Mál nr. 87/2012
Fimmtudaginn 8. maí 2014
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.
Þann 15. maí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. apríl 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 18. maí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 29. maí 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 8. júní 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 23. júní 2012.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur 1949. Hann er kvæntur og býr ásamt eiginkonu sinni í 233,9 fermetra íbúð að B götu nr. 5 í sveitarfélaginu C. Eiginkona kæranda er eigandi fasteignarinnar.
Kærandi er atvinnulaus en hafði áður með höndum eigin atvinnurekstur. Hann fær mánaðarlega greiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 133.855 krónur eftir frádrátt skatts. Aðrar tekjur kæranda eru vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla samtals að fjárhæð 37.500 krónur.
Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til ársins 2008. Hann hóf eigin atvinnurekstur 2006 eða 2007 og stofnaði þá X ehf. Félagið hafi keypt lóð og hafið byggingaframkvæmdir með vilyrði um lán frá bankastofnunum. Fjármögnunin hafi ekki staðist nema að litlu leyti. Kærandi hafði fengið að veðsetja fasteign eiginkonu sinnar auk þess að gangast í sjálfskuldarábyrgðir vegna félagsins. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 hafi orðið ljóst að ekki yrði um frekari lánafyrirgreiðslu banka að ræða og hafi eignir félagsins verið seldar á uppboði.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 70.995.750 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2004 og 2008.
Kærandi hefur tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingar fyrir félögin Y ehf. og X ehf. upphaflega að fjárhæð 108.300.000 krónur. Stafa þær frá árunum 2008 og 2009.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 30. apríl 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði endurskoðuð. Skilja verður málatilbúnað hans þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærandi telur að synjun umboðsmanns skuldara sé byggð á röngum forsendum og eigi ekki við rök að styðjast. Í ákvörðun umboðsmanns sé fullyrt að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað. Þessu mótmælir kærandi.
Kærandi telur að fjárhagsleg áhætta hans hafi ekki átt að verða nein þrátt fyrir að skuldaskjöl sýni annað. Sjálfskuldarábyrgðirnar hafi einungis verið formsatriði. Hefðu viðkomandi lánastofnanir kannað fjárhag kæranda hefði þeim átt að verða ljóst að kærandi hefði ekki verið borgunarmaður ef ábyrgðirnar féllu á hann. Á árinu 2008 hafi mánaðarlegar tekjur kæranda og eiginkonu hans verið 98.954 krónur.
Í ákvörðun umboðsmanns komi skýrt fram að kærandi hafi stofnað X ehf., keypt lóð og hafið byggingaframkvæmdir. Kærandi hafi haft vilyrði um lán frá bankastofnunum en sú fjármögnun hafi ekki staðist. Byggingarframkvæmdir hafi þá þegar verið hafnar en vegna vanefnda lánsloforðs hafi kæranda verið gert ómögulegt að ljúka þeim. Vegna þessa sitji kærandi nú uppi með sjálfskuldarábyrgðir sem hafi átt að aflétta strax að framkvæmdum loknum. Ráð hafi verið fyrir því gert að kaupendur fasteignanna yfirtækju lánin og væntanlegum arði hafi átt að ráðstafa inn á aðrar skuldir.
Kærandi hafi lagt umtalsvert eigið fé í reksturinn auk þess sem hann hafi fengið lánuð veð að kröfu bankastofnana. Við fall bankanna hafi allt það fé sem kærandi hafi lagt í félög sín tapast og áform um áframhaldandi rekstur orðið að engu. Í kjölfarið hafi eignir félaganna verið seldar á uppboði. Miðað við þessar forsendur standist rökstuðningur umboðsmanns ekki.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lge. komi fram að ákvæði 6. gr. geti girt fyrir að einstaklingur í atvinnurekstri fái greiðsluaðlögun hafi hann hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans eða tekið á sig fjárskuldbindingar sem hann var greinilega ófær um að standa við þegar hann stofnaði til þeirra.
Í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Samkvæmt gögnum málsins nemi heildarskuldir kæranda 71.012.569 krónum. Þar af sé 36.637.671 króna vegna atvinnurekstrar. Ábyrgðarskuldbindingar samkvæmt fyrirliggjandi gögnum séu allar vegna atvinnurekstrar en þær nemi 163.027.906 krónum. Samkvæmt þessu séu ríflega 85% af heildarskuldum kæranda vegna atvinnurekstrar. Ábyrgðarskuldirnar séu vegna tveggja einkahlutafélaga. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá sé kærandi stjórnarformaður og prókúruhafi þessara félaga og auk þess framkvæmdastjóri annars þeirra. Í almennum athugasemdum við frumvarp til lge. komi fram að frumvarpið taki til greiðsluaðlögunar einstaklinga en slíkir greiðsluerfiðleikar geti varðað atvinnustarfsemi að hluta til. Þar sé lögð áhersla á að einstaklingum í rekstri með ótakmarkaða ábyrgð verði gert kleift að leita nauðsynlegra úrræða sérstaklega ef rekstrargrundvöllur viðkomandi rekstrar hafi bein áhrif á fjárhag einstaklingsins og fjölskyldu hans. Sú takmörkun sem hafi verið að finna í upphaflegu frumvarpi og hafi varðað heimild einstaklinga í atvinnurekstri til að leita greiðsluaðlögunar hafi verið felld niður. Þar hafi félags- og tryggingamálanefnd Alþingis meðal annars horft til þess að ákvæði 6. gr. frumvarpsins myndu girða fyrir það að einstaklingar í atvinnurekstri sem hefðu hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu fengju heimild til greiðsluaðlögunar.
Ábyrgðarskuldbindingar kæranda vegna ofangreindra félaga stafi samkvæmt gögnum málsins frá árunum 2008 og 2009. Einnig hafi kærandi stofnað til skuldar að fjárhæð 27.000.000 króna með veði í fasteign eiginkonu sinnar.
Samkvæmt skattframtölum hafi mánaðarlegar tekjur kæranda og eiginkonu hans og nettóeignir verið eftirfarandi árin 2008 og 2009 í krónum:
2008 | 2009 | |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur | 98.954 | 224.644 |
Nettóeignir | -13.014.096 | 842.217 |
Ekki verði séð að kærandi hafi haft greiðslugetu með tekjum sínum til að standa skil á þeim skuldbindingum sem hann hafi ábyrgst á árunum 2008 og 2009 eða til að greiða lán sem hann hafi tekið 29. október 2008 og að standa undir framfærslu að auki. Samkvæmt framfærsluviðmiðum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna 1. janúar 2008 hafi kostnaður vegna framfærslu hjóna með eina bifreið verið 103.900 krónur. Telja verði að fjárhagserfiðleikar kæranda séu að mestu leyti vegna mikilla ábyrgðarskuldbindinga er hann tókst á hendur á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa undir kostnaði við eigin framfærslu og greiðslubyrði þeirra lána sem hann hafði þegar skuldbundið sig til að greiða. Þyki kærandi þannig hafa tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til skuldbindinganna var stofnað. Einnig verði að telja að fjárhæðir skuldbindinga kæranda séu svo háar og skuldirnar þess eðlis að ósanngjarnt verði að telja að greiðsluaðlögun nái til þeirra. Einnig verði að telja sjónarmið sem fram komi í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við í málinu.
Í fyrri úrskurðum kærunefndarinnar hafi niðurstaðan jafnan verið sú, að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti staðið við miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem lán voru tekin, sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Í þessu sambandi sé sérstaklega vísað til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 23/2011, sbr. úrskurði í málum nr. 11/2011 og 17/2011.
Vísa megi til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 19/2011 um þátt ábyrgðarskuldbindinga í því mati sem fram fari á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge.: „Sá sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf vissulega að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum, að hluta eða heild, þó ekki verði gengið svo langt að gera þá kröfu að ábyrgðaraðili gangi fortakslaust út frá því að hann muni á endanum þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á. Verður því að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.“ Í niðurstöðu sinni hafi kærunefndin meðal annars lagt áherslu á það annars vegar hvort ábyrgðarmaður hafi átt raunhæfa möguleika á að greiða af skuldbindingunum ef á reyndi og hins vegar á að fjárhagsstaða aðalskuldara, þ.e. þeirra sem kærandi gekkst í ábyrgð fyrir, hafi verið þannig að ábyrgðarmanni hafi mátt vera ljóst að nokkrar líkur væru á að reyna myndi á ábyrgðirnar.
Í máli þessu hafi kærandi gengist undir miklar ábyrgðarskuldbindingar miðað við tekjur og eignastöðu á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað. Hann hafi ekki rökstutt hvernig áhættan af skuldbindingunum hafi verið minni en efni þeirra gefi til kynna. Athygli kæranda hafi verið vakin á þessu með bréfi 2. mars 2012 en þar hafi honum verið boðið að leggja fram rökstuðning eða gögn sem sýndu að atvik málsins hafi ekki verið þannig að c-liður 2. mgr. 6. gr. lge. ætti við. Hvorki hafi borist haldbær rökstuðningur né gögn varðandi þetta atriði áður en ákvörðun var tekin í málinu. Ekki verði heldur séð að rökstuðningur eða gögn í þessa veru hafi fylgt þeim gögnum sem send hafi verið umboðsmanni skuldara vegna beiðni kærunefndar greiðsluaðlögunarmála um greinargerð í máli þessu.
Af öllu framangreindu virtu og með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. er það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar. Byggi sú ákvörðun á heildstæðu mati á aðstæðum kæranda.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:
Kröfuhafi | Ár | Tegund | Upphafleg | Staða | Vanskil |
fjárhæð | 2012 | frá | |||
Íslandsbanki | 2004 | Veðskuldabréf | 15.000.000 | 26.525.961 | 2011 |
Íslandsbanki | 2008 | Veðskuldabréf | 27.000.000 | 36.637.671 | 2011 |
Íslandsbanki | Yfirdráttur | 1.479.460 | 2010 | ||
Sýslumaðurinn í sveitarfélaginu D | 2006 | Þing- og sveitarsjgj. | 4.171.130 | 6.064.264 | 2006 |
Vodafone | 2010 | Reikningar | 168.578 | 288.394 | 2010 |
Alls | 46.339.708 | 70.995.750 |
Á því tímabili sem hér er til skoðunar voru samanlagðar tekjur kæranda og eiginkonu hans, eignir og skuldir samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum málsins eftirtaldar í krónum:
2007 | 2008 | 2009 | |
Meðalráðstöfunartekjur á mán. (nettó) | 328.493 | 102.034 | 222.625 |
Eignir alls: | 63.099.971 | 62.396.343 | 58.155.812 |
· Z | 26.641 | 24.689 | 23.689 |
· B gata nr. 5 | 57.150.000 | 56.900.000 | 54.850.000 |
· Bifreið S | 984.150 | 885.735 | |
· Bifreið T | 4.700.000 | 4.230.000 | |
· Bifreið U | 2.500.000 | ||
· Hlutir í félögum o.fl. | 239.180 | 27.264 | 294.001 |
· Bankainnstæður o.fl. | 328.655 | 488.122 | |
Skuldir | 40.010.987 | 75.054.520 | 56.531.472 |
Nettóeignastaða | 23.088.984 | -12.658.177 | 1.624.340 |
Höfuðstóll ábyrgðarskuldbindinga | 58.300.000 | 108.300.000 |
Kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgðir að fjárhæð 58.300.000 krónur árið 2008 en á því ári var samanlögð eignastaða hans og eiginkonu hans neikvæð um ríflega 12.600.000 krónur. Á árinu 2009 jók kærandi sjálfskuldarábyrgðir sínar um 50.000.000 króna en í lok þess árs voru nettóeignir kæranda og eiginkonu hans rétt rúmlega 1.600.000 krónur.
Ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru eftirtaldar í krónum:
Kröfuhafi | Ár | Skuldari | Tegund | Höfuðstóll | Dags. | Gjald- |
ábyrgðar | dagi | |||||
Landsbankinn | 2008 | X ehf. | Víxill | 14.500.000 | 16.9.08 | 15.12.08 |
Landsbankinn | 2008 | X ehf. | Víxill | 13.500.000 | 28.9.08 | 4.12.08 |
Landsbankinn | 2008 | X ehf. | Víxill | 14.300.000 | 12.12.08 | 12.2.09 |
Landsbankinn | 2008 | X ehf. | Víxill | 10.000.000 | 15.12.08 | 4.2.09 |
Landsbankinn | 2008 | Y ehf. | Ábyrgðaryfirlýs. | 6.000.000 | 16.9.08 | |
Byr | 2009 | X ehf. | Ábyrgðaryfirlýs. | 50.000.000 | 9.1.09 | |
Íslandsbanki | Þ ehf. | Bílasamningur | ||||
Alls | 108.300.000 |
Fjárhæð ábyrgðarskuldbindinganna var 169.027.906 krónur þegar umboðsmaður skuldara tók ákvörðun sína og voru þær því 70,4% af heildarskuldum kæranda. Alls voru ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 52.300.000 krónur til mjög skamms tíma eða eins og hálfs mánaðar til þriggja mánaða eins og taflan sýnir. Þar má einnig sjá að þegar kærandi ábyrgðist skuld að fjárhæð 14.300.000 krónur hinn 12. desember 2008 var skuld að fjárhæð 13.500.000 krónur komin í vanskil. Þegar kærandi ábyrgðist skuld að fjárhæð 10.000.000 króna hinn 15. desember 2008 var skuld að fjárhæð 14.500.000 krónur á gjalddaga. Báðar ábyrgðirnar voru vegna félags í eigu kæranda. Óumdeilt er að kærandi hefur gengist undir ábyrgðir þessar og verður kærunefndin þar af leiðandi að byggja á því.
Markmið lge. er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð, sbr. 1. gr. laganna. Í því skyni getur sá einstaklingur leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar.
Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í 2. mgr. 6. gr. eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur talist viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Í framhaldinu eru rakin atriði í sjö liðum sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita honum heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Í ákvörðun sinni vísar umboðsmaður skuldara til c-liðar ákvæðisins niðurstöðu sinni til stuðnings.
Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils eigna, tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan. Á árinu 2008 var framfærslukostnaður kæranda og eiginkonu hans samkvæmt framfærsluviðmiðum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna 103.900 krónur. Á sama tíma voru mánaðarlegar afborganir af láni kæranda hjá Íslandsbanka um 85.000 krónur og mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda og eiginkonu hans að meðaltali um 102.000 krónur. Samkvæmt gögnum málsins hrukku samanlagðar tekjur þeirra því ekki til þess að standa undir bæði framfærslukostnaði og afborgunum af láninu. Þrátt fyrir það tók kærandi annað lán hjá Íslandsbanka á árinu 2008 og nam fjárhæð þess 27.000.000 króna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var mánaðarleg greiðslubyrði lánsins í upphafi um 170.000 krónur. Að auki tókst kærandi á hendur þær sjálfskuldarábyrgðir sem að framan greinir. Liggur því fyrir að kærandi hafi hvorki haft tekjur né átt eignir til að standa undir þessum skuldbindingum.
Í máli nr. 198/2010 skýrði Hæstiréttur ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaga sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli voru 81% heildarskulda vegna ábyrgðaskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara og á sama tíma og þegar til skuldbindinganna var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar þar eð talið var ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.
Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat kærunefndarinnar að skuldbindingar sem kærandi tókst á hendur á árinu 2008 hafi verið það miklar að líta verði svo á að þær hafi verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Hvorki verður séð að kærandi hafi haft raunhæfa möguleika til að greiða af beinum skuldum sínum né greiða ábyrgðarskuldbindingar ef á þær reyndi. Þá var eignastaða kæranda og eiginkonu hans neikvæð í lok árs 2008.
Þegar allt framaritað er virt telur kærunefndin að með lántökum og ábyrgðarskuldbindingum á árinu 2008 hafi kærandi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til c- liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Lára Sverrisdóttir