Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 25/2013

Fimmtudagurinn 15. ágúst 2013

 

A hf.

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 15. febrúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A hf. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 31. janúar 2013, þar sem synjað var kröfu bankans um breytingu á samningi B og C um greiðsluaðlögun.

Með bréfi, dags. 25. febrúar 2013, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 5. mars 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 15. mars 2013, og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með ódagsettu bréfi sem móttekið var 2. apríl 2013.

 I. Málsatvik

Með bréfi kæranda til umboðsmanns skuldara, dags. 9. janúar 2013, var þess krafist með vísan til 1. mgr. 25. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.), að samningi skuldara yrði breytt í samræmi við betri fjárhagsstöðu hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í bréfi kæranda kemur fram að greiðsluaðlögunarsamningur sem komst á 12. júlí 2012 hafi kveðið á um að skuldarar fengju sex mánaða greiðslufrest vegna samningskrafna sinna sökum neikvæðrar greiðslugetu þeirra um 20.406 krónur á mánuði. Gildistími greiðsluaðlögunarsamningsins hafi verið frá 5. september 2012 til 5. mars 2013. Að loknu tímabilinu hafi átt að fella niður kröfur á hendur skuldurum um 80%. Skuldarar hafi haft samband við A hf. til þess að semja um þau 20% sem eftir stóðu af samningskröfum þeirra og hafi lagt til að þau myndu greiða bankanum eingreiðslu. Í ljósi þess að fjárhagsstaða skuldara hefði batnað umtalsvert á greiðsluaðlögunartímabilinu hafi A hf. krafist þess að breytingar yrðu gerðar á greiðsluaðlögunarsamningi, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. lge.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 31. janúar 2013, synjaði umboðsmaður skuldara kæranda um breytingu á samningi um greiðsluaðlögun.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 31. janúar 2013, og að eingreiðsla að fjárhæð 1.531.000 krónur verði greidd til kröfuhafa, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. lge. Kærandi gerir tilkall til 15% af þeirri fjárhæð og séu því 229.650 krónur sú fjárhæð sem falli í hlut kæranda sé fylgt ákvæðum lge.

Í kæru kemur fram að í ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi embættið hafnað því að fjárhæðin félli undir 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. lge. þar sem embættið líti svo á að fjárhæðin hafi verið tekjur sem ekki skuli nota til greiðslu skulda í greiðsluaðlögunarsamningi. Embættið byggði meðal annars á því að séreignarsparnaður væri ekki aðfararhæfur og skuldheimtumönnum því óheimilt að krefjast þess að skuldari tæki út séreignarsparnað sinn, sbr. lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (sll.). Þar sé embættið líklegast að vísa til 6. mgr. VIII. ákvæðis til bráðabirgða, sbr. 8. gr. sll., þar sem meðal annars sé kveðið á um að skuldheimtumönnum sé óheimilt að krefjast þess að skuldarar taki út séreignarsparnað sinn.

Kærandi bendir á að í athugasemdum við 25. gr. lge. í frumvarpi til laganna komi fram að þegar skuldari fái háa eingreiðslu á greiðsluaðlögunartímabilinu, til dæmis arf eða annað þess háttar, geti lánardrottinn krafist þess að fénu verði skipt á milli lánardrottna án þess að greiðsluaðlöguninni verði breytt að öðru leyti. Kærandi telur að útgreiðsla á séreignarlífeyrissparnaði falli undir tilvitnuð ákvæði 25. gr. lge., sér í lagi með tilliti til þess að í frumvarpi sé tekið fram að arfur geti flokkast sem greiðsla til lánardrottna í skilningi ákvæðisins, þrátt fyrir að arfur í óskiptu búi sé undanþeginn fullnustu skuldheimtumanna á grundvelli erfðalaga nr. 8/1962. Eins megi telja að þrátt fyrir að skuldheimtumönnum sé óheimilt að krefjast fullnustu á séreignarlífeyrissparnaði, sbr. nefnd ákvæði sll., gildi slíkt ekki þegar slíkur sparnaður hafi verið leystur út, eins og í þessu máli. Þvert á móti geri löggjafinn ráð fyrir því að eftir innlausn á arfi á greiðsluaðlögunartímabili geti lánardrottinn krafist þess að hann sé greiddur út til kröfuhafa í tiltölu við kröfufjárhæð þeirra, eins og skýrlega komi fram í athugasemdum við 25. gr. lge. Kærandi telur slíkt einnig gilda um útgreiddan séreignarlífeyrissparnað.

Samkvæmt framangreindu hafnar kærandi röksemdafærslu umboðsmanns skuldara og getur ekki fallist á afstöðu embættisins, enda sé hún ekki í samræmi við 25. gr. lge. og þau skýringargögn sem þar búi að baki.

Þá bendir kærandi á að óskað hafi verið eftir frekari gögnum frá umboðsmanni skuldara vegna ákvörðunar embættisins. Ekki hafi verið orðið við þeirri ósk og telur kærandi að með þeirri afstöðu hafi embættið brotið gegn 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) þar sem kærandi eigi augljósra hagsmuna að gæta í málinu og teljist aðili málsins.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 31. janúar 2013, kemur fram að 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. lge. kveði á um skilyrði þess að lánardrottinn, sem greiðsluaðlögun nái til, geti óskað eftir breytingum á samningi skuldara. Áskilið sé að fjárhagsstaða skuldara hafi batnað umtalsvert á greiðsluaðlögunartímabilinu. Í athugasemdum við 25. gr. í frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga sé tekið fram að lánardrottnar geti ekki sett fram slíka kröfu nema fjárhagsstaða skuldara hafi batnað verulega. Einnig sé þar tekið fram að 25. gr. laganna megi ekki skýra á þann hátt að krafa lánardrottins sé tekin til greina ef fjárhagsstaða skuldara batni vegna eigin vinnu eða bættra launakjara hans, nema um verulega aukningu tekna sé að ræða.

Í 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. lge. sé að finna heimild fyrir lánardrottinn, sem greiðsluaðlögun nái til, til þess að óska eftir breytingu á samningi skuldara, ef skuldari fái í hendur háa fjárhæð í eingreiðslu og fjárhagsstaða hans batni vegna þess. Í athugasemdum við 25. gr. í frumvarpi laganna sé tekið sem dæmi ef skuldari fái greiddan arf. Þá geti lánardrottinn krafist þess að fénu verði skipt að hluta eða fullu milli lánardrottna, án þess þó að samningnum sé breytt að öðru leyti.

Samkvæmt upplýsingum sem umboðsmaður skuldara hafi og framlögðum launaseðlum fyrir árið 2012 sé ljóst að þrátt fyrir að skuldarar séu í fullu starfi hafi fjárhagur þeirra ekki batnað umtalsvert. Samkvæmt launaupplýsingum frá RSK fái skuldari, C, 300.000 krónur útborgaðar á mánuði eftir staðgreiðslu skatta, sé tekið meðaltal síðustu sex mánaða. Þá eigi eftir að taka tillit til frádráttar launa vegna greiðslna í stéttarfélag, orlof og lífeyrissjóð. Í gildandi greiðsluaðlögunarsamningi sé gert ráð fyrir að útborgaðar tekjur skuldara, C, séu um 230.000 krónur. Samkvæmt framlögðum launaseðlum fái skuldari, B, um 294.000 krónur útborgaðar á mánuði en í gildandi greiðsluaðlögunarsamningi sé gert ráð fyrir að útborgaðar tekjur hans séu 240.000 krónur á mánuði. Að mati umboðsmanns skuldara þyki því ljóst að tekjur skuldara hafi ekki aukist að ráði þannig að skilyrði 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. lge. séu uppfyllt.

Þá hafi skuldarar ekki fengið greidda í eingreiðslu fjármuni sem falli undir 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. lge. að mati umboðsmanns skuldara. Skuldarar hafi hins vegar tekið út séreignarsparnað á greiðsluaðlögunartímabilinu, samtals að fjárhæð 1.531.000 krónur fyrir skatt. Umboðsmaður skuldara líti svo á að séreignarlífeyrissparnaður teljist ekki vera tekjur sem nota skuli til greiðslu skulda í greiðsluaðlögunarsamningi. Í lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sé kveðið á um að séreignarsparnaður sé ekki aðfararhæfur og skuldheimtumönnum þannig óheimilt að krefjast þess að skuldari taki út séreignarsparnað sinn.

Með hliðsjón af öllu ofangreindu og gögnum málsins sé það mat umboðsmanns skuldara að ekkert hafi komið fram í málsmeðferð sem mæli með því að krafa A hf. verði samþykkt.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 5. mars 2013, kemur fram að skuldarar hafi tekið út séreignarsparnað sinn að eigin sögn til þess að geta boðið kröfuhöfum fjármuni og samið um þau 20% sem standa áttu eftir af samningskröfum þeirra við lok tímabilsins. Þau hafi þannig viljað vera laus við þessar skuldir og byrja með hreint borð.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara er greint frá því að ekkert hafi komið fram á síðari stigum sem geti breytt þeim forsendum sem synjun á kröfu kæranda um breytingu á samningi hafi verið byggð á. Þvert á móti bendir umboðsmaður skuldara á að greiðsluaðlögun skuldara sé nú lokið en greiðsluaðlögunartímabilið samkvæmt gildandi samningi hafi verið sex mánuðir, eða frá 5. september 2012 til 5. mars 2013. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. lge. geti lánardrottinn aðeins krafist breytingar á samningi ef fjárhagsstaða skuldara batni umtalsvert á greiðsluaðlögunartímabilinu. Ekki sé hægt að breyta samningi um greiðsluaðlögun sem skuldarar hafi þegar efnt af sinni hálfu.

Þá kemur fram að umboðsmaður skuldara hafni því að embættið hafi brotið gegn 15. gr. stjórnsýslulaga. A hf. hafi óskað eftir frekari gögnum hjá embættinu á viðkomandi stjórnvaldsákvörðun með tölvupósti þann 14. febrúar 2013 og hafi embættið svarað beiðni með tölvupósti daginn eftir, þann 15. febrúar 2013.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Í málinu liggur fyrir samningur um greiðsluaðlögun en um slíkan samning gilda almennar reglur um samningsfrelsi, sbr. IV. kafla laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga og sérstakar reglur sömu laga.

Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 25. gr. lge. getur kröfuhafi krafist þess að gerðar verði breytingar á greiðsluaðlögunarsamningi, einkum þegar fjárhagsstaða skuldara hefur batnað umtalsvert á greiðslu­aðlögunartímabilinu. Hafi skuldari fengið í hendur háa fjárhæð getur lánardrottinn krafist þess að fénu verði skipt á milli lánardrottna. Það er svo umboðsmanns skuldara að meta hvort skilyrði séu til að verða við kröfu þess efnis.

Krafa kæranda er sú að á grundvelli 25. gr. verði séreignarlífeyrissparnaði sem skuldarar leystu út skipt meðal kröfuhafa með ofangreindum hætti.

Með lögum nr. 13/2009, um breytingu á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, var ákveðið að veita sérstakar tímabundnar heimildir til útgreiðslu séreignarlífeyrissparnaðar í því skyni að gefa einstaklingum færi á að nýta þessa fjármuni við hinar óvenjulegu efnahagslegu aðstæður sem þá voru fyrir hendi í þjóðfélaginu. Heimildin var upphaflega ákvörðuð til eins árs í lögunum en var síðar framlengd. Ákvæðið felur í sér sérstaka undantekningu frá almennum reglum um útgreiðslu lífeyrissparnaðar.

Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda mæla í 2. mgr. 8. gr. fyrir um að ekki verði gerð aðför í réttindum samkvæmt samningi um lífeyrissparnað. Í 6. mgr. VIII. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem sett var með breytingalögunum frá 2009, segir að skuldheimtumönnum sé óheimilt að krefjast þess að skuldarar taki út séreignarsparnað sinn samkvæmt ákvæðinu. Samkvæmt framangreindu nýtur séreignarsparnaður sérstakrar verndar gegn aðför skuldheimtumanna. Því verður ekki fallist á það með kæranda að sömu sjónarmið gildi um séreignarsparnað og um arf sem fallið hefur.

Frelsi skuldara innan samnings um greiðsluaðlögun er takmarkað af ýmsum ákvæðum laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í málinu liggur fyrir að skuldarar leystu séreignarsparnað sinn út í góðri trú og beinlínis í því skyni að standa skil á eftirstöðvum samnings um greiðsluaðlögun.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir er það mat kærunefndarinnar að ekki eigi að verða við kröfu þess efnis að þessir fjármunir gangi til kröfuhafa. Í málinu liggur ekki annað fyrir en að kærandi hafi haft aðgang að öllum gögnum sem hin kærða ákvörðun byggðist á. Samkvæmt því er ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að hafna kröfu A hf. um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi B og C er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

            Kristrún Heimisdóttir            

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta