Mál nr. 80/2012
Fimmtudaginn 10. apríl 2014
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.
Þann 27. apríl 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. apríl 2011 þar sem umsókn hennar um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 4. maí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 15. maí 2012.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 22. maí 2012 og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
I. Málsatvik
Kærandi er fædd 1963. Hún býr ásamt sambýlismanni og börnum þeirra í eigin 115 fermetra íbúð. Samkvæmt upplýsingum kæranda búa þrjú börn kæranda og sambýlismannsins á heimilinu en þau eru á aldrinum 17 til 28 ára. Kærandi starfar hjá X og eru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hennar 104.500 krónur. Einnig fær hún barnabætur að fjárhæð 7.358 krónur á mánuði. Mánaðarlegar tekjur til framfærslu eru því að meðaltali 111.858 krónur.
Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleikar hennar til þess er hún festi kaup á fasteign árið 2008 sem áætlað var að sambýlismaður hennar gerði upp. Eignin hafi reynst í verra ástandi en ráð var fyrir gert og hafi hún verið seld með miklu tapi. Um mitt ár 2008 hafi kærandi misst atvinnu sína og verið atvinnulaus í um tvö ár.
Heildarskuldir kæranda eru 78.753.237 krónur samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara. Þar af falla 1.630.114 krónur utan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Kærandi stofnaði til helstu skulda á árunum 2005 og 2008.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 5. janúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. apríl 2012 var umsókn hennar hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Krafa er gerð um að kærunefndin hrindi synjun umboðsmanns skuldara. Til vara er þess krafist að nefndin leggi fyrir umboðsmann skuldara að endurmeta ákvörðun sína út frá nýjum gögnum.
Kærandi kveður það ekki rétt hjá umboðsmanni skuldara að hún og sambýlismaður hennar búi saman ásamt tveimur börnum sínum. Hið rétta sé að börnin séu þrjú og þau hafi verið fjögur fram á mitt ár 2011.
Kærandi segir skuldir sínar ekki 78.753.237 krónur eins og umboðsmaður skuldara haldi fram. Hún skuldi Íbúðalánasjóði ekki lán að fjárhæð 23.000.502 krónur en við sölu á B-götu nr. 22, sveitarfélaginu C, hafi kaupandi yfirtekið lánið. Íbúðalánasjóður hafi samþykkt yfirtökuna og henni hafi verið þinglýst.
Kærandi gerir athugasemdir við það mat umboðsmanns skuldara að hún hafi ekki skýrt ráðstöfun lána að fjárhæð 6.224.461 króna. Hún hafi skilað húsbyggingarskýrslu vegna endurbóta á B-götu nr. 22 með skattframtali 2010. Hún sé ekki bókhaldsskyld og þar með ekki skyldug til að setja allan kostnað í skýrsluna. Byggingakostnaður hafi verið með ólíkindum svo hún hafi kosið að hafa byggingaskýrsluna „trúverðuga“. Skattstjóri hafi ekki talið skýrsluna trúverðuga svo hann hafi breytt henni eftir sínu höfði en byggingakostnaður eftir þá breytingu hafi verið 14.959.000 krónur. Byggingakostnaðurinn hafi verið enn hærri í raun. Til viðbótar við það sem fram komi í byggingaskýrslu hafi greidd vinnulaun numið 5.000.000 króna, greitt hafi verið fyrir ástandsskýrslu til Landsbankans og matsgerð. Þá meti umboðsmaður skuldara laun til sambýlismanns kæranda 1.981.229 krónum of lág og ekki sé tekið tillit til launatengdra gjalda.
Kærandi telur framfærslugrunn umboðsmanns skuldara fráleitan en velferðarráðherra, umboðsmaður neytenda og umboðsmaður skuldara sjálfur hafi lýst honum sem ónýtu viðmiði. Umboðsmaður miði við 213.983 krónur á mánuði til framfærslu. Sambærileg viðmiðun í reiknivél velferðarráðuneytisins sé 769.778 krónur. Sé sú viðmiðun notuð verði 6.224.461 krónu meint óútskýrð fjárhæð umboðsmanns skuldara að -445.079 krónum og sé þar miðað við fjóra fullorðna og eitt barn árið 2010. Álíti kærandi að neysluviðmiði umboðsmanns skuldara verði ekki þrengt upp á hana afturvirkt fyrir árið 2010 þar sem hún hafi ekki leitað til umboðsmanns skuldara fyrr en 5. janúar 2011.
Kærandi telur umboðsmann skuldara ekki getað túlkað íþyngjandi ákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. á jafn víðtækan hátt og gert sé. Embættið láti eins og ekkert hrun hafi átt sér stað, ekkert atvinnuleysi hafi verið og afborganir lána hafi ekki hækkað. Einnig sé miðað við hæpinn og afturvirkan framfærslugrunn sem í nær öllum tilvikum sé langt frá þeim framfærslukostnaði sem fólk hafi haft. Þetta sé gegn stjórnsýsluviðmiðum, neytendasjónarmiðum og almennum væntingum sem borgarar beri til umboðsmanns skuldara.
Að því er varði „andmælabréf“ sem umboðsmaður hafi sent kæranda 24. febrúar 2012 túlki almennur borgari bréfið ekki sem „andmælabréf“ heldur bréf þess efnis að embættið sé að vinna að málinu fyrir kæranda og undirbúa greiðsluaðlögun.
Kærandi bendir á að embætti umboðsmanns skuldara sé stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga. Starfsmönnum embættisins beri því að leiðbeina þeim sem þangað leita hafi upplýsingar þeirra ekki verið fullnægjandi. Ekki nægi að segja fólki að upplýsingar séu ekki fullnægjandi. Embættið hafi ekki leitað álits á því hvers vegna ekki hafi verið greitt af tilteknu láni kæranda og þar með hafi það ekki rækt skyldur sínar um að leita allra upplýsinga. Ekki sé heldur horft til þess að greiðslugeta hafi ekki verið til staðar til að greiða af öllum lánum kæranda.
Þá álíti kærandi að embætti umboðsmanns skuldara gæti hvorki meðalhófs í ákvörðun sinni né skoði málið heildstætt. Efist umboðsmaður um að byggingakostnaður B-götu nr. 22 hafi verið svona hár eigi hann að bjóða kæranda að leggja fram óháð mat eða leggja fram sambærilegan byggingakostnað, til dæmis vegna D-vegar nr. 4.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Við mat á því skuli taka tillit til þeirra atriða sem nefnd eru í stafliðum ákvæðisins.
Í greinargerð með frumvarpi til lge. sé tekið fram að ástæðurnar sem taldar eru upp í 2. mgr. 6. gr. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.
Í greinargerð kæranda komi fram að hún reki hluta fjárhagserfiðleika sinna til kaupa á B-B-götu nr. 22 í sveitarfélaginu C sem sambýlismaður hennar hafi gert upp og hún síðan selt með miklu tapi. Kaupverð eignarinnar hafi samkvæmt skattframtali 2009 verið 22.500.000 krónur. Í samskiptum starfsmanna umboðsmanns skuldara við kæranda hafi komið fram að kærandi hafi tekið tvö lán til að fjármagna kaupin og endurbætur. Lánin hafi verið hjá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 18.000.000 króna og hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna að fjárhæð 20.000.000 króna eða alls að fjárhæð 38.000.000 króna. Samkvæmt skattframtali 2010 hafi eignin verið seld á 47.500.000 krónur. Söluhagnaður samkvæmt skattframtali og húsbyggingaskýrslu hafi verið 5.140.200 krónur sé tekið mið af kaupverði og byggingakostnaði.
Embættið hafi óskað upplýsinga um hvernig söluandvirði eignarinnar hafi verið ráðstafað. Kærandi hafi greint frá því að því hefði verið varið til yfirtöku/greiðslu 18.000.000 króna láns sem tekið hafi verið hjá Íbúðalánasjóði vegna kaupanna og til greiðslu á byggingakostnaði. Einnig hafi embættið óskað upplýsinga um byggingakostnað og hvernig 20.000.000 króna láni frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna hefði verið ráðstafað. Kærandi hafi gefið þau svör að lánið hefði verið notað til að greiða sambýlismanni laun á byggingatíma, afborganir af öðrum lánum og síðan hafi 500.000 krónum verið varið til kaupa á bifreið. Kærandi hafi vísað til skattframtala sambýlismanns vegna launa til hans. Samkvæmt skattframtali sambýlismannsins fyrir tekjuárið 2009 sé skráð á hann gjafavinna og önnur eigin vinna fyrir 4.900.000 krónur.
Sé kaupverð eignarinnar og bifreiðar dregið frá þeim lánum sem kærandi tók að fjárhæð 38.000.000 króna standi eftir 15.000.000 króna. Af svörum kæranda að dæma hafi sambýlismaður hennar fengið greiddar 4.900.000 krónur. Afborganir lána námu 5.749.223 krónum. Þá standi eftir 4.350.777 krónur af lánsfénu. Eins og fram sé komið kveður kærandi söluandvirði fasteignarinnar hafa verið notað til að greiða byggingakostnað að fjárhæð 14.959.800 krónur að frádregnum launum til sambýlismanns sem þegar hafi verið greidd af framangreindu lánsfé.
Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði 30. janúar 2012 hafi nauðsynlegum skjölum vegna yfirtöku lánsins hjá sjóðnum ekki verið skilað en staða lánsins sé nú 23.060.502 krónur. Skuldaraskipti hafi því ekki orðið af láninu. Sé gert ráð fyrir að þetta sé staða lánsins við yfirtöku standi eftir 24.439.498 krónur af söluandvirði fasteignarinnar en að frádregnum byggingakostnaði og fyrir utan greiðslur til sambýlismanns, standi eftir 9.479.698 krónur sem hefðu átt að ganga til greiðslu lánsins hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Þessu til viðbótar hafi staðið eftir 4.350.777 krónur af nefndu láni. Samtals séu því um að ræða 13.830.475 krónur.
Þann 24. febrúar 2012 hafi kæranda verið sent andmælabréf þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um hvernig ofangreindum 9.479.698 krónum sem eftir hafi staðið af söluandvirði fasteignarinnar hafi verið varið. Einnig hafi verið óskað skýringa á því hvernig afgangi af lánsfé sem tekið hafi verið til kaupanna hafi verið ráðstafað. Kærandi hafi svarað með tölvupósti 15. mars 2012 og greint frá því að á árinu 2010 hafi verið greitt af veðlánum sem hvílt hafi á fasteign hennar en á því ári hafi heimilið verið hér um bil tekjulaust og hugsanlegur afgangur því notaður til framfærslu. Einnig hefði láðst að skrá laun til sambýlismanns að fjárhæð 3.312.000 krónur í húsbyggingaskýrslu og að auki hefði aðkeypt vinna verið að minnsta kosti 5.000.000 króna hærri en fram komi í húsbyggingaskýrslu. Með tölvupósti 21. mars 2012 hafi embættið óskað eftir gögnum er sýndu fram á fjárhæð aðkeyptrar vinnu. Kærandi hafi ekki lagt fram gögn en meðal annars sagt frá því að sambýlismaður hennar hafi séð um að greiða vinnu og efni við niðurrif og verið með nokkra erlenda starfsmenn í vinnu sem hann hafi greitt vikulega.
Samkvæmt skattframtali fyrir árið 2010 hafi heildargreiðslur af lánum sem hvílt hafi á eign kæranda verið 2.831.020 krónur. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi mánaðarlegar tekjur heimilisins það ár verið 181.130 krónur og áætluð mánaðarleg framfærsla hjóna með tvö börn samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara í ágúst 2010 hafi verið 156.100 krónur. Fram komi í umsókn kæranda um greiðsluaðlögun að önnur útgjöld nú séu 57.883 krónur, þ.e. samskiptakostnaður, rafmagn, hiti, fasteignagjöld, tryggingar og skólagjöld. Sé miðað við að önnur útgjöld hafi verið sambærileg árið 2010 megi gera ráð fyrir að mánaðarleg útgjöld hafi verið 213.983 krónur eða 32.853 krónur umfram mánaðarlegar tekjur kæranda og sambýlismanns hennar. Megi því leiða líkur að því að eðlileg útgjöld heimilisins umfram tekjur hafi verið 394.236 krónur. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi heildargreiðslur af lánum kæranda auk framfærslukostnaðar verið 4.486.751 króna umfram tekjur.
Af framanrituðu megi ráða að þrátt fyrir skýringar kæranda standi eftir 6.224.461 króna sem ekki sé ljóst hvernig hún hafi ráðstafað.
Þegar allt þetta sé metið verði að telja útskýringar kæranda ófullnægjandi. Fyrirliggjandi gögn bendi til þess að kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni var framast unnt. Því telji umboðsmaður skuldara óhæfilegt að veita henni heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Að öllu þessu virtu fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun sem tekin var á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. verði staðfest með vísan til forsendna.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. en þar er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. var því umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar synjað.
Að sögn kæranda eiga fjárhagserfiðleikar hennar rætur sínar að rekja til þess að hún keypti fasteign fyrir 22.500.000 krónur árið 2008 sem sambýlismaður hennar gerði síðan upp. Þar sem eignin hafi verið í verra ástandi en ráð var fyrir gert hafi endurbætur og viðgerðir reynst mun kostnaðarsamari en talið var í fyrstu. Greinir kærandi frá því að eignin hafi verið gjörónýt og bókstaflega hrunið. Eignin var seld fyrir 47.500.000 krónur árið 2009 eftir að sambýlismaður kæranda gerði hana upp.
Fyrir liggur að kærandi tók tvö lán vegna fasteignakaupanna. Var um að ræða lán frá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 18.000.000 króna og lán frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna að fjárhæð 20.000.000 króna, eða alls 38.000.000 króna. Deilt er um hvort kærandi hefði getað greitt meira en hún gerði af þessum lánum. Er þá einkum horft til þess á hvaða verði kærandi keypti og seldi húsið, hver var kostnaður við endurbætur á húsinu (byggingakostnaður) og hver eðlilegur framfærslukostnaður kæranda hafi verið á þessum tíma.
Í tölvupósti kæranda til umboðsmanns skuldara 30. janúar 2012, aðspurð um hvernig 20.000.000 króna láni frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna hefði verið ráðstafað, vísaði kærandi til skattframtals fyrir árið 2009 að því er varðar byggingakostnað hússins og skattframtals sambýlismanns vegna launa til hans við endurbætur á húsinu. Einnig greinir kærandi frá því að 500.000 krónum verið varið til kaupa á bifreið. Þá kveður kærandi að söluandvirði fasteignarinnar hafi annars vegar farið til greiðslu á byggingakostnaði og hins vegar hafi kaupendur eignarinnar yfirtekið lán frá Íbúðalánasjóði. Kærandi getur þess einnig að byggingarkostnaður hafi reynst „margfaldur“ miðað við það sem við var búist.
Í skattframtölum kæranda og sambýlismanns hennar fyrir árið 2009 kemur eftirfarandi fram varðandi byggingakostnað og söluverð fasteignarinnar í krónum:
Kaupverð fasteignar | 22.500.000 |
Byggingakostnaður | 14.959.800 |
Laun til sambýlismanns | 4.900.000 |
Alls : | 42.359.800 |
Söluverð fasteignar : | 47.500.000 |
Söluhagnaður : | 5.140.200 |
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 24. febrúar 2012 var þess óskað að kærandi gæfi skýringar á misræmi þessu og afhenti tiltekin gögn. Jafnframt var skýrlega tekið fram í bréfinu að umboðsmaður skuldara hefði heimild til að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum framast var unnt. Loks var greint frá því að við synjun umsóknar félli niður tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. Kærandi svaraði bréfinu með þeim skýringum að byggingakostnaður hefði verið að minnsta kosti 5.000.000 króna hærri en fram komi í húsbyggingaskýrslu. Þá hefðu 1.619.614 krónur af lánsfénu verið notaðar til að greiða af lánum sem hvíldu á annarri fasteign kæranda. Loks hefði heimilið verið nær tekjulaust á árinu 2010 og hefði hugsanlegur afgangur verið nýttur til framfærslu. Kærandi lagði ekki fram gögn er sýndu fram á þessa ráðstöfun fjárins.
Kærandi sækir um heimild til greiðsluaðlögun á þeim forsendum að hún geti ekki staðið í skilum með lán vegna kaupa og endurbyggingar á henni. Lán vegna fasteignarinnar fóru í vanskil um mitt ár 2010.
Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu seldi kærandi nefnda fasteign með 5.140.200 króna söluhagnaði. Kærandi heldur því á hinn bóginn fram að eignin hafi verið seld með tapi og stafi fjárhagserfiðleikar hennar öðrum þræði af því. Fyrir liggur að skattframtal kæranda annars vegar og skýringar hennar hins vegar stangast á varðandi þetta atriði.
Úrskurður kærunefndarinnar verður ekki byggður á öðru en þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu. Er því ekki unnt að taka mið af þeim skýringum kæranda sem ekki eru studdar viðhlítandi gögnum eða stangast á við framlögð gögn í málinu. Kærandi hefur hvorki getað sýnt fram á að eignin hafi verið seld með tapi né að hún hafi nýtt söluhagnað samkvæmt framansögðu til framfærslu eða til að greiða af öðrum lánum. Það er því mat kærunefndarinnar að þær aðstæður sem lýst er í f-lið 2. mgr. 6. gr. eigi við og að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar þar sem hún hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni var framast unnt.
Niðurstaða kærunefndarinnar byggir á öllum þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu, þar á meðal gögnum sem lögð hafa verið fram undir meðferð málsins á kærustigi. Af því leiðir að varakrafa kæranda, um að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að endurmeta ákvörðun sína út frá nýjum gögnum, kemur ekki til álita.
Með vísan til alls þess er greinir hér að framan verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Lára Sverrisdóttir