Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 89/2012

Fimmtudaginn 10. apríl 2014

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 21. maí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 24. apríl 2012 þar sem heimild til greiðsluaðlögunar var felld niður.

Með bréfi 29. maí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 25. júní 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 19. júlí 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda 3. október 2012.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur árið 1953. Hann er fráskilinn og hjá honum búa tveir uppkomnir synir hans en þeir eru á eigin framfæri. Kærandi býr í 211 fermetra eigin raðhúsi að B götu nr. 15 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er atvinnulaus. Mánaðarlega hefur hann til ráðstöfunar 188.347 krónur að meðaltali.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til mikilla veikinda fyrrverandi maka en vegna þess hafi hann verið eina fyrirvinna heimilisins. Þá hafi hann gengið í gegnum skilnað. Einnig hafi málaferli vegna viðgerðar á fasteign hans, atvinnumissir og hækkun á afborgunum skulda valdið kæranda fjárhagserfiðleikum.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 84.928.152 krónur og falla 80.468.850 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2004 til 2008.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. maí 2011 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lge. Jafnframt var honum skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Hinn 16. janúar 2012 barst umboðsmanni skuldara bréf frá umsjónarmanni þar sem lagt var til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. þar sem ætla mætti að fram væru komnar upplýsingar sem hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil. Væri um að ræða virðisaukaskattskuld kæranda að fjárhæð 4.153.401 króna. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. apríl 2012 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður. Byggðist sú ákvörðun á því að óhæfilegt þætti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar verði hnekkt og að kærunefndin samþykki umsókn hans þannig að hann fái heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærandi og fjölskylda hans hafi átt við mikla erfiðleika að etja eftir efnahagshrunið 2008. Samþykki kærunefndin ekki beiðni hans muni enn meiri vandræði og erfiðleikar steðja að. Verði kærandi þá neyddur til að óska eftir gjaldþrotaskiptum og muni það kosta hann 250.000 krónur. Hann muni að auki þurfa að finna húsnæði fyrir sig og tvo yngstu syni sína en í kjölfar hörmunga undanfarinna ára hafi kærandi þurft að ganga í gegnum skilnað.

Kærandi greinir frá því að allan tímann hafi legið fyrir að gjaldþrota einkahlutafélag hans og fyrrverandi eiginkonu hans standi í skuld við tollstjóra. Með tilliti til eðlis lge. sé óeðlilegt að taka þessar kröfur fram yfir aðrar. Ef til vill sé það brotalöm á löggjöfinni en það eigi ekki að bitna á þeim sem leiti skjóls hjá umboðsmanni skuldara.

Kærandi kveðst hafa haft samband við tollstjóra og fengið þær upplýsingar að tollstjóri myndi ekkert aðhafast vegna virðisaukaskattskuldar kæranda í bráð. Höfuðstóll skuldarinnar sé 2.400.000 krónur og fljótlega muni hluti skuldarinnar byrja að fyrnast.

Kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki vísað honum á önnur úrræði eins og til dæmis að leita nauðasamnings hjá innanríkisráðuneytinu.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar segir að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt 3. gr. lge. falli krafa um vangoldinn virðisaukaskatt utan greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður hafi enn fremur talið að um sé að ræða skuld sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara hafi sent kæranda bréf 26. mars 2012 þar sem honum hafi verið gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður. Kærandi hafi mætt á fund með ráðgjafa embættisins 20. apríl 2012. Hafi kæranda verið afhent gögn í kjölfarið sem staðfestu að virðisaukaskattskuldin væri byggð á álagningu en ekki áætlun. Kærandi hafi ekki afhent embættinu gögn er vörpuðu frekara ljósi á málið.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að í 6. gr. lge. séu tilteknar ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.

Í máli kæranda nemi virðisaukaskattskuld byggð á álagningu 4.153.401 krónu. Kærandi gæti þurft að sæta refsiábyrgð vegna skuldarinnar samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Að mati umsjónarmanns hefði því borið að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. við meðferð umsóknar hans ef upplýsingar þessar hefðu legið fyrir við töku ákvörðunar um greiðsluaðlögun.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nemi skuldir kæranda 84.928.152 krónum. Eignastaða hans hafi verið neikvæð um langt skeið og tekjur hans hafi ekki verið háar. Miðað við það og fjárhæð virðisaukaskattskuldar kæranda verði að telja óhæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 17/2011 segi meðal annars: „Við mat á því hvort rétt sé að synja um heimild um greiðsluaðlögun [svo] vegna skulda sem geta bakað skuldara refsingu, svo sem gildir um vörsluskatta, skiptir það máli hver afdrif þessara skulda verða nái greiðsluaðlögun fram að ganga. Með öðrum orðum þá er mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar meðal annars háð því hvort hann losnar þar með undan greiðslu slíkra skuldbindinga eða ekki.“

Greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lge. sé tiltölulega nýtt úrræði og því hafi ýmsir þættir þess skýrst eftir því sem meðferð mála hjá umboðsmanni skuldara og umsjónarmönnum með greiðsluaðlögunarumleitunum hafi undið fram. Þannig þyki nú ljóst að tollstjóri telji sér að mestu óheimilt að semja um eftirgjöf skulda vegna vangoldins virðisaukaskatts í tengslum við greiðsluaðlögunarumleitanir. Þessi afstaða tollstjóra hafi ekki legið fyrir með jafn skýrum hætti við meðferð umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun. Við töku ákvörðunar um heimild til greiðsluaðlögunar hafi heldur ekki legið fyrir ofangreindur skilningur kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, sbr. úrskurð í máli nr. 17/2011, um samspil f-liðar 3. gr. lge. og d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. við mat á því hvort hæfilegt þætti að veita heimild til greiðsluaðlögunar.

Þyki þannig hafa komið fram upplýsingar sem hindri að greiðsluaðlögun nái fram að ganga. Hafi umboðsmanni skuldara því þótt rétt að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar, sbr. 15. gr. lge.

Af framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi umboðsmaður skuldara talið að ekki yrði hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge. og hafi það verið gert með ákvörðun embættisins 24. apríl 2012.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi fer fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar verði hnekkt og að kærunefndin samþykki umsókn kæranda þannig að hann fái heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. annars vegar 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og sbr. hins vegar 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Umboðsmaður skuldara gegnir því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt því sem kveðið er á um í lge. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki umsókn kæranda þannig að hann fái heimild til greiðsluaðlögunar. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi og að lagt verði fyrir hann að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d- liðar. Í kæru tekur kærandi fram að virðisaukaskattskuld hans hafi legið fyrir frá upphafi. Í skattskýrslu kæranda fyrir árið 2010 er skuldarinnar getið.

Í 15. gr. lge. segir að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Í athugasemdum með frumvarpi til lge. segir að samkvæmt 15. gr. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það ef á tímabili greiðslu­aðlögunarumleitana komi upp tilvik eða aðstæður sem hann telji að muni hindra að greiðsluaðlögun verði samþykkt. Þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þegar nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt I. og II. kafla lge.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi skuldi virðisaukaskatt að fjárhæð 4.153.401 króna en skilja verður málatilbúnað aðila þannig að með bréfi umsjónarmanns til embættis umboðsmanns skuldara 16. janúar 2012 hafi athygli embættisins fyrst beinst að skuldinni.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda sem virðisaukaskattskyldan aðila.

Að því er varðar nefnda virðisaukaskattskuld verður að líta til ákvæða d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, og hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskyldu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Með því að láta hjá líða að skila virðisaukaskatti hefur kærandi bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d–liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð um tæplega 33.000.000 króna. Skuld sem kærandi hefur stofnað til með framangreindri háttsemi er ógreiddur virðisaukaskattur sem nemur alls 4.153.401 krónu eða 4,89% af heildarskuldum hans. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f–lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur, sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að telja verulegar miðað við fjárhag kæranda þannig að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar. Þrátt fyrir að umboðsmaður skuldara hafi ekki beint málinu í réttan farveg í upphafi telur kærunefndin að það breyti engu fyrir niðurstöðu málsins.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að fella niður heimild A til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta