Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 37/2014

Mál nr. 37/2014

Fimmtudaginn 30. júní 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. apríl 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 24. mars 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 8. apríl 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. maí 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 30. maí 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 14. janúar 2015. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd X. Hún býr ásamt X börnum sínum í X fermetra eigin íbúð að B.

 Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 84.685.880 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2008 vegna fasteignakaupa.

Kærandi rekur greiðsluerfiðleika sína til atvinnuleysis og erfiðra aðstæðna í kjölfar þess.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 27. apríl 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. desember 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 6. september 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge.  Umsjónarmaður hafi óskað eftir upplýsingum frá kæranda 16. maí 2013. Meðal annars hafi verið óskað eftir gögnum um sparnað kæranda, þ.e. hvað hún hefði lagt fyrir í greiðsluskjólinu. Þá hafi verið óskað eftir kvittunum fyrir ófyrirsjáanlegum kostnaði sem kærandi kynni að hafa orðið fyrir í greiðsluskjólinu. Að beiðni kæranda hafi verið veittur frestur til 30. maí 2013 til að skila umbeðnum gögnum. Borist hafi tölvupóstur frá kæranda 29. maí 2013 þar sem fram hafi komið að hún ætti ekki sparnað. Væri það vegna þess að kærandi hefði notað fjármuni sína til að greiða móður sinni lán sem hefði fallið á hana vegna ábyrgðarskuldbindinga fyrir félag í eigu kæranda. Á fundi með umsjónarmanni 4. september 2013 hafi komið fram að vanræksla á að leggja til hliðar í greiðsluskjóli samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. gæti leitt til þess að umsjónarmaður óskaði eftir því að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge., sbr. 2. mgr. 12. gr. lge. Þá hafi einnig komið fram á fundinum að umsjónarmaður teldi þau gögn, sem kærandi hafði lagt fram til að útskýra vöntun sína á sparnaði, væru ekki fullnægjandi. Einnig teldist það brot á skyldum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að láta af hendi verðmæti sem skaðaði hagsmuni lánardrottna. Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hefði kærandi átt að geta lagt til hliðar 2.231.675 krónur.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 3. febrúar 2014 var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svar kæranda barst 28. febrúar 2014.

Með ákvörðun 24. mars 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi setur ekki fram sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi telur að ekki eigi að reikna með umönnunarbótum við útreikning umboðsmanns skuldara á sparnaði hennar á tímabili greiðsluskjóls. Fer hún fram á að þær greiðslur verði ekki taldar með þegar tekjur hennar séu reiknaðar út.

Vegna persónulegra ástæðna hafi kærandi ekki séð sér annað fært en að greiða móður sinni lán sem fallið hefði á hana vegna ábyrgðarskuldbindinga kæranda. Til þess hafi hún notað fjármuni sem hún hafi lagt til hliðar. Hún geri sér grein fyrir að þetta sé brot á d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Kærandi telur að hefði sú fjárhæð sem hún hafi greitt móður sinni, alls 2.600.000 krónur, fallið á móður hennar hefði móðir kæranda ekki getað séð sér farborða. Þar sem móðir kæranda tilheyri fjölskyldu hennar telji kærandi að undanþágan eigi við. Laun kæranda fari hækkandi samhliða aukinni menntun og sé staða hennar verulega betri nú en fyrir nokkrum árum. Kærandi leiti ekki eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi teljast og sé hún reiðubúin til að greiða umrædda fjárhæð til baka með því að dreifa henni sem viðbótargreiðslu í væntanlegum greiðsluaðlögunarsamningi svo kröfuhöfum sé ekki mismunað. Muni hún taka að sér aukavinnu, sem hún hafi nú þegar í hendi, til að auka tekjur til að mæta þeim kostnaði. Fyrirhugað sé einnig að ganga á aðra ábyrgðarmenn með kröfu um endurgreiðslu þar sem greiðsluaðlögunarsamningar þeirra séu að renna út. Geti sú endurgreiðsla einnig nýst upp í kröfur kæranda. Greiðsluvilji kæranda sé sterkur og telji hún því betra fyrir hana og kröfuhafa að greiðsluaðlögunarumleitanir verði ekki felldar niður. Óski hún eindregið eftir því að tekið sé tillit til framangreindra aðstæðna og að litið sé til greiðsluvilja hennar og greiðslugetu þegar tekin sé afstaða til málsins.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá segi í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Kærandi hafi sótt um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 27. apríl 2011 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafist á þeim degi.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 32 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. maí 2011 til 31. desember 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Tekjur 1. maí 2011 til 31. desember 2013 að frádregnum skatti 13.524.218
Barna- og vaxtabætur, sérstök vaxtaniðurgreiðsla og ofgreiðsla 2.796.328
Samtals 16.320.546
Mánaðarlegar meðaltekjur 510.017
Framfærslukostnaður á mánuði 299.394
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 210.623
Samtals greiðslugeta í 32 mánuði 6.739.936

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 510.017 krónur í meðaltekjur á mánuði á 32 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið 299.394 krónur á mánuði á meðan hún hafi notið greiðsluskjóls. Sé miðað við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag miðað við einstakling með tvö börn. Á þessum grundvelli sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir 6.739.936 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 210.623 krónur á mánuði í 32 mánuði.

Kærandi telji að greiðsla hennar á 2.600.000 krónum til móður sinnar vegna ábyrgðarskuldbindinga sem fallið hafi á hana ætti að falla undir undantekningarákvæði d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem móðir kæranda geti ekki séð sér farborða og tilheyri fjölskyldu hennar. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbindingar sem stofnað sé til séu nauðsynlegar til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Á framangreint sjónarmið kæranda geti umboðsmaður skuldara ekki fallist, enda ljóst að kæranda beri ekki skylda til að framfæra móður sína í skilningi laga. Umboðsmaður skuldara telji því að sú ráðstöfun kæranda að greiða móður sinni falli ekki undir undanþágu d-liðar 1. mgr. 12. gr. þar sem ráðstöfunin teljist ekki vera nauðsynleg til framfærslu í skilningi ákvæðisins. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að sú háttsemi kæranda að nota fjármuni sína til að greiða móður sinni vegna láns, sem hafði fallið á hana vegna ábyrgðarskuldbindinga, verði að teljast brot gegn c-lið 12. gr. lge. en með því hefði kærandi látið af hendi fé sem gæti gagnast lánardrottnum sem greiðsla.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nemi umönnunargreiðslur til kæranda árin 2011 til 2013 samtals 1.152.171 krónu. Þrátt fyrir að þessi fjárhæð yrði ekki tekin með í  útreikningi á tekjum kæranda sé ljóst að hún nemi ekki nema um 17% af þeirri fjárhæð sem kærandi hefði alla jafna átt að geta lagt til hliðar.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt. 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge með vísan til a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá segir í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar sé skuldara ekki heimilt að láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í 1. mgr. 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 6. september 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í bréfinu kemur fram að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 24. mars 2014.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hafi átt að leggja til hliðar 6.739.936 krónur frá því að umsókn hennar um greiðsluaðlögun var lögð fram. Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi látið hjá líða að leggja fyrir fé í greiðsluskjóli og þar með brotið gegn skyldum sínum á þeim tíma. Kærandi telur að ekki eigi að taka tillit til umönnunargreiðslna við útreikning umboðsmanns skuldara á sparnaði hennar á tímabili greiðsluskjóls. Þá útskýrði kærandi vöntun sína á sparnaði þannig að vegna persónulegra ástæðna hafi hún ekki séð sér annað fært en að greiða móður sinni lán sem fallið hefði á hana vegna ábyrgðarskuldbindinga kæranda.

Samkvæmt gögnum málsins hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. maí 2011 til 31. desember 2011: Átta mánuðir
Nettótekjur 2.054.626
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 256.828
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur 4.173.982
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 347.831
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur 4.582.626
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 381.885
Tímabilið 1. janúar 2014 til 28. febrúar 2014: Tveir mánuðir
Nettótekjur 874.183
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 437.091
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 11.685.417
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 343.688

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda, bætur, umönnunargreiðslur og endurgreidda ofgreidda staðgreiðslu var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. maí 2011 til lok febrúar 2014: 34 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 11.685.417
Bótagreiðslur nettó 2.796.328
Meðlag 1.560.813
Umönnunargreiðslur 1.152.171
Endurgreidd ofgreidd staðgreiðsla 76.748
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 17.271.477
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 507.984
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara 299.394
Greiðslugeta kæranda á mánuði 208.590
Alls sparnaður í 34 mánuði í greiðsluskjóli x 208.590 7.092.060

Við mat á því hvaða fjárhæð kæranda beri að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur, en í lge. er ekki heimild til að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reiknar út.

Kærandi hefur óskað eftir því að umönnunargreiðslur til hennar verði ekki taldar til tekna við útreikning á sparnaði hennar á tímabili greiðsluskjóls. Þótt litið yrði svo á að umönnunargreiðslur til kæranda teldust ekki til framfærslutekna hefur það ekki þýðingu varðandi niðurstöðu málsins þar sem kærandi hefur ekkert fé lagt til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að því er varðar c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. liggur fyrir í málinu að kærandi greiddi móður sinni 2.600.000 krónur vegna láns sem kærandi hafði tekið og móðir hennar var í ábyrgð fyrir. Svo sem rakið hefur verið er skuldurum óheimilt, á sama tíma og leitað er greiðsluaðlögunar, að láta af hendi verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Með því að greiða móður sinni 2.600.000 krónur hefur kærandi ráðstafað fjármunum sem ella hefðu gagnast til að greiða skuldir í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Í samræmi við það telur kærunefndin að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.


ÚRSKURÐARORÐ

 

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.


Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta