Mál nr. 186/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 186/2024
Miðvikudaginn 14. ágúst 2024
A
gegn
umboðsmanni skuldara
ÚRSKURÐUR
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Þann 22. apríl 2024 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra B f.h. A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 9. apríl 2024, þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi, sem er fædd 1980, lagði fram umsókn um aðstoð vegna fjárhagsvanda 12. júlí 2023. Þann 12. janúar 2024 óskaði umboðsmaður kæranda eftir því að umsókn hennar yrði breytt í umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. lög um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge). Með bréfi, dags. 13. febrúar 2024, var kæranda tilkynnt að við meðferð málsins hefðu komið í ljós atriði sem leitt gætu til synjunar um heimild til greiðsluaðlögunar. Með bréfinu var kæranda veitt færi á að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun um afgreiðslu umsóknar yrði tekin. Viðbrögð umboðsmanns kæranda bárust með tölvupóstum 12. og 21. mars 2024. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 9. apríl 2024, var umsókn kæranda synjað á grundvelli j-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Með bréfi, dags. 23. apríl 2024, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 29. apríl 2024. Viðbótarathugasemdir og gögn bárust frá kæranda bárust 3. júní 2024 og voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 6. júní 2024. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi, dags. 20. júní 2024. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 25. júní 2024, og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæruna svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja henni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.
Um feril málsins segir að beiðni um greiðsluaðlögun hafi verið send umboðsmanni skuldara í byrjun júlí 2023 en vinna hafist við afgreiðslu hennar í febrúar 2024 og telst frestdagur 12. janúar 2024. Fyrirspurnarpóstur hafi verið sendur til umboðsmanns kæranda og kæranda þann 13. febrúar [2024] og spurt sérstaklega um fasteignaviðskipti kæranda og eiginmanns hennar. Einnig hafi verið óskað eftir skýringum á skuldsetningu hennar á árinu 2023. Svör hafi verið send til umboðsmanns skuldara þann 12. mars með skýringum á sölu íbúðar kæranda að C og kaupum á annarri íbúð að D. Einnig hafi verið gerð grein fyrir fjárhagsmálum kæranda um það leyti sem þau viðskipti áttu sér stað þ.e. seinni hluta árs 2022. Þá hafi í framhaldinu jafnframt verið sent læknisvottorð sem staðfesti og lýsti veikindum kæranda. Með bréfi, dags. 9. apríl 2024, frá umboðsmanni skuldara var beiðni kæranda um greiðsluaðlögun synjað.
Synjun umboðsmanns skuldara sé byggð á tveimur meginstoðum. Annars vegar, að söluhagnaður af sölu íbúðarinnar í C hefði verið notaður til kaupa á annarri íbúð en ekki til að koma skuldum í skil og um leið að þar hefði jafnframt verið um gjafagjörning að ræða þar sem kærandi hefði afhent eiginmanni sínum meginhluta hagnaðarins til íbúðakaupa á hans nafni. Sá gjörningur hafi að mati umboðsmanns skuldara verið ólöglegur samkvæmt lögum og skilgreiningu þeirra á gjafagjörningi og frestdegi, sem hér hafi verið 12. janúar 2024.
Sjónarmið umboðsmanns kæranda séu að á grundvelli fyrirliggjandi gagna megi draga megináherslur og túlkun umboðsmanns skuldara í efa þegar kjarni málsins og staðreyndir í tímalegu samhengi séu skoðaðar en þær séu eftirfarandi að áliti umboðsmanns kæranda:
Skuldasöfnun og stjórnleysi í fjármálum hafi lengi verið vandamál kæranda og getið í læknisvottorði geðlæknis sem hefur annast kæranda til margra ára. Þrátt fyrir það hafi fjármálaráðstafanir hennar sjálfrar haustið 2022 verið [gerðar með það að markmiði] að endurskipuleggja fjármálin og koma því í skil sem út af stóð eftir að íbúð hennar í C hafi verið seld. Söluhagnaðurinn hafi því að hluta til verið notaður til kaupa á íbúðinni að D og einnig til að koma öllum lausaskuldum í skil. [Því] eiga hugtökin um undanskot eða gjafagjörning hvorugt erindi inn í þá atburðarás ef tekið [er] tillit [til] dagsetninga atburða og þá þess, að frestdagur hafi verið 12. janúar 2024 en íbúðaskiptin og skuldaskilin afstaðin á haustmánuðum 2022. Þessu til áréttingar megi væntanlega sjá að ný skuldasöfnun hófst eftir þann tíma þ.e.a.s. [á haustmánuðum] 2022 með því að skoða dagsetningu á þeim skuldum sem séu á skuldalista frá umboðsmanni skuldara og þeirri staðreynd að lánshæfismat kæranda hjá Creditinfo hækkaði (lagaðist) vegna skuldaskilanna úr B 2 í A 3 á sama tímabili, þ.e. frá 1. sept. 2022 til 1. feb. 2023. Hér megi reyndar bæta við að því miður séu engar dagsetningar á einstökum skuldum á skuldalista (kröfulista) þeim sem umboðsmaður skuldara tók saman og birti sem fylgigagn með synjun sinni hinn 9. apríl 2024. Erfitt sé að komast að því fyrir umboðsmann, en kannski ekki ómögulegt samkvæmt því sem umboðsmanni hafi verið sagt í E (viðskiptabanka kæranda) í aðdraganda þessa bréfs. Hér megi því benda á það sem snýr að umboðsmanni skuldara um rannsóknarskyldu samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga [nr. 37/1993] og eins í sambandi við synjunina og málið í heild á meðalhófsregluna í 12. gr sömu laga.
Gjafagjörningur sé hvorki ólöglegur né óalgengur en vissulega lagalegum tímatakmörkunum háður [sé] grunur um undanskot fjármuna. En hvort fjárhagslegar ráðstafanir og fjárhagsleg samskipti hjóna séu í eðli sínu formlegir gjafagjörningar sé tæplega hægt að fullyrða í eitt skipti fyrir öll, enda almennt álitið að fjármál hjóna og ráðstafanir í þeim efnum séu þeirra einkamál. Í þessu máli hafi einfaldlega verið seld íbúð, hluti hagnaðarins notaður til kaupa á annarri íbúð og til greiðslu lausaskulda kæranda á þeim sama tíma. Þar með hafi lausaskuldum verið komið í skil á þeim tíma og engin gögn um annað fyrirliggjandi af hálfu umboðsmanns skuldara. Ekki sé hægt að túlka það sem undanskot hvort sem litið sé til nýlegrar breytingar í 6. gr. laga um greiðsluaðlögun (lög nr. 101/2010) eða ákvæða um gjafagjörning í 2. mgr. 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti frá 1991 (lög nr. [21/1991] svo vitnað sé í sömu lagatilvitnanir og gert hafi verið í synjunarbréfi umboðsmanns skuldara 9. apríl 2024. Varðandi vísun umboðsmanns skuldara í 141 gr. gjaldþrotalaga verði ekki séð að hún eigi við í þessu máli ef útskýringar umboðsmanns kæranda hér að ofan [eru] réttar og andmæli hans við túlkun umboðsmanns skuldara varðandi undanskot og gjafagjörning séu réttmæt.
Gjaldfallnar skuldir kæranda séu samkvæmt lista umboðsmanns skuldara 13.349.725 kr. Kröfurnar séu alls 49. Upphafleg fjárhæð (höfuðstóll) skuldanna sé 7.093.714 kr. Mismunur sem séu þá vextir og kostnaður [nemi] samtals [6.256.011] kr. Þannig séu vextir og kostnaður tæplega 47% upphæðar heildarskulda. Gjaldfallnar sex bankaskuldir (lán, kreditkort, yfirdrættir) séu um [5.065.000] kr. en afgangurinn 43 kröfur frá korta- og smálánafyrirtækjum, [símafyrirtækjum] og líkamsræktarstöð, þjónustuaðilum eins og tryggingarfélagi, heilsugæslu og leikskóla og að lokum [krafa frá] ríkisskattstjóra, [að fjárhæð] 525.962 kr. Til hluta skuldanna sé stofnað fyrir tíma íbúðaviðskiptanna en þeim komið í skil, hluti skuldanna séu þjónustugjöld og fastur framfærslukostnaður sem fallið hafi til eftir íbúðaviðskiptin og loks skuldir við korta- og smálánafyrirtæki sem líka hafi fallið til eftir íbúðaviðskiptin [og] eftir að skuldum hafi verið komið í skil. Til að það komi fram skal hér nefnt að skuldaeigendur hafa beitt ýmsum ráðum í greiðsluskjólinu en kærandi vöruð óformlega við því af starfsfólki umboðsmanns skuldara og að henni bæri að hafast ekki að.
Ekki sé dregin dul á það að margt virðist hafa skolast til og hvorki innsýn eða yfirsýn yfir fjármálin hafi verið í nógu góðu lagi. Þar skal nefnt að þótt hlutum hafi verið komið í skil hafa skuldbindingar e.t.v. verið of miklar. Ekki skal samt lagður dómur á það hér því samningsstaða kæranda hafi líklega ekki verið sterk hvað sem bættu lánshæfimati leið. Það hafa þó vonandi verið leiddar líkur að því hér að greiðsluvilji hennar hafi verið til staðar um og eftir íbúðaskiptin, en það að eiginmaður hennar hafi verið skrifaður fyrir nýju íbúðinni hafi verið skiljanleg varúð gagnvart framtíðinni að fenginni biturri reynslu af fjármálum hennar en ekki af aðsteðjandi hættu á gjaldþroti á þeim tíma. Aðsteðjandi hætta birtist þó því miður fljótt þegar komið hafi verið á sæmilega sléttan sjó að hennar áliti. Þannig missti hún sýnilega tökin og skuldasöfnun hófst og varð brátt stjórnlaus.
Hér hafi verið reynt að greina málið efnislega og færa rök að því að um brotavilja hafi ekki verið að ræða. En eftir standi frumorsök þeirra ófara og [hinnar] félagslegu stöðu sem kærandi sé nú í og það sé skoðun fjölskyldunnar, foreldra, þriggja systkina og eiginmanns hennar og […]. Þarf varla að lýsa frekar líðan hennar eða okkar aðstandenda. Farsælasta lausn sem við getum hugsað okkur sé að hún fái greiðsluaðlögun miðað við greiðslugetu samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara og sérstakan fjárhaldsmann. Á því byggist von hennar og okkar allra og að kærandi geti þannig náð sátt og heilsu á ný.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 9. apríl 2024, kemur fram að einstaklingur sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar geti leitað greiðsluaðlögunar. Er þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.
Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar ber umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna.
Kæranda og umboðsmanni hennar hafi verið sendur fyrirspurnarpóstur vegna umsóknar um greiðsluaðlögun þann 13. febrúar 2024. Á meðan málið hafi verið í vinnslu hafi verið samþykkt lög á Alþingi er breyttu ákvæðum 6. gr. laga nr. 101/2010. Samsvarandi ákvæði og fjallað sé um í fyrirspurnarbréfinu frá 13. febrúar sl. sé nú í j-lið 1. mgr. 6. gr. lge. en þar segir að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Þá segir í 2. mgr. 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hér eftir gþl., að krefjast megi riftunar á gjafagerningi hafi gjöfin verið afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildi einnig um gjafir til nákominna sem hafa verið afhentar sex til tuttugu og fjóra mánuði fyrir frestdag.
Í 141. gr. gþl. komi fram að krefjast megi riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, hafi þrotamaðurinn verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.
Í framangreindu fyrirspurnarbréfi hafi verið reifaðar þær spurningar og þau álitamál sem uppi hafi verið í málinu og þær ástæður sem gátu leitt til synjunar á umsókn um greiðsluaðlögun.
Samkvæmt skattframtali kæranda 2023 vegna tekjuársins 2022 seldi kærandi eign að C á 43.300.000 kr. Þá kom jafnframt fram að söluhagnaður eignarinnar hafi verið nýttur til kaupa á annarri fasteign að D. Samkvæmt opinberum upplýsingum sé eiginmaður kæranda skráður eigandi íbúðar á því heimilisfangi. En ekki hafi verið séð á opinberum gögnum að kærandi hafi sjálf verið skráður eigandi að eign á því heimilisfangi.
Óskað hafi verið eftir skýringum kæranda á sölu fasteignarinnar, hversu mikið af söluverðinu hafi komið í hennar hlut og hvernig því hafi verið ráðstafað. Þá hafi athygli hennar jafnframt verið vakin á því að ef um háttsemi væri að ræða sem gæti talist riftanleg samkvæmt gþl. þá kynni það að leiða til synjunar á umsókn hennar.
Í bréfinu hafi jafnframt verið óskað eftir skýringum kæranda á skuldsetningu hennar á árinu 2023 og hvernig hún hafi séð fyrir sér að standa undir þeim skuldbindingum. Umboðshafi kæranda hafi skilað inn læknisvottorði vegna veikinda hennar og þótti því að mati embættisins ekki ástæða til að fjalla nánar um það atriði.
Svör bárust frá umboðshafa kæranda þann 12. mars 2024 en þar komu fram skriflegar skýringar á sölu á fasteigninni að C. Þá barst jafnframt læknisvottorð sem staðfesti veikindi skuldara. Engin gögn bárust með bréfinu og óskaði embættið í framhaldinu eftir nánari skýringum á sölunni, studdum gögnum.
Þann 21. mars barst embættinu svo töluvert af gögnum frá kæranda, auk nánari skýringa á umræddri sölu. Samkvæmt kaupsamningi eignarinnar að C sem fylgdu með gögnunum seldist eignin á 43.300.000 kr. Samkvæmt gögnum kæranda fékk hún 7.054.620 kr. greiddar í kaupsamningsgreiðslu inn á reikning í sinni eigu þann 2. september 2022. Þá fékk hún 17.991.658 kr. þann 15. september og 764.788 kr. þann 10. nóvember 2022. Við söluna hafi jafnframt verið greitt upp áhvílandi veðlán á eigninni. Ekki liggur fyrir nákvæm fjárhæð þess láns.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum millifærði kærandi 12.069.000 kr. þann 16. september 2022 inn á reikning í eigu eiginmanns síns. Auk þess millifærði hún jafnframt um 1.660.000 kr. í fimm aðskildum færslum á tímabilinu 4. október 2022 þann 1. mars 2023 að sögn umboðshafa kæranda. Ekki liggja fyrir nein gögn sem staðfesta þær færslur. Þá ráðstafaði kærandi söluhagnaði fasteignarinnar að einhverju leyti til greiðslu lausaskulda.
Í svörum umboðshafa kæranda kom fram að þeim hluta söluhagnaðarins sem ráðstafað hafi verið inn á reikning í eigu eiginmanns kæranda hafi verið ætlað að standa undir kaupum hans á íbúð að D en með svörum þeirra við fyrirspurn embættisins hafa fylgt gögn vegna kaupa hans á þeirri eign.
Í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hafi fram hafi verið talið að gagnaöflun í málinu væri lokið samkvæmt 5. gr. lge., sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.).
Í 2. mgr. 131. gr. gþl. sé kveðið á um að krefjast megi riftunar á gjafagerningi hafi gjöfin var afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildi einnig um gjafir til nákominna sem hafi verið afhentar sex til tuttugu og fjóra mánuði fyrir frestdag.
Gjafahugtak 131. gr. gþl. feli í sér þrjú meginatriði; að gjöfin rýri eignir skuldara, að gjöfin leiði til eignaaukningar hjá móttakanda og að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa. Gjafahugtakið rúmi margs konar ráðstafanir og byggist á hlutlægu mati á því hvort þessi skilyrði séu fyrir hendi. Til að gjafagerningur sé heimill sé gerð krafa um að skuldari sé gjaldfær á þeim tíma er ráðstöfun var gerð.
Í 2. mgr. 2. gr. gþl. sé fjallað um frestdag í skilningi laganna. Þar komi fram að frestdagur sé sá dagur sem héraðsdómara berst beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti. Samkvæmt þessu þykir rétt að líta svo á að við beitingu j-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. beri að jafna móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga við frestdag í skilningi laga um gjaldþrotaskipti. Frestdagur í máli kæranda sé því samkvæmt þessu 12. janúar 2024 eða þegar umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið móttekin hjá umboðsmanni skuldara.
Telja verður samkvæmt því sem að ofan greinir að ráðstöfun kæranda á umræddri eign sé riftanleg ráðstöfun í skilningi j-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., sbr. 2. mgr. 131. gr. og 141. gr. gþl. en kærandi hafi ráðstafað stórum hluta af söluandvirði eignarinnar að C sem komið hafi í hennar hlut til eiginmanns síns með millifærslu, dags. 16. september 2022, eða um sextán mánuðum fyrir frestdag. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún hafi verið gjaldfær þrátt fyrir afhendingu fjármunanna og því hafi ekki verið séð að undantekningarreglur laganna ættu við. Þá teljist eiginmaður kæranda henni nákominn í skilningi gjaldþrotaskiptalaga og gildir því rýmra tímamark á riftunarreglunni eða sex til tuttugu og fjórir mánuðir fyrir frestdag.
Kæranda og umboðshafa hennar hafi verið sent ábyrgðarbréf, dags. 13. febrúar 2024, og hafi í bréfinu verið gerð grein fyrir mikilvægi þess að skýra þar tilgreind álitaefni og leggja fram gögn. Telji embættið sig hafa veitt kæranda færi á að andmæla fyrirsjáanlegri synjun umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með greindu ábyrgðarbréfi.
Í greinargerð umboðsmanns skuldara, til úrskurðarnefndar velferðarmála dags. 29. apríl 2024, kemur fram að umboðsmaður skuldara fari fram á að ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun frá 9. apríl 2024 verði staðfest.
Í hinni kærðu ákvörðun hafi núverandi fjárhagsstaða kæranda verið rakin auk annarra upplýsinga sem málið varði. Við meðferð málsins hafi komið í ljós atvik sem þóttu geta leitt til synjunar um heimild til greiðsluaðlögunar. Því hafi kæranda verið sent ábyrgðarbréf, dags. 13. febrúar 2024, þar sem henni hafi verið boðið að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós. Viðbrögð kæranda bárust með tölvupóstum 12. og 21. mars 2024. Með ákvörðun, dags. 9. apríl 2024, hafi kæranda verið synjað um greiðsluaðlögun með vísan til j-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Um málsatvik og forsendur vísast að öðru leyti til hinnar kærðu ákvörðunar.
Umboðsmanni skuldara ber við mat á umsókn að líta til þeirra aðstæðna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 1. mgr. greinarinnar komi fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, með vísan til þeirra aðstæðna sem þar séu tilgreindar.
Í hinni kærðu ákvörðun sé ítarlegur rökstuðningur fyrir synjun umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun, með vísan til j-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. en þar sé farið yfir atvik málsins og hvernig þau heimfærast undir umrætt ákvæði 6. gr. lge.
Við meðferð málsins hafi kæranda verið veitt færi á að gera athugasemdir og leggja fram gögn í málinu vegna þeirra atriða sem þóttu geta leitt til synjunar á umsókn um greiðsluaðlögun. Eftir að hafa skoðað upplýsingar frá kæranda og gögn málsins komst umboðsmaður skuldara engu að síður að þeirri niðurstöðu að óhæfilegt þætti að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar. Í hinni kærðu ákvörðun sé sú niðurstaða rökstudd og með því hafi tekin afstaða til framkominna upplýsinga og gagna.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fari umboðsmaður skuldara fram á hún verði staðfest.
Í framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að embættið sé ekki sammála þeirri ályktun kæranda að ástæða synjunarinnar hafi verið sú staðreynd að þeim söluhagnaði sem kærandi fékk í sínar hendur við sölu á fasteigninni að C hafi verið ráðstafað til kaupa á annarri íbúð í stað þess að koma skuldum kæranda í skil. Heldur sé það svo að sú háttsemi sem leiðir til synjunar embættisins sé að söluhagnaðinum hafi verið ráðstafað til annars aðila, þ.e. eiginmanns kæranda og hafi hann nýtt fjármunina til kaupa á annarri fasteign, sem sé og hafi alltaf verið skráð einungis á hans nafn. Þrátt fyrir að taka verði undir þá fullyrðingu kæranda að ekki sé óeðlilegt að fjárhagsleg samstaða sé á milli hjóna sé það þó þannig að hvort hjóna fyrir sig beri ábyrgð á sínum skuldum og ráði yfir eignum sínum, sbr. 4. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Samkvæmt gþl. sé því þannig farið að tímamörk ráðstafana sem geta verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti samkvæmt XX. kafla laganna um riftun ráðstafana þrotamanns o.fl. séu rýmri þegar um sé að ræða nákomna aðila, líkt og maka.
Í athugasemdum kæranda komi fram að í ákvörðun embættisins hafi ekki verið vísað til gagns er varði uppgreiðslu á láni sem hvíldi á eign kæranda að C. Það sé rétt að með gögnum sem kærandi sendi til embættisins hafi fylgt yfirlit yfir ráðstöfun á láni sem kaupandi að fasteigninni að C tók við kaup á eigninni þar sem fram komi ákveðin fjárhæð sem ráðstafað hafi verið til Arion banka. Ekki liggja fyrir skýr gögn um uppgreiðslu áhvílandi veðláns önnur en umrætt gagn um ráðstöfun á láni þriðja aðila. Að því sögðu hafi það, að mati embættisins, ekki áhrif á endanlega niðurstöðu málsins enda snýst hún um þá fjármuni sem kærandi fékk í sinn hlut við söluna á fasteigninni að C og ráðstöfun þeirra.
Kærandi varpar jafnframt fram þeirri spurningu um hver afdrif læknisvottorðs sem kærandi sendi embættinu hafi verið. Í fyrirspurnarbréfi sem embættið sendi kæranda sem hluta af vinnslu málsins þann 13. febrúar sl. hafi verið óskað eftir skýringum á skuldsetningu kæranda og henni gefið færi á að veita skýringar og leggja fram gögn til að sýna fram á hvernig hún sá fyrir sér að standa undir þeim skuldbindingum, sbr. þágildandi b- og c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Líkt og fram komi í ákvörðun embættisins frá 9. apríl sl. hafi það verið vegna þess læknisvottorðs sem lagt hafi verið fram við vinnslu málsins að ekki þótti ástæða til að fjalla nánar um mögulega synjun á umsókn með hliðsjón af framangreindum ákvæðum laganna. Læknisvottorðið hafði í því ljósi sannarlega áhrif á vinnslu málsins hjá embættinu.
Fram komi í umfjöllun í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 22/2015 að riftunarreglur gjaldþrotalaganna fjalla um takmarkanir á því að þrotamaður geti gefið gjafir í tiltekinn tíma áður en hann varð ógjaldfær. Ein þessara takmarkana sé 131. gr. gþl. Meðal þeirra skilyrða sem þurfa að vera uppfyllt til að gjöfin sé riftanleg sé að hún skerði eignir skuldarans og auðgi móttakandann. Gjafahugtak 131. gr. gþl. hafi verið talið fela í sér þrjú meginatriði: Að gjöfin rýri eignir skuldara, að gjöfin leiði til eignaaukningar hjá móttakanda og að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa. Gjafahugtakið rúmi margs konar ráðstafanir og byggist á hlutlægu mati á því hvort þessi skilyrði séu fyrir hendi.
Við þá lagabreytingu sem tók gildi þann 1. apríl 2024 hafi ákvæði j-liðar 1. mgr. 6. gr. (áður e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.) verið breytt með þeim hætti að við bættist orðalag um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar, nema að sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Það orðalag eigi við um öll ákvæði 6. gr. lge. og allar þær aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laga nr. 21/2024 um breytingu á lögum nr. 101/2010 komi fram að með sérstökum aðstæðum sé einkum átt við veikindi eða erfiðar félagslegar aðstæður, en talið sé mikilvægt að umboðsmaður skuldara leggi heildstætt mat á hvert mál fyrir sig og hvort hæfilegt teljist að samþykkja umsókn. Hið nýja orðalag ákvæðisins sé að mati embættisins ekki ætlað að gera það að verkum að engum umsóknum sé synjað þegar um veikindi skuldara sé að ræða heldur fremur að veita embættinu rýmri heimild til að meta þær félagslegu aðstæður sem geta verið uppi hjá þeim aðilum sem til embættisins leita.
Að mati embættisins hafi sú ráðstöfun sem átti sér stað á haustmánuðum 2022 verið framkvæmd í þeim tilgangi að koma eign kæranda undan því að geta orðið andlag innheimtuaðgerða kröfuhafa og í kjölfar þess gjafagjörnings stóð kærandi eftir eignalaus. Sá skilningur embættisins hafi verið staðfestur í athugasemdum kæranda. Sú ráðstöfun hafi sannarlega verið gerð, með atbeina hennar nánustu, vegna þeirrar staðreyndar að kærandi glímir við mikil veikindi. Það breyti því mati embættisins þó ekki að um gjafagerning sé að ræða í skilningi 131. gr. gþl og því sé sú ráðstöfun riftanleg. Í ljósi framangreinds sé rétt að synja umsókn kæranda um greiðsluaðlögun.
Þá bendir embættið jafnframt á, vegna athugasemda kæranda, að nánara skuldayfirlit en fylgdi ákvörðun embættisins um synjun hafi verið sent með fyrirspurnarbréfi embættisins þann 13. febrúar 2024.
Að öðru leyti er vísað til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar og greinargerðar embættisins frá 29. apríl sl.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fari umboðsmaður skuldara fram á hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar byggist á j-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim aðstæðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Samkvæmt j-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja skal um heimild til greiðsluaðlögunar, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar.
Regla j-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. vísar um efni sitt til riftunarreglna gjaldþrotaréttar en þær eru í XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl). Þau sjónarmið sem þar búa að baki varða jafnræði kröfuhafa og er gengið út frá því að möguleiki kröfuhafa til að fá fullnustu á kröfum sínum aukist við endurgreiðslu í kjölfar riftunar. Með öðrum orðum þarf hin riftanlega ráðstöfun að hafa orðið þrotabúi, þ.e. kröfuhöfum kæranda í þessu tilviki, til tjóns.
Í 131. gr. gþl. koma fram reglur um riftun gjafagerninga. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar er almenna reglan sú að riftunar má krefjast á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Samkvæmt 2. mgr. 131. gr. gþl. má krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildir einnig um gjafir til nákominna sem hafa verið afhentar sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag. Í þessu tilviki verður að miða við að frestdagur sé sá dagur sem umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram sem var 12. janúar 2024. Þá er skilgreint í 3. gr. gþl. hverjir teljist nákomnir í skilningi laganna en í 1. tl. 3. gr. kemur fram að til nákominna teljist hjón og þeir sem búa í óvígðri sambúð.
Samkvæmt gögnum málsins millifærði kærandi þann 16. september 2022 hluta af söluandvirði fasteignar sinnar að C, alls 12.069.000 kr. inn á reikning í eigu eiginmanns síns. Líkt og fram hefur komið er miðað við að frestdagur í skilningi gþl. hafi verið 12. janúar 2024 og liðu því tæplega 16 mánuðir frá því að kærandi millifærði fjármunina á reikning eiginmanns síns og þar til hún sótti um heimild til greiðsluaðlögunar. Úrskurðarnefndin telur með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum að um gjafagjörning í skilningi gþl. kunni að hafa verið að ræða. Skilyrði riftunar geti því verið fyrir hendi nema sýnt verði fram á að kærandi hafi verið gjaldfær á þeim tíma er hún millifærði fjármunina til eiginmanns síns, sbr. skilyrði 2. mgr. 131. gr. gþl.
Vangeta til að standa við skuldbindingar sínar getur bæði stafað af því að skuldir eru meiri en eignir og af ógreiðslufærni. Síðarnefnda hugtakið veit að framtíðinni, þ.e. hvort skuldari muni geta staðið í skilum þegar kröfur á hendur honum falla í gjalddaga og hvort telja megi að greiðsluerfiðleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma.
Í bréfi umboðsmanns skuldara, dags. 13. febrúar 2024, var kærandi upplýst um að komið hefðu fram upplýsingar sem gætu komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun væri heimil sbr. 6. gr. lge. Í bréfinu var vakin athygli kæranda á þágildandi e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sem kveður á um að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að veita hana, hafi skuldari efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Í bréfinu var einnig vísað til 2. mgr. 131. gr. gþl. sem kveður að um að krefjast megi riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestsdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildi einnig um gjafir til nákominna sem hafa verið afhentar sex til tuttugu og fjóra mánuði fyrir frestsdag. Í bréfinu var einnig vakin athygli kæranda á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. þágildandi lge. í tengslum við lántöku kæranda á tímabilinu 2022 til 2023. Í niðurlagi bréfs umboðsmanns var óskað skýringa kæranda á lántökum og hvort þær hafi verið henni nauðsynlegar til framfærslu. Þá var óskað skýringa á því hvernig kærandi sá fyrir sér að geta staðið undir þessum lántökum. Jafnframt kom fram að nauðsynlegt væri að skýringar myndu berast, studdar gögnum, um að kærandi hefði ekki stofnað til skulda á þeim tíma sem hún var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eða hún hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hefði verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Forsendur hinnar kærðu ákvörðunar eru meðal annars að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún hafi verið gjaldfær á þeim tíma er hluti af söluandvirði fasteignar hennar að C voru greiddir til eiginmanns hennar þann 16. september 2022. Hvorki var óskað upplýsinga né gagna af hálfu umboðsmanns skuldara um hvort kærandi hefði verið gjaldfær á þeim tíma er hún millifærði hluta söluhagnaðar íbúðar sinnar inná reikning eiginmanns síns, sbr. e-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Í 5. gr. lge. er kveðið á um rannsóknarskyldu umboðsmanns skuldara. Þar segir í 2. mgr. að á því stigi málsmeðferðar sem við á hverju sinni skal umboðsmaður skuldara óska eftir öllum nauðsynlegum upplýsingum frá skuldara, opinberum aðilum og einkaaðilum, svo sem um tekjur, gjöld, eignir, skuldir, ábyrgðir, framfærslu- og húsnæðiskostnað og framferði skuldarans.
Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála bar umboðsmanni skuldara að óska sérstaklega eftir skýringum og eftir atvikum gögnum frá kæranda um hvort hún hafi verið greiðslufær þann 16. september 2022, enda hafi ekki verið ráðið af gögnum málsins, s.s. skattframtali kæranda, að hún hafi verið ógreiðslufær á umræddum tíma. Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar svo hægt sé að taka afstöðu til þess hvort j-liður 1. mgr. 6. gr. lge., áður e-liður 2. mgr. 6. gr. lge., eigi við um framferði kæranda. Þar sem þeirra upplýsinga var ekki aflað og ekki lagt mat á hvort kærandi var greiðslufær á umræddum tíma telur úrskurðarnefndin sýnt að málsmeðferðin hafi ekki verið í samræmi við 5. gr. lge., sbr. 10. gr. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og vísað til meðferðar að nýju hjá umboðsmanni skuldara.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn A, um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, er felld úr gildi og vísað til meðferðar að nýju hjá umboðsmanni skuldara.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson