Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 94/2013

Fimmtudagurinn 15. ágúst 2013

 

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 18. júní 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 5. júní 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn nauðasamningi með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Kærandi leitaði greiðsluaðlögunar og veitti umboðsmaður skuldara samþykki fyrir henni 20. apríl 2012.

Þann 11. maí 2012 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda og þann 25. febrúar 2013 var frumvarp sent til kröfuhafa, sbr. 1. mgr. 17. gr. lge.

Kröfuhafar samkvæmt frumvarpinu eru Íbúðalánasjóður, Landsbankinn hf., Íslandsbanki hf., Vátryggingafélag Íslands hf., Borgun hf., Byko ehf., Orkuveita Reykjavíkur og Krýna ehf.

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að kröfuhafar hafi mótmælt frumvarpinu. Umsjónarmanni hafi tekist að fá hluta kröfuhafa til að falla frá mótmælum sínum, þó með þeim fyrirvara að þeir gætu komið á framfæri frekari athugasemdum ef tilefni þætti til. Landsbankinn hafi ekki afturkallað andmæli sín um að kærandi fengi algera eftirgjöf samningskrafna sinna en lánanefnd bankans hafi hins vegar verið tilbúin til að samþykkja 90% niðurfellingu þeirra. Uppfærð tillaga hafi verið kynnt kæranda í framhaldinu. Kærandi hafi ekki fallist á þá tillögu.

Í símtali við umsjónarmann þann 5. júní 2013 óskaði kærandi eftir því við umsjónarmann að nauðasamnings um greiðsluaðlögun yrði leitað.Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með bréfi samdægurs ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningnum.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun skipaðs umsjónarmanns kemur fram að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar kæranda hafi verið lagt til grundvallar að kærandi gæti greitt 95.167 krónur á mánuði fyrir utan framfærslukostnað og hafi átt að ráðstafa þeirri fjárhæð að fullu til greiðslu afborgana fasteignaveðkrafna, sem féllu innan matsverðs fasteignar kæranda. Kærandi hafi verið búinn að leggja 100.000 krónur fyrir  í greiðsluskjóli og hafi verið lagt til að sú fjárhæð yrði greidd í einu lagi. Fyrst skyldi greiða lögveðskröfur en eftirstöðvum skyldi ráðstafað hlutfallslega til greiðslu veðkrafna sem féllu utan matsverðs fasteignarinnar og samningskröfuhafa. Lengd greiðsluaðlögunartímabils hafi átt að vera 24 mánuðir en að þeim tíma loknum skyldi fara fram á eftirgjöf í samræmi við tillögu umsjónarmanns. Þá hafi umsjónarmaður lagt til að fram færi full eftirgjöf samningskrafna að greiðsluaðlögunartímabili loknu.

Kröfuhafar hafi mótmælt frumvarpinu en umsjónarmanni hafi tekist að fá hluta þeirra til að falla frá mótmælum sínum. Mótmæli Landsbankans hafi ekki verið afturkölluð en umsjónarmaður hafi talið tillögu Landsbankans um 90% niðurfellingu samningskrafna sanngjarna og vert að fallast á hana. Við mat á eftirgjöf hafi umsjónarmaður sérstaklega haft í huga hvort og að hvaða marki kærandi ætti að geta staðið undir eftirstæðum kröfum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Hafi uppfærð tillaga umsjónarmanns um 90% eftirgjöf tekið mið af stöðu og högum kæranda almennt, meðal annars aldri, greiðslugetu á greiðsluaðlögunartímabili og framtíðarhorfum hans almennt. Auk þess hafi legið fyrir afstaða kröfuhafa um að ekki yrði fallist á hærri eftirgjöf. Þessi uppfærða tillaga hafi síðan verið kynnt kæranda í framhaldinu.

Umsjónarmaður vísar í svar kæranda frá 1. júní 2013. Kærandi hafi þar gert athugasemdir við hið uppfærða frumvarp. Þar komi meðal annars fram að kærandi telji að endurreikna þurfi bílalán hans áður en samningurinn verði undirritaður. Eins hafi kærandi viljað að nákvæm krónutala lægi fyrir vegna þeirra 10% samningskrafna hans sem kröfuhafar vildu að hann greiddi við lok greiðsluaðlögunartímabils. Auk þess hafi kærandi ekki getað sætt sig við að kröfuhafar gætu einhliða endurskoðað samninginn og krafist hærri greiðslna ef laun kæranda hækkuðu.

Ofangreindu erindi kæranda hafi verið svarað á þá leið að ekki væru tök á að fresta afgreiðslu málsins á meðan beðið væri eftir niðurstöðu um endurútreikning bílalána hans en jafnframt áréttað að með því væri ekki fallið frá hugsanlegum betri rétti kæranda. Þá hafi honum verið gerð grein fyrir því að ekki væri mögulegt að semja um fasta krónutölu eftirstöðva, enda bæri að semja um hlutfallslega eftirgjöf á kröfum eins og þær stæðu að greiðsluaðlögunartímabili loknu, eða eftir 24 mánuði í tilviki kæranda. Að lokum hafi verið bent á að ekki væri unnt að setja inn fyrirvara við lögbundnar heimildir kröfuhafa til endurskoðunar samnings. Lagaheimildir kröfuhafa stæðu í veg fyrir því auk sjónarmiða um jafnræði við afgreiðslu greiðsluaðlögunarmála einstaklinga. Sérstök athygli hafi þó verið vakin á því að í framkvæmd hefði ekki reynt mikið á einhliða endurskoðun af hálfu kröfuhafa nema verulegar breytingar hefðu orðið á högum skuldara.

Í ljósi þess að frekari skýringar hefðu verið veittar kæranda, hafi verið óskað eftir því að hann léti í ljós afstöðu sína til frumvarps að samningi um greiðsluaðlögun sem myndi leggja til 90% hlutfallslega eftirgjöf samningskrafna að greiðsluaðlögunartímabili loknu. Kærandi hafi látið í ljós afstöðu sína með tölvupósti 1. júní 2013. Þar hafi komið fram sú afstaða hans að bíða ætti eftir endanlegum útreikningum á lánum þannig að ljóst yrði nákvæmlega hversu há fjárhæð 10% af samningskröfum hans yrði.

Umsjónarmaður telji í ljósi ofangreinds að skýr afstaða kæranda liggi fyrir gegn því að frumvarp verði sent út fyrir hans hönd þar sem gert sé ráð fyrir 90% hlutfallslegri eftirgjöf. Það sé mat umsjónarmanns að tillagan sem hafi borist frá Landsbankanum hafi verið sanngjörn, enda hafi mótmæli kröfuhafans verið sanngjörn og sett fram á málefnalegum grundvelli að mati umsjónarmanns. Auk þess myndi samningurinn fela í sér umtalsverða eftirgjöf sem gæti markað nýtt upphaf fyrir kæranda og gefið honum raunhæfan kost á að koma fjármálum sínum til frambúðar í stöðugara og betra horf. Að mati umsjónarmanns megi ætla að kærandi verði fær um að standa undir þeim eftirstöðvum sem lagðar hafi verið til af hálfu Landsbankans, enda geti kærandi greitt af skuldum sínum þrátt fyrir að vera nánast einvörðungu á bótum, en auk þeirra fái hann lágar verktakagreiðslur.

Í símtali við umsjónarmann 5. júní 2013 hafi kærandi ítrekað fyrri afstöðu sína til frumvarpsins eftir að honum var boðið að endurskoða hana. Kærandi hafi óskað eftir því að nauðasamnings yrði leitað þar sem lögð yrði til grundvallar föst fjárhæð eftirstöðva. Kæranda hafi þegar í sama símtali verið gerð grein fyrir því að umsjónarmaður myndi ekki mæla með nauðasamningi eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, enda hafi hann ekki talið lagaheimildir til staðar til að styðja kröfur kæranda.

Umsjónarmaður telur að kærandi leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags og framtíðarhorfa, sbr. 1. mgr. 18. gr. lge., en að auki hafi kærandi farið fram á að frumvarp til samning um greiðsluaðlögun yrði gert úr garði á þann hátt sem eigi sér ekki stoð í lge. og myndi brjóta í bága við jafnræðissjónarmið stjórnsýsluréttarins. Afstaða umsjónarmanns sé skýr sem og afstaða kæranda og virðist sem aðilar geti ekki leyst úr ágreiningi sínum.

Varðandi viðhorf lánveitenda sé ljóst að a.m.k. Landsbankinn sé ekki reiðubúinn að samþykkja fulla eftirgjöf en væri reiðubúinn að samþykkja 90% eftirgjöf. Það sé því útséð um að kröfuhafar myndu mótmæla frumvarpi sem myndi á nýjan leik mæla fyrir um fulla eftirgjöf.

Í ljósi þessa hafi umsjónarmaður ekki séð annað fært en að mæla gegn því að nauðasamningar kæmust á með vísan til 2. mgr. 18. gr. lge.

III. Sjónarmið kæranda

Í kæru bendir kærandi á að allir kröfuhafar hafi samþykkt 100% niðurfellingu nema Landsbankinn. Bankinn eigi tvær kröfur á hendur kæranda sem séu bílalán sem hafi verið gengistryggð og eigi eftir að endurreikna í samræmi við nýlegan dóm Hæstaréttar.

Fer kærandi því fram á að 100% niðurfelling standi á þeim forsendum að kærandi skuldi Landsbankanum ekkert. Bendir kærandi á að staða bílasamnings nr. N sé 1.459.339 krónur. Landsbankinn hafi fengið afhent ökutækið X sem metið sé á 1.790.000 krónur og hafi ekki verið gjaldfært upp í kröfuna. Staða bílasamnings nr. M sé 3.531.803 krónur. Landsbankinn hafi fengið afhent ökutækið Y sem metið sé á 2.790.000 krónur sem einnig sé ógjaldfært. Enn eigi eftir að endurreikna þessa samninga og telur kærandi að þeir muni lækka um rúma 1.000.000 króna. Landsbankinn sé því ekki raunverulegur kröfuhafi og eigi því ekki að hafa áhrif á samning kæranda.

IV. Niðurstaða

Hlutverk umsjónarmanns með greiðsluaðlögun er samkvæmt 18. gr. lge. að taka rökstudda afstöðu til þess hvort hægt sé að koma á nauðasamningi á milli aðila. Mat umsjónarmanns verður að byggjast á skýrum málefnalegum grunni og nákvæmri athugun gagna sem greinargerð hans verður síðan að endurspegla. Mat á samningsvilja og samningsgetu kröfuhafa og skuldara verður að sama skapi að vera byggt á hlutlægum sjónarmiðum, sbr. þau efnisatriði sem talin eru upp 1. mgr. 18. gr. lge. Umsjónarmanni ber sérstök skylda til að gæta jafnræðis aðila og jafnframt skylda til samráðs við skuldara áður en hann kveður upp úr um að ókleift sé að mæla með nauðasamningi.

Ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn því að nauðasamningur kæmist á byggðist á því að kærandi leitaði eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags og framtíðarhorfa, sbr. 1. mgr. 18. gr. lge. Kærandi sóttist eftir algerri eftirgjöf samningskrafna sinna sem ljóst sé að kröfuhafar muni ekki fallast á að svo komnu máli en í staðinn boðið 90% eftirgjöf sem kærandi hafi hafnað. Að mati umsjónarmanns hafi kærandi farið farið fram á frumvarp sem eigi sér ekki stoð í lge. og myndi brjóta í bága við jafnræðissjónarmið stjórnsýsluréttarins.

Gögn málsins sýna fram á að lögmælt samráð umsjónarmanns og kæranda hafi átt sér stað með réttum hætti. Kærandi heldur því fram fyrir nefndinni að hann eigi rétt á 100% niðurfellingu samningskrafna sinna í stað 90% eins og tillaga umsjónarmanns kvað á um, og að allir kröfuhafar séu samþykkir 100% niðurfellingu nema einn. Ekki verður fallist á að þá ályktun megi draga af gögnum málsins en þar kemur fram að fleiri kröfuhafar en Landsbankinn hafi andmælt upphaflegu frumvarpi. Jafnframt verður heldur ekki fallist á þau rök kæranda að hann skuldi Landsbankanum ekkert, enda er enn óljóst hverjar eftirstöðvar lána hans hjá bankanum verða að endurútreikningi loknum.

Í frumvarpi umsjónarmanns með greiðsluaðlögun kæranda var niðurstaðan sú að kærandi gæti greitt kröfuhöfum mánaðarlega 95.167 krónur fyrir utan framfærslukostnað og hafi frumvarpið verið sent kröfuhöfum með samþykki kæranda. Þrátt fyrir að sú fjárhæð hafi fyrst og fremst átt að renna til greiðslu fasteignaveðkrafna kæranda þykir áðurnefnd fjárhæð það há að ekki þyki fyllilega sýnt fram á að kærandi sé alls ófær um að standa undir greiðslu einhvers hluta samningskrafna sinna að greiðsluaðlögunartíma liðnum. Í ljósi þess telur nefndin að fyrir liggi að kærandi leiti eftirgjafar skulda umfram það sem eðlilegt megi teljast í skilningi 1. mgr. 18. gr. lge.

Með vísan til þess er ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn nauðasamningi kæranda staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, um að mæla gegn nauðasamningi A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta