars 2013 til 1. júlí 2014.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir venjulegan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 548.688 krónur í meðaltekjur á mánuði á því 15 mánaða tímabili er kærendur nutu greiðsluskjóls.
Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 262.066 krónur á mánuði á meðan þær nutu greiðsluskjóls. Sé miðað við nýjustu mögulegu framfærsluviðmið kærendum í hag fyrir hjón. Á þessum grundvelli sé gengið út frá því að kærendur hafi getað lagt fyrir 4.037.264 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 286.622 krónu á mánuði í 15 mánuði.
Í kæru komi fram að kærendur hafi látið vita af bótum sem þær hafi fengið greiddar frá tryggingafélagi, bæði með tölvupósti og á fundi með umsjónarmanni. Ekki sé efast um að kærendur hafi látið vita af bótunum en þar sem þær telji útlagðan kostnað vegna tjónsins sem óvæntan kostnað, sem komi til frádráttar áætluðum sparnaði á tímabili greiðsluskjóls, verði að sama skapi að telja útgreiddar bætur frá tryggingafélagi til tekna kærenda.
Kærendur virtust einnig telja að ekki sé tekið tillit til útlagðs kostnaðar vegna útfarar og bílakaupa en skilmerkilega komi fram í ákvörðun embættisins um niðurfellingu heimildar þeirra til að leita greiðsluaðlögunar að þrátt fyrir að tekið sé tillit til heildarfjárhæðar útlagðs kostnaðar samkvæmt upplýsingum frá kærendum, vanti enn töluvert upp á sparnað eða 2.208.339 krónur samkvæmt meðfylgjandi útreikningum.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins sé heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Kærendur óska eftir því að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði breytt þannig að umsókn um greiðsluaðlögun verði samþykkt Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda áfram. Þær falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram, felli kærunefndin hina kærðu ákvörðun úr gildi. Kröfugerð kærenda fyrir kærunefndinni ber því að skilja þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Með bréfi til umboðsmanns skuldara 30. júlí 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í bréfinu kemur fram að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 19. september 2014.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið skylt að leggja fyrir á því tímabili sem þær nutu greiðsluskjóls. Kærendur kveðast hafa þurft að leggja út 1.997.133 krónur frá 1. ágúst 2013 vegna ýmissa óvæntra útgjalda.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 21. nóvember 2012 og umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn þeirra með ákvörðun 12. febrúar 2013. Kærendum bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna um leið og umsókn þeirra var samþykkt og frestun greiðslna hófst.
Umboðsmaður skuldara telur að kærendur hafi átt að leggja til hliðar 3.257.853 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var samþykkt. Kærendur hafa ekki lagt neitt til hliðar.
Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:
Tímabilið 1. mars 2013 til 31. desember 2013: 10 mánuðir | |
Nettótekjur A | 1.403.884 |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 140.388 |
NettótekjurB | 2.932.293 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 293.229 |
Nettótekjur alls | 4.336.177 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 433.618 |
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. ágúst 2014: átta mánuðir | |
Nettótekjur A | 1.265.080 |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 158.135 |
Nettótekjur B | 2.149.737 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 268.717 |
Nettótekjur alls | 3.414.817 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 426.852 |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 7.750.994 |
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli | 430.611 |
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og vaxtabætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. mars 2013 til 31. ágúst 2014: 18 mánuðir | |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 7.750.994 |
Vaxtabætur | 332.455 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 8.083.449 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 449.081 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns | 262.066 |
Greiðslugeta kærenda á mánuði | 187.015 |
Alls sparnaður í 18 mánuði í greiðsluskjóli x 187.015 | 3.366.261 |
Við mat á því hvaða fjárhæð kæranda beri að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur en í lge. er ekki heimild til að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reiknar út.
Kærendur kveðast hafa staðið straum af auknum kostnaði á tímabilinu vegna viðhalds fasteignar, tannlæknakostnaðar, skólagjalda, kaupa á heimilis- og hreinlætistækjum, útfararkostnaðar og kaupa á bifreið, samtals að fjárhæð 1.828.925 krónur.
Í málinu hafa kærendur lagt fram reikninga vegna útfararkostnaðar og erfidrykkju sem þær greiddu að hluta samkvæmt undirritaðri yfirlýsingu sem liggur fyrir í gögnum málsin. Samkvæmt yfirlýsingunni greiddu kærendur samtals 170.000 krónur vegna útfarar en að auki hafa kærendur lagt fram reikning og millifærslukvittun fyrir 80.000 krónum vegna kaupa á legsteini og yfirlýsingu um greiðslu 21.000 króna fyrir blómakrans vegna útfarar. Kærendur hafa einnig lagt fram kvittun fyrir greiðslu að fjárhæð 83.100 krónum vegna greiðslu sjálfsábyrgðar samkvæmt húseigendatryggingu vegna lekaskemmda. Þá hafa kærendur lagt fram reikning vegna kaupa á heimilis- og hreinlætistækjum að fjárhæð 192.689 krónum. Þessi kostnaður telst vera óvæntur kostnaður í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og verður hann því dreginn frá þeirri fjárhæð sem kærendur hefðu átt að geta sparað á tímabili greiðsluskjóls. Auk þess heimilaði umsjónarmaður kærendum að greiða 120.000 krónur af hjálögðum sparnaði vegna kaupa á bifreið.
Þá hafa kærendur einnig lagt fram reikninga og millifærslukvittanir vegna viðgerðarkostnaðar að fjárhæð 171.186 krónur. Í málinu liggur fyrir að kærendur hafi fengið greiddar bætur frá VÍS vegna vatnstjóns sem nýta átti til að laga skemmdir. Lagt verður til grundvallar við úrlausn málsins að það hafi verið gert og verður því ekki tekið tillit til þessa viðgerðarkostnaðar. Kærendur hafa einnig lagt fram kvittun vegna greiðslu skólagjalda fyrir nám hjá D að fjárhæð 76.000 krónur. Verður ekki fallist á af hálfu kærunefndar að slík útgjöld teljist óvænt og nauðsynleg til framfærslu kærenda.
Að þessu virtu hafa kærendur átt að geta lagt fyrir 2.699.472 krónur (3.366.261-666.789) á tímabili greiðsluskjóls en hafa ekkert lagt fyrir.
Í ljósi þess sem að framan greinir verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Þórhildur Líndal