Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 90/2012

Mánudaginn 5. maí 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 18. maí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. maí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 29. maí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 19. júní 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 29. október 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 8. janúar 2013. Athugasemdir bárust frá kæranda 23. janúar 2013. Voru athugasemdirnar sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 29. janúar 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins til þeirra. Umboðsmaður taldi ekki efni til að skila viðbótargreinargerð í málinu.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1963. Hann býr ásamt sambýliskonu sinni og dóttur að B götu nr. 26 í sveitarfélaginu C. Kærandi á tvö önnur börn sem dvelja hjá honum aðra hverja viku.

Kærandi er menntaður húsasmiður en stundar nú nám til að öðlast meistararéttindi. Mánaðarlega hefur hann til ráðstöfunar 152.193 krónur frá Lánasjóði íslenskra námsmanna og leigutekjur að fjárhæð 68.800 krónur eða alls 227.340 krónur.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til tekjulækkunar og atvinnuleysis. Árið 2003 hafi hann verið úrskurðaður gjaldþrota og misst íbúðarhús sitt. Árið 2007 hafi hann ásamt móður sinni stofnað félagið X ehf. en félagið hafi verið stofnað til að kaupa ófullgerða húseign við B götu nr. 26 í sveitarfélaginu C. Kaupin hafi verið fjármögnuð með lántöku og yfirtöku láns en móðir kæranda hafi lánað honum veð í fasteign sinni. Á árinu 2009 hafi kærandi keypt íbúð að D götu nr. 27 í sveitarfélaginu C með yfirtöku íbúðarlána en ráðgert hafi verið að leigja íbúðina til að byrja með. Atvinnuleysi hafi orðið til þess að hann hafi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar.

Kærandi hafi lengi starfað sem smiður þótt hann hefði ekki til þess menntun. Í byrjun árs 2009 hafi honum verið sagt upp störfum og hafi hann í kjölfarið fengið atvinnuleysisbætur. Einnig hafi hann unnið ýmis smáverkefni en tekjur af þeim hafi verið stopular. Því hafi hann hafið smíðanám og lokið því á árinu 2009. Nú stundi hann nám til meistararéttinda.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 66.397.431 króna. Utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), falla námslán og meðlagsskuld alls að fjárhæð 4.127.511 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2007 og 2009.

Ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru 3.239.235 krónur og stafa þær frá árunum 2004 og 2010.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 25. mars 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. maí 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði hnekkt. Hann kveðst kæra synjun umboðsmanns skuldara þar sem í ákvörðun hans vanti upplýsingar sem gefi aðra mynd af málinu.

Kærandi mótmælir því áliti umboðsmanns skuldara að hann hafi verið greinilega ófær um að standa við skuldbindinga sínar. Þegar hann hafi orðið atvinnulaus í desember 2008 hafi allar hans skuldbindingar verið í skilum. Umboðsmaður hafi ekki tekið tillit til tekna X ehf. en félagið eigi fasteignina að B götu nr. 26. Miðað við innkomu ársins 2009 og góða verkefnastöðu við kaup á D götu nr.  27 sé ekki hægt að segja að hann hafi verið greinilega ófær um að standa við skuldbindingar sínar. Þessu sjónarmiði til stuðnings bendi kærandi á 4. gr. lge. en þar segi í 4. tölul. 1. mgr. að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort skuldari muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra. Í ákvæðinu segi samkvæmt framangreindu að meta eigi allar tekjur og þar undir falli tekjur frá X ehf.

Að sögn kæranda hafi hann staðist greiðslumat Íbúðalánasjóðs við kaupin á D götu nr.  27 í sveitarfélaginu C. Til hafi staðið að leigja íbúðina út þannig að leigutekjur myndu standa undir afborgunum lána og fasteignagjöldum. Íbúðin sé nú í leigu og standi undir sér en leigutekjur séu 80.000 krónur á mánuði og afborganir og fasteignagjöld nemi 62.800 krónum á mánuði. Kærandi hafi ætlað að ljúka við byggingu fasteignarinnar að B götu nr. 26 og taka þá erlent lán í nafni félagsins til að greiða þau lán sem hann skuldaði sjálfur. Síðan hugðist hann leigja eignina af X ehf. eða selja hana ef of dýrt yrði að búa þar en kærandi hafi talið að fasteignin við E götu myndi seljast fyrir skuldum þegar vinnu við eignina væri lokið. Á þeim tíma er D gata nr. 27 var keypt hafi allt bent til þess að það stæðist og aldrei hafi annað staðið til en að greiða af skuldunum.

Kærandi greinir frá því að hann hafi fengið atvinnu. Einnig að hann ætlist ekki til niðurfellinga vegna lána sem hvíli á fasteigninni við D götu. Hann treysti sér til að koma þeim lánum í skil um leið og atvinna verði stöðug. Vandamálið sé E gata. Áhvílandi lán hafi verið fryst í janúar 2009 en þá hafi þau verið í skilum. Miðað við óbreytta stöðu lána standi eignin ekki undir skuldunum.

Kærandi gerir loks athugasemdir við hve langan tíma mál hans hafi tekið hjá umboðsmanni skuldara.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Við mat á slíku skuli meðal annars taka tillit til þess hvort stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Einnig skuli samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. meta hvort skuldari hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Í þessu sambandi hafi umboðsmaður sérstaklega litið til fjárhagsstöðu kæranda og þeirra skulda sem hann hafi stofnað til á árunum 2007 og 2009:

  2007 2009
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur 108.765 177.256
Nýjar skuldir á árinu 28.655.986 12.287.478 
Mánaðarleg greiðslubyrði v/E götu 129.000 167.000
Mánaðarleg greiðslubyrði v/ D götu   52.515

Á árinu 2007 hafi kærandi tekist á hendur lán að fjárhæð 28.655.986 krónur vegna kaupa einkahlutafélagsins X á fasteign að B götu en eignin sé lögheimili kæranda. Kveðst kærandi ekki hafa getað verið eigandi eignarinnar vegna gjaldþrots hans árið 2003. Eignin hafi verið færð til bókar í ársreikningum X ehf. og sömuleiðis skuldir vegna hennar þótt kærandi væri greiðandi þeirra. Skuldirnar hafi ekki verið færðar á skattframtal kæranda.

Á árinu 2009 hafi kærandi keypt fasteign að D götu nr.  27 í sveitarfélaginu C fyrir 12.600.000 krónur. Hann hafi fjármagnað kaupin með yfirtöku lána að fjárhæð 12.287.478 krónur en greitt 312.522 krónur með peningum. Á sama tíma og kærandi hafi keypt fasteignina að D götu hafi að minnsta kosti tvö lán vegna E götu verið í frystingu en lánin voru fryst 1. janúar 2009. Að sögn kæranda hafi þessar skuldir verið í frystingu vegna þess að hann hafi verið atvinnulaus og að óvissuástand hafi ríkt.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærandi átt erfitt með að mæta hefðbundnum útgjöldum vegna heimilishalds á árinu 2007 með mánaðarlegar tekjur einungis að fjárhæð 108.765 krónur. Engu að síður hafi hann tekist á hendur skuldir fyrir 28.655.986 krónur vegna kaupa á fasteign í eigu X ehf. Sé ljóst að svigrúm kæranda til að taka á sig nýjar skuldir hafi þá verið lítið sem ekkert. Þrátt fyrir þetta hafi kærandi keypt fasteign á árinu 2009 með yfirtöku lána að fjárhæð 12.287.478 krónur.

Kærandi hafi greint frá því í kæru að hann hafi fengið atvinnu. Auk þess fjalli hann um að synjun umboðsmanns skuldara byggi á kaupum á fasteigninni D götu nr. 27 í sveitarfélaginu C en hann treysti sér „til að koma því í lag“. Hvað varði þau ummæli kæranda telji umboðsmaður rétt að taka fram að við kaup á fasteigninni við D götu nr.  27 hafi kærandi verið að taka fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til skuldbindinga vegna íbúðarkaupanna var stofnað. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 18/2011 komi fram að þrátt fyrir að kærandi hafi fært rök fyrir því að taka ætti tillit til þess að fjárhagsleg staða hennar hefði breyst til hins betra þar sem sambýlismaður hennar hefði góðar tekjur hafi kærunefndin litið til þess að staða kæranda nú og í framtíðinni hafði ekki þýðingu við mat á því hvort ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við þar sem miðað sé við háttsemi og stöðu einstaklings á þeim tíma er til skulda hafi verið stofnað. Því breyti núverandi staða engu um það að vandi kæranda verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem kærandi verði sjálfur talinn bera ábyrgð á með framgöngu sinni.

Kærandi fjalli einnig um það að í tekjuáætlun hans vanti tekjur X ehf. en félagið sé eigandi fasteignarinnar að B götu nr. 26 í sveitarfélaginu C. Af því tilefni taki umboðsmaður fram að það sé kærandi sem hafi sótt um greiðsluaðlögun og því verði að meta tekjur hans enda nái greiðsluaðlögun til einstaklinga en ekki félaga í atvinnurekstri.

Kærandi hafi einnig greint frá því að við kaup á fasteigninni við D götu hafi hann staðist greiðslumat Íbúðalánasjóðs. Þrátt fyrir þetta telji umboðsmaður skuldara að ekki verði fram hjá því litið að á sama tíma hafi lán sem hvílt hafi á fasteigninni við E götu verið í frystingu hjá Íbúðalánasjóði þar sem kærandi hafði að eigin sögn ekki getu til að standa í skilum með skuldir sínar.

Með vísan til alls þess er að framan greini telji umboðsmaður skuldara að kærandi hafi bæði stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við þær og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað, sbr. b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður telji lántökur kæranda hafa verið mjög miklar þegar mið sé tekið af fjárhagsstöðu kæranda. Að öllu virtu sé það mat umboðsmanns að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár* Tegund Upphafleg Staða Vanskil Trygging
      fjárhæð   frá  
Stafir lífeyrissjóður 2007 Veðskuldabréf 5.500.000 8.709.165 2010 B gata nr. 26
Stafir lífeyrissjóður 2007 Veðskuldabréf 20.900.000 32.100.089 2011 B gata nr.  26
Sæunn Mörtudóttir 2007 Veðskuldabréf 1.700.000 2.905.508   B gata nr. 26
Lífeyrissjóður verzlunarmanna 2007 Veðskuldabréf 2.600.000 3.617.866 2010 E gata nr. 31
Íbúðalánasjóður 2009 Veðskuldabréf 6.009.000 9.272.665 2010 D gata nr. 27
Íbúðalánasjóður 2009 Veðskuldabréf 3.798.752 4.889.926 2010 D gata nr. 27
Innheimtust. sveitarfélaga 2009 Meðlag 300.941 1.184.200 2009  
Íslandsbanki 2011 Yfirdráttur   720.812 2011  
Aðrir 2011 Reikningar 33.211 62.344 2011  
LÍN   Námslán   2.934.856    
    Alls kr.: 40.841.904 66.397.431    

*Ár sem kærandi yfirtekur skuld eða stofnar til skuldar.

Á því tímabili sem hér er til skoðunar voru ráðstöfunartekjur kæranda, eignir og nýjar skuldir þessar samkvæmt gögnum málsins:

  2007 2008 2009
Meðaltekjur á mán. (nettó) 108.765 145.527 177.256
Nýjar skuldir á árinu 28.655.986   12.287.478 
Eignir 0 239 12.600.115

Markmið lge. er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð, sbr. 1. gr. laganna. Í því skyni getur sá einstaklingur leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í 2. mgr. 6. gr. eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö liðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hafi átt erfitt með að standa undir hefðbundnu heimilishaldi á árinu 2007 vegna lágra tekna. Engu að síður hafi hann tekist á hendur skuldir að fjárhæð 28.655.986 krónur það ár vegna kaupa X ehf. á fasteigninni B götu nr. 26. Þessu til viðbótar hafi kærandi keypt fasteign að D götu nr. 27 á árinu 2009 með yfirtöku lána að fjárhæð 12.287.478 krónur.

Kærandi telur sig á hinn bóginn hafa verið færan um að standa við skuldbindingar sínar þegar hann tókst á hendur nefndar skuldir. Það rökstyður hann með því að umboðsmaður skuldara hafi ekki tekið tillit til tekna X ehf. þegar greiðslugeta hans var metin.

Þær tölulegu upplýsingar sem gerð er grein fyrir hér að framan bera skýrt með sér að kærandi tókst á hendur skuldir langt umfram greiðslugetu á árunum 2007 og 2009. Ber hér að miða við tekjur kæranda sjálfs enda standa lög ekki til þess að miða við tekjur annarra en þeirra einstaklinga sem leita greiðsluaðlögunar, sbr. 2. gr. lge. Samkvæmt gögnum málsins er þannig augljóst að afborganir af nefndum lánum kæranda voru hærri en ráðstöfunartekjur hans bæði árið 2007 og árið 2009. Eignastaða kæranda gaf honum heldur ekki tilefni til skuldsetningar en á móti nýjum skuldum samtals að fjárhæð tæplega 41.000.000 króna á árunum 2007 og 2009 námu eignir hans 12.600.000 krónum. Telur kærunefndin því að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Að því er varðar ákvæði c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til máls Hæstaréttar Íslands nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaga sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli voru 81% heildarskulda vegna ábyrgðaskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara og á sama tíma og þegar til skuldbindinganna var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils eigna, tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan. Í máli þessu eru 92,6% skulda kæranda vegna títtnefndra lána vegna kaupa á fasteignunum B götu nr. 26 og D götu nr. 27. Á þeim tíma er kærandi tók lánin yfir hafði hann hvorki greiðslugetu til að greiða af þeim, sbr. það sem áður er rakið, né átti hann eignir til að selja á móti skuldunum. Að mati kærunefndarinnar tókst kærandi því á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur voru á að hann gæti greitt af miðað við tekjur, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem til skuldbindinga var stofnað.

Þegar allt framaritað er virt telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærandi stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c- liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta