Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 109/2014

Mál nr. 109/2014

Fimmtudaginn 10. nóvember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 12. nóvember 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. október 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 14. nóvember 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 26. nóvember 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 2. desember 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 14. janúar 2015. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1964 og er í hjúskap. Hún býr í eigin fasteign að B ásamt eiginmanni sínum og X börnum sem öll eru uppkomin. Kærandi [...] og hefur tekjur sínar af honum.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 17. desember 2012, eru 167.970.745 krónur. Kærandi stofnaði til helstu skuldbindinga árið 2005 vegna endurfjármögnunar á [...].

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til vankunnáttu í fjármálum, ábyrgðarskuldbindinga og offjárfestinga en árið 2007 hafi greiðslubyrði þeirra lána, sem tekin voru til endurfjármögnunar [...], aukist verulega. Þá hafi lánin hækkað í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008, auk þess sem kærandi hafi þá verið búin að fjárfesta enn frekar í [...].

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 17. desember 2012 var henni veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 16. september 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) Umsjónarmaður taldi fyrirliggjandi gögn ekki gefa nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem hún hefði ekki skilað framtali 2013 vegna tekna ársins 2012, auk þess sem ársreikningi 2012 fyrir félag í eigu kæranda, C., hefði ekki verið skilað.

Heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar var felld niður með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. febrúar 2014 á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. en kærandi hafði þá skilað skattframtali 2013 en ekki ársreikningi fyrir fyrrgreint félag í sinni eigu. Kærandi kærði ákvörðun embættisins til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála 22. febrúar 2014. Umboðsmaður skuldara afturkallaði ákvörðun sína 24. mars 2014 þar sem kærandi hafði þá skilað umbeðnum ársreikningi vegna félagsins C fyrir árið 2012. Málið var í kjölfarið tekið aftur til vinnslu hjá embættinu.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 2. október 2014 þar sem henni var kynnt önnur tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar. Tillaga umsjónarmanns byggðist sem fyrr á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem nú hefði kærandi ekki skilað inn skattframtali 2014 fyrir tekjuárið 2013. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kæranda bárust með tölvupósti 22. september og 10. október 2014.

Með ákvörðun 28. október 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 15. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar þannig að hún krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst ekki hafa haft tíma eða getu til að sinna bókhaldsmálum og að slík mál hafi ekki verið í forgangi þar sem nógu erfitt hafi verið að standa í [...] en þessi mál séu nú að „smella.“ Auk þess hafi hún ekki haft efni á að ráða aðra til að sjá um bókhaldið en aðila sem hún geti greitt með [...].

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 6. gr. lge. séu tilteknar þær aðstæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segi að skylt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Kærandi hafi ekki skilað skattframtali 2014 vegna tekna 2013, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir umboðsmanns skuldara þar um. Þá kröfu verði að gera til einstaklinga í greiðsluaðlögun að skattframtölum sé skilað á réttum tíma en þar komi fram mikilvægar upplýsingar um fjárhag þeirra, þar með talið upplýsingar um eignir eða annað sem máli skipti við endurskipulagningu fjárhags þeirra.

Að mati umboðsmanns skuldara verði af þeim sökum að telja fjárhag kæranda óglöggan í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. og sé heimild hennar til greiðsluaðlögunarumleitana því felld niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Í 15. gr. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í skýringum með frumvarpi til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge. Í 4. gr. laganna er gerð grein fyrir því hvernig umsókn um greiðsluaðlögun eigi að vera úr garði gerð og er þar talið upp í ellefu töluliðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókninni. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að umsókn skuli fylgja upplýsingar um hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.

Í 3. mgr. 4. gr. lge. segir að með umsókn um greiðsluaðlögun skuli fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma, vottorð um hjúskaparstöðu og fjölskyldu og síðustu fjögur skattframtöl skuldara. Þá kemur fram í niðurlagi 4. mgr. sömu lagagreinar að skuldari skuli að jafnaði útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara. Þá ber einnig að líta til þess sem kemur fram í 2. mgr. 16. gr. lge. að í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun skuli tiltaka viðeigandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu skuldara, meðal annars upplýsingar um tekjur, skuldir, eignir og mánaðarleg útgjöld.

Kærandi hefur ekki sýnt fram á að hún hafi skilað skattframtali 2014 vegna tekna 2013 til Ríkisskattstjóra. Með hliðsjón af því sem fram hefur komið telur kærunefndin að kærandi hefði þurft að sýna fram á að hún hefði skilað framtalinu til að glögg mynd fengist af fjárhag hennar eða væntanlegri þróun fjárhags hennar á tímabili greiðsluaðlögunar svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur. Af þeim sökum skortir fullnægjandi upplýsingar til að gefa nægilega glögga heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu kæranda til að unnt sé að gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 16. gr. lge. Verður að telja að ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil við þessar aðstæður.

Með vísan til framangreinds telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 1. mgr. 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta