Nr. 101/2018 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 101/2018
Þriðjudaginn 24. apríl 2018
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Þann 5. mars 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð er ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 30. janúar 2018 þar sem heimild kæranda til greiðsluaðlögunar var felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. og f-lið 2. mgr. [6.] gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
I. Málsatvik og málsmeðferð
Málsatvik eru þau að með ákvörðun 30. janúar 2018 felldi umboðsmaður skuldara niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar. Að mati embættisins braut kærandi gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar það fé sem hún hafði umfram það sem hún þurfti til að sjá sér farborða á meðan greiðsluaðlögunar væri leitað. Einnig var talið að kærandi hefði brotið gegn skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að millifæra fjármuni til útlanda eftir að henni var veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar en samkvæmt ákvæðinu skuli skuldari ekki láta af hendi eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla á tímabili greiðsluskjóls. Þá hefði kærandi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni framast var unnt í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. meðal annars með því að millifæra X krónur til útlanda áður en hún sótti um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
Þann 5. mars 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra vegna málsins. Kærandi óskaði eftir því að úrskurðarnefndin sýndi henni þann skilning að hún fengi áfram hjálp hjá umboðsmanni skuldara í greiðsluskjóli. Skilja varð þetta svo að kærandi krefðist þess að fyrrnefnd ákvörðun umboðsmanns skuldara yrði felld úr gildi. Kærandi kveðst hafa kynnst manni og hjálpað honum fjárhagslega. Hún hafi nú endurskoðað stöðu sína og hafi allan hug á að laga fjármál sín. Þá kemur fram í kæru til úrskurðarnefndarinnar að kæra hafi ekki borist fyrr þar sem tölva kæranda hafi bilað og kærandi verið veik.Samkvæmt gögnum málsins sendi umboðsmaður skuldara ákvörðun sína frá 30. janúar 2018 með ábyrgðarbréfi og í tölvupósti til kæranda 31. janúar 2018. Í bréfi umboðsmanns skuldara, sem fylgdi ákvörðun embættisins, kom fram að kærufrestur væri tvær vikur frá móttöku ákvörðunar. Þá var kærandi einnig upplýst sérstaklega um kærufrest í fyrrnefndum tölvupósti. Með bréfi 16. mars 2018 óskaði úrskurðarnefndin frekari skýringa á því hvers vegna kæra hefði ekki borist fyrr en að liðnum kærufresti. Engin svör bárust frá kæranda við þessari beiðni úrskurðarnefndarinnar.II. Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. 7. gr. laga nr. 135/2010 og 13. gr. laga nr. 85/2015, skal stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar umboðsmanns skuldara um synjun á umsókn um greiðsluaðlögun berast úrskurðarnefnd velferðarmála innan tveggja vikna frá því að tilkynning um ákvörðun barst skuldara. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.
Í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. ssl. kemur fram að ákvörðun sé bindandi eftir að hún er komin til aðila máls. Það er þó ekki gert að skilyrði í þessu sambandi að ákvörðun sé komin til vitundar hans en þetta kemur fram í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til ssl. Í samræmi við þetta verður að telja að ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi borist kæranda í skilningi ssl. 31. janúar 2018 er hún fékk tölvupóst frá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt því byrjaði kærufrestur að líða þann dag en honum lauk 14. febrúar 2018. Svo sem komið er fram barst úrskurðarnefndinni kæran 5. mars 2018 eða þremur vikum of seint.
Úrskurðarnefndin telur að engar haldbærar skýringar hafi komið fram af hálfu kæranda á því hvers vegna kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti og ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Önnur atvik málsins þykja ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
ÚRSKURÐARORÐ
Kæru A á ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal