Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 93/2012

Fimmtudaginn 8. maí 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 21. maí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. apríl 2012 þar sem felld var niður ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 17. mars 2011 um heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar.

Með bréfi 18. júní 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. júlí 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 23. júlí 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Kæranda lagði fram viðbótargögn 7. ágúst 2012 og 22. nóvember 2013.

Með bréfi 29. nóvember 2013 sendi kærunefndin umboðsmanni skuldara framlögð gögn kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust kærunefndinni.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1964. Samkvæmt kæru er hann búsettur á heimili móður sinnar að B götu nr. 37 í sveitarfélaginu C. Kærandi er öryrki og án atvinnu.

Kærandi er menntaður Y-fræðingur. Hann hefur fengið örorkubætur frá árinu 1993 þegar hann greindist með geðhvarfasjúkdóm og geðklofa. Hann hefur lengi átt við áfengisvanda að stríða. Tekjur kæranda eru 185.389 krónur á mánuði samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara frá 25. febrúar 2011.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 5.136.725 krónur og falla þar af 149.951 króna utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Kröfur sem falla utan samnings eru þing- og sveitarsjóðsgjöld.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til ársins 1997. Á þeim tíma hafi skuldir hans byrjað að safnast upp og hann ekki náð að greiða af þeim.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 17. mars 2011 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og honum í kjölfarið skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum.

Með bréfi umsjónarmanns 17. nóvember 2011 lagði umsjónarmaður til við umboðsmann skuldara að heimild kæranda til greiðsluaðlögunar yrði felld niður á grundvelli 15. gr. lge. Í tilkynningu umsjónarmanns kemur fram að ekki hafi tekist að ná samkomulagi við kröfuhafa vegna þess að kærandi eyði 67.191 krónu á mánuði í áfengi og tóbak. Þá hafi kærandi gefið í skyn að tekjur hans væru í raun hærri en fyrirliggjandi gögn beri með sér og að hann eyði í raun mun hærri fjárhæð í áfengi og tóbak. Að mati umsjónarmanns hafi kærandi vanrækt skyldur sínar sem komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun væri heimil. Vísaði umsjónarmaður til b-, c- og d-liða 1. mgr. 6. gr. lge. og taldi að kærandi hefði brotið gegn lagaákvæðinu.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 17. janúar 2012 var kæranda veitt áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunarumleitana. Vísaði umboðsmaður skuldara til upplýsinga frá kæranda um minni fjárútlát vegna áfengis og tóbaks sem og félagslegrar stöðu hans. Þá hafi ekki komið í ljós við skoðun umboðsmanns skuldara að kærandi hefði haft getu til að leggja fyrir meira fé af launum sínum en raun bar vitni. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um áframhaldandi greiðsluaðlögun kæranda barst umsjónarmanni með bréfi 17. janúar 2012. Í bréfinu kemur fram að sökum nýrra upplýsinga og gagna frá kæranda, svo og vegna erfiðrar félagslegrar stöðu hans, sé ekki rétt að fella niður heimild hans til greiðsluaðlögunar samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr., sbr. 2. mgr. 12. gr., auk 15. gr. lge.

Með bréfi umsjónarmanns 3. apríl 2012 lagði umsjónarmaður í annað sinn til við umboðsmann skuldara að heimild kæranda til greiðsluaðlögunar yrði felld niður á grundvelli 15. gr. lge. Umsjónarmaður hafi útbúið nýtt frumvarp á grundvelli nýrra upplýsinga frá umboðsmanni skuldara um framfærslu kæranda en þegar frumvarpið hafi verið lagt fyrir kæranda hafi komið fram að kærandi var ekki tilbúinn til að lækka fjárútlát vegna áfengis og tóbaks. Þann 16. febrúar 2012 sendi umsjónarmaður frumvarp kæranda til kröfuhafa. Andmæli bárust frá embætti tollstjóra þar sem kærandi var í vanskilum með þing- og sveitarsjóðsgjöld að fjárhæð 37.436 krónur sem ekki féllu undir frumvarpið. Umsjónarmaður upplýsti kæranda að sú krafa yrði að vera greidd til þess að embætti tollstjóra samþykkti frumvarp kæranda. Kærandi kvaðst ekki sjá sér fært að greiða kröfuna. Í ljósi þess að greiðslugeta kæranda nam  45.000 krónum samkvæmt gögnum málsins taldi umsjónarmaður að kærandi hafi ekki gefið rétta mynd af fjárhag sínum. Að mati umsjónarmanns hafi kærandi því vanrækt skyldur sínar sem kæmi í veg fyrir að greiðsluaðlögun væri heimil. Vísaði umsjónarmaður til b-, c- og d-liða 1. mgr. 6. gr. lge.

Með bréfi til kæranda 28. mars 2012 felldi umboðsmaður skuldara niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar frá 17. mars 2011 með vísan til 15. gr., sbr. b-, c- og d-liði 1. mgr. 6. gr. lge., sem og til d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Kæranda var ekki veitt tækifæri til andmæla áður en umboðsmaður skuldara tók ákvörðun um að fella niður heimildina.

 

II. Sjónarmið kæranda

Málatilbúnað kæranda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild hans til að leita greiðsluaðlögunar verði felld út gildi.

Kærandi telur að útgjaldaáætlun hans hafi verið lækkuð einhliða. Kærandi gerir þá kröfu að fá að gera nýja útgjaldaáætlun.

Krafa hafi verið gerð um að hann greiddi 37.000 króna skattskuld og að hann legði fyrir 45.000 krónur á mánuði í tvö ár. Þetta kveðst kærandi ekki geta gert. Í frumvarpi til greiðsluaðlögunar hafi verið gert ráð fyrir 90% niðurfellingu á skuldum fyrir utan lífeyrissjóðslán.

Kærandi lagði fram gögn undir rekstri málsins hjá kærunefndinni. Þessi gögn voru meðal annars ný útgjaldaáætlun miðað við stöðu kæranda 27. júlí 2012, staða yfirdráttar á reikningi kæranda í Íslandsbanka, afrit af afborgunarsamningi hjá S24 og greiðslustaða kæranda hjá Tollstjóranum í Reykjavík.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild kæranda til greiðsluaðlögunar kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 1. mgr. 12. gr. lge. sé kveðið á um skyldur skuldara á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað hafi verið til væri nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Í 6. gr. lge. séu tilteknar þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. komi fram að synja skuli um heimild ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Einnig segi í c-lið 1. mgr. 6. gr. að synja skuli um greiðsluaðlögun ef aðstæður við stofnun skulda eða síðari ráðstafanir skuldara bendi ótvírætt til þess að hann hafi hegðað sér á óheiðarlegan hátt til þess að geta leitað greiðsluaðlögunar. Loks komi fram í d-lið 1. mgr. 6. gr. að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem hafi verið mikilsverðar í málinu.

Umsjónarmaður kæranda hafi metið það svo að fella bæri niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda á grundvelli framangreinds. Taldi umsjónarmaður að ákveðnir óvissuþættir hafi verið fyrir hendi í máli kæranda þess eðlis að ekki hafi verið mögulegt að fá heildarmynd af fjárhag hans og greiðslugetu. Mat umsjónarmanns hafi því verið að kærandi uppfyllti ekki skilyrði lge. um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hafi ekki dregið úr útgjöldum sínum vegna áfengis- og tóbaksneyslu. Áætlað hafi verið að kostnaður kæranda vegna þess hafi að jafnaði verið um 70.000 krónur mánaðarlega. Fjárútlát kæranda vegna áfengis og tóbaks hafi leitt til frekari skuldasöfnunar á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Telur umboðsmaður skuldara að slík háttsemi hafi skaðað hagsmuni kröfuhafa og hafi kærandi með háttseminni brotið gegn skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá telur umboðsmaður skuldara að útgjöld vegna tóbaks og áfengis í þeim mæli sem um ræðir, geti ekki talist til heimilisnauðsynja í skilningi lge., sbr. a- og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þá telur umboðsmaður skuldara að þeir óvissuþættir séu fyrir hendi í máli kæranda að ekki sé mögulegt að fá heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu hans, sbr. 1. mgr. 6. gr. lge. Þá sé það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi veitt umsjónarmanni sem og starfsmönnum umboðsmanns skuldara rangar upplýsingar um hagi sína við vinnslu umsóknar hans um greiðsluaðlögun, sbr. c- og d-liði 1. mgr. 6. gr. lge. Fram hafi komið í bréfi kæranda 11. janúar 2012 að hann hafi ekki hug á að láta af útgjöldum vegna áfengis- og tóbaksneyslu. Forsendur fyrir áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitunum samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara 17. janúar 2012 um áframhaldi greiðsluaðlögunarumleitanir séu því brostnar.

Umboðsmaður skuldara hafi því fallist á mat umsjónarmanns þess efnis að kærandi hafi með hátterni sínu brotið gegn b-, c- og d-liðum 1. mgr. 6. gr. lge., sem og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge., sem leitt hafi til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 15. gr. lge.

Kæranda hafi ekki verið veittur kostur á því að tjá sig um efni tilkynningar umsjónarmanns 3. apríl 2012, sbr. ákvæði 1. mgr. 15. gr. lge., enda hafi kærandi fengið tækifæri til að tjá sig um málavexti fyrri tilkynningar umsjónarmanns 17. nóvember 2011. Ljóst hafi verið að ekki hefði orðið breyting á áfengis- og tóbaksnotkun kæranda, og kærandi hefði ítrekað lýst því yfir að honum sé nauðsynlegt að halda slíkum útgjöldum óbreyttum. Því hafi verið ljóst að afstaða hans hafi þegar legið fyrir og frekari andmæli af hálfu kæranda óþörf, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara 4. júlí 2012 kemur fram að embættið telji að í hinni kærðu ákvörðun hafi meðal annars falist ígildi afturköllunar á ákvörðun um áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitanir frá 17. janúar 2012, enda hafi þá legið fyrir að sú ákvörðun var ógildanleg, sbr. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga, þar sem hún byggði á röngum upplýsingum frá kæranda. Þannig verði ekki talið að kærandi hafi getað átt réttmætar væntingar til þess að greiðsluaðlögunarumleitunum yrði haldið áfram. Þá hafi ekki þótt tilefni til að afla frekari gagna áður en ákvörðunin var tekin, enda hafi afstaða kæranda legið fyrir, meðal annars vegna samskipta hans við umsjónarmann, og honum hafði verið veitt tækifæri til að láta álit sitt í ljós eftir að tilkynning umsjónarmanns samkvæmt 15. gr. lge. barst umboðsmanni skuldara 17. nóvember 2011. Frekari gagnaöflun, þar á meðal frá kæranda, hefði ekki getað varpað frekara ljósi á málið. Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hafi ekki lagt fram nýjar upplýsingar eða ný gögn fyrir kærunefndina sem bendi til þess að atvik málsins hafi verið með öðrum hætti en hin kærða ákvörðun byggðist á.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til d-liðar 12. gr. lge. og b-, c- og d-liða 1. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt 12. gr. lge. skal skuldari haga fjármálum sínum með ákveðnum hætti meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Í d-lið kemur fram að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Samkvæmt 6. gr. lge. geta ákveðnar aðstæður komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. kemur fram að synja skuli um greiðsluaðlögun ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í c-lið 1. mgr. 6. gr. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef aðstæður við stofnun skulda eða síðari ráðstafanir skuldara benda ótvírætt til þess að hann hafi hegðað sér á óheiðarlegan hátt til að geta leitað greiðsluaðlögunar. Jafnframt kemur fram í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. að synja skuli um greiðsluaðlögun hafi skuldari af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu.

Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum í heild og takmarkast heimild til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana ekki við þau tilvik þegar skuldari bregst skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna. Í skýringum við frumvarp til laga nr. 101/2010 segir um ákvæði 15. gr. þeirra að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar og er þar sérstaklega vísað til I. og II. kafla laganna.

Málsmeðferð umsjónarmanns

Samkvæmt gögnum málsins var það mat umsjónarmanns að í máli kæranda hafi komið fram upplýsingar sem ætla mættu að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli lge. og bæri honum í samræmi við 15. gr. laganna að leggja til við umboðsmanns skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrði felldar niður.

Fyrri tilkynning umsjónarmanns barst umboðsmanni skuldara með bréfi 17. nóvember 2011. Þar kemur fram að umsjónarmaður hafi útbúið frumvarp til greiðsluaðlögunar sem lagt hafi verið fyrir kröfuhafa. Ekki hafi tekist að ná samkomulagi við kröfuhafa þar sem framfærsluáætlun kæranda hafi gert ráð fyrir 67.191 krónu kostnaði á mánuði í áfengi og tóbak. Kröfuhafar hafi ekki verið tilbúnir að fallast á frumvarp kæranda nema þessi fjárhæð yrði lækkuð til muna. Umsjónarmaður hafi rætt við kæranda og gert honum grein fyrir því að frumvarp hans yrði ekki samþykkt ef útgjöld vegna áfengis og tóbaks yrðu ekki lækkuð. Kærandi hafi ekki verið tilbúinn að þess að lækka útgjöld vegna þessa. Þá hafi kærandi gefið í skyn að upplýsingar sem hann hafi veitt hafi ekki verið réttar. Bæði séu tekjur hans hærri en tilgreint hafi verið í fyrirliggjandi gögnum og að ástæðan fyrir því að hann sé ekki tilbúinn til að lækka útgjöld vegna áfengis og tóbaks hafi verið vegna þess að hann eyði í raun mun hærri fjárhæð mánaðarlega og því væri ekki raunhæft að lækka hana. Jafnframt kemur fram í tilkynningunni að um sé að ræða dagdrykkjumann sem eigi að baki margar áfengismeðferðir og eftir að hafa átt samskipti við hann sé ljóst að ekki verði breytingar á því. Umsjónarmaður telur því að afturkalla verði heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge. með vísan til b-, c- og d-liða 1. mgr. 6. gr. lge.

Miðað við fyrirliggjandi gögn voru að mati kærunefndarinnar engar nýjar upplýsingar eða tilvik komin fram sem gátu valdið því að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á þessum tíma með vísan til 15. gr. lge. Upplýsingar um framfærslu kæranda, þar með talið vegna áfengis og tóbaks, hafa legið fyrir allt frá því umsókn hans um heimild til greiðsluaðlögunar barst umboðsmanni skuldara 7. nóvember 2010. Þá eru fullyrðingar umsjónarmanns um hærri tekjur og hærri útgjöld vegna áfengis og tóbaks órökstuddar.

Í 1. mgr. 18. gr. er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla lge. ekki tekist við kröfuhafa þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Telja verður að við framangreindar aðstæður hafi umsjónarmanni verið rétt að beina málinu í farveg 18. gr. lge. og haga málsmeðferð í samræmi við það.

Málsmeðferð umboðsmanns skuldara

Samkvæmt því sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara var heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar felld úr gildi án þess að kæranda hefði verið veittur kostur á að tjá sig um framkomnar upplýsingar, sbr. 15. gr. lge., enda hafi afstaða kæranda þegar legið fyrir og frekari andmæli af hans hálfu óþörf, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 13. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að veita skuli málsaðila kost á að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í 15. gr. lge. kemur fram að áður en umboðsmaður tekur afstöðu til upplýsinga með ákvörðun sem ætla má að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil skuli skuldara gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós. Í skýringum við ákvæðið kemur fram að skuldara skuli gefinn skammur frestur til að láta álit sitt í ljós eða koma með viðeigandi skýringar. Ákvæði lge. mælir því fyrir um að skuldara skuli ávallt veitt færi á að koma að áliti sínu eða skýringum sé það ætlun umboðsmanns skuldara að taka ákvörðun í máli hans vegna framkominna upplýsinga samkvæmt 15. gr. lge. Ákvæði lge. gengur framar stjórnsýslulögum, sbr. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga.

Í málinu liggur fyrir að umboðsmaður skuldara veitti kæranda ekki færi á að tjá sig áður en ákvörðun um að fella niður heimild hans til greiðsluaðlögunar var tekin. Var sú málsmeðferð ekki í samræmi við fyrirmæli 15. gr. lge. samkvæmt því sem að framan greinir. Telst það verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara sem leiðir til þess að fella ber hana úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta